Ég er að reyna að koma einhverju skipulagi á líf mitt aftur. Það er sosum ekki mikið að gerast akkúrat í augnablikinu – fyrir utan flutninga, sem eru reyndar flóknir – en ég þarf skyndilega að setja hluti aftur upp í dagatal svo ég tvíbóki mig áreiðanlega ekki í haust. Ég þarf líka að sjá út haustið af því ég er með bók. Nýja skáldsögu – ekki nema átján mánuðum eftir þá síðustu. Að vísu var hún tilbúin fyrir tveimur árum en þetta var nú frekar stutt meðganga (getur maður talað um meðgöngur án þess að eiga við meðgöngu barns – maður gengur allavega með skáldsögur, finnst mér, a.m.k. jafn mikið og maður gengur með meðgöngukaffi og áreiðanlega meira en maður gengur með meðgönguljóð). Mér finnst heillandi tilhugsun að ferðast eitthvað. Ég hef ekki komið upp í flugvél síðan í febrúar 2020. Þá fór ég til Jönköping, einsog í fyrradag – en nú fórum við bara keyrandi. Tókum nokkra daga í bústað við Hällingssjö og fórum svo til Jönköping á hótel og tókum næsta dag á Visingsö og í Gränna (þar sem polkagrísinn er upprunninn). Ég fékk fjögur skógarmítlabit – fæ ábyggilega TBE og dey. En svo hlakka ég líka til að vera heima og rækta ræturnar mínar í haust. Sinna húsinu, hitta vini mína og fjölskyldu, elda mat í eldhúsinu mínu, leika mér með gítarana mína. Og að vinna í nýrri bók sem ég hef verið að kortleggja síðustu vikur og verður ábyggilega frekar stór. Ég nenni eiginlega ekki að skrifa meira í hana hér því maður þarf nokkrar lítt truflaðar vikur til að komast á skrið – annars skrifar maður bara einhverja vitleysu sem maður endar á að henda (af því þegar maður er ekki að skrifa breytast hugmyndirnar og eru óþekkjanlegar þegar maður sest aftur niður – maður þarf svolítinn massa af texta til að hann haldi, sé fokheldur). En maður getur augljóslega ekki bæði verið heima og ferðast – eða einbeitt sér að öllu í einu. Mig langar líka að halda áfram í tónlistinni. Og gera súrdeig og súrsa grænmeti og halda matarboð og koma mér í form og það allt saman. *** Plata vikunnar er King of the Delta Blues Singers með Skip James. Það er til fræg samnefnd plata með lögum eftir Robert Johnson en þetta er sem sagt ekki hún, heldur Skip James plata sem inniheldur upptökur af lögum hans frá 1931. Skip tók þá upp nokkur lög og hugðist verða heimsfrægur – varð svo mjög hissa þegar það gerðist ekki og gaf tónlistina upp á bátinn, að miklu leyti. Um þrjátíu árum síðar datt hann svo inn á radar blúsáhugamanna sem sáu hann sem einhvers konar forvera Roberts Johnson – sem er einmitt annars álitinn ókrýndur kóngur deltablússöngvaranna – og má sannarlega til sanns vegar færa. Að minnsta kosti er hafið yfir allan vafa að Robert hefur átt eina eða tvær af þessum fáu 78 snúninga plötum Skips sem seldust við útgáfu. Þegar blúsnördin voru búin að finna Skip var honum auðvitað ruslað inn í stúdíó og látinn taka upp lög sín að nýju, í betri gæðum – en þá var gítarleikurinn ryðgaður og lögin hægari. Hins vegar er söngröddin á nýrri lögunum dýpri og sterkari – eða kannski eru það bara upptökugæðin. Ég fór annars nánar í ævi Skips á blúsblogginu fyrir rúmu ári – það má lesa hér . Ofsalegur maður. Lagið sem ég ætla að velja af þessari plötu er Devil Got My Woman.