Eftirtaldir kokteilar eru núna í eftirlæti hjá mér: Pisco Sour, Negroni, Laughing Buddha. Ég þarf að herða mig í blönduninni og gera betri Old Fashioned-a, Dark’n’Stormy-a og Sazeraca. Ég hef enn ekki séð sjarmann í Martini. Ég er of mikill lúterani í sálinni til að geta drukkið BlóðMaríur í þynnkunni og finnst þær eiginlega hvergi passa annars staðar. Mjög góðar samt. Svo blandaði ég mér einn frumsaminn kokteil á dögunum úr ylliblómagosi, fannst hann góður, en man ekkert hvað ég setti í hann. *** Gerði samt bærilegan Dark’n’Stormy í kvöld. Vantar bara dekkra romm í það. Mér skilst það sé lögbrot að kalla drykk Dark’n’Stormy ef það er ekki bermúðskt Gosling romm í honum – þetta er skrásett vörumerki. En ég átti ekkert svoleiðis, notaði bara Flor de Caña frá Níkaragva, sem var aðeins dekkra en Habana Clubið mitt. En þetta eru auðvitað gylltir drykkir frekar en dökkir – Gosling er nánast svart. *** En hér er sem sagt Dark’n’Stormy. Hávaðastormur svo timburkumbaldinn Sjökvist leikur á reiðiskjálfi og auðvitað kolniðamyrkur. Dagurinn fór í að setja vetrardekk á hjólakost fjölskyldunnar (Aino fær vetrardekk að ári en verður í farþegasætinu hjá mér fram á vor), svo fórum við í sund – ég stakk af snemma til að fara í búðina og koma heim og gera jóga áður en gengið mætti (við erum extramörg í kotinu; sautján ára systurdóttir Nödju er í heimsókn með hálfsársgamlan son sinn). *** Svo hirti ég gamla hnetusósu sem ég átti í ísskápnum – hafði hrært sem ídýfu þegar við átum ferskar vorrúllur á dögunum – þynnti hana með kókosmjólk og dembdi yfir kjúkling og bleikju sem var eldað í ósköpunum. Næst tók ég brauðdeigið sem lá hér frá í gær og gerði úr því hálfgert naan, og hafði með þessu, auk hrísgrjóna og gúrku- og tómatsalats. *** Eftir mat – og eftir að ég hafði lagt Aram og Aino, við erum að lesa Framúrskarandi konur fyrir Aino (sem framúrskarandi konan amma hennar þýddi) og Nils Hólmgeirsson (sem er kallaður Nilli í bókinni en ég get ekki sagt, af hverju má hann ekki bara heita Nils, eða í versta falli Níels?) eftir Selmu Lagerlöf – sem sagt eftir mat blandaði ég mér þennan kokteil og lagðist í sófann með Bill Evans í eyrunum, storminn innra með mér á vörunum og storminn ytra í glugganum, og Ko Un í öllum öðrum vitum. Og fannst einsog það skorti kannski lífsháskann í líf mitt. *** Ég hef hugsað talsvert um lífsháska síðustu daga. Og lífsháska lífsháskans í íslenskum bókmenntum. Þetta er voða mikið … list listarinnar vegna er rangt orð. Sköpunargleði sköpunargleðinnar vegna, kannski – og þessi ægilegi viðstöðulausi fögnuður (nú er kokteillinn farinn að tala). Svo ég segi ekki dundur. Fínt, fágað, hugmyndaríkt en einsog það hafi ekki kostað viðkomandi neitt og sé bara gert til þess að eiga starfsferil við eitthvað skemmtilegra en að afgreiða í búð. *** Íslenskir stjórnmálamenn væla of mikið og gráta ekki nóg, skrifaði ég inn á Facebook (hvaðan ég er horfinn) þegar kollegar mínir í vinstrinu voru að missa sig yfir „krókódílatárum“ Ingu Sæland – sem mér þóttu virðingarverð. Kannski má hið sama segja um íslenska listamenn. *** Tahar Ben-Jalloun var einu sinni á Íslandi og nefndi að sér þætti voða gott að sjá að Íslendingar þyrftu ekki að skrifa um alvarlega hluti, af því hér væri lífið svo auðvelt. Ég sá viðtal við tónlistarmann á dögunum þar sem hann talaði af mikilli alvöru um þunglyndi og alkahólisma í bransanum og leiðir til þess að vinna bug á … blúsnum. Ég stóð mig að því að hugsa að von bráðar sætum við kannski uppi með mjög hamingjusama listamenn og leiðinlega list. *** Ekki vanhagar mig allavega um neitt. Líf mitt er hreinn lúxus frá morgni til kvölds alla daga vikunnar. Mitt stærsta vandamál er að eiga of fáar rommtegundir í vínskápnum mínum.