Óveðrið var ekki langlíft hér á Vestfjörðum og nú kyngir niður snjó í stillunni. Það er að vísu helst til hlýtt og sennilega situr þetta ekki lengi. En í mínum gamla heimabæ, Hoi An, er allt á kafi. *** *** Af myndum að dæma hefur þó lítið farið fyrir fellibylnum í Hoi An eða Danang – þar sem Trump og Pútín og fleiri eru að fara að hittast í næstu viku (Danang er þriðja stærsta borg Víetnam og liggur 40 mínútna akstur frá Hoi An – það er APEC ráðstefna yfirvofandi). Á þessu svæði hefur aðallega bara rignt. Myndirnar eru flestar teknar í gamla bænum sem liggur niðri við ána og þar gerist svona nokkuð a.m.k. árlega – og ég hef séð eldri myndir þar sem vatnið kaffærir allri fyrstu hæð, 2-3 metra dýpi. Þetta er ekki nema svona 40 sentimetrar og gerð húsanna tekur mið af slíku – fólk er með sitt aðalhafurtask á annarri hæð, fyrstu hæðir þessara steinhúsa eru oft frekar tómlegar og allt á auðflytjanlegum einingum. *** Myndirnar frá Ðalat og fjallahéruðunum eru miklu rosalegri. Þar hafa tré rifnað upp með rótum og aurskriður verið miklar og virðist almennt meira panik – fólk að bjarga verðmætum. Myndirnar frá Hoi An eru muy tranquilo. Ég myndi skrifa nágrannakonu okkar, Hien, og spyrja um ástandið, hún er sú eina sem við erum í sambandi við, en Hien er bara flutt til Sai Gon. *** Þegar við bjuggum þarna rigndi einu sinni svona svakalega. Það var utan regntímabilsins (sem lýkur á bilinu seint í nóv. til seint í des.) – sennilega í mars. Brast bara á með ægilegu regni í nokkra daga. Fyrir utan hjá okkur, sem er ofar í bænum við „venjulegri“ götu – þessi miðaldabær er eiginlega bara búðir og veitingastaðir – var ekki nema nokkurra sentimetra flæði í götunni. En ég hjólaði í bakaríið með Aino á bakinu og fór þá eftir Tran Hung Ðao og Cua Ðai, sem liggja meðfram gamla bænum, og þar náði vatnið upp á húdd bíla, og mitt læri á mér. *** Ég finn enga mynd af þessu. Sennilega tók ég enga. En hér er mynd af börnunum mínum í Hue – þegar við brugðum okkur þangað í helgarferð – þetta hefur verið kaldur dagur. Það er líka vatn á myndinni, þótt það sé ekki flóð.