Vil ég skrifa ljóð fyrir nýjan amerískan krimmabálk sem gerist á Vestfjörðum? Áætluð sala er um 15 þúsund eintök per skáldsögu – en guð einn veit hvað gæti orðið. Höfundurinn er áhugasamur um að það sé alvöru ljóðlist, skrifuð af alvöru ljóðskáldi, í bókinni. *** Því miður eru engin laun í boði, en mikil dreifing og athygli. Exposure . *** Vil ég það? Er þetta áhugavert prójekt? Ég veit ekkert meira um prójektið en þið. *** Það er náttúrulega alltaf niðurlægjandi að vinna ókeypis að verkefni sem veitir öðrum tugmilljónir í hönd. Hvað sem öðru líður. Að ímyndaður eða raunverulegur aðstöðumunur – mín sem er smábæjarskáld á jaðri hins byggilega heims og krimmahöfundarins sem er stórborgarhöfundur (í vinfengi við Stephen King!), að ótöldu forlaginu („one of the big five“) – geri það að verkum að ég eigi að vinna fyrir hann fyrir enga peninga. Vegna þess að hann elskar ljóðlistina svo mikið. Og vegna þess að það er í því „exposure“. Hann er svo stór að stærð hans stækkar mig átomatískt. *** En maður vinnur ekki exposed. Vinnur ekki fyrir dagsljósið nema maður sé algerlega sviptur því annars. Hér er nóg dagsljós. Það er alveg ljóst. Ég þarf að svara manninum. *** Svaka frétt á RÚV um öll skáldin sem eru á faraldsfæti. Sem er auðvitað ekki frétt, skáld eru alltaf á faraldsfæti, sérstaklega árin eftir Frankfurt, grunar mig. Stærsti hópurinn er að fara á Les Boreales í Frakklandi – þangað fórum við Nadja saman fyrir tveimur árum, og skemmtum okkur vel. Á sama tíma verð ég (svo ég fái nú að koma mér að á mínu eigins bloggi, fá svolítið exposure) í suður Frakklandi, í miklu betra veðri og með betri mat (hah!) á bókmenntahátíð í Toulon. Lise vinkona mín hjá forlaginu ætlar að koma og selskapa, og vinkona hennar Marie, sem er bókmenntaprófessor og ítölskuþýðandi, ætlar að koma og við ætlum að sturta í okkur Chartreuse einsog enginn verði morgundagurinn, einsog við höfum gert a.m.k. tvisvar áður. En frá þessu er ekki sagt í Ríkisútvarpinu! Sem fyrirlítur mig af því ég elska sjókvíaeldi, RÚV only has eyes for Reykjavíkurhippsterar og það elskar mig enginn! *** Enginn! *** Ég var annars eitthvað að velta þessu eldi fyrir mér um daginn og eldisblæti mínu, sem nær reyndar lengra og dýpra – þetta er blæti fyrir nærri allri matvælaframleiðslu. Mér finnst ekkert heiðvirðara en að framleiða mat. Það hefur ekki beinlínis með mat reiðslu blæti mitt að gera, sem er annað, heldur bara þetta – að framleiða matvæli er að viðhalda lífi sem er að búa til líf og það er ekkert fallegra, ekki neitt. Ég fæ líka alveg aðsvif þegar ég sé bændur að störfum eða drekkhlaðna togara koma siglandi inn fjörðinn. Love it, einsog Siggi Sigurjóns í Dalalífi, og get ekkert að því gert (nema að hafa húmor fyrir því). Lít rækjuverksmiðjuna sem ég vann í sem barn og unglingur með nostalgíu sem hún á áreiðanlega ekkert skilið (ég var mjög glaður síðasta daginn minn, rétt ríflega tvítugur, að þurfa aldrei að koma þarna inn aftur). Án þessarar rækjuverksmiðju, hugsa ég, myndu svona 200 manns svelta í hel daglega. *** Mér fannst líka mjög gaman að eiga stóra frystikistu áður en hún gaf upp öndina. Að kaupa skrokk með Vali bróður. Ég sem get ekki einu sinni eldað kjöt nema endrum og eins, af því konan mín borðar það ekki (og ég nenni ekki að elda margar ólíkar máltíðir daglega, nema einmitt endrum og eins). Ég notaði hana líka til að geyma afganga í miklu magni (sem Nadja hitar þegar ég er á ferðalögum), og heimatilbúinn súpukraft og rækjuskel (til að búa til rækjukraft) og alls konar. Litli frystirinn á (annars fallega rauða) ísskápnum mínum rúmar varla klakann í kokteilana mína. *** Það var líka gaman að fara á markaðinn í Víetnam. Það var alvöru. Og ég vissi oft ekkert hvað ég var að kaupa. Bara mat . Og svo lagaði maður matinn. Einsog hann væri ekki fullkominn, beint af kúnni. *** Ekki að það sé ekki líka gaman núna. Mjög gaman. Ég var að klára plokkfiskafgangana sem ég tók með mér í hádegismat og snart er kaffen klar, einsog segir í vísunni. Ég kannski sendi ameríkananum þá vísu bara. Segist hafa skrifað hana sjálfur og þetta sé á íslensku, hvort það sé nokkuð verra?