Í gærkvöldi þegar ég var að laga matinn bað ég Siri – á ensku, hún kann bara ensku – að minna mig á „light ball“ í dag. Af því ég ætla að kaupa ljósaperur á eftir. Rétt í þessu fékk ég áminningu um „light bald“ og kannski lýsir það ástandi mínu bærilega, léttsköllóttur, ekki alveg sköllóttur, bara svona létt. *** Ég má samt ekki gleyma að kaupa þessar ljósaperur. *** Aino Magnea er lasin heima – ég er kominn í vinnuna og er að borða laxaborgara með kimchi, afganga frá kvöldmatnum í gær. Það er heitt á könnunni en pínu soðið. Ég byrjaði daginn heima og krukkaði svolítið í Ko Un dómnum mínum, sem verður á Starafugli þegar ég er búinn að skrifa hann, fór svo í ræktina og hingað. Aino er með frænku sinni heima. *** Í ræktinni var mér sagt að kindur á Íslandi séu ekki nema 400 þúsund núorðið og fari hratt fækkandi, hafi eitt sinn verið 2 milljónir. Mér finnst einsog einhver verði að fylgjast með því – búa til niðurtalningu fram að þeirri stund er sauðfé verður fámennara en fólk í þessu landi. Það verður tímamótadagur, hvað svo sem manni finnst um það – hipsterarnir gleðjast sennilega, þeir vilja bara einhverjar spænskar skinkur og franska osta, nema kannski þeir sem eru með N-Afríkublæti (og stöku þjóðernishipster). Bændurnir gráta bara og ráðherrarnir segja að það verði að fækka þeim líka, bændunum, en þeir eru auðvitað löngu færri en kindurnar. Algerlega outnumbered.