Óratorrek mun koma út á dönsku, sænsku og grísku. Að minnsta kosti (ég er vongóður um enska útgáfu líka). Sem er mjög gott. Svo er ljóðakvöld í Reykjavík eftir rúma viku – þá er ég á ferðinni til að lesa upp í einkasamkvæmi morguninn eftir. Bláa Hawaii, heitir ljóðakvöldið. *** Illska kemur líka út á spænsku, skilst mér. Og er komin á þriðju prentun í Grikklandi. Alveg spriklandi! *** Ég held áfram að skrifa Hans Blævi. Suma daga finnst mér þetta alger snilld og aðra daga er þetta það ömurlegasta sem hefur verið skrifað á jarðríki. Viðstöðulaust röfl. Og auðvitað er þetta viðstöðulaust röfl, ekki jafn viðstöðulaust röfl og sum meistaraverk bókmenntasögunnar, en samt. Þarf þetta að vera svona mikið röfl? *** Og ef það verður flogið til Reykjavíkur á fimmtudag fer ég til Toulon í suður Frakklandi á föstudag. Til að sækja mér svolitla sól. Og sitja og árita bækur í hundrað þúsund klukkustundir. Frakkar eru áritunaróðir.