Untitled

„Það er einkennileg list sem lofsamar bara hið eðlilega“, sagði vinur minn við mig nú í morgun. Þessu mætti auðvitað snúa við og segja að það væri „eðlileg list“ sem lofsamaði bara „hið einkennilega“. *** Eða eðlileg list sem lofsamaði bara hið eðlilega og einkennileg list sem lofsamaði bara hið einkennilega. *** Það er Entartete Kunst sem lofsamar bara der Entartete? *** Umfjöllunarefnið var pistill í Guardian þar sem stóð að maður mætti ekki (lengur?) hlæja að Louis CK af því hann hefði fróað sér fyrir framan fólk. Konur, altso, fólkið var konur og sennilega var það hluti af perversjóninni. *** Louis hefur löngum ástundað það sem heitir „self-deprecating humour“ – það er að segja, punkturinn í list hans er að maður hlær ekki jafn mikið með honum og maður hlær að honum. Þetta er þó ekki endilega alltaf auðvelt að skilja í sundur. En list Louis er ekki endilega með honum „í liði“ – það mætti jafnvel segja að list hans níði hann sjálfan og hafi hann að háði og spéi. *** Það er self-deprecating list sem lofsamar bara hið self-deprecating? *** Ég þyrfti endilega að fara að komast á íslenskunámskeið. *** Það er Entartete Kunst sem lofsamar bara hið self-deprecating? *** Við getum alveg tekið nokkra snúninga á þessu í viðbót. Ég er ekki alveg á því að maður eigi að slíta listamanninn frá listaverkinu – að hann komi því ekki við, hver hann er, hvað hann meinti o.s.frv. – en mér finnst út í hött að bera saman menn einsog Bill Cosby, sem jaðrar við að vera ómennskur af ógeði, og Louis CK, sem er einmitt alveg fáránlega mennskur. *** Pervert, meina ég. Fáránlegur pervert. *** Kannski væri réttast að refsa Louis eitthvað – mér finnst sennilegt að þetta sé ólögleg hegðun – en ég á litla samleið með því fólki sem finnst að hann ætti helst ekki að eiga endurkvæmt, hann sé einhvers konar persona non grata. *** Ef ég væri forseti myndi ég skrifa upp á uppreist æru fyrir hann, að einhverjum skilyrðum uppfylltum. *** En ég myndi auðvitað ekki vera forseti og ber reyndar takmarkaða virðingu fyrir þannig siðferðisgjörningum. Ég meinti þetta meira metafórískt. *** Reyndar er þetta metafórískur gjörningur. Ég skil ekki hvernig ég hefði getað meint þetta eitthvað öðruvísi. *** Það er pervertísk list sem lofsamar bara hið pervertíska? Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki líka sjá lofsömunina hjá Louis – mónólógar hans eru samtvinnuð skömm og fögnuður. Svona  fokk hvað við erum öll ógeðslega vonlaus er það ekki frábært? *** Kannski var Louis að vona að hann væri ekki eini pervertinn í húsinu. Og auðvitað var hann það ekki. Hann var bara sá eini sem blottaði sig.