Untitled

Það er byrjað að kvarnast úr VG og ekki einu sinni búið að mynda stjórnina. Það boðar ekki gott fyrir framhaldið. Ef Kata kemur ekki beinlínis með massífa þjóðnýtingu, úrsögn úr NATO, fimm ára plan um móttöku 40 þúsund flóttamanna og höfuðið á Harvey Weinstein – stjaksett á fána lýðveldisins – er þessu sennilega bara sjálfhætt. Það er ofbeldi að mynda ríkisstjórn í trássi við vilja meirihluta kjósenda sinna – og þá skiptir engu hversu mikla „ábyrgð“ mann langar að axla. Maður hefur ekkert helvítis umboð til þess. *** Ég er ekki í flokknum og kaus hann ekki – og finnst ég hafa sloppið bærilega. Kaus hann fyrir ári. Ég hafna allri ábyrgð á þessu þrátt fyrir sósíalískar kenndir og þrátt fyrir að ég styðji flokkinn í anda. *** Er kominn tími til að vekja rassinn? Frétt með þessum titli vakti athygli mína. Ég smellti á hana, hugsaði að miðilllinn hefði gott af auglýsingatekjunum, sennilega eru menn eitthvað farnir að örvænta. Fréttin stóðst auðvitað engan veginn væntingar mínar. *** Dagur Hjartar veitir Vigdísi Gríms og Gunnari Helgasyni verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þetta heitir á sænsku að vera „lillgammal“. Ljóðabókin hans er annars að gera allt vitlaust, fær fimm stjörnur úti um allt. Eða í versta falli fjórar og hálfa. Ég man ekki hver fékk hana fyrir Starafugl en hún var komin út og von á dómi. Verst að við gefum engar stjörnur. En svona jákvæðir dómar hafa sem sagt ekki sést síðan mogginn birti minningargreinarnar um Sigfús Daðason. Bókin hlýtur að vera til í fríhöfninni. *** Annar skil ég ekki hvers vegna forlögin eru ekki duglegri í að reyna að mýkja mig upp og hreinlega gefa mér bækur. Það er ekki nóg með að ég ritstýri Starafugli heldur á ég fallegasta ljóðabókasafn landsins og safna ljóðabókum. Ljóðin eiga heima hjá mér. Og ég er ótrúlega grimmur og langrækinn við þá sem sleikja mig ekki upp, það verður bara að segjast. *** Hitti Steinar í kaffi. Hann sagði að lífsháskinn væri miðja einhverrar 20. aldar fagurfræði og við værum dauðir gamlir höfundar sem skildum ekkert lengur – gætum allt eins sest í helgan stein, strax og Rúblan verður seld (svo fjölga megi lundum og fækka bókum). Nei, hann sagði þetta ekki, en hann fór ansi nærri því. *** Rákumst á Ástu Fanneyju líka. Hún var með mann upp á arminn og sagðist þurfa að læra sænsku. Helst á þriðjudaginn. Það vantar ekki í hana lífsháskann. *** Nú er ég kominn til Keflavíkur. Sef á flugvallarhóteli í nótt. Ég er svo þreyttur að ég vona að hún komi fljótt.