Untitled

Ég gisti í svítunni á Holiday Inn í Toulon en þarf að fljúga svo snemma frá Marseille í fyrramálið að ég var fluttur í einhverja skúringageymslu alveg við flugvöllinn í nótt. Mér finnst einsog ég hafi lækkað í virði, ég hafi jafnvel verið svívirtur, og nú sé ég – óskabarnið – ætt minni allri til skammar. Ég hefði getað haft stíl, hefði getað verið kempa. Ég hefði getað verið einhver . Í staðinn fyrir að vera núll og nix. Sem ég er. *** Mér lá svo á að lesa jólabókaflóðið í ár að ég byrjaði óvart á jólabókaflóðinu 2018 og veit hvaða bók verður besta bók flóðsins – hugsanlega sannasta og brjálæðislegasta skáldsaga næsta áratugs. Það er allavega langt síðan ég las aðra eins bók. Hún er eftir vin minn og þið eigið áreiðanlega ekki eftir að taka neitt mark á mér fyrren þið lesið bókina sjálf. *** Ég er samt ekki búinn að lesa margt í flóðinu í ár. Er núna að lesa Hnotskurn eftir Ian McEwan. Hún er fín – fjarskaplega fyndin, afska skemmtileg. *** Annars er merkileg þessi tilhneiging (sem ég sýni hér að ofan) hjá bókmenntafólki (sem finnur til sín) til þess að vilja vígja aðra höfunda til riddara.  Það fer svolítið fyrir þessu á blogginu núorðið og auðvitað krökkt af þessu á Facebook. Í sjálfu sér er þetta í senn fallegt og einlægt og ærlegt og einhvern veginn alger kollegaskjallsskítafýla – og í verstu tilfellunum finnst manni einsog höfundur vilji með því setja sig yfir náunga sinn. Ég man eftir svona loksins, loksins umfjöllunum ráðsettra skálda um  önnur ráðsett skáld , sem voru löngu fram komin og búin að vinna til allra mögulegra verðlauna, og ekkert augljósara að annar ætti að vígja hinn frekar en öfugt. Þá fannst mér einsog skjallarinn væri fyrst og fremst að segja að hann væri kóngur en hinn væri mjög efnilegt peð, gæti sennilega orðið riddari, ef hann héldi áfram að skrifa einsog kónginum sæmdi. *** Því þið vitið, ef ég fer að skjalla einhvern einsog hann sé the great new hope íslenskra bókmennta, þá er ég ekki bara að vígja hann eða hana til riddara heldur sjálfan mig til grand old man of letters (ég myndi sennilega sletta minna ef ég vildi að fólk tæki mig alvarlega samt). *** En þessi bók (sem ég held leyndu hver er) er samt alveg stórfengleg. Ég tók andköf og hún snýst í hringi í höfðinu á mér og ölvar mig. Oss er frelsari fæddur, hann er minn einkasonur o.s.frv. og ef þið krossfestið hann er mér að mæta og það er samt bannað að elska hann meira en mig. Þið skuluð bara einn guð tigna, en verið góð við frelsarann, og ekki gleyma því að hann er þarna í mínu nafni, snilld hans á að varpa góðu ljósi á mig. *** Í öðrum leynifréttum þá byggði ég gróðurhús á síðustu helgi með systkinum mínum. Pabbi minn, Hrafn M. Norðdahl, sjómaður, rækjuverkamaður, kjötverkunardroppát (sagaði af sér fingur), verkstjóri og timburlangari, varð sjötugur nú á föstudag. Hann hélt upp á afmælið í Riga í Lettlandi með mömmu. Gróðurhúsið er afmælisgjöfin hans frá fimm af sex systkinum (það sjötta fór út með honum til Riga) og mömmu. Við þrjú sem erum fyrir vestan byggðum það síðan. Hann fékk myndband af byggingarstarfinu í gær og kemur heim og sér húsið á morgun. Mér skilst að hann sé mjög ánægður með þetta. Hann er með hænur í garðinum, svo þetta er viðbót í búskap sem var þarna fyrir. *** Þetta var soldið moj. Við reistum það á gömlu kartöflubeði sem var eiginlega bara orðið að drullubing. Nóvember er auðvitað ekki alveg skemmtilegasti tími ársins til þess að vera að reisa gróðurhús – en við vorum bærilega heppin með veður samt, miðað við árstíma. Það var lítið frost í jörðu þótt það væri snjór, en Eyri við Skutulsfjörð er alræmt grjótbeð, svo það var ekki alveg þrautalaust að grafa fyrir grunninum fyrir það. Svo var auðvitað skíthelvíti kalt – ég var í þremur lopasokkum hverjum yfir öðrum og þykkum vetrarklossum og samt loppinn á tánum eftir báða dagana, sérstaklega þann fyrri af aðaldögunum. Við fórum fjóra daga í röð en gerðum mest fyrstu tvo – meðan það var helgi – hina dagana vorum við bara að fínísera í kring, leggja rafmagn og svona. *** Það blés reyndar hressilega aðfararnótt sunnudagsins – nógu hressilega til að hrekja litla bróður fram úr. Hann mætti um miðja nótt til að gæta að húsinu – hvort það kæmist nokkurs staðar gustur inn, sem gæti feykt því á loft. En það var auðvitað alltílagi. *** Svo tókst mér líka að eyðileggja tvö pör af hönskum – fáránlegt rugl af mér að fara með þá fyrri, sem ég fékk að gjöf á feðradaginn í fyrra (í ár fékk ég bjór og vodka – það var víst Aino sem stakk upp á þessu). Hinir voru bara svo eitthvað drasl úr Nettó en maður á samt að fara vel með drasl líka – þótt ekki væri nema bara af umhverfisástæðum. Ég hefði keypt mér almennilega vinnuvettlinga – svoleiðis kemur sér oft vel – en það var bara lokað í Húsasmiðjunni. ***