Ég skrifaði pólitíska færslu um millistéttina og hætti svo við að birta hana. Svo datt mér í hug að skrifa eitthvað örstutt um allar mest lesnu fréttirnar á Vísi (ísfirska klámstjarnan sem ég kenndi einu sinni er þar efstur á blaði, víetnamski kokkurinn sem fær ekki að búa á landinu næstur, svo Davíð, Styrmir, Arna Ýr, hún þarna Snapchatdrottningin, og Weinstein, Spacey og Morrissey reka lestina, ekkert um jökulinn eða stjórnarmyndunarviðræður eða Zimbabve eða Mugabe eða Norður Kóreu eða Trump og fílabeinið) en ég nennti því ekki heldur. *** Ég verð sennilega veðurtepptur í fyrramálið. Fastur í Reykjavík og þá tekur því ekki að fara heldur með seinni vélinni, jafnvel þótt hún næðist, því ég á pantað flug aftur til Reykjavíkur á miðvikudagsmorgun. Svona er þetta. Ég er búinn að gera ráðstafanir til að láta þetta allt ganga upp. *** Ég átti annars ljóð á Starafugli í síðustu viku. Það er birt af tilefni ljóðakvölds sem verður á Bar Ananas á miðvikudagskvöldið. Kvöldið heitir Bláa Hawaii en ljóðið mitt, sem er úr Nihil Obstat og birtist með hljóðupptöku, þar sem ég leik tónlist og hvaðeina, heitir Ástir og ananas (en það var einmitt rúvþýðingin á titli kvikmyndarinnar Blue Hawaii með Elvis Presley). Þið finnið þetta hér . Starafugl birtir eitt ljóð eftir alla sem lesa upp á kvöldinu fram að upplestri. *** Ég lauk við Hnotskurn og byrjaði á The Unwomanly Face of War eftir nóbelsverðlaunatrúbadorinn Svetlönu Aleksevitsj. Sú bók heitir á sænsku Kriget har inget kvinnligt ansikte. Stríðið á sér enga kvenlega ásjónu – sem er ekki sama og Ókvenleg ásjóna stríðsins, þótt túlka megi bæði eins, þá halla þeir hvor í sína áttina. *** Titillinn sem sagt. Í senn má segja að hann tjái að hlið kvenna í stríðinu – seinni heimsstyrjöldinni – hafi ekki verið sögð og því skorti þessa ásjónu, þessa representasjón, einsog Aleksevitsj reyndar ítrekar í formála, en líka þannig að stríðið sé alls ekki kvenlegt, einsog er líka sums staðar gefið í skyn, og jafnvel – sem er áreiðanlega ekki meiningin – að stríðið sé enginn staður fyrir konur (af því þær séu minnimáttar). Reyndar verður manni ekki síst ljóst af lestrinum að þvert ofan í það sem Aleksevitsj segir sjálf í formálanum, þá er stríð kvenna alls ekki ósvipað stríði karla – a.m.k. ekki einsog það birtist í bókmenntum – og einkennist í senn af því hversu þungbært það er að drepa annað fólk og því hversu auðveldlega það kemst upp í vana. Og það er áhugavert að í frásögnum karlanna – sem hafa vissulega haft orðið – skáldsögum og ævisögum þeirra, er stríðinu jafnan lýst sem ómennsku, en ef maður tekur Aleksevitsj á orðinu þá er það ekki ómennskt heldur karllægt. Þetta er sennilega eitthvað hírarkíuspursmál. *** En þá er ágætt að minna sig á að bókin er skrifuð 1987, í Belarús, og sagan af stríðinu var allt önnur handan járntjaldsins. Þetta sjónarhorn – með drullunni og skítnum – er sennilega sjaldséðara þar en til dæmis í Finnlandi, þar sem sú frásögn hefur viðgengist og verið endurtekin ad nauseam/gloriam a.m.k. frá því Vaino Linna gaf út Óþekkta hermanninn 1954. Í austantjaldslöndunum var sennilega meiri dýrð yfir stríðinu. *** Þá er líka áhugavert að Alexevitsj gerir því fyrst skóna að það hafi ekki verið hlustað á konur vegna þess að þær hafi ekki sagt „réttu“ söguna af stríðinu – og svo fer hún strax sjálf að tala um að konurnar sem hún talaði við hafi margar hverjar verið ósáttar við bókina, því Aleksevitsj hafi verið að leita að öðrum sögum en þær vildu segja, stýrt verkefninu þannig að saga þeirra skældist – þeim fannst of lítil dýrð og of mikil drulla. Aleksevitsj lætur þetta sér í jafn léttu rúmi liggja og körlunum sem hún hafði rétt lokið við að lýsa – nema að hún kemur gagnrýninni í orð í formálanum. Því auðvitað er hún ekki bara spegill – hún er rithöfundur, listamaður, og hún hefur einhvers konar agenda, sem hún orðar meira að segja, að í stað þess að leita að stóru narratífu stríðsins sé hún að leita að litlu narratífu tilfinninganna. *** Og svo skortir reyndar ekki – a.m.k. ekki enn, ég er búinn með fjórðung – ekkert á stríðsdýrðina, þótt svo sé látið í formála. Þarna er fólk að kasta sér svo til óvopnað á skriðdreka nasista og fleygja sér á sprengjur til að bjarga félögum sínum og skrá sig í herinn af fullkominni og jafnvel yfirgengilegri ástríðu – og einhverjar hreinlega fyrir ástina, til þess að geta elt kærastann í opinn dauðan. Það er mikið drama þarna og kunnuglegt, og móðurlandsástin ristir djúpt í þessum óttalausu ungmennum. *** Ég veit ekki alveg hvort þetta er að gera mikið fyrir mig samt. Sagði hann kaldranalegur. Sem bókmenntir meina ég, hélt hann áfram þegar hann var farinn að fyrirverða sig fyrir kaldranaleikann. Þessi collagetækni finnst mér oft góð og ég er mikið gefinn fyrir Reznikoff, Heimrad Bäcker, NourbeSe Philips, Kenneth Goldsmith og fleiri sem nýta sér trámatískar frásagnir annarra til þess að gera úr þeim bókmenntir. Kannski finnst mér bara vanta meira samhengi – eitthvað kraftmeira. Kannski meiri úrvinnslu – betra samhengi, frekar en að hún spyrji bara spurninga og svo komi 12 svör hvert á fætur öðru. Kannski er hún sjálf og nærvera hennar að þvælast fyrir mér. Kannski eru nóbelsverðlaunin að þvælast fyrir mér – eru þetta nóbelsverðlauna viðtöl? Og hvað þýðir það eiginlega? Líklega er ég að ofhugsa þetta allt – Nadja las bókina um daginn og hún sáði einhverjum efasemdarfræjum hjá mér, sem ég er að vinna úr. Þrír-fjórðu eftir og svo ýmislegt fleira í höfundarverkinu. Ef Nadja hefði ekki keypt þessa fyrir bókaklúbbinn sinn hefði ég sennilega byrjað á Secondhand Time eða Tsjernóbilbókinni.