Ég gleymdi að nefna í gær – þegar ég var að tala um Póetrý Gó og ljóð og göngutúra – að Nadja er nýbúin að segja mér frá útvarpsþætti sem hún hlustaði á og fjallaði um brjálæðislegustu göngukeppni í heimi. Í sem stystu máli gengur hún bara út á að ganga saman í rólegheitunum þar til allir nema einn hafa gefist upp. Maður fær samtals 25 mínútur á hverjum sex klukkustundum til að sinna klósetti, plástrum, fæðu og slíku – á palli sem fylgir göngunni. Göngunni er haldið á 5 km hraða. *** Keppendum ber saman um að það skipti ekki endilega mestu að vera í góðu formi heldur að vera svolítið klikkaður í hausnum. Líka að það sé alltaf auðveldara í annað sinn en fyrsta. Sumir segja að maður þurfi að geta verið sósíal – talað við hina – en aðrir segja að best sé að vera sjálfum sér nægur. Maður þarf að vera þrjóskur. Þarf að geta hanterað svefnleysið. *** Íþróttamenn segja að það sé erfitt að keppa þegar maður er hvorki að reyna við hraða né viti hvenær keppnin er búin – hvað maður þarf að fara langt. Algert mændfokk. *** Og svo bara blæðir manni úr fótunum. Úr blöðrunum. Fær illt í hnén. Verki í mjaðmirnar. Og svo framvegis. Og heldur bara áfram. Gefst ekki upp. Metið er 89 klukkustundir. *** Hvernig ljóð ætli maður semji á 89 klukkustunda göngutúr? *** Ég er á Arlanda. Ákvað að borða ekki hamborgara – ég ét alltaf hamborgara á ferðalögum. Fékk mér kjúklingasalat. Það var ábyggilega geggjað hollt. Það voru bulgur í því! *** Mér var bent á að pistill minn um verndarstefnu reykvísku millistéttarinnar í garð landsbyggðarinnar hefði valdið smá fjaðrafoki. Ég veit ekki hvað ég nenni að kommentera á það. Einhver sagði víst að það mætti ekki smætta reykvísku millistéttina svona. Niður í tekjur sínar og félagslegar aðstæður, reikna ég með. Einsog þetta sé fólk sem eigi eitthvað sameiginlegt. Einhverja tiltekna lífssýn. Þá styttist nú bara í gúlagið, hreinlega. *** Annars heyrist mér (ég fæ þetta í endursögn) flestir hafa misst af mikilvægasta punktinum og fest sig þess í stað í tvatli um flugvöllinn og hvalárvirkjun – sem voru dæmi ekki kjarni. Kjarninn er að þessi djöfuls exótísering er ofbeldi. Ísafjarðardjúp er ekki bara fallegt – það er líka lífæð samfélagsins sem þar býr. Það er ekkert samfélag á Íslandi sem ekki leggur nokkrar byrðar á umhverfi sitt – og það er ekkert samfélag á Íslandi sem leggur jafn miklar byrðar á umhverfi sitt og Reykjavík. *** Það er líka voðalega ódýrt að yppta bara öxlum yfir fólksfækkun, horfnum tækifærum, og biðja bara um „fjölbreytt atvinnulíf“ (það er alla jafna, held ég, kóði fyrir „getiði ekki selt okkur eitthvað skran þegar við komum í heimsókn“). Þegar það kostar mann ekki neitt sjálfan. En ef maður segði: Má virkja þessa á ef það gæti bjargað byggðinni í Kvosinni, er sennilegt að annað hljóð kæmi í strokkinn. *** Fjölbreytt atvinnulíf er líka kóði fyrir „ekki þetta tiltekna sem við ætlum að banna ykkur núna af því við getum það“. Heldur allt hitt. Svona einyrkjadót. *** Ég hugsa meira að segja að það mætti rækta eins mikinn lax og fólki sýndist við strendur landsins – ógeldan og sprautandi sæði sínu um allar trissur – ef það gæti bjargað byggðinni í Vatnsmýrinni. Sem er ekki einu sinni orðin byggð ennþá. *** En lífið í Árneshreppi, á Þingeyri, jafnvel á Ísafirði, er abstraksjón. Það er ekki alvöru líf. Þar býr ekki alvöru fólk. Þar búa bara kynlegir kvistir. Þegar þeir eru orðnir nógu fáir er hægt að setja þá bara á sveitarstyrk. *** Ekki að ég nenni neitt að kommentera á þetta! Ha! *** Patróníserandi kærleikur. Hann er að sumu leyti verri en grímulaust hatur. Við því getur maður allavega brugðist. *** Þegar snýr að náttúrunni er þetta ekki spurning um hver hafi séð fossana við Hvalárvirkjun. Reykvíkingar eiga alveg jafn mikið tilkall til fegurðarinnar í landinu og fólkið í Árneshreppi. En þegar kemur að hagsmununum – hver þarf á innspýtingu að halda, hver berst fyrir lífi sínu og hver er bara að reyna að græða – og valdinu – hver hefur aðgang að þingflokkum, hinni opinberu umræðu, fjármunum o.s.frv. – þarf að greina upp á nýtt. Þar kemur fólk ekki jafnt að borðinu. Sannleikurinn er sá að þar hafa sumir meira vald en aðrir, og sumir meiru að tapa en aðrir. *** En jájá. Það má auðvitað ekki smætta fólk niður í hagsmuni sína eða vald eða láta einsog það hafi nokkra hagsmuni eða völd. *** Ég ætla að fara og kaupa mér svolítið kaffi. Og finna hliðið mitt.