Ég gekk í bæinn og hlustaði á Póetrý Gó. Þetta er strax orðin hefð. Ég veit ekki hvað ég geri þegar þættirnir klárast. *** Nema í þetta sinnið gekk ég í bæinn í Manchester! *** Sigurður Pálsson var til viðtals um flanerí. Viðtalið var áhugavert og Fríða og Brynja sleipari og styrkari en í fyrsta þættinum (sem var samt fínn). Þær spurðu meðal annars hvort flaneríið væri einhvern veginn tengt sveitagöngutúrnum, sem Sigurður taldi ekki – eða í öllu falli fannst honum mikilvægara að ræða það sem skildi flaneríið og sveitagöngutúrinn að. Ég hafði – fram að því og á meðan og á eftir – verið að velta því fyrir mér hvort flaneríið væri ekki einhvers konar arftaki sveitagöngutúrsins og afleiðing af flutningi sveitapilta í borgina. Þeirra sem eru vanir að rölta bara af stað. Það eru engir stígar í náttúrunni og einmitt þannig flanerar maður um borgir – einsog það séu engar leiðir. *** Sveita pilta . Það kom einmitt skýrt í ljós undir lok þáttar að Brynja – ég held það hafi verið Brynja, ekki 100% viss um að ég þekki raddir þeirra nógu vel til að skilja í sundur – taldi flaneríið ekki vera fyrir konur, að minnsta kosti ekki óvopnaðar. Eiginlega var lokahnykkurinn svolítið tráma bara – ég veit ekki hvort ég á að tala um óttaþjóðfélag eða bara raunsætt þjóðfélag eða hvað. *** Ég held að bóhemían hafi alltaf verið hættuleg. Og kannski er þá þjóðráð að vera með hníf í vasanum. Felgulyklar, einsog Brynja stakk upp á, eru of stórir og ómeðfærilegir, hrútskýrlýsi ég hér með yfir. Og hafiði það. *** Flaneríið er kannski skylt því líka – þessum traustsleik sem kynslóðir bóhema hafa tekið þátt í. Að sleppa öllum borgaralegum öryggisprótókolum (fyrir utan hnífinn) og kasta sér út í lífið á þeirri forsendu að í raun og veru sé maður ósæranlegur, sennilega ódrepandi og jafnvel ódauðlegur, hvað sem líður öllum sönnunargögnum um hið gagnstæða, frá Rimbaud til Lí Pó til Virginiu Woolfe til Bon Scott til Amy Winehouse. *** Og ennfremur: að maður verði ekki öðrum til ógagns, til sára. Maður meiði ekki. En kaosið er auðvitað þess eðlis að ekkert af því stendur. Fólk meiðir hvert annað í stjórnleysinu. Og maður meiðir sig. Og fólk meiðir sjálft sig ekki síst. Í kaosinu. Sönnunargögnin eru mýmörg. *** Sem þýðir ekki að það geti ekki verið þess virði. En það er ekki ókeypis. Hvað sagði James, hýsill minn í gærkvöldi, um Jim Morrison og fleiri af sama kalíberi – eitthvað um að þau hefðu sýnt að það væri í lagi að þjást? *** Og kannski búum við ekki í óttaþjóðfélagi heldur óttalausu þjóðfélagi. Þjóðfélagi sem hefur úthýst óttanum. Úthýst áhættunni. Kannski fáum við kikkin okkar annars staðar. Og kannski fáum við engin kikk og erum bara hrædd í staðinn. *** En flaneríið er líka áhugavert í ljósi smábæjar eða -borgargöngutúrs sem millistigs milli hreins sveitagöngutúrs og hreins flanerís. *** Hreint flanerí á sér stað í mannfjölda þar sem þú þekkir engan en nærð samt einhvers konar anonymus sambandi við lífssystkin þín – hitt fólkið í heiminum. Og það virðist vera sátt um að ef þetta fólk ber kennsl á mann – ef það kemur of nálægt, eru kunningjar eða kviðmágar, einsog gerist á minni stöðum – þá rofni flaneríið. Og óravíddirnar birtast manni kannski ekki aftur fyrren fólkinu hefur fækkað svo að enginn er eftir lengur – maður er bara einn á berrössuðu fjalli að flandra. Eða fjölgað svo að fólkið hættir að vera fólk og verður hrein náttúra. *** Ég held ég eigi annars mjög gott með að hunsa umhverfi mitt. Kannski er það vegna þess að ég er alinn upp í smábæ. Ég get alveg farið í göngutúr um Ísafjörð án þess að þekkja neinn. Hvað þá í Reykjavík. Maður bara sleppir Laugaveginum og fer ekki inn í Kringluna. En þá er auðvitað færra fólk í kringum mann. *** Ég man samt eftir köfnunartilfinningu í reykvískum kreðsum – að þær væru svo litlar, og maður ætti svo mikið undir þeim. Ég man eftir því að vera tvítugur inni á Sirkus eftir nokkrar vikur í borginni og átta mig á því að þarna inni voru allir kviðmágar. Og þarna höfðu sömu kviðmágarnir setið kvöld eftir kvöld frá því ég flutti í bæinn. Það beinlínis þyrmdi yfir mig, ég bað fólk að hafa mig afsakaðan og fór heim. Þeir sem þekkja mig vita að ég er illa haldinn af ekki-fara-heim-fyrren-allt-stuðið-er-búið-syndróminu svo þetta var alvarlegt. *** Kannski fannst mér einsog ef ég myndi misstíga mig innanum þetta fólk – syni og dætur frægra listamanna, virtra fræðimanna, prófessora, söngvara o.s.frv. – þá ætti ég hreinlega ekki afturkvæmt. *** Það sem mér finnst auðvitað furðulegast var að … nú ætlaði ég að segja að ég hafi aldrei fundið fyrir köfnunartilfinningu fyrir vestan en það er ekki alveg satt. Ég man meira að segja eftir vikum þar sem ég bókstaflega nennti ekki úr húsi af því ég vildi ekki hitta ákveðið fólk. En hún birtist einhvern veginn öðruvísi. Kannski var bara ekki sami látaleikur í gangi – á Ísafirði vita allir að þeir deila rými með fólki sem hefur andlit, nöfn, sögu. Í Reykjavík skapast (fyrir mér) einhvers konar dissonans þar sem fólk hagar sér einsog það byggi í nafnleysi. *** Af því mér er sagt að um það sé rætt á Facebook vil ég koma því á framfæri, að líkt og stóð í pistlinum sem nú er þráttað um, þá er ég sennilega mótfallinn Hvalárvirkjun – hef ekki kynnt mér þessi mál alveg í þaula, það verður að viðurkennast, en mér heyrist fólk sem ég treysti til að vita betur en ég (og sem ég treysti pólitískt) halda því fram að þetta sé rugl. Og það er fólk fyrir vestan, vel að merkja. Sennilega er hún rugl sem kemur engum til góða nema kapítalinu. *** En pistillinn fjallaði sem sagt alls ekkert um það. Ég held að internetið sé einhvers konar ólæsismaskína. Fólk starir á internetið, starir á stafina, en les ekki neitt. **** Vel að merkja sýnist mér hreinleikaorðræðan koma alveg jafn vel í ljós í fiskeldismálinu. Og þar er ég eindregið þeirrar skoðunar að laxveiðimannaáróðurinn sé hystería. Þar er einfaldlega verið að stöðva atvinnuuppbyggingu með illa rökstuddum upphrópunum. *** Keypti mér fjórar nýjar bækur. *** Kaputt, sem ég er búinn með en vil eiga – var með eintak í láni, skila reyndar hugsanlega þessu þar sem hitt hefur ekki farið alveg nógu vel í bakpokanum. *** The Skin eftir sama höfund (Curzio Malaparte) sem er framhald Kaputt. *** The Argonauts eftir Maggie Nelson og allir eru alltaf að mæla með. Sennilega mun mér finnast hún óþolandi bara þess vegna. Ég er rosalega illa haldinn af finnast-allt-ömurlegt-sem-öðrum-finnst-kúl syndróminu. Meira að segja afgreiðslukonan í búðinni hélt langa ræðu yfir mér um gæði bókarinnar. *** Tomorrow I’ll Be Twenty eftir Alain Mabanckou. Ég hef ekkert lesið eftir hann ennþá og hann hefur að mér sýnist litla athygli vakið á norðurlöndum. A.m.k. miðað við hvað hann er stór í Frakklandi og í Bretlandi. Ég hitti hann líka einu sinni með Eric Boury, á einhverri hátíð í Frakklandi. Ég veit ekki hvort ég ætti heldur að segja að hann sé viðkunnanlegur eða brjálæðislegur töffari . Sennilega er hvorutveggja frekar nákvæmt. *** Í kvöld klukkan 19 er upplestur í The Other Room. Þar verðum við þrír Íslendingar – auk mín eru það Ásta Fanney Sigurðardóttir og Vala Thorodds, einsog hún er þekkt hér í útlandinu. Við erum að leggja heiminn að fótum okkar.