id““:““5sb44″“

Auk þess að vera á þremur samfélagsmiðlum og skrifa blogg held ég fýsíska dagbók. Svo er ég auðvitað með nokkrar bækur í smíðum á hverjum gefnum tíma – svo ég geti gripið í þá sem ég er best stemmdur fyrir. Stundum líður mér í þessum skrifofsa öllum saman einsog manni sem hrapar til jarðar og baðar út öngunum í von um að fljúga. Baðar út öngunum á sex-sjö vígstöðvum samtímis. Með því á ég ekki við að mér finnist ég ekki kunna að skrifa – mér finnst ég satt að segja kunna fátt annað – en það er ekki víst það geri mikið gagn þegar maður er í frjálsu falli. En stundum flýgur maður samt. Og ekki hef ég skollið á jörðinni enn. En það var ekki það sem ég ætlaði að segja. Yfirleitt skrifa ég mjög stutt í fýsísku dagbókina – á löngu tímabili voru þetta bara hraðritaðir listar yfir það sem ég ætlaði að gera, óskiljanlegar glósur og alls kyns hrat, innkaupalistar, þyngdartölur, hlaupnir kílómetrar, hvað var í matinn o.s.frv. Eitthvað til að markera tímann og tilvist mína. Á enn lengri tímabilum hef ég enga dagbók haldið. Fyrir fáeinum vikum síðan tók ég mig taki og ákvað að sýna dagbókinni meiri virðingu. Að skrifa til dæmis þannig að ég skilji það sjálfur viku síðar. Rithöndin mín getur orðið alveg hrikaleg og þegar ég hraðrita fyrir sjálfan mig skrifa ég alltaf „færri og færri orð“ – því hver hefur nokkuð við persónufornöfn að gera? Hvað þá sérnöfn? Setning þarf ekki  bæði sagnir  og nafnorð – það er bara bruðl. Ef eitthvað er óþolandi og maður þarf að létta á sér er best að henda bara í eitt vel valið „andskotinn“ – ef maður man ekki hvað það var sem kallaði fram viðbrögðin var það sennilega ekkert merkilegt hvort eð var. En nú skrifa ég sem sagt eitthvað aðeins meðvitaðra og jafnvel úthugsaðra í þessa bók. Það er ekki endilega að þetta sé efni sem „eigi ekki erindi“ við neinn annan – þótt það komi fyrir – og sömuleiðis er dagbókin ekki full af efni sem „gæti misboðið“ einhverjum, þótt það komi líka fyrir og manni sé hollt að eiga stað fyrir þær hugsanir sínar sem eru óþægilegar. Ef maður kemur þeim hugsunum hvergi fyrir er hætt við að það komi drep í þær og fyrr en varir situr maður uppi með þær einsog rotnandi lík í stofunni. Ég nenni nú samt sjaldnast að röfla við sjálfan mig þannig. Ég er ekki alltaf glaður í dagbókina mína en ég er sjaldan beiskur. Mest eru þetta einhverjir heimspekilegir þankar – stundum eitthvað sem mér finnst of sjálfsagt eða banalt til að segja við aðra, stundum eitthvað sem ég veit ekki alveg hvert er að fara með en þarf að orða. En nú á laugardaginn lýsti ég deginum áður. Þetta var mjög góður dagur. Við Nadja fórum til Stokkhólms og gistum í svítu á Hotel Gamla Stan í boði foreldra minna, sem gáfu okkur þetta í jólagjöf. Við fórum líka út að borða á asískan veitingastað sem heitir MoonCake (og fær okkar bestu meðmæli) og eyddum morðfé. Spjölluðum meira að segja við fólkið á næsta borði – einsog það væri hreint enginn faraldur. Þegar máltíðinni lauk var allt lokað – í Svíþjóð lokar allt 20.30 – og Nadja vildi fara í göngutúr en mig langaði að fara að horfa á sjónvarpið. Ég veit ekki hvers vegna ég beit þetta í mig. Við eigum sjónvarp en það er ekki tengt línulegri dagskrá – bara notað í tölvuleiki og Netflix – og mig langaði svo að horfa á línulegt föstudagssjónvarp. Svo var mér líka mál á klósettið svo við frestuðum göngutúrnum fram á morgun og fórum upp á hótel (þar sem okkar beið líka kampavínsflaska). Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom inn var að finna fjarstýringuna – hlut sem þrátt fyrir miklar hótellegur síðustu ár ég snerti afar sjaldan – og kveikja á sjónvarpinu. Það var stillt á einhverja útlenska sjónvarpsstöð svo ég smellti bara þar til ríkissjónvarpið birtist – man ekki hvort það var rás 1 eða 2. Við okkur blasti spjallþáttur – tveir karlmenn á skjánum, annar bakvið „spyrilsborð“ og hinn í sófa. Veckans Ord med Kristian Luuk . Þáttarstjórnandinn spyr gest sinn, sem ku „sérfræðingur“, hver sé skítugasti hluturinn í hverju hótelherbergi. „Það er ekki spurning“, svarar gesturinn. „Það er sjónvarpsfjarstýringin. Hún er viðbjóðsleg gerlagildra. Ég myndi heldur drekka úr klósettskálinni en snerta fjarstýringuna.“ Orð vikunnar var „hótel“ og þátturinn var mjög skemmtilegur. Þar kom meðal annars fram að elsta hótel í heimi var standsett árið 705 í Japan og hefur verið í rekstri sömu fjölskyldunnar í 52 kynslóðir. Þetta skrifaði ég í dagbókina mína og væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að næstu klukkustundirnar greip mig kunnugleg tilfinning sem ég skildi samt ekki alveg. Mig langaði að kíkja í dagbókina, líta aftur á þessa sögu. Fyrst hélt ég að ég hefði gleymt að skrifa eitthvað eða gert einhver mistök sem ég áttaði mig ekki alveg á. En svo rann það upp fyrir mér. Mér fannst þessi saga um fjarstýringuna svo sniðug sjálfum að ég var að athuga hvort ég hefði ekki fengið einhver læk. En það var alveg sama hvað ég kíkti oft – ég fékk engin læk. Ekki einu sinni komment. *** Plata vikunnar er I Ain’t No Bad Gal með Memphis Minnie, sem er án nokkurs vafa frægust þeirra blúskvenna sem léku á gítar á fyrri hluta 20. aldar – nær allar stórstjörnur blússins af kvenkyni voru fyrst og fremst söngkonur, en Minnie var líka frumkvöðull í gítarleik. Á þessari plötu er hún á tindinum – þroskaður listamaður, ennþá grittý, en með alla færnina og þokkann og öryggið. Minnie fæddist árið 1894* og hét þá Lizzie Douglas – var kölluð „Kid“ af fjölskyldunni. Hún var reyndar alls ekki frá Memphis en flutti þangað þegar hún flúði að heiman 13 ára gömul, tveimur árum eftir að hún eignaðist sinn fyrsta gítar. Þar lék hún á götunum og á einhverju tímabili – vonandi aðeins síðar – hafði hún aukatekjur af vændi. Fyrsti eiginmaður hennar var Casey Bill Weldon úr Memphis Jug Band og þótt hann komi lítið við sögu í ferli hennar annars er talið að hann hafi verið hennar helsti kennari á fyrri hluta þrítugsaldurs – þegar Minnie var að verða Minnie. Nafnið fékk hún eftir að hún tók saman við Kansas Joe McCoy – einsog ég las söguna einhvers staðar var það plötuútgefandi sem fannst það hljóma vel saman, Kansas Joe og Memphis Minnie. Joe söng mörg af lögunum sem þau léku saman en hún sá um flóknari hluta undirspilsins. Þau slógu í gegn með Bumble Bee árið 1929, þegar Minnie var 33 ára, og áttu marga slagara á næstu 6 árum áður en þau skildu 1935. Að því er segir á plötuumslagi þessu – í ágætri ritgerð Petes Welding – átti Kansas Joe erfitt með að þola hversu miklu meiri vinsælda og virðingar Minnie naut. Sama ár kynntist hún öðrum Joe – Ernest „Little Son Joe“ Lawler – sem varð þriðji eiginmaður hennar og skráður höfundur allra laganna á I Ain’t No Bad Gal (það er þó talið nokkuð víst að hún hafi samið megnið af þessu sjálf). Platan er tekin upp í maí og desember 1941 – Minnie er fíníseraðri en hún var áður, upptökurnar eru betri, en hún er ekki orðin alveg jafn „borgarleg“ og hún varð seinna. Það er enn í þessu passlega mikill sveitabragur. Í seinni upptökunni leikur Minnie á rafmagnsgítar – að ég held í fyrsta skipti á upptöku. Platan er fyrst gefin út 1988 en ríflega helmingur laganna hafði komið út í einhverri mynd áður. Allra frægast þar á meðal er Me and My Chauffeur Blues. Won’t you be my chauffeur
Won’t you be my chauffeur
I wants him to drive me
I wants him to drive me downtown
Yes he drives so easy, I can’t turn him down
But I don’t want him
But I don’t want him
To be ridin’ these girls
To be ridin’ these girls around
So I’m gonna steal me a pistol, shoot my chauffeur down Þetta er af kassagítarhliðinni – en það er hin hliðin sem ég held meira upp á. Þar leikur Lawler enn á kassagítar en Minnie er með rafmagnsgítarinn og tekur þátt í að leggja grunninn að Chicago-blúsnum. Hún plokkar og hendir í sólólínur en Lawler tekur bassalínur og strömmar. Svo tekur hún ofsalega fínt sóló – og hrópar og æpir á meðan „Play it! Play it for me, boy!“ og er væntanlega að tala við Joe í undirspilinu (eða gítarinn sinn?) Hann á allavega ekki þetta sóló – en hann á sólóið í næsta lagi á plötunni, titillaginu, sem er reyndar líka mjög gott (en allt öðruvísi). *** * Mikið af þessum ártölum orka tvímælis – fer eftir því hvaða heimild maður treystir. Ég leyfi mér að fara bara eftir upplýsingunum á plötuumslaginu þar sem þær eru til staðar. Wikipedia segir t.d. að þau Lawlers hafi ekki byrjað saman fyrren 1938. Ég á líka einhvers staðar hérna ævisögu hennar í bókarformi en hún er bara hálflesin af því hún var svo leiðinleg – og um svo margt annað en hana, endalausar upptalningar á fólki. Minnir mig. Ég kannski lít á hana aftur – það er alveg hugsanlegt að ég hafi bara verið þreyttur og gramur þegar ég las hana.