id““:““7nikt““

Hér sit ég á náttslopp í kósíbuxum og sýg upp í nefið og hnerra og get ekki annað, hef ekkert um þetta að segja. Ég er búinn að éta svo mikið af verkjalyfjum að það liggur við að ég sjái ekki á skjáinn. Get ekki legið í rúminu meira. Ég á litla jólaöl í ísskápnum sem ég er að treina mér. *** Hvar á ég að byrja? Ég geri þetta sjaldnast í réttri röð. Ég fór með pabba mínum, litla bróður og syni hans á Tottenham-Burnley. Það er orðið svolítið síðan – ætli leikurinn hafi ekki verið 7. des? Þetta var allavega mjög góður leikur og við (Hotspurs) unnum 5-0. Son skoraði alveg ótrúlegt mark – fékk boltann alveg við eigin vítateig, sólaði sig upp völlinn og dúndraði boltanum í mark. Við fórum svo í skoðunarferð um nýja völlinn daginn eftir – það var líka geggjað. *** Við Aram Nói fórum svo á Skálmaldartónleika í Reykjavík. Lokatónleika þeirrar sveitar – a.m.k. „í bili“. Blóðmör og Finntroll hituðu upp. Það var fremur fátt í húsinu þegar Blóðmör spiluðu en þeir eru hörkuband og skiluðu sínu mjög vel – minntu mig skyndilega svolítið á Bootlegs. Aram Nói sagðist hafa verið of feiminn til að headbanga en var kominn í stuð þegar við sáum Finntroll – eftir kvöldverð á víetnömskum veitingastað í pásunni á milli. Og hefur lýst því yfir að Finntroll sé komin hátt á lista yfir eftirlætishljómsveitir. Ég var ekki alveg jafn hrifinn. Gimmikkið er skemmtilegt og þetta er alltílagi músík – en ekkert meira – og mér finnst þeir blikna við hliðina á Skálmöld, sem eru melódískari og þéttari. Einfaldlega sjúklega þétt – eiginlega engu lagi líkt. Ég held ég hafi heldur aldrei tekið eftir því áður hvað sándið hjá Þráni, sem spilar megnið af sólógítarnum, er ótrúlega flott. Það eru ekki margir þungarokkarar sem spila á single coil gítara – þótt það séu nokkrir – og flestir eru með meira smooth sound en það er gritt í þessu hjá Þráni. Mér fannst svolítið fyndið í lokin þegar þeir voru að kveðja – og voru púaðir fyrir að ætla í pásu – að Björgvin maldaði í móinn og sagði að þeir þyrftu að fá að knúsa konurnar sínar, leika við börnin og mæta í vinnuna og svona. Sem er beisiklí allt sem rokkdraumurinn gengur – hefðinni samkvæmt – út á að forðast. Allt smáborgaralífið – launaþrældómurinn, white-picket fangelsið o.s.frv. Ekki þar fyrir að sennilega er minna um svona Mötley-rokklíferni núorðið. Það er jafnan sagt að konur haldi uppi menningarstarfsemi á norðurhveli jarðar – kulturtanten, menningarfrænkan, sem mætir á tónleika og upplestra og kaupir bækur, er sögð halda uppi heilu menningarstofnunum. En bæði Tottenhamleikurinn og Skálmaldartónleikarnir voru karlaviðburðir – þótt það væru konur á báðum voru karlar í miklum meirihluta. En auðvitað er þetta ekki það sem margir hugsa um þegar þeir hugsa um „menningu“. *** Ég horfði á bíómyndina Willow Creek – en hún var skrifuð og henni leikstýrt af Bobcat Goldthwaite, sem er frægastur fyrir að hafa leikið í Police Academy myndunum. Dan, vinur minn, sem er kvikmyndakall, mælti með að ég horfði líka á hana fyrst ég var að horfa á Blair Witch Project. Willow Creek er einmitt einsog Bobcat hafi horft á Blair Witch Project og ákveðið að laga bara misfellurnar í henni – hún er ótrúlega lík, uppbyggingin er sú sama (nema þetta er par, ekki þrímenningar, og þau eru að leita að Stórfóti en ekki Blair-norninni). En hún er líka betri. Það er betra að hafa par í þessu – beiskjan og ástin milli þeirra verður áþreifanlegri. Þá hendir hann inn einu atriði alveg í byrjuninni þar sem þau eru að fara inn í skóginn og rekast á mann – hann er sennilega starfsmaður leynilegs maríjúanaakurs í skóginum – sem rekur þau til baka með miklum þjósti og ógn. Hann kemur ekkert aftur fyrir en bara þetta litla atriði setur alla ógnina í skóginum í annað ljós – það er alltaf séns að maríjúanabændurnir séu að hræða þau. Endirinn – sem ég ætla ekki að hafa eftir – er síðan miklu betri. Endirinn á Blair var beinlínis lélegur en þessi er æði. *** Við Aram Nói fórum líka á Star Wars: Rise of Skywalker (ég geri alls konar með dóttur minni líka, ég lofa, en akkúrat þegar við vorum á Star Wars var hún á jólatónleikum með móður sinni). Hún tikkar í öll box og er auðvitað „léleg“ – en það eru líka allar Star Wars myndirnar „lélegar“, alveg einsog Rocky Horror Picture Show er „léleg“ og ýmislegt fleira sem manni finnst svo samt frábært. Söguþráðurinn er þvæla, sem fyrr, og samtölin stirðbusaleg – leikurinn í besta falli la-la. En það eru geislasverð og sprengingar og allur sjarminn er til staðar – Lando er með, Hans Óli og Lilja eru með, Logi er með, keisarinn er með, vélmennin eru með (og eitt nýtt m.a.s.) og Rey og Kylo Ren og allir hinir nýju. Stórkostleg mynd. Fimm stjörnu sápuópera sem tekur sig ekki of alvarlega (enda væri Star Wars fyrst ónýtt þegar samræðurnar væru orðnar vel skrifaðar og söguþráðurinn kæmi manni á óvart). Barnshjartað í mér sprakk næstum. *** Kvikmyndaklúbbur unga fólksins horfði á Space Balls. Vel að merkja áður en við fórum á Star Wars. Hún endist mjög vel og við veltumst um af hlátri. Söguþráðurinn í Space Balls er auðvitað líka þvæla en samtölin eru vel skrifuð. Þessi sena er t.d. óendanlega góð. Börnin skildu samt ekki alveg þetta vídjóspóludæmi. *** Við kláruðum Watchmenseríuna. Hún var frábær. Hvað situr eftir – ég veit ekki hvort mér þótti pólitíska greiningin eitthvað ægilega merkileg. Það eru margir að tala um hana sem pólitískt meistaraverk en sem greining er hún frekar fyrirsjáanleg. Hún var í sjálfu sér alveg rétt, held ég – svona sem lýsing á þráðum sem liggja og hafa legið um bandarískt samfélag – bara ekkert æðislega groundbreaking. Aðalleikkonan, Regina King, sem ég hef ekki séð áður er ótrúlega góð. Jeremy Irons er dásamlegur. Jean Smart líka. Lúkkið og stemningin eru geðveik. *** Ég horfði á eina og hálfa seríu af You Me Her. Þegar ég er á ferðalagi, sem ég er alltof mikið, þá horfi ég á vondar sjónvarpsseríur. Því ef ég horfi á eitthvað gott stöff er einsog ég sé að ræna því af Nödju. Við þurfum að horfa á svoleiðis saman. You Me Her fjallar um par á fertugsaldri sem er komið með leið hvort á öðru og finna spennuna aftur með því að bjóða ungri háskólastúdínu að ganga í sambandið með sér. Þetta er svona pólídæmi. Fyrstu þættirnir, þegar þau eru að opna sambandið, eru alveg svolítið áhugaverðir en þetta verður fljótt að algerum leiðindum, sem maður á samt erfitt með að slökkva á. Nadja var að lýsa fyrir mér Fortnite spilinu nokkrum dögum eftir að ég kom heim – að það væri ekkert í því, það væri svona sálarlaust gímald sem ýtti bara á alla réttu hnappana í börnum, einsog pavlovskum hundum, svo þeir gætu ekki hætt. You Me Her er svolítið svipað. Þetta er ævintýri fyrir lífsleitt fólk sem fær kikk út úr fantasíunni um að ríða út fyrir hjónabandið – en líka fantasíunni um að brjóta upp formið, fastalífið, að vera „villt“ og „frjáls“ (einsog þau ímynda sér að þau hafi verið þegar þau voru ung en voru í fæstum tilvikum þannig í raun og veru). Pólídæmið er síðan ekki nema lítill hluti þessa ævintýris – sem snýst ekki síst um frekar viðstöðulaust djamm (sem virðist ekki hafa neinar afleiðingar, annað en pólídæmið sem er alltaf alveg að fara að kosta þau eitthvað – þá geta þau verið hauslaus af drykkju og mollýnotkun kvöld eftir kvöld án þess að nokkur í kringum þau hvái eða þau verði þunn í meira en korter). Útkoman er fíknivekjandi en alveg epísk leiðindi og ég gat ekki gert upp við mig hvort ég þoldi persónurnar verr en handritshöfundana eða leikarana. Tónlistin í þáttunum er líka alveg óhuggulega leiðinleg. Ég ætla aldrei að horfa á meira af þessu rusli. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á suður-kóresku kvikmyndina 기생충 eða Meindýr/Parasite. Ég vissi ekkert um hana annað en að hún þykir líkleg til að hirða erlenda óskarinn í ár. Þetta er kolsvört kómedía um fátækt fólk og ríkt fólk, um blekkingar, ofbeldi, snobb, forréttindi, lífsbaráttuna – og einhver besta bíómynd sem ég hef séð lengi. Þarna er stéttagreiningin til dæmis mjög brútal og höfundur skirrist ekki undan því í eina einustu sekúndu að horfast í augu við afleiðingar stéttaskiptingar – þar sem ein fjölskyldan lifir í fullkomnum vellystingum en hin nánast í holræsunum. En hún er samt ekki þannig að maður haldi með neinum – hún er bara brútal. Og fyndin. Og brútal. Og hrikaleg. Maður grætur, hlær og gargar. Nadja segir að ég megi ekki segja of mikið af söguþræðinum og það er ábyggilega rétt. En horfið á þessa mynd. *** The Beautiful Poetry of Donald Trump er ljóðabók sem sett er saman af Robert Sears, sem er grínhöfundur af McSweeneys-kyni. Bókin sver sig í ætt frægrar bókar eftir Hart Seely, sem tók saman búta úr ræðum og viðtölum við Donald Rumsfeld, og birti sem ljóð. Sú ljóðabók var mjög góð – Rumsfeld talaði svolítið samhengislaust stundum, lét hugann reika, og átti það til að vilja raunverulega fílósófera, einsog í frægri ræðu um „the known knowns“ og „the known unknowns“ og „the unknown unknowns“. Mér finnst þetta ekki virka á Trump – þótt stöku ljóð sé skemmtilegt. Í fyrsta lagi eru textarnir miklu meira unnir en hjá Hart Seely. Hver einasta lína hjá Sears kemur úr ólíkri ræðu eða tweeti Trumps en Seely línuskipti bara fallegum hugsunum Rumsfelds. Þá setur Sears neðanmálsgreinar – 1 og 2 og 3 – á eftir hverri línu sem einfaldlega skemmir lúkkið, skemmir „the suspended disbelief“ svo maður getur aldrei notið þess að lesa textann sem ljóð, hann verður alltaf mjög augljóslega og áberandi brandari. Í öðru lagi er Trump bara ekki dreyminn hugsuður, einsog Rumsfeld, Trump beitir tungumálinu einsog sleggju og það er ekki heiglum hent að ætla að raða saman ofsanum í honum í áhugaverðan texta – Trump er áhugaverður í sínu eigin samhengi en hann þýðist ekki yfir á hið ljóðræna svið. *** Slæmi pabbi eftir David Walliams. Aram Nói valdi og við lásum saman þrjú. Við erum búin að lesa svona 5-6 bækur eftir Walliams og þær eru allar skemmtilegar – og áhugavert að hann er mikið til skiptis í einhvers konar woke-þjónkun (siðferðislegu barnauppeldi í gegnum bókmenntir) og að brjóta á einhverjum PC-lögmálum. Þannig er t.d. mjög mikið af óþolandi kvenpersónum í bókum hans en í þessari giftast tvær þeirra í lokin (og báðar teknar í sátt áður en yfir lýkur). Bókin fjallar um Frikka sem á einstæðan pabba sem var einu sinni kappakstursbílstjóri en missti svo fótinn í slysi og hefur ekki getað keyrt – þeir feðgar sökkva í mikla fátækt (en það er undantekningalítið fátækt fólk í forgrunni í bókum Walliams). Það endar með því að pabbinn tekur þátt í bankaráni og fer í fangelsi. Og svo þarf að leysa það einhvern veginn. Þetta er fyndin bók, svolítið langdregin kannski, og veitir innsýn í líf fólks sem á ekki nóg til hnífs og skeiðar. Öðruvísi innsýn en t.d. Sitji Guðs englar en mikilvæga engu að síður. Ég held að börnin mín – og ég sjálfur stundum – fatti ekki alltaf hvað það þýðir að fá ekki alltaf allt sem maður vill og kannski ekki einu sinni það sem maður þarf. *** Escaping the Delta: Robert Johnson and the Invention of the Blues eftir Elijah Wald. Ég er búinn að vera að lesa alls konar bækur um blús síðustu misseri og þær eru margar mjög góðar. Ég er eiginlega farinn að hallast að því að fáar bækur sem ég hef lesið hafi kennt mér meira um margbreytileika sjálfsmyndar og menningarsögu en þessar. Wald gengur út frá nokkrum staðreyndum. Í fyrsta lagi að blúsinn sem svart fólk hlustaði á á sínum tíma – á gullöld delta-blússins – hafi verið allt önnur músík en síðar varð vinsæl sem deltablús. Þetta er í sjálfu sér ekki umdeilt – Leroy Carr og Josh White voru aðalkarlarnir 1928 en 1958 voru það Robert Johnson og Son House, sem voru nánast óþekktir. Carr og White eru meira slikk – nútímalegri flytjendur, poppaðri, meiri skemmtikraftar. Son House og Johnson eru meiri listamenn, hrárri, „upprunalegri“ (með gæsalöppum) o.s.frv. Og það voru fyrst og fremst hvítir karlkyns hlustendur sem upphófu þá – en helstu hlustendur og plötukaupendur Carrs og Whites voru svartar konur (mikið af fyrstu blúsurunum voru líka konur – Mamie Smith, Bessie Smith, Ida Cox, Ma Rainey o.s.frv.). Þessi blústónlist – sem er ýmist kölluð köntríblús eða deltablús – var mikið til gleymd og grafin upp úr 1958, nema hjá fáeinum áhugamönnum. Rafmagnaður blús hafði að einhverju leyti komið í staðinn – hinir ólíku stílar Muddy Waters, John Lee Hooker og BB King – og svo auðvitað bara sálartónlist, R&B og eitt og annað fleira. Og þar kemur að annarri hugmynd Walds, sem er að deltablúsmenn hafi alls ekki gert neinn æðislegan greinarmun á því hvaða tónlistarstefnu þeir voru að spila. Það sem var tekið upp – af hljómplötufyrirtækjum en líka mikið af þjóðfræðingum – hafi verið köntríblúsefnið en líklega hafi flestir þessara köntríblúsara verið að leika allt milli himins og jarðar á sínum böllum (og þeir voru allir ball-listamenn – það er ekki fyrren í Carnegie hall, mörgum áratugum seinna, sem fólk sest niður til að hlusta á þessa tónlist í góðu tómi, deltablúsinn var dansmúsík). Sú sýn sem við höfum á þessa tónlist í dag er sýn þeirra sem kallaðir eru „blues revivalists“ – ungir hvítir karlar í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum. Og sú sýn hefði aldrei náð flugi ef þetta litla blúsæði hefði ekki smitast til Englands þar sem Eric Clapton, John Mayall, Bítlarnir og Rolling Stones fengu bóluna og tóku hana aftur með sér yfir hafið. Rolling Stones drógu Howling Wolf með sér í Ed Sullivan Show þegar allir voru búnir að gleyma honum. Paul McCartney hellti sér yfir fólk í Chicago fyrir að þekkja ekki Muddy Waters – sínar eigin stórstjörnur – og þá voru þeir búnir að liggja yfir þeim í Englandi árum saman. Rolling Stones sögðust bókstaflega bara vera í hljómsveit til að benda öðru fólki á þessa tónlist – mestmegnis rafmagnsblús en rafmagnsblús sem átti uppruna sinn í deltablúsnum. Og svo tóku flestir þessara tónlistarmanna upp lög eftir deltablúsarana (Wald bendir á að í fyrstu hafi þeir allir spilað lögin einsog þeir spiluðu sín eigin lög – með greddu og rafmagni og vælandi gítörum; en þegar á leið hafi þeir farið að skilja meira á milli, taka þau meira í orginalútsetningum). Og þessi hugmynd þeirra gengur auðvitað mikið til út frá þeirra eigin fagurfræði. Þeir sóttust í hið villta og brjálaða – sóttust frekar í brjálaða spámenn einsog Son House og andsetna menn einsog Skip James en prófessjónal og fjölhæfa, menntaða og færa blúsmenn einsog Leroy Carr eða Josh White. Margir þeirra blúsmanna sem náðu nýrri – eða sinni fyrstu – fótfestu á blues revival árunum höfðu ekki leikið þessa tónlist árum og áratugum saman. Sumir höfðu bara hætt – en sumir höfðu bara verið að leika aðra, meira slikk, músík árum saman. Og yfir það var þá bara dregin hula – það passaði ekki inn í söguna. Annar punktur sem Wald kemur með er að það hafi verið miklu meiri hvítur blús á sínum tíma og það sé bara rugl að skilja fólk einsog Gene Autry eða Jimmie Rodgers utan við blússöguna – og bendir líka á að bæði léku svartir tónlistarmenn oft með hvítum og í hvítum hljómsveitum, og öfugt, og svo spiluðu þessi bönd líka músík þvert á allar kynþáttalínur. Hins vegar voru það plötufyrirtækin sem röðuðu öllu niður á bása og tóku helst ekki upp nema heil svört bönd og heil hvít bönd og lög sem voru samin af réttum kynþætti. Þetta er auðvitað mjög tötsí umræðuefni – Amiri Baraka myndi taka tryllinginn ef hann hefði lesið þetta – en Wald fer vel í það og það er mjög erfitt að taka ekki mark á málflutningi hans. Enda einmitt menningarsagan og sjálfsmyndin miklu flóknari heldur en við göngum almennt út frá núorðið – á þessum sjálfsmyndaruppteknu tímum. *** Blues Breakers with Eric Clapton er sennilega frægasta „hvíta blúsplata“ allra tíma og síðasta platan sem Eric Clapton lék á áður en hann stofnaði Cream með Jack Bruce og Ginger Baker. Hún er oft kölluð „Beanoplatan“ af því að Clapton situr með teiknimyndasögublaðið Beano á kápumyndinni. Lögin eru flest blússtandardar og öll eru þau einhvern veginn útsett til þess að leggja áherslu á hæfileika Claptons. Gítarsándið var eitthvað sem gítarleikarar sjöunda áratugarins sátu víst yfir og grufluðu í einsog þeir frekast gátu – þetta er „breska blússándið“ – og leyndardómurinn er fyrst og fremst Les Paul gítar (þessi tiltekni, Beanogítarinn, hvarf af yfirborði jarðar fyrir löngu síðan – og er líklega einn dýrmætasti gítar á jarðríki) inn í fyrsta Marshall kombómagnarann, sem hefur æ síðan ekki verið kallaður annað en Marshall Bluesbreaker, og allt stillt í botn. Síðan er búið að gera milljón pedala til að ná þessu sándi – Bluesbreaker pedalar eru álíka íkonískir og Tubescreamer pedalar og Blues Driverar (sem er ekki það sama og Blues Breaker, vel að merkja) eða í seinni tíð Klon-pedalar. *** Við hjónin kláruðum líka Silicon Valley í gær. Mikið er það nú fín sería. Skemmtilegar persónur – óþolandi án þess að vera óþolandi, breyskar án þess að bresta. Og endaði vel. Það er víst alls ekki sjálfsagt. *** Gítarleikari vikunnar er þá auðvitað Eric Clapton. Lagið er All Your Love eftir Willie Dixon af Beanoplötunni. Þarna sjáiði líka Clapton með blaðið, mjög krúttlegur.