Af öllu því sem mér finnst leiðinlegt – sem er auðvitað mismikið eftir því hvernig ég er stemmdur, helst vil ég finnast sem allra fæst leiðinlegt – þá þykja mér „smekklegir gítarleikarar“ einna leiðinlegastir. Smekklegur gítarleikur er bara ekki skemmtilegur. Gítarleikur er páfuglasport fyrir alvöru metnaðarfulla montrassa sem vilja hafa hátt. Ef mann langar að vera smekklegur getur maður bara lært að spila á lútu, franskt horn eða eitthvað. Það eru til hljóðfæri sem henta smekklegu fólki mjög vel. Rafmagnsgítar er ekki eitt þessara hljóðfæra. Þetta verður stutt gítarblogg í dag. Ég er alltíeinu á kafi í nýrri bók og get varla hugsað um annað. Ég er í alvöru svo viðutan að ég gleymi að setja vatn í kaffikönnuna – tekst ekki að strengja saman fleiri en tvær hugsanir í samfellu utan bókarinnar. En ég lofaði að sýna ykkur Endemi með dálitlu overdrive-i. Ég fór og heimsótti pedalasmiðinn Ásgeir Helga Þrastarson á dögunum og fékk hjá honum alls kyns góðgæti til að prófa. Þar á meðal eru tveir grænir bjögunarfetlar – annar er tubescreamer en ég veit ekkert hvað hinn er. Hann er málaður einsog turtleskarl og er algert yndi. Það er á honum líka boost en ég er minna hrifinn af því þótt það gæti ábyggilega gert eitthvað gagn í hljómsveit. Ég er með báða grænu pedalana í gangi og EP boostið mitt og eitthvað allt of flókið reverb sem Ásgeir lánaði mér líka – en smíðaði ekki – og EQ pedal sem hann smíðaði og er nokkuð lúmskur. Lagið er bara eitthvað sullumbull – ég man ekki á hverju var kveikt í undirspilinu. Sennilega bara eq-inu og kannski reverbinu. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 17, 2019 at 8:39am PDT Af Endemi er það annars að frétta að ég þurfti að gefa honum annað settöpp – laga truss rodið og lækka aksjónið og intónera hann upp á nýtt. Ég held að það sé eðlilegt með svona nýsamsettan gítar. Strengirnir hoppa sumir aðeins upp úr söðlunum ef ég djöflast á þeim og ég hlakka til að fá nýju stöngina í Bigsby-ið sem ætti að laga þetta. *** Ég er mikið að spá í pedölum þessa dagana. Sem er ekki alveg nógu gott því ég er eins hvínandi blankur og maður verður. Ég seldi bæði reverbin mín og vantar nýtt – er með þetta flókna í láni frá Ásgeiri – og það er réttlætanlegt af því ég fékk auðvitað pening fyrir þau sem ég seldi. Sennilega kaupi ég Digitech Polara ef kreditkortið mitt þolir það. Annars langar mig líka í góðan klon pedal – kannski JHS Soul Food eða Mad Professor Sweet Honey. Mig langar í turtlespedalinn frá Ásgeiri og mig langar í Tubescreamer en ég er ekki alveg viss um að ég vilji þann sem Ásgeir gerði – hann er fantagóður en hann byrjar eiginlega á of mikilli bjögun fyrir mig. Þarf einhvern sem nær meiri low-gain blústónum. Ég á samt eftir að gera einhverjar tilraunir með hann, kannski er þetta í boði. Þá vantar mig líka einfaldan eq-pedal. Ásgeirs er frábær og ef ég ætti meiri pening myndi ég kaupa hann líka – en ég held að venjulegur Boss myndi gera mér meira gagn. Hreina rásin á Orange-magnaranum mínum er alveg eq-laus. Í bili er samt ósennilegt að ég hafi efni á öðru en reverbinu og kannski turtlespedalnum (ég hef ekki hugmynd um hvað hann kostar). *** Dick Dale dó í fyrradag og er augljóslega gítarleikari vikunnar. Hann veit ekkert hvað það þýðir að vera smekklegur. *** En vegna þess að ég gleymdi gítarleikara vikunnar í síðustu viku þá er tvöfaldur skammtur núna. Hún veit ekki heldur neitt um smekklegheit og er greinilega mjög grobbin (og má vera það, á að vera það). Þetta varð nú lengra en ég hélt það yrði.