Uppljóstrun

Ég fæ yfirleitt ekki mikil viðbrögð við þessum færslum mínum, ekki einu sinni þegar þær fá mikinn lestur – sem gerist af og til. Stundum einhver komment á Facebook og svona. Ekki bréf. Ekki sms. Skilaboðaforritin mín loga ekki. En nú bregður svo við að allir og amma hans vilja vita um hvaða hræðilegu bækur ég var að tala hérna í gær. Hver skrifaði svo vitleysislega bók að hún fór fyrir brjóstið á mér og hver skrifaði svo ægilegt torf að jafnvel ég, með allar mínar margfrægu gáfur, botnaði ekkert í henni? Ég hef engum sagt það enn. En er þó svo miskunnsamur við lesendur mína að nefna að sennilega myndu þeir ekki þekkja þær þótt ég nefndi þær. Báðar bækurnar eru nefnilega sænskar og hvorug þeirra neitt heimsfræg – og alls ekki neitt úr íslenska jólabókaflóðinu einsog svo margir virtust hafa ályktað. Þær eru ekki einu sinni nýjar og voru líklega aldrei metsölubækur. Og ekki skáldsögur. Sú tormelta er ljóðabók og sú léttmelta teiknimyndasaga. Ljóðskáldinu hef ég mætur á þótt mér líki ekki þessi bók og teiknimyndasöguhöfundinn hef ég ekki lesið áður. Meira fáið þið ekki að vita enda ætti þetta að vera feykinóg. *** Ég gleymdi víst að nefna það hér í gær að Frankensleikir er kominn á Spotify . Þið getið t.d. bætt honum á jólalagaplaylistann ykkar og gyllt með því jólahátíðina. Eiginlega er alls óvíst hvort jólin koma nokkuð ef þið sleppið því. Svo heyrðist í honum í útvarpinu í gær. *** Nú er ég að gíra mig upp í að slökkva aftur á samfélagsmiðlum. Jólabókaflóðinu er kannski ekki alveg lokið en þetta drífur sig meira og minna á eigin vélarafli síðustu dagana. Ekki það ég hafi verið að gera mikið gagn heldur, en það er önnur saga. Ég verð enn sem áður hér á blogginu – en lesturinn fer vel að merkja alltaf niður í svona tíu prósent af því sem hann annars er þegar ég slekk á ófrenjunni. Facebook er gáttin sem allir nota til þess að finna sér lesefni og því sem ekki er deilt þar má segja að eigi sér stað í bakherbergjum internetsins. Ef ekki bara bakherbergjum veruleikans. Ef það á sér yfirleitt stað. *** Annars er ekki allt slæmt við algóritmann. Í dag benti hann mér á skemmtilegt viðtal við Fran Lebowitz í Guardian, lista Book Riot yfir 30 bestu bækur ársins (spoiler, 27 eru eftir konur og meirihluti karlabókanna – þ.e.a.s. 2 af 3 – eru hinseginsögur; allar eru amerískar og engin er þýdd; fimm eru „hefðbundnar“ fagurbókmenntir en fantasían dómínerar). Já og Guardiangrein um að listamönnum úr verkalýðsstétt hafi fækkað á síðustu fimmtíu árum – í takti við fækkun fólks úr verkalýðsstétt, en samt þannig að maður er enn þrisvar sinnum ólíklegri til þess að hasla sér völl í tónlist, bókmenntum og myndlist ef foreldrar manns eru úr verkalýðsstétt. Og eiginlega hefur maður aðeins minni líkur á að ná því í dag en 1970. Svo fann ég umræðu um neikvæða dóma í sænskumælandi Finnlandi – sem eru til umræðu nú eftir að ljósmyndasýning Davids Lynch á Helsingfors Fotofestival fékk mikla útreið (mér skildist á persónulegum samræðum við finnskan vin á dögunum að þar í landi væri almennt talsverð umræða um það þessas dagana hvernig fólk sem er frægt í einum bransa nýtir þá frægð til þess að fá athygli í öðrum bransa). Útgangspunkturinn í finnsku umræðunni var að neikvæð krítík hverfi þegar krítíkerarnir upplifi sjálfir að listformið sem þeir rýna í – og hafa gjarnan ást á – sé sjálft í útrýmingarhættu, en þegar listformið standi sterkt leyfi gagnrýnendur sér heldur að slátra hægri vinstri ef þess gerist þörf. Jákvæðnin sé eins konar vopn til þess að endurvekja áhuga fólks á list í útrýmingarhættu. Ég gat ekki varist að setja þetta í samhengi við stjörnuregn haustsins og þá fullyrðingu, sem ég hef séð ítrekað haldið fram, að það sé tilkomið vegna þess að skáldsagan sé svo sterk í ár – þetta sé svo sterkt haust. Alveg burtséð frá gæðum verkanna má velta því fyrir sér hvort jákvæðnin í dómunum sé til marks um einhverja tilvistarkrísu bókmenntanna. *** Þetta verður síðasta færslan sem ég deili á samfélagsmiðlum í bili. En ykkur er alveg óhætt að líta hér inn á morgun líka. Og hinn. Og héðan gætuð þið haldið bloggrúntinum áfram yfir til Brynjars , Ármanns eða Berglindar – og jafnvel Snæbjörns , ef hann afþaggar einhvern tíma í sjálfum sér, og Ásgeirs , ef hann er ekki hættur. Zuckerberg verður ekki ánægður með að þið sleppið milliliðnum en við hin tökum ykkur samt fagnandi að venju. Allavegana ég.