Tvær hræðilegar bækur

Á dögunum las ég tvær bækur. Það skiptir ekki máli hvaða tvær bækur. Sú fyrri var einhvern veginn þannig að mér fannst hún misbjóða vitsmunum mínum með því að útskýra stöðugt fyrir mér eitthvað sem mér þótti algerlega sjálfsagt – eða enn verr, bera eitthvað á borð einsog það væri djúpvitur viska sem var augljóst að höfundurinn hafði ekki hugsað neitt um og var ekki á leiðinni að fara að íhuga neitt heldur. Svona einsog hræðilegustu málshættir. Alveg hræðilegt þunnildi, fannst mér, en ég hugsaði á sama tíma að ef ég hefði lesið hana þegar ég var á þrítugsaldri hefði mér kannski fundist hún betri. Henni var augljóslega beint að þeim aldurshópi – voða mikið tilvistarkrísudjamm og kærustuparavesen. Í hinni bókinni var mikið frumskrifað torf en líka stöðugt vitnað í einhverja stærðfræðinga og rökfræðinga og þungaviktarheimspekinga til þess að koma boðskapnum á framfæri – en ég fann tilfinnanlega fyrir því að mig skorti bæði vitsmuni og sennilega líka metnað til þess að komast til botns í því sem verið var að segja. Ég gæti ekki einu sinni sagt ykkur, svo vel væri, um hvað hún var. Þetta er, vona ég, ekki bara spurning um vitsmuni og metnað heldur traust. Treysti ég því að það sem bókin ætlar að segja mér með torfinu sé erfiðisins virði. Sumum finnst að vísu erfiðið sjálft vera verðlaunin og það er ekki alveg úr lausu lofti gripið – það er eitthvað í því – en ég myndi gjarna vilja vita það fyrirfram. Því þetta er líka stundum einsog einhverjar intellektúal pósur. Ég þarf að finna einhverja samúð með prójektinu til þess að leggja þetta á mig. Og ég þarf kannski líka að hafa einhverja tilfinningu fyrir því fyrirfram út í hvað ég er að leggja. Allavega. Ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þessu, annað en að segja að það er ýmislegt sem þarf til að bækur hitti mann í hjartastað.