Búinn að skera laufabrauð, missa af jólahlaðborði og borða eintóman graflax í kvöldmat (tvisvar). Jólahefðirnar tínast inn ein af annarri – það er tékkað í boxin. Við losnum við jólahreingerninguna í ár af því við förum til Svíþjóðar um jólin, nema ég sinni henni einn í næstu viku – Nadja og krakkarnir fara á undan og það væri kannski ekkert geggjað leiðinlegt að koma heim í sæmilega röð og reglu. Það gæti líka verið að ég leggi gólfhita í eldhúsið. Ég á allt í það og hef verið að fresta því síðan í ágúst. En þá er ólíklegt að ég taki mikið til. Annars kannast ég ekki alveg við þetta jólastress sem fólk talar um. Eða – ég kannast alveg við að árstíðin sé stressandi en yfirleitt er þetta stress allt öðruvísi útlítandi heima hjá mér en mér sýnist hjá flestum. Nadja er fyrst og fremst að klára skólaárið og því fylgja slímsetur við tölvuna og þetta dæmigerða kennaraálag – ég er oftast með bók í jólabókaflóðinu og því fylgir stundum talsverð aukavinna en líka bara einbeitingarskortur og hégómaeitrun. Ég þyrfti eiginlega að fá tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna vikulega frá því um miðjan september, bara svo mér finnist ekki einsog veröldin sé að leggja sig í líma um að gleyma mér. En þetta þarna jólastress með að þrífa og skreyta og baka – það er bara ekki mjög kunnuglegt. Við þurfum ekki að mæta í nein ósköp af jólaboðum – ég er ekki á neinum vinnustað og jólahlaðborð MÍ er eftir að Nadja er farin. Við erum með nokkur ljós sem fara í gluggana og dót sem fer upp úr kössum og á borð og í gluggakistur. Ég tók til og skúraði og leyfði svo Nödju og krökkunum að koma því fyrir. Þegar við erum heima er jólatré – því fylgir smá umstang. Reyndar er jólatréð frá því í fyrra ennþá úti í garði. Það er að vísu ekkert barr á því. Sjálfur er ég alinn upp við að vera með lítið gervijólatré og finnst allt mæla með því – en það er víst nóg á skógarelskandi skandínavann lagt að flytja hana til þessarar gróðurauðnar sem þetta land er að ég fari ekki að setja mig upp á móti „alvöru“ jólatrénu líka. Stundum er svolítið stress að ná öllum jóladagatölunum í tæka tíð – svo það sé líka hægt að lesa (við lesum enn fyrir krakkana á kvöldin og svo lesa þau líka sjálf – þetta er frekar tímafrekt kvöldritúal). Nadja og krakkarnir hlusta á sænska útvarpsdagatalið á morgnana en eftir kvöldmat horfum við öll saman á íslenska og sænska sjónvarpsdagatalið. Svo þarf að æfa fyrir jólatónleika tónlistarskólans – Aram sér núorðið alveg um sitt sjálfur en við Aino tökum stutta æfingu daglega. Við bökum þegar og ef við höfum tíma. Nadja gerði piparkökudeig og mér finnst sennilegt að hún baki eitthvað úr því áður en hún fer á fimmtudag. Ég fer varla að baka fyrir sjálfan mig eða til að taka með mér þegar ég fer (viku á eftir þeim). En ég hef yfirleitt bakað að minnsta kosti eina sort. Svo er alltaf smá stress í kringum matinn þegar við erum heima – og sosum líka þegar við erum úti, en það deilist þá á fleira fólk. Ég á líka eftir að kaupa flestar gjafir en ég er í sjálfu sér með svona fremur skýrar hugmyndir um hvað þær eiga að vera. Svo erum við öll búin að vera lasin, sem er nú góðs viti því þá verðum við vonandi ekki lasin yfir sjálfar hátíðirnar. Nema við fáum einhverja glænýja flensu í Svíþjóð. En svo hef ég ekkert verið yfirdrifið upptekinn í ár heldur. Í jólabókaflóðinu, meina ég. Ég hef mest verið að elta skottið á sjálfum mér. Hvað sem líður viðtökum Frankensleikis – sem eru frábærar – þá hef ég eiginlega ekki haft neitt að gera við að fylgja bókinni eftir. Ég hef lesið upp einu sinni og það var í forföllum fyrir Bergsvein Birgisson, sem komst ekki á Opna bók. Jú og reyndar líka í útgáfuhófinu mínu. Fór í eitt viðtal í Fréttablaðinu og eitt í Ísland í dag. Ég hef í sjálfu sér ekkert verið að eltast við að gera meira – hef ekki verið neitt mjög hress í haust – en mér hefur heldur ekki verið boðið að gera neitt meira. Í þessum blúsaða gír hentar mér þá ágætlega að vinna bara einn með sjálfum mér. Það var þannig sem Frankensleikislagið kom til. Ég byrjaði að semja það snemma í haust eftir prófarkalestur bókarinnar – þegar ég var líka stopp í skáldsögunni sem ég er að vinna í (ég er aftur stopp núna). Síðan varð ég meira blúsaður og fannst þetta lag bara vandræðalega hræðilegt og lagði það til hliðar – eiginlega var bara handvömm að ég eyddi því ekki. Þetta er líka mjög undarlegt lag. Erindin eru rúm mínúta á lengd af einhverju hálfblúsuðu indídóti en viðlagið er 10 sekúndur af ofsahressleika. Ég man ekkert hvað ég var að hugsa – nema jújú ég vildi að það væri hopp á milli. Að kaflarnir væru ólíkir. En fyrr má nú andskotans vera! Þetta er kannski ástæðan fyrir því að ég er ekki tónlistarmaður. Jæja, hvað um það. Þegar leið að útgáfuhófinu datt mér í hug að fá vini mína í Gosa til að spila með mér nokkur jólalög og þegar Baldur spurði hreinlega hvort það væri ekki ástæða til að henda í eitt frumsamið játaði ég að ég ætti til hálfklárað lag sem væri kannski hægt að flytja. Sem við og gerðum við góðan orðstír, einsog heitir. Þá um kvöldið var ég með ofsastórar hugmyndir um að klára þetta – fá strákana til að taka það upp með mér frá grunni, eða bara Sjökvist eða bara bæði og svo eitthvað all stars af lókal snillingum – Ödda og Rúnu, Stebba Baldurs, Árnýju Margrétu, Celebs-systkinin og Venna pabba þeirra, Bergþór Páls, Denna og dóttur hans, Hauk Magg, Madis og lúðrasveitina, Villa Valla, Gumma Hjalta – gera myndband, bóka Madison Square Garden og slá í gegn. Fá allt í senn humar, frægð og heimsyfirráð. Smám saman varð þetta að svo mikilli vinnu í höfðinu á mér – bara að ákveða nákvæmlega hvað það var sem mig langaði, hvað væri raunhæft, hvað væri skemmtilegt og hvað væri leiðinlegt – að það var alveg orðið óyfirstíganlegt að byrja. Nokkrum sinnum prófaði ég að opna lagið en tölvan var með endalaus leiðindi – fraus og ég gat ekki einu sinni hlustað á það sem ég var búinn að taka upp. Sem var furðulegt nokk ekki mjög hvetjandi til að halda áfram. Svo ég bara snerti ekki á þessu í tæpa tvo mánuði. Og þar við sat sem sagt alveg þar til í byrjun síðustu viku að forritið alltíeinu hrökk óvænt í gang – frostlaust. Þá endurútsetti ég viðlagið í snatri, lagaði textann, forritaði nýjar trommur og gerði nýjan millikafla og spilaði þetta svo allt inn upp á nýtt sjálfur á þremur dögum og 20 rásum. Leyfði svo Frankensleiki að taka gítarsóló í lokin. Á laugardaginn stökk svo Orri Harðar (sem á afmæli í dag! til hamingju með afmælið Orri!) inn á milli knattspyrnuleikja og masteraði upptökuna fyrir mig. Nú er ég búinn að henda þessu inn á allar helstu veitur (það er smá bið eftir Spotify – kemur vonandi upp úr helgi) og hafði meira að segja fyrir því að senda það á útvarpsstöðvarnar. Ef ég þéna meira en 18 evrur hef ég náð inn fyrir kostnaði. Nú eru tólf dagar til jóla og ég veit ekkert hvað ég á að gera af mér. Nema kannski sem sagt að taka til og leggja þennan rafmagnshita í eldhúsgólfið. Sem ég veit reyndar ekkert hvernig maður gerir. En það finnst kannski eitthvað út úr því. Einsog öðru.