Teiknimyndin Upp er fyrsta bíómyndin í fullri lengd sem Aram Nói horfði á. Við vorum tveir saman í Helsinki að þvælast – hann hefur verið á bilinu einsog hálfs til næstum tveggja. Planið var að fara í dýragarðinn en þegar við komum loks þangað eftir mikið strætóvesen reyndist hann loka fremur snemma. Þegar við komum á staðinn var enn opið en Aram þurfti að komast á klósettið og þegar við vorum búnir að sinna þeim erindum var ekki lengur sleppt inn. Aram varð eðlilega fremur leiður yfir þessu og skildi ekki alveg hvers vegna við máttum ekki fara inn fyrst við vorum komnir og enn fólk í garðinum. Og ég skildi það ekkert mikið betur sjálfur. Til þess að bæta honum þetta upp ákvað ég að við færum í bíó. Við strætóuðum okkur aftur niður í bæ til þess eins að finna enga barnamynd í sýningum á ásættanlegum tíma. Þá fórum við aftur í íbúðina sem við vorum með í láni, drógum fyrir gluggatjöldin svo íbúðin var alveg myrkvuð, poppuðum og horfðum á ólöglega niðurhalað eintak af Upp með ensku tali. Ég átti frekar von á að hann myndi bresta þolinmæði en hann sat grafkyrr allan tímann, einsog dáleiddur. Meðal annars af þessum orsökum er myndin í uppáhaldi hjá mér. Og þetta var s.s. myndin sem kvikmyndaklúbbur fjölskyldunnar horfði á síðastliðin föstudag. Ég valdi. En þótt hún sé í uppáhaldi finnst mér hún ekki jafngóð í gegn. Fyrstu fimm-tíu mínúturnar – þegar farið er í gegnum æviskeið herra og frú Fredricksen – eru svakalegar. Ég lýg því ekki að ég græt alltaf þegar ég sé byrjun myndarinnar – og ekki endilega vegna þess að draumar þeirra rætist ekki, ekki af þannig sorg, heldur einfaldlega af því það er eitthvað ótrúlega fallegt við líf fullt af kærleika og vonbrigðum og sigrum og þetta er mjög stór skammtur og vel fram borinn. Ferðalagið með húsinu til S-Ameríku er líka skemmtilegt og samband þeirra Russells er gott. Ég næ hins vegar lítilli tengingu við ævintýrið í S-Ameríku – með talandi hundum og risafuglum og kaldlynda ævintýramanninum Charles Muntz. Myndin flýtur samt alveg út á enda á tilfinningum mínum í garð gamla mannsins og drengsins . *** Með börnunum las ég Handbók fyrir ofurhetjur IV: Vargarnir koma . Aino valdi. Við erum búin að lesa þennan bókaflokk frá því upphafi og bíðum alltaf eftir nýrri bók. Aino finnst þessi best af þeim sem komnar eru, þarnæst koma þrjú og eitt saman í öðru sæti og loks önnur. Það er mest aksjón í þessari – slagsmál og læti – og með henni er þessum hluta ævintýrisins lokið, Vargarnir og Wolfgang eru sigraðir (a.m.k. í bili). Það er mjög augljós feminísk slagsíða í bókinni og gert í því að láta aðalsöguhetjuna – Lísu – vera dómínerandi og sterka þrátt fyrir ákveðinn sjálfsefa, á meðan strákarnir eru flestir lúðalegri og/eða breyskari. Ég er ekki viss um að maður taki neitt eftir því ef maður er ekki vanur því að lesa „gamaldags“ ofurhetjubækur (ekki frekar en Aino setur neitt spurningamerki við að 80% af öllum prinsessubókunum hennar fjalli um einhvers konar pönk/uppreisnar prinsessur; það er engin andstæða við prinsessu í hennar huga eða uppgjör við neitt, hún þekkir ekki annað en það sé eðlilegt). Mér finnst fyrsta bókin best. Þegar Lísa finnur handbókina og fer að æfa ofurhetjutaktana. Þar er kynjavinkillinn ekki jafn kreistur og það er skemmtilegt touch að láta ofurhetjukrafta vera eitthvað sem hver sem er getur æft upp (ef viðkomandi kann æfingarnar og hefur trú á sér). Fjórða bókin er klassískasta ofurhetjubókin og líður svolítið fyrir að höfundarnir eru betri í dramatískri framvindu en hasartempói – það leysist alltof hratt og auðveldlega úr áhlaupi ofurhetjanna. Bókin er bara alltíeinu búin – „og svo unnu góðu og vondu töpuðu“, eða þannig. *** Ég kláraði tvær bækur í vikunni. Sú fyrri heitir Mosquito Coast og er eftir Paul Theroux – pabba heimildamyndagerðarmannsins viðkunnanlega Louis Theroux. Myndin fjallar um ameríska fjölskyldu. Elsti sonurinn, Charlie, er sögumaður en aðalsöguhetjan er í raun pabbi hans, Allie. Allir er eins konar survivalisti, uppfinningamaður og beiskur snillingur, sem hefur fengið nóg af bandarískri neyslumenningu og almennri heimsku samtímans. Hann tekur fjölskylduna með sér til Hondúras og flytur út í frumskóginn. Þar stofna þau nýlendu og hann býr til risastóra ísgerðarvél (sem býr sko til klaka, ekki rjómaís). Lífið er erfitt – ekki bara vegna þess að frumskógurinn er auðvitað svakalegur heldur ekki síst vegna þess að Allie er svo mikið dikk, sérsinna þráhyggjufullur drullusokkur sem engum hlífir (og alls ekki sjálfum sér). Dag einn rekast þau á nokkra hvíta menn með hópi af indíánum sem þau telja að stundi hvítt þrælahald. Þau koma þeim skilaboðum til mannanna að ef þeir komist yfir fjallið í nýlenduna þeirra bíði þeirra betra líf. Einhverju síðar birtast mennirnir og kemur fljótt í ljós að þeir voru alls ekki fangar indíánanna heldur lifðu á þeim sníkjulífi og hyggjast nú lifa sams konar sníkjulífi á nýlendubúunum. Allie reynir að koma þeim út með góðu en þegar það gengur ekki bíður hann þeim svefnstað í ísgerðarvélinni – sem lítur út einsog hvert annað hús – og kveikir svo á henni og læsir þá inni. Þeir reyna að skjóta sér leið út sem verður til þess að vélin springur í loft upp og áin og allt umhverfið mengast. Við þetta verður Allie ennþá geðveikari og fjölskyldan fer á hálfgerðan vergang í frumskóginum, lifir á drullu og ógeði á meðan einæði karlsins verður verra og verra. Ég læt vera að segja frá endanum. Frábær bók. Ef ég hefði lesið Sjálfstætt fólk myndi ég líkja Allie við Bjart en ég læt duga að líkja honum við Ahab. Ég hafði séð fyrir mér að ég myndi kannski læra eitthvað um Hondúras af lestri bókarinnar – þar sem ég er búsettur næstu mánuði – en svo var ekki. Í raun hefði bókin getað gerst í nánast hvaða frumskógi sem er (segi ég sem sérstakur spesíalisti í generískum frumskógum). Það var líka gaman að lesa hana og geta alltaf litið út um gluggann og upp í fjall og ímyndað sér að þarna væru þau, inn á milli trjánna – þetta er umhverfið. Þemun – úrkynjun vestræns lifnaðar og hin ógnvekjandi náttúra manns og skógar – eiga hins vegar ágætlega við hérna. Ég er meira í úrkynjuninni, auðvitað, og gætt allan sólarhringinn af byssumönnum, en hitt er allt hérna – Cerro Jilinco fjallatindurinn og frumskógurinn öðru megin við húsið en San Pedro Sula hinumegin, sem fram til 2016 var sú borg í heiminum þar sem flest morð voru framin miðað við höfðatölu (186 af 100.000). *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Bollywood-myndina Ankhon Dekhi. Hún fjallar um annars konar fjölskylduföður en Mosquito Coast, en kannski að mörgu leyti líka dómínerandi og sérsinna. Sá heitir Bauji og þegar myndin hefst er fjölskyldan í uppnámi vegna þess að dóttir hans hefur verið að hitta mann sem bróðir hans og fleiri segja að sé flagari og svikahrappur. Karlarnir í fjölskyldunni fara saman til að hrekja hann á flótta – og berja hann svolítið – en Bauji nær einhverri tengingu við hann og fullyrðir að hann sé ekki flagari heldur lamb og góðmenni. Upp úr þessu ákveður Bauji að hætta að leggja trúnað á neitt sem hann hefur ekki upplifað sjálfur – að gera eigin reynslu að eina mælikvarðanum á heiminn. Upp úr þessu segir hann upp starfi sínu á ferðaskrifstofu (af því hann getur ekkert sagt um staðina sem farið er á; hann hefur ekki komið þangað) og alls konar erfiðleikar hljótast af þessu – en hann endar líka með hóp af lærisveinum. Alls konar fjölskylduvinjettur eru sagðar – bræðrunum sinnast, einn sonurinn er að falla í stærðfræði, annar kemur sér í spilaskuldir, Bauji sver þagnareið og svo framvegis. Myndin endar svo á brúðkaupi dótturinnar og hins ætlaða flagara. Eða – það er smá meira í endann en ég læt líka vera að segja frá því, þótt ég ætli raunar alls ekkert að mæla með myndinni. Mér fannst hana skorta bæði þyngd og léttleika – einsog hún vissi ekki hvort hún vildi vera og tækist ekki að vera bæði í senn. Í stað þyngdar og léttleika komu þyngsli og losaraleiki. Frumspekipælingarnar um sannleikann og flugið og það allt saman voru líka bara á einhverju barnaskólaleveli. *** Loks las ég White eftir Bret Easton Ellis. Ég veit ekki hvort á að kalla þetta eina ritgerð eða ritgerðarsafn. Maður þarf svolítið að hafa fyrir því að minnsta kosti að tengja þetta allt saman í eitt – nema maður leyfi þemanu bara vera „hlutir sem BEE var að spökulera“. Bókin hefur farið mjög misvel ofan í marga og skildi engan undra enda er hún árás eldri manns á þá kynslóð sem ræður diskúrsinum í menningarkreðsum samtímans. Hún hefði fyrst misheppnast ef henni hefði verið vel tekið. Og raunar leggur BEE upp með að „sérálitið“ sé eina álitið sem máli skipti – og samtíminn, sem er mjög konsensusmiðaður og vill helst ekki líða mikla misklíð í samræðunni (sá sem segir ranga hluti er rangur), vilji bara geta dæmt rétt/rangt fremur en að ræða gráu svæðin (enda sé sú umræða ævinlega særandi). Reyndar má líka nefna það – og það er mikilvægur hluti af mismuninum milli gullaldar BEE og samtímans – að BEE varð frægur fyrir að skrifa bækur sem voru ofsalega brútal árásir á hans eigin kynslóð, á siðleysið og brjálæðið og sinnuleysið á níunda áratugnum. Um þetta fjalla Less Than Zero og American Psycho. Að hann haldi áfram að láta ungt fólk fara í taugarnar á sér – og sjái það sem fyrsta skrefið að nýrri og ónýtri veröld – er það sem hann hefur unnið við frá því hann var innan við tvítugt (hann er 21 þegar sú fyrri kemur út – byrjaði á henni 16 ára – og 27 ára þegar sú seinni kemur út). Hann er heldur ekki óvanur mótlæti og neikvæðri krítík – bækur hans hafa allar verið mjög umdeildar og Simon & Schuster hætti við að gefa út American Psycho á síðustu stundu, dömpaði henni bara, og bókmenntaheimurinn hafnaði henni á þeirri forsendu að hún væri full af kvenfyrirlitningu og viðbjóði (sem hún er; en hún mælir nú ekki beinlínis fyrir því samt). Það er gaman að hugsa með BEE og hann er augljóslega leiftrandi í White. Mér fannst líka lengst af mjög skrítið til þess að hugsa að fólk hefði reiðst bókinni – eða hrist höfuðið yfir henni vandlætandi eitthvað um að djísus hvað þetta væri glatað, next – af því stærstur hluti hennar er bara hálfgerðar æviminningar listamanns sem var mjög lengi í hringiðunni (og er kannski að mörgu leyti enn) og fremur vönduð menningarumfjöllun. Og hún er – einsog æviminningar hálfsextugs manns eru oft – að mörgu leyti bara nostalgísk. Hann rifjar upp horfna tíma og telur þeim margt til tekna – ver þá gagnvart sumum breytingum samtímans. Nú gæti maður sagt sem svo að þetta sé rangt, samtíminn sé augljóslega betri en níundi áratugurinn, en það væri að falla í gildruna um gott og vont. Heimurinn er fyrst og fremst breyttur – hafi meðlíðan og tillitssemi aukist er ekkert skrítið að viðkvæmni og taugaveiklun aukist líka. Breytingar eru fyrst og fremst bara breytingar og þeim fylgja ævinlega kostir og gallar – lífið er ekki saumlaus framgangur þar sem allt bara batnar. Svo er líka bara ágætt að einhver verji siðlausari tíma á siðavöndum tímum – hvort sem mann langar að slaka á siðavönduninni eða ekki. Ég tel henni til tekna að vera ekki of formföst, of aristótetelísk og ljóðræn – að hún sé svolítið sundurlaus, svolítið pönk, svolítið hingað og þangað. Bandarískar bókmenntir – sérstaklega ritgerðirnar en líka skáldsögurnar – eru oft alltof lokaðar og kláraðar einingar, svona MFA-gullinsnið eitthvað. Mér finnst það alveg hryllilega leiðinlegt og ófrjótt, svona einsog að hlusta á ofpródúseraða músík (sem ríður reyndar líka röftum). Ég er ekki viss um að Bret Easton Ellis hafi nokkurn tíma talið sig sérstaklega þaggaðan eða kúgaðan – það er a.m.k. ekki að sjá á bókinni, þótt honum verði tíðrætt um andrúmsloft þöggunar. Þar á hann við stemningu sem ég held að margir þekki – að það hafi aldrei verið mikilvægara að gæta þess að segja ekki einhverja vitleysu því það geti kostað mann mjög mikið (og það jafnt þótt maður biðjist afsökunar eða hafi þegar beðist afsökunar fyrir löngu), og þar rekur hann ótal dæmi og flest þeirra af valdamiklu fólki (einsog leikstjóra Guardians of the Galaxy). Í restina af bókinni er samt einsog hann sé búinn að pólarísera sig út í horn og sjálfur farinn að sjá allt í svart-hvítu. Óþol hans fyrir PC-fólkinu nær algerlega yfirhöndinni – þegar hann fer að skammast í hverjum hollywoodleikaranum á fætur öðrum fyrir að skammast yfir Trump (einsog það sé rangt eða glatað að skammast yfir forsetum og pólitík) og nær einhvers konar hámarki þegar hann hnýtir í klámmyndaleikkonuna Stormy Daniels fyrir að hafa selt söguna af því þegar hún reið Trump. Þá finnst manni hann vera farinn að væla jafn mikið og fólkið sem hann gagnrýnir – bara röfla og væla, ekki trolla, ekki vekja upp umræðu, bara svona mje-mje-mje. Það breytir svo litlu um að lýsingar hans á níunda og tíunda áratugnum eru áhugaverðar og stór hluti af gagnrýni hans á samtímann virkar bara frekar trúverðug. Og þrátt fyrir alla sína galla – og kannski meira að segja aðallega vegna þeirra – er þetta bók sem ástæða er til að setjast niður og lesa og leyfa sér að hugsa með (og gegn). *** Gítarleikari vikunnar er Bonnie Raitt.