id““:““9o5du““

Aftur að því sem máli skiptir. Breiðskífan Highway to Hell kom út þann 27. júlí árið 1979. Í millitíðinni höfðu drengirnir sent frá sér live-plötuna  If you want blood you’ve got it . *** Einsog ég hef nefnt eru nokkrir mælikvarðar til þess að mæla AC/DC lög. Gæði er einn, og gildur flokkur, en eitt af því sem kveikir í mér – og er oft í samfloti við gæði, en alls ekki alltaf – er einfaldlega  hversu mikið AC/DC er þetta AC/DC lag?  Þú veist, á skalanum frá 1-10. Þetta er sérstaklega relevant spurning vegna þess að tónlist AC/DC snýst um einhvers konar kjörnun, frekar en framþróun eða feril – þótt slíkt sé auðvitað óhjákvæmilegt líka. En þetta eru ekki Bítlarnir. Það er ekki verið að finna upp hjólið – það er verið að fullkomna það. *** *** Highway to Hell, titillagið og fyrsta lag plötunnar, er fyrsta lagið á ferli sveitarinnar til að ná 10 á AC/DC skalanum – AC/DC-aðasta lagið á ferlinum til þess og nógu AC/DC-að til að það verður ekki toppað, þetta er í besta falli hægt að jafna (og á eftir að gerast oft). Hrein tía – ekki besta tían (sennilega er það Hells Bells), ég er ekki einu sinni viss um að þetta sé besta lagið á plötunni – en ótrúleg kjörnun. Engu lagi líkt. Það vissi enginn að þetta væri einu sinni hægt. *** Besta lagið á plötunni er samt Touch too Much. En það er ekki nema nía á AC/DC skalanum. Það er sennilega hátt í tíuprósent ABBA í þessu – sjáið þetta bara fyrir ykkur, heyrið það fyrir ykkur, í þröngum latexgöllum, Björn á bassa, Benny á keytar og Agnetha og Anni-Frid á háu c-unum. *** *** Á Highway to Hell finna þeir líka sándið sitt – eða fínpússa það eða hvernig maður vill orða það. Þeir halda því ekki hreinu í gegn en það er þarna. Og kemur að vísu ekki til af góðu. Þeim hafði ekki lánast að slá í gegn í Bandaríkjunum – eða fá þar útgefna plötu – og voru þvingaðir til að skipta um pródusent. Það var ekki síst sársaukafullt vegna þess að annar í dúettnum sem hafði pródúserað þá fram til þessa var stóri bróðirinn – George Young – og hinn, Harry Vanda, var auðvitað orðinn náinn þeim líka, nánast einsog hver annar bróðir. *** Við tökkunum tók Eddie nokkur Kramer sem ætlaði að fá þá til að gefa út einhvers konar koverlagaplötu – eða í það minnsta láta singlana vera koverlög. Honum þótti alls ekkert til lagasmíða bræðranna koma. Og var í kjölfarið hrakinn á flótta með munnsöfnuði sem verður ekki endurtekinn hér. Næstur kom Robert „Mutt“ Lange til sögunnar – og hvað sem manni finnst um árin á undan og árin á eftir – þá eru næstu þrjú árin undir hans stjórn algerlega fúndamental í sögu hljómsveitarinnar. Þar er borað að innsta kjarna rokkgrýtisins og allur krafturinn virkjaður. *** Ég ætla ekki að hafa þetta of langt í dag. En það væri fáránlegt að setja ekki inn Night Prowler. Fjöldamorðinginn Richard Ramirez hélt mikið upp á þetta lag og var einlægur aðdáandi sveitarinnar. Hann kallaði sig sjálfur Night Stalker. Það vakti auðvitað mikið umtal á sínum tíma – verstu pótintátarnir kenndu AC/DC bara um allt saman. It’s the devil’s music o.s.frv. Og það orðspor átti eftir að elta þá næstu árin. Lagið fjallar samt bara um eitthvað næturhangs – og að heimsækja kærustuna sína í foreldrahúsum að næturlagi. *** #ACDC