createdTimestamp““:““2024-06-06T09:02:48.601Z““

Þetta mjatlar áfram. Skúli frændi (mennski) leit við í gær og ég ætlaði að monta mig af gítarnum en hann sagði að hann vildi nú ekki vera leiðinlegur, en að hann liti miklu betur út á myndum. Sem er auðvitað alveg satt. Það er eitt og annað sem sést illa á myndum. Til dæmis er sveigjan á búknum niðri við innputið ekki alveg rúnnuð. Svo eru smotterís skemmdir hér og þar – í kringum brúarstoðirnar og hér og þar við bindinguna. Sumt dylst nú þegar ég er farinn að bæsa en annað verður eiginlega meira áberandi. Bæsið sest illa þar sem hefur sullast mikið af lími, til dæmis. Allt sem ég geri í höndum er pínu off – ég er auðvitað gersamlega hæfileikalaus smiður, annálaður klaufi og hef ekkert að vinna með nema þolinmæðina. Gunnar vinur minn, sem er myndlistarmenntaður, segir hins vegar að þetta sé allt mjög impónerandi og ég eigi ekkert að vera að láta Skúla skyggja á grobbið í mér. Ég hef auðvitað enn mestar áhyggjur af því að hann eigi ekki eftir að sánda – hitt er aukaatriði. Ég er hins vegar, eftir 17 ár í bókaútgáfu, orðinn alveg ófær um að leggja mat á eigin verk. Ég tek bara mark á öllum öðrum – í þeirri röð sem þeir koma. En hvað gerði ég svo í vikunni? Ég fræsti fyrir pikköppunum. Svo æðafyllti ég mahóníið og pússaði það niður. Mér tókst að skemma bindinguna með því að pússa mig í gegnum hana á einum stað – versta stað eiginlega, ofaná búknum vinstra megin, þar sem það blasir við að eilífu. Ég fjarlægði það sem var eftir af henni og festi svo nýja – bræddi hana saman við gömlu með asetóni en það mun alltaf sjást svolítið. Önnur samskeytin hurfu næstum alveg en lituðust svo upp þegar ég bæsaði hann. Og það birtist óvænt líka lína hinumegin. Þetta er áður en ég bæsaði. Ég gleymdi að taka mynd af hinu og hann er úti í bílskúr að þorna (ég var að olíubera hann). En þið sjáið staðinn þar sem ég er búinn að bera brædda bindingu í sárið. Það er brún lína þarna undir sem kom aftur og betur í ljós þegar ég pússaði þetta niður. Ég veit ekki hvernig er best að díla við þetta. Nadja stakk upp á að ég myndi bara lita hana en ég veit ekkert hvaða lit er best að nota – hvað festist á svona – og er eiginlega bara pínu lost. Svo pússaði ég hann og gerði hann fínan. Ég gerði spýtu með vírlykkju á endanum sem ég gat fest í hálsvasann. Svo teipaði ég bindinguna og vasana, stakk plastpoka í f-gatið og eldhúspappír í holurnar fyrir brúarstoðirnar. Fyrst bæsaði ég hann svartan, leyfði því að þorna og pússaði það niður. Þetta er til þess að æðarnar komi betur í ljós. Þarna sést líka hvar hefur sullast lím – t.d. á milli pikköppvasanna, við brúarstólpana, norðan af pottavösunum og einn blettur þarna neðst vinstra megin. Eitthvað af þessu minnkaði svo þegar ég fór að nudda bæsinu betur í. Gunna fannst þetta eitthvað rorschachlegt svo ég pússaði aðeins niður og bæsaði bara létt yfir það. Liturinn er eitthvað í áttina að búrgundí – rauður með smá, smá bláu. Næst á dagskrá var að skrapa bæsið af bindingunni. Það var auðvitað kolómögulegt að hylja þunna kantinn svo hann var allur orðinn rauður. Þetta var talsvert þolinmæðisverk – en Nadja var í strandagöngunni og krakkarnir hjá vinum sínum svo ég sat bara og skrapaði með rakvélarblaði meiripart sunnudags. Svo raðaði ég öllu saman til að sjá hvernig þetta myndi lúkka. Mig vantar enn skrúfurnar í klórplötuna og krómaða ramma utan um pikköppana (er ég alveg hættur að segja hljóðdósir?). Ég ákvað líka að nota rhythm/treble hringinn af Gibsoninum mínum – sem hefur aldrei verið á honum, vel að merkja, fylgdi bara með. Þetta skítlúkkar allavega á mynd. Það liggur við að mig langi að bæsa blátt inn í f-gatið. Í morgun kom svo tung-olían frá Byko. Ég er búinn að bera á hann eitt lag og mun skjótast út í bílskúr annað veifið yfir daginn til að setja fleiri. Svo þarf ég bara að pússa hann og bóna hann og festa allt við hann. Næsta áskorun er að tengja vírana alla rétt. Ég kann víst enn minna um rafmagn en ég kann í smíðum. *** Ég ætlaði að útnefna Nitu Strauss og Angel Vivaldi sem gítarleikara vikunnar. Þau eru ofsalegar gítarhetjur af shreddaraskólanum – hún hefur spilað með The Iron Maidens og Alice Cooper, og er gestur í einu lagi hjá honum. Hann er ekki skyldur Vivaldi, hinum eina og sanna, en hún er hins vegar skyld öllum frægu Straussunum og mér skilst að allir aðrir í fjölskyldunni séu klassískir tónlistarmenn. Lagið hans Vivaldis er bara svo æðislega leiðinlegt að ég hætti við. Í staðinn er það Angus Young – sem er einn af mínum allra uppáhalds. Í síðustu viku las ég Blues People eftir ljóðskáldið LeRoi Jones – síðar Amiri Baraka – þar sem hann ítrekar að afskipti hvíta mannsins af blústónlistinni hafi alltaf snúist um að beisla hana, siða hana til, laga hana að evrópskum tónstigum, og það eigi við alveg frá því farið var að taka upp blúsinn, eigi ekki bara við um hvíta blúsleikara heldur allan bransann – og ekki síst manninn á upptökutækjunum. Nú snýst blúsinn auðvitað um alls konar míkróteygðar þríundir og sjöundir – auk blúsnótunnar frægu, lækkuðu fimmundinni – og er betri eftir því sem hljóðfærið er færara um að svíkja evrópska tónstiga. Blús á píanó er sjaldan góður – nema hann sé verulega djassaður og þá er hann að verða eitthvað annað, jú og auðvitað þegar hann er sunginn af einhverjum sem getur unnið gegn hinum hreinu tónum, einsog Ninu Simone. Blús á slædgítar – sem ber ekki virðingu fyrir neinu, helst frekar illa stilltur bara og jafnvel „lélegur“, surgandi – er yfirleitt frábær. Ég verð að viðurkenna að Angus kom oft upp í hugann sem möguleg undantekning frá reglunni um hinn siðaða hvíta mann – meira að segja góðu hvítu blúsararnir, Clapton, Stevie Ray, Page, eru allir frekar evrópskir, frekar klassískir og kontróleraðir. En spilamennska Angusar liggur í einhverju öðru – og hún snýst ekki heldur um réttu riffin eða sófistikeruð múv, einsog mikið af Chicago-blúsnum, heldur einhverja snertingu, einhverja tilfinningu, einhverja leit út úr því sem hljóðfærið á að vera fært um. Og á sér kannski enga hliðstæðu á uppteknum tímum nema hjá Jimi Hendrix.