Ég er þreyttur og gamall í kvöld. Illt í bakinu og lúinn í liðunum og verkjar í lungun og vorkenni sjálfum mér mjög mikið. Nadja og Aram eru í Finnlandi og við Aino hittum þau í Svíþjóð á fimmtudag. Ég er að þrífa og skúra og taka til, sem væri sennilega ekkert mál ef ég væri ekki svona lúinn. Sennilega er ég bara með nokkrar kommur. *** Ég hlustaði á Life eftir Keith Richards og einhvern leynihöfund. Aðallega þegar ég var að mála í síðustu viku en líka aðeins með skúringunum. Þetta var mikið líf hjá honum, og er enn og verður sennilega um ófyrirsjáanlega framtíð. Ég hugsaði ýmislegt á meðan ég hlustaði á þessi herlegheit en megnið af því er fyrir bí – hefur bara gleymst. Bókin er 25 tímar í lestri. Mesta furða að hann muni svona mikið. Það eru þrír upplesarar sem skipta með sér bókinni – Joe nokkur Hurley les megnið, en Johnny Depp les fyrstu tímana og góðan slurk í seinnihluta bókar. Keith les svo sjálfur sirka síðasta klukkutímann. Hann er auðvitað með svolítið mikilmennskubrjálæði. Og gefur að skilja. Það hlýtur að vera erfitt að miklast ekki af því að vera Keith Richards. Hann gerir reyndar mjög mikið úr því hvað Mick Jagger hafi orðið merkilegur með sig í gegnum tíðina. Sem er fyndið, því það er ekki beinlínis einsog Keith sé eitthvað að drepast úr hógværð sjálfur. Hann gerir mjög mikið úr opnu stillingunni sem hann spilar í. Að stilla í „Keef“ er að spila opinn G og losa sig við efsta strenginn. Fimm strengir – G D G B D. Hann talar um þetta einsog þetta hafi í senn verið ægileg uppgötvun og enginn hafi vitað þetta – hann hafi verið að sýna frægum blúsurum þessa stillingu baksviðs og þeir bara gapað. En á sama tíma viðurkennir hann að þessi stilling var ekki bara mikið notuð í blús nokkurn veginn frá sköpun blússins heldur er þetta auk þess standard stilling t.d. á fimm strengja banjóum. Opnar stillingar eru gríðarlega algengar í allri alþýðutónlist. Þannig nær hann að búa þetta sem bæði fullkomna nýjung og algerlega upprunalegt – sem er auðvitað það sem er kallað að vera „orginal“. Bæði nýtt og gamalt í senn. Kannski er flest í bókinni þessu merkt – reykur og speglar, galdrabrögð til að láta hið nýja virðast gamalt og hið gamla nýtt í senn. Og ætli það sé ekki bara ágætis lýsing á tónlist Rolling Stones líka? *** Ég las Tímaþjófinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Ég á að vísu eftirmálann eftir. Það er mikið snilldarbragð að vera ekkert að drífa sig að lesa bækur sem eiga að heita skyldulesning. Ég er allavega mjög sáttur við að eiga góðan slatta af slíkum eftir. Einn daginn mun ég jafnvel lesa Sjálfstætt fólk! Tímaþjófurinn er stórkostleg bók – meistaraverk – og ég er stærri fyrir að hafa loksins lesið hana en mér lá ekkert á að stækka; lífið er langt. Alda er auðvitað fullkomlega óþolandi – það eru fá orð um hana hafandi, sé maður heiðarlegur, sem myndu ekki hljóma einsog stækasta kvenhatur. Herramaður lætur ekki slíkan munnsöfnuð eftir sér. En á sama tíma er hún auðvitað líka dásamleg og maður tengist henni djúpum böndum, elskar hana og vorkennir henni. Bókin er síðan drifin áfram af þessum feiknalega persónuleika sem birtist manni í því ágenga, skemmtilega og ljóðræna tungumáli sem Steinunn ljáir henni – það er listin. Það gladdi mig líka hvað hugmynd bókarinnar er í senn einföld og hvað er kafað djúpt í hana. Það eru engin sniðugheit í þessari hugmynd og ekkert plott, ekkert sem kemur á óvart þar – en hugsanir Öldu og þráhyggjur hennar og rómantík og sjálfselska hennar og sárin hennar riða þennan heim saman og rífa hann í sundur; sem og sýn hennar á heiminn í kringum sig, sem er stundum kosmópólítan víðsýni og stundum alger borgaraleg þröngsýni og bæði drifið áfram af sömu vélinni. Forréttindablindu og frekju – sem er líka frelsi hennar og styrkur og staðfesta. Bæði hugmyndaveruleiki bókarinnar og stíllinn – sem veður hingað og þangað í dagbókarbrotum, frásögnum, þönkum, ljóðum – er eins langt frá þessu ameríska MFA-módeli hinnar aristótelísku formfestu og sniðugheita einsog hugsast getur. Tímaþjófurinn er lífrænt listaverk sem vex af eigin veruleika, vex af sjálfu sér, evrópsk bók – einsog Steinunn er auðvitað evrópskur höfundur. *** Aram er í Finnlandi og því lesum við Aino ein. Við bíðum með fjórðu ofurhetjubókina þar til við hittum Aram aftur en höfum verið að lesa styttri myndasögur alla vikuna. Þar bar hæst Ótrúlega sögu um risastóra peru eftir Jakob Martin Strid. Ég hef haldið mikið upp á Strid frá því ég las teiknimyndasögurnar hans fyrir fullorðna sem unglingur – ætli það hafi verið í Politiken? Ég las ekki margar þeirra en nóg til að nafnið festist í höfðinu á mér. Þær voru mjög dónalegar – mig rámar í eina af manni sem pissaði bara á fasista þegar hann var ósammála þeim. Það fannst mér mjög fyndið. Svo kynntist ég honum aftur sem barnabókahöfundi fljótlega eftir að Aram fæddist. Það eru engar kvenkyns persónur í Perubókinni. Í bíómyndinni – sem er annars að öllu leyti verri en bókin – er Mitsó kvenkyns og frá því við sáum hana hef ég bara leyft mér að hafa hana kvenkyns. Mitsó er þess utan langhressasti karakterinn í bókinni. Plottið er klassísk barnabókaendaleysa – bara skemmtilegri en þær flestar – sem ég veit ekki hvort ég nenni að rekja á bloggi sem er eiginlega hvort eð er mest fyrir sjálfan mig. Stóra breytingin milli myndar og bókar er að í bókinni eru öll vandamál leyst með góðsemi og greiðum. Mitsó og Bastían gefa sjóræningjunum vatnsmelónur í skiptum fyrir íslensku rafhlöðurnar sem þau þurfa í humáttavitann; og fá einfaldlega steininn af dularfullu eyjunni í gjöf frá Ódysseifi Karlssyni, að best má skilja í skiptum fyrir góðan félagsskap. Í myndinni er þetta allt leyst með átökum og undirferli – hlutum er stolið og allt gerist í einhverju aksjón – allir eru andstæðingar og enginn gerir neitt fyrir neinn. Og merkilegt nokk er sagan leiðinlegri þannig. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Frozen. Aino valdi þessa vikuna. Við feðgin keyptum okkur stóra pizzu með skinku og ananas og átum yfir hinu mikla meistaraverki Disney-fyrirtækisins. Aino var mjög glöð að geta valið hana nú þegar Aram er ekki á svæðinu. Reglur kvikmyndaklúbbsins eru þannig að það má beita neitunarvaldi ef maður vill ekki sjá einhverjar myndir. Aram hefur séð Frozen um það bil þúsund sinnum, hélt mikið upp á hana þegar hann var yngri og honum er alveg vorkunn að vilja ekki sjá hana núna. Aino sér hana þess utan alltaf annað veifið hjá vinum sínum. Það er margt fallegt við Frozen. Við höfum lesið nokkrar sögur í stórri Disneybók frá því mæðginin héldu út og þær eru nú margar fremur hallærislegar (verst er samt Froskaprinsinn, held ég, að nokkur skuli vilja eiga þann skúnk mun ég aldrei skilja) – og þar kemur Frozen vel út í samanburði. Það er til dæmis gott tvist á mátt hinnar nýfundnu rómantísku ástar að láta hana a) reynast villuljós af því prinsinn er drullusokkur og b) hina sönnu ást vera systraástina. Hér mætti spegla Frozen í Tímaþjófi Steinunnar – þar finnst manni einmitt ást systranna Öldu og Ölmu vera miklu raunverulegri en þrá yngri systurinnar eftir einhverjum vitleysiskalli sem ekkert vill nema eigin framgang. Í Frozen áttar Anna sig reyndar í tæka tíð og kýlir sinn drullusokk fram af brú. Anna er líka miklu „heilsteyptari“ manneskja en aumingjans Alda. (Sem maður ætti samt ekki að vorkenna, hún er óttalegur drullusokkur líka – en svona er þetta, maður ræður ekkert hvar samúð manns lendir). Auðvitað er Frozen óttaleg sykurleðja samt. Tónlistin og útlitið og meira að segja húmorinn. Sagan víkur rétt nóg af „beinu“ brautinni til að gleðja mann – og hefði sennilega aldrei notið þeirra vinsælda sem hún gerir ef hún hefði farið lengra af brautinni. Verst finnst mér samt hvað Anna fellur í skuggann af systur sinni – þessi saga fjallar eiginlega ekki neitt um Elsu en samt fær hún að vera aðal. En hún neglir börn í hjartastað – a.m.k. bæði mín, á ákveðnum aldri, og til þess er víst leikurinn gerður. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins – sem þessa vikuna var skipaður mér einum – horfði á Blue is the Warmest Color/ La Vie d’Adèle – Chapitres 1 & 2 eftir Abdellatif Kechiche. Þetta er frönsk mynd um unga stúlku sem verður ástfangin af annarri aðeins eldri stúlku, þær byrja saman, elska hver aðra mjög mikið og búa saman í nokkur ár, sú yngri heldur að sú eldri sé að halda framhjá sér, fer sjálf að halda við strák, það kemst upp, þær hætta saman og sú eldri byrjar með þessari sem sú yngri hélt að hún væri að halda framhjá með en hin verður mjög, mjög, mjög óhamingjusöm í mjög, mjög langan tíma. Ekki jafn langan og Alda í Tímaþjófinum – en allavega mörg ár og sér raunar ekkert fyrir endann á eftirsjá hennar og þunglyndi þegar myndinni lýkur. En auðvitað fjallar myndin ekkert um það. Eða þannig. Ég man að einn ónefndur vinur minn var alveg ónýtur eftir að hafa séð hana – eða allavega mikið eftir sig, þetta væri bara gegndarlaust lesbíuklám. Í vikunni sá ég líka einhverjar lýsingar á nýjustu mynd Kechiche , sem var frumsýnd á Cannes. Leikararnir gengu víst út af henni, einsog allir aðrir, og það voru bara viðstöðulausar myndir af rössum og tuttugu mínútna munnmakasena inni á klósetti. Hún er sögð versta mynd í sögu Cannes (en þess sem ég sá vann Gullpálmann). Aðrar myndir hans eru víst svolítið í sama dúr. Maður sér vel í La Vie d’Adèle að slíkur höfundur er til staðar en hún er miklu minna gróf en ég átti von á og hlutgervingar kannski að mörgu leyti óhóflegar en það er bara alls ekki óviðeigandi (og þar með eru þær auðvitað hóflegar). Persónur ræða kvenlíkamann í listum, hina kvenlegu þrá; þær setja það í samhengi við Sartre, Egon Schiele, Gustav Klimt – Emma (sú eldri, Adèle er sú yngri) er málari sem málar konur og líkama. Þær heimsækja safn með klassískum styttum sem myndavélin hlutgerir einsog aðra líkama – sem var áhugavert, augun á mér festust alveg við spékoppana. Þetta var einn maður með tvo rassspékoppa þétt saman beint ofan við rasskinnarnar og svo kona með tvo spékoppa aðeins hærra en talvert lengra í sundur. En einsog manneskjan er bæði líkami og sál án þess að í því séu fólgnar nokkrar óleysanlegar (eða óviðlifanlegar) mótsagnir þá dregur hlutgerving myndavélaraugans á þeim ástkonum alls ekkert úr samlíðan okkar með þeim. Hún bara er, einsog þær eru, og eitt undirbyggir hitt – fólk elskar og elskast og þráir og missir og klúðrar og eyðileggur fyrir sjálfu sér og grefur sér þráhyggjugrafir, og það gerist allt meðal annars vegna þess að við erum (ofan í allt annað) líkamar, erum hlutir. Það getur vel verið að þetta sé klámmynd – og það má áreiðanlega analýsera hana í ræmur eftir pólitískum vanköntum – en hún er ekki minna listaverk fyrir það. *** Það sagði nú eiginlega sjálft hver yrði gítarleikari vikunnar.