Mig langaði að skrifa endurfæðsla. Einsog færsla. Födsel. Ég veit ekki hvers vegna en fæðing hljómar alltaf einsog eitthvað sem gerist af sjálfu sér en födsel eitthvað sem fólk framkvæmir. Konur. Og börn. Og endurfæðsla er þá eitthvað sem maður framkvæmir frekar en bara gerist.
Ég eyddi gömlu síðunni minni og færði allt hér inn. Starafugl er líka að hverfa af sínu gamla léni og verður framvegis á www.starafugl.norddahl.org – til þess að ég komist hjá því að borga 45 þúsund krónur á ári.
En einsog þið takið eftir eru gömlu færslurnar ekki í réttri röð. Það er mjög lítið af greinarskilum sem komu með í flutningunum. Þetta er eins konar skrá um blogg sem var en ekki sjálft bloggið. Ég nenni ekki að hafa áhyggjur af því. En ræð ykkur frá því að eiga nokkurn tíma í viðskiptum við Wix. Mér hafði verið ráðið frá því áður en ég hóf þau viðskipti en ég hlustaði ekki. Þið skulið hlusta. Varist Wix. Og Google Workspace. Nú er ég með allt inni á 1984 og ég held það sé þjóðráð.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég hef flutt heldur – bloggið hefur átt áreiðanlega tíu ólík heimili og á þeim tíma hafa margar færslur glatast. Ég lofa samt að ég er ekki að eyða neinu svo þið kanslið mig ekki fyrir eitthvað sem ég sagði 2004 (það var bæði æskilegt og leyfilegt að stíga á línur 2004 – veröldin er í ferli) og ef þið leitið finnið þið áreiðanlega eitthvað hérna sem er hægt að kansla mig fyrir hvort eð er. Eða bara í bókunum mínum – sérstaklega Nihil Obstat, Illsku og Hans Blæ (svona svo þið þurfið ekki að lesa allan katalóginn).
Allavega. Forsíðan er líka gamla síðan mín frá 2018 líklega – ég þarf að uppdatera hana. Og hliðarreiturinn í þessu bloggi frá 2020. Brúin yfir Tangagötu ný. Ég breyti því í ljóðabókina hvað á hverju.