Fullkomlega óþekkur

Ég fór á Dylanmyndina í gær. Ég hef engan heyrt kalla þessa mynd sínu rétta nafni og ég ætla ekkert að taka það upp. Dylanmyndin er fínt heiti. Svona ævisagnamyndir eru náttúrulega alltaf í aðra röndina mjög þvingað drasl. Og það verður því verra sem maður veit meira sjálfur um söguefnið. Ég er ekki mjög verseraður í Dylan sjálfum en ágætlega verseraður í atburðunum á Newport 1965 og eftirlætis tónlistarsagnfræðingurinn minn, Elijah Wald, skrifaði bókina sem Dylanmyndin er „byggð á“. Sem þýðir ekki að hún sé ekki full af rangfærslum sem er alls ekki að finna í bókinni. Það þýðir kannski í mesta lagi að þessar rangfærslur eru allar viljandi. Ég ætla ekki að fara að þylja þær hérna upp nema til að segja að skipuleggjendur voru hvorki mótfallnir rafmagnaðri tónlist, rokktónlist né frumsaminni tónlist. Dylan leit ekki svo á sjálfur að hann væri að spila folk-tónlist nema á fyrstu plötunni – sem var miklu meiri blúsplata en frumsamda efnið á kassagítarsplötunum, þetta sing-a-long dót sem hann fékk sjálfur fljótt viðbjóð á – af því Dylan áleit ekki frumsamin lög vera folk-tónlist. Hann var nefnilega líka púristi. „How many times must I say I am not a folk-singer before the people stop saying he’s not a folk singer“ sagði Dylan – nokkru áður en hann gerðist elektrískur.

Pete Seeger var almennt miður sín yfir dvínandi vinsældum folk-tónlistar meðal annars vegna þess að hann sá hana sem sameinandi afl en sá rokktónlist sem sundrandi afl – folk-tónlist væri tónlist samkenndar og rokktónlist tónlist einstaklingshyggju. Og hafði á réttu að standa, hvað sem manni svo finnst um rokk og folk. Að því sögðu hélt hann líka upp á ýmsa rokktónlist. En hann sá í Dylan – einsog er greinilegt í myndinni – mann sem gæti komið folk-tónlist á hæsta stall, og hafði kannski gert það í nokkur misseri. Hann var fjarska sár yfir þessu. Wald hefur bent á að í raun hafi enginn skipt um skoðun á Bob Dylan eftir Newport 1965 en hins vegar hafi ímynd Seegers umturnast. Fyrir Newport var var hann byltingarsinnaður hipster-afi (hann var jafngamall mér 1965) sem hafði ögrað McCarthy nefndinni, látið svartlista sig úr öllum helstu miðlum, og sameinað ótrúlegan fjölda fólks að baki réttindabaráttunni í suðurríkjunum með tónlist sinni og hugsjónum. Hann var mjúkur og ljúfur og staðfastur prinsippmaður sem naut virðingar og aðdáunar jafnt ungra sem aldinna. Eftir Newport var hann ótrúlega hallærislegur og íhaldssamur lúða-afi, kynþokkalaus hálfsköllóttur söngapi sem átti að hafa viljað höggva á kaplana í Newport með öxi (sú saga er sennilega komin til af tvöföldum misskilningi – þegar Dylan kom af sviðinu eftir elektríska settið gekk hann í burtu á sama tíma og Dylan, einhver spurði: hvert er hann að fara? og einhver svaraði: he went to get his axe. He verandi Dylan og axe verandi slangur fyrir gítar – Dylan var að sækja kassagítarinn til að klára settið, Seeger rölti bara í burtu vegna þess að hann var ósáttur og vildi ekki tala við Dylan).

Alan Lomax var – einsog er nefnt í framhjáhlaupi í myndinni – fyrst og fremst ósáttur við að The Paul Butterfield Blues Band fengi að spila á hátíðinni. Ekki vegna þess að hann væri folk-púristi heldur vegna þess að PBBB voru hvítir. Lomax var á kafi í Chicago Blues – sem hávær og rafmagnaður – og bæði Muddy Waters og Howlin’ Wolf höfðu spilað á hátíðinni áður. Hávær og rafmögnuð sett (Muddy reyndar líka mætt með kassagítarinn einu sinni, en það var til að heiðra Son House, nýlátinn). Honum fannst þetta vera menningarnám af verstu gerð. Hann vildi fá Buddy Guy.

Þess skal samt geta að The Paul Butterfield Blues Band voru eins áþentískir og hvítt blúsband gat verið á þessum árum – þeir höfðu lifað á svörtu klúbbunum í Chicago árum saman og nutu þar virðingar. Þeir voru ekki Stones. Gítarleikarinn í PBBB var Mike Bloomfield– og einsog kom fram í myndinni er það til Mike Bloomfield sem Dylan sækir þegar hann vill fá alvöru gítarleikara.

PBBB spiluðu kvöldið á undan Dylan og Lomax gaf þeim víst fremur dónalega kynningu – það hefur því miður ekki varðveist hvað hann sagði nákvæmlega en það var nóg til þess að umboðsmaður þeirra, Albert Grossmann, sem var líka umboðsmaður Dylans, hjólaði í hann og þeir slógust. Í myndinni gerist þetta á tónleikum Dylans. Það er svo út af þessu sem Dylan ákveður að spila elektrískt sett sjálfur – hann stígur inn í annarra manna rifrildi til þess að sýna PBBB stuðning (og til þess að taka þátt í havaríinu). Það var ekki einsog í myndinni að skipuleggjendurna hefði grunað þetta og þaðan af síður að Pete Seeger hafi vakið hann þunnan klukkan sjö að morgni til að biðja hann að gera þetta ekki. Dylan var búinn að taka upp rafmagnað efni og ætlaði að túra það síðar um sumarið. En hann kom til Newport án hljómsveitar. Það vildi til að nokkrir meðlimir Paul Butterfield Blues Band höfðu leikið með honum inn á plötu og hann hóaði í þá óforvarendis – æfði á staðnum með litlum fyrirvara og mætti með fremur illa æft rokkband á sviðið. Og lét skrúfa allt í botn (sem var það sem gerði Pete Seeger óðan – eða allavega óðari).

Lagið sem hann spilaði var auðvitað Maggie’s Farm – sem er endurunnið gamalt blúslag (og þar með folk) og sósíalískur óður (þótt það fjalli auðvitað líka um þrældóm rokkstjörnunnar Dylans, væntingarnar sem hann vildi ekki standa undir). Með þessu steig hann inn í ofsaveðrið og tók afstöðu með Stones og Animals og PBBB og Bítlunum gegn Newport fólkinu, sem fannst það þá þegar vera að drukkna – og kannski líka gegn Buddy Guy og svörtu Chicago-blúsurunum sem Lomax taldi sig vera í forsvari fyrir. En Dylan tók ekki afstöðu gegn folk-tónlist (a.m.k. ekki blústónlist) og ekki gegn mótmælatónlist heldur.

Svo mætti spyrja sig, einsog Wald hefur gert, hvort hann hefði valdið jafn miklu fjaðrafoki ef hann hefði byrjað á akústíska settinu og svo kynnt nýja stöffið sér – með dálítilli auðmýkt, hér er soldið öðruvísi stöff, nýtt og nýmóðins, vonandi fílið þið það. Eða hvernig hefði farið ef hann hefði ákveðið þetta með einhverjum fyrirvara og mætt með sæmilega þétt band. En hann gerði það ekki og hann gerði það viljandi. Kannski vildi hann bara vekja tilfinningar – það er sagt að í menntaskóla hafi fólk oft púað á hann þegar hann söng og hann nánast nærst á því – og kannski vildi hann svipta fólk forræði yfir því hvað hann væri, hvað hann ætti að vera. Og kannski bæði í senn og margt fleira.

Annars var myndin ágæt sem slík. Sérstaklega var leikurinn góður. En það er alltaf samt svolítið einsog að reyna að troða búrhval í pollagalla að segja svona ævisögu. Það er of mikið af efni, of mikið sem þarf að sníða, of mikið sem þarf að sleppa og einfalda. Og þegar vinnan er öll unnin lítur afurðin bara út einsog blöbber í pollagalla, sami blöbber og síðast, sama sagan um generískan snilling sem þjáist fyrir list sína (þr´átt fyrir að hafa notið dæmalausrar velgengni), sýnir af sér eigingirni og á erfitt með tengsl. Það var kannski áhugaverðast – og gegn klisjunni – að kvikmyndagerðarmennirnir skuli hafa köttað svona snyrtilega framhjá eiturlyfjaneyslu og óreglu, sem birtist manni aðallega sem fullir öskubakkar og tómar flöskur.

Samt fín mynd sko.

Skildu eftir svar