Ég var að enda við að senda frá mér fyrstu smásöguna sem ég skrifa í nærri því aldarfjórðung. Árið 2001 var ég í ritlistaráfanga í HÍ – sem var reyndar í svokölluðu „creative non-fiction“, kennarinn, Njörður P. Njarðvík, átti íslenskt nafn fyrir það en því hefur verið stolið úr mér – og þá skrifaði ég nokkrar sögur sem voru með einhvern snert af raunveruleika í sér en stímdu í burtu, út í skáldskapinn. Þær voru ágætar en miklu meira í ætt við þreifingar, æfingar, en fullburða sögur. Og jú raunar skrifaði ég eina hálfmisheppnaða sögu fyrir börn/unglinga einhvern tíma fljótlega eftir hrun en ég tel hana ekki einu sinni með. Ég var eiginlega búinn að sætta mig við að ég kynni þetta ekki, ætti ekki tólin, og þegar ég var nú beðinn um að skrifa smásögu (af manneskju sem virtist vita að ég geri það eiginlega ekki) þá ætlaði ég að svara nei. En svo dró ég það og allt í einu blasti hún við, hugmynd sem átti að verða allt annað og allt öðruvísi og hefur legið á skrifborðinu mínu í að verða ár, án þess að verða eitt eða neitt.
***
Ég leit inn á Facebook til þess að vara fólk við að fara ekki inn á Starafuglsvefinn – á honum er nú bara klám – en starafuglsefnið er allt komið á starafugl.norddahl.org. Og sá þá að kunningi minn, ljóðskáldið Gísli Þór Ólafsson, lést úr krabbameini fyrir viku síðan. Ég hitti Gísla síðast fyrir rúmu ári þegar ég fór í túrinn góða – hann kom á upplesturinn á Sauðárkróki. Og það var raunar líka þar sem ég hitti hann fyrst, þegar hann var einn tveggja gesta í ljóðapartíi Nýhils – hinn var Geirlaugur Magnússon. Gísli var sérstakt ljóðskáld, engum líkur nema sjálfum sér, og ég þurfti að venjast honum áður en ég áttaði mig á gildi þess sem hann skrifaði – það er einfeldningslegur tónn í bókum hans, naivískur, sem ég ruglaði lengi saman við einfeldni.
Ég samhryggist ástvinum Gísla og sendi þeim mínar samúðarkveðjur.
***
Í fyrrakvöld horfði ég á Möltufálkann en í gær á Svefninn langa. Í þeirri fyrri leikur Humphrey Bogart Sam Spade en í þeirri seinni leikur Humphrey Bogart Philip Marlowe. Sam Spade er aðalspæjari Dashiell Hammetts á meðan Marlowe tilheyrir Raymond Chandler. Bækurnar eru ólíkari en myndirnar en í b´aðum tilvikum eru myndirnar þó mildaðar útgáfur af bókunum – þær eru fórnarlömb hins svokallaða Hays-kóða sem bannaði alla mögulega siðspillingu í bíómyndum, sem var sérlega dýrkeypt fyrir harðsoðnu reyfarana. Kannski er ég bara ekki nógu læs á stíl kvikmynda en mér fannst nánast einsog þær gætu hafa verið verk sama mannsins á meðan texti Hammetts og Chandlers er mjög ólíkur. Kannski er það bara vegna þess að Bogart er alltaf Bogart – frábær leikari en fyrirferðarmikil persóna sjálfur frekar en maður með margar ólíkar stillingar.
Það slær mann þó í báðum – eða öllum fjórum – verkum að þetta eru sögur um stemningu miklu frekar en vel plottaðir krimmar. Það eru hreinlega alltof mörg lög, alltof margar persónur og of margir óprúttnir viljar að takast á til þess að maður hafi nokkurn tíma góða yfirsýn yfir alla þræði. Mest verður maður bara lúinn af að fylgja plottinu. Það er þó skömminni skárra í Möltufálkanum þar sem eltingaleikurinn við fálkastyttuna sjálfa bindur allt hitt saman. En stemningin í Svefninum langa er líka svakalegri. Það skemmir bíómyndina svolítið að framleiðendum fannst greinilega ekki annað hægt en að láta Bogart og Bacall verða ástfangin – sem þau voru í raunveruleikanum áður en tökur hófust, Bogart var í skilnaðarferli – og þar með er heilindum Marlowes kastað á glæ og hann (í samstarfi við handritshöfunda sem draga mjög úr grimmd hennar) látinn varpa hlífiskildi yfir Vivian Sternwood ástar þeirra vegna, frekar en vegna þess að hann lendir í mórölsku öngstræti einsog raunin er í bókinni (og varpar engum hl´ífiskildi, hann bara fer). Heilindi hins gallaða spæjara Chandler – sem á augljóslega að vera riddaralíking – eru akkerið í sögunum. Marlowe er – einsog Chandler orðaði það – maður sem reynir að sýna heilindi í heimi þar sem það er óðum að detta úr tísku. Án þessara heilinda er ekkert eftir nema grautur. Og kemistrían milli Bacall og Bogarts, sem er auðvitað heilmikil.
Ég endurlas líka þýðingu Guðbergs á Svefninum langa. Ég skrifaði um hana einhvern tíma og mundi hana sem mjög sérvitra – mjög grindvíska í orðavali – en var búinn að gleyma hvað hún er einfaldlega léleg. Og hvað útgáfan er mikið drasl. Síðu eftir síðu vantar nokkrar línur neðst á blaðsíðu og stundum birtust sömu setningarnar neðst á einni síðu og aftur efst á næstu síðu og þar fram eftir götunum. Ég man varla til að hafa lesið þýðingu þar sem allir aðilar hafa kastað jafn mikið til höndum.
Bækurnar og myndirnar eru líka gallaðar en þær eru kannski einmitt ágætis dæmi um verk sem gætu engu að síður ekki verið öðruvísi – þar sem gallarnir eru (flestir) óaðskiljanlegir frá kostunum. Þannig hefði stemningin í Svefninum langa t.d. alls ekki verið jafn svakaleg ef það hefðu ekki verið svona mörg lög af plotti. Það er engum treystandi, ekki einu sinni pínulítið, nema Marlowe og meira að segja honum tekst aldrei að vera fullkominn.