Dagbók, 3. mars, 2025

Mér er illt í puttanum. Vísifingri á hægri hendi. Eftir kontrabassaleik. Og mér er illt í tánni. Tærnar heita ekki neitt, einsog frægt er, nema litlatá, en ef þær hétu eitthvað væri það baugtá á vinstri fæti sem um ræddi. Það er hugsanlega eftir hlaup og hugsanlega eftir óþarflega nærgöngular naglasnyrtingar. Svo er ég líka voðalega þreyttur – hugsanlega með aðkenningu af einhverri pest sem er þá annað hvort á út- eða innleið. Ég hef bara ekki tíma til að vera með pestir.

Það fór sjálfsagt ekki framhjá neinum (sem á annað borð ratar hingað inn) að ég hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs á fimmtudaginn síðasta. Fyrir Náttúrulögmálin. Af því tilefni fór ég suður og mætti í móttöku í Gunnarshúsi. Svo fundaði ég með forlagsfólki vegna nýju ljóðabókarinnar minnar og mætti í langt viðtal hjá Oddnýju Eir og Vigdísi Gríms á Samstöðinni. Daginn eftir var ég veðurtepptur og notaði tímann til að sinna einhverjum samfélagsmiðlaviðtölum á vegum forlagsins. Síðan kom ég mér fyrir á kústaskápshóteli í boði Icelandair og lá þar einsog slytti fram á næsta dag þegar ég komst aftur heim.

Fimm ljóð kemur í búðir á morgun. Ég ábyrgist ekki að hún verði komin í útstillingu strax en kassarnir eiga allavega að koma í hús á morgun. Ég hef verið að skirrast við að ramma hana inn – segja „um“ hvað hún sé. Kannski vegna þess að mér finnst ljóð alls ekki vera um neitt – í eiginlegum skilningi. En enn líklegra er að mér finnist bara óþægilegt að ákveða það fyrir aðra um hvað hún sé. Að mér þyki eðlilegast að hver ákveði það bara fyrir sig. Hún er mjög „persónuleg“ fyrir mig en ég er ekkert endilega viss um að það skíni alltaf í gegn. Og ég held það komi ekkert að sök. Best væri auðvitað ef hún reyndist vera persónuleg fyrir lesandann líka – í þeim skilningi að lesandinn hitti þar fyrir sjálfan sig, frekar en að ég sé að þvælast mikið fyrir.

Fram undan er ýmislegt. Mig vantar stað til að halda útgáfuhóf í Reykjavík (Skálda er bókuð báða dagana sem koma til greina). Og eiginlega á Ísafirði líka. En ég mun koma fram á Ljóðum og vinum í Mengi þann 12. mars. Og 27. mars verð ég í einhverju sprelli með Sjón á nýrri bókmenntahátíð sem Helen Cova stendur fyrir á Flateyri. Þá er fyrirliggjandi einhver spilamennska með Gosa þegar líður á vorið. Ég reikna með að eignast kontrabassa fyrir næstu mánaðamót. En það hefur ekki gengið mjög vel (reyndi að panta að utan en þá var ekki hægt að senda, reyndi að panta innanlands en eintökin sem voru til reyndust ekki í söluhæfu ásigkomulagi). Hugsanlega kemst ég líka í eitthvað ljóðasprell með annarri hljómsveit en það verður þá tilkynnt síðar. Eða ekkert tilkynnt og kemur bara á óvart.

Ég er að vona að tilnefningin verði til þess að ýta við einhverjum erlendum forlögum að gefa út Náttúrulögmálin. Hingað til er það bara Rámus í Svíþjóð sem ætlar að gefa hana út. Lengdin stendur í fólki. Ég vona líka að það verði einhverjir viðburðir á Norðurlöndunum – Norðurlandaráð er nefnilega búið að slaufa verðlaunaafhendingunni. Sjálfsagt í kjölfar þess að listamennirnir voru sumir hverjir farnir að nota tækifærið – með salinn fullan af norrænum þingmönnum – til þess að halda eldræður. Á tímum vaxandi fasisma voru þessar ræður oft mikilvægar. En þeim er auðvitað vorkunn, Sönnu Finnunum og Svíþjóðardemókrötunum og öllum hinum, að vilja ekki láta lesa yfir hausamótunum á sér í fínum kokteilboðum. Og því sviptu þeir bara listamennina gjallarhorninu. Nú er í staðinn framleiddur sjónvarpsþáttur þar sem allt er tekið upp fyrirfram – og jafnvel þótt einhver segði eitthvað í þeim þætti þá hefur viðkomandi ekki athygli norrænna þingmanna þar frekar en bara í Kiljunni.

En ég sem sagt vona að maður fái samt eitthvað að sprella út á þetta.

Ég hef verið að lesa Alcools eftir Guillaume Appollinaire í tvímálaþýðingu Donalds Revell. Ég les þá frönskuna en reyni að hafa enskuna bara til stuðnings en það hjálpar bara svo lítið af því þýðing Revells er vægast sagt frjálsleg. Hún er sjálfsagt í einhverjum skilningi ljóðræn endursköpun – einsog þýðingar þurfa gjarnan að vera – en tónninn í henni er líka annar en hjá Appollinaire og mikið af breytingunum eru bara ekki góðar. Ég sé heldur ekki tilganginn með þeim. Ekki er hann að eltast við rím eða form – þar sem er rímað rímar hann alls ekki, sem er alltílagi mín vegna, en þá ætti maður að hafa metnað fyrir að vera aðeins nákvæmari. Þar á undan las ég Calligrammes í tvímálaþýðingu Anne Hyde Greet – sem er afbragð – og kannski fer þetta meira í taugarnar á mér þess vegna.

Annars hef ég mest verið í gömlum reyfurum. Chandler og Hammett og Cain. Og las líka Gun, With Occasional Music eftir minn gamla vin Jonathan Lethem – sem skrifaði líka Motherless Brooklyn. Sú er hálfgert framtíðar-sci-fi ofan í reyfarastemninguna sem er tekin beint upp úr Chandler. Og alveg dásamleg – á pari við Motherless Brooklyn (sem ég þýddi á sínum tíma af eigin frumkvæði – ég vara samt við bíómyndinni, hún er ekki góð).