Kæra dagbók. Gott fólk. Ég vil byrja á að þakka auðsýnda samúð vegna táarinnar sem ég nefndi í síðustu færslu. Henni – þar af leiðandi mér, okkur báðum – líður betur og í morgun fórum við út að skokka með ónefndum ljósameistara. Það var gott. Í gær fórum við líka í gufubað með ónefndum rokkgítarleikara og kannski hafði það sitt að segja fyrir tána. Finnar segja að það sem gufubað lækni ekki sé sennilega banvænt.
Dagurinn fór í að skipuleggja upplestra mánaðarins. Þessi mánuður er svolítið púsluspil – við Nadja skiptumst á að fara úr bænum. Upplestrana sjáið þið hér í reitnum vinstra megin. Hægra megin ef þið eruð að horfa út um skjáinn á mig. Sem er ósennilegt. ´Það má vera að eitthvað bætist við en það kemur þá bara í ljós.
Á eftir er ég svo að fara að dæma í stóru upplestrarkeppninni. Aram ætlar að sjá um kvöldmatinn og eftir mat fer ég á hljómsveitaræfingu með Gosa – ég kannski nefndi það hérna að Gosi er að fara að gefa út plötu (þar sem ég leik í þremur lögum, held ég) og við erum að æfa fyrir ´útgáfutónleikana.
Ég hef ekkert lesið nema á kvöldin. Ég er á fjórðu Marlowe bókinni – Lady in the Lake – sem er ágæt en síst samt af þessum fjórum. A.m.k. enn sem komið er. Ætli Farewell, My Lovely sé ekki í eftirlæti núna – en ég hlakka til að lesa The Long Goodbye, þá sjöttu, sem kunnugir segja mér að sé staðbest. Og það er varla að ég fái mig til að opna Appollinaire þýðingarnar – en ég ætlaði að vera búinn með Appollinaire fyrir lok febrúar. Ljóðskáld marsmánaðar átti að vera Linda Vilhjálms – en ég var svo sem byrjaður á heildarverkum hennar í nóvember. Og svo á maður ekki að lesa ljóð með skeiðklukku heldur. Ég er bara dálítið ferkantaður stundum.