Sprengt fyrir friði

Nú stefnir allt í að Evrópa vígvæðist. Og hefur í sjálfu sér gert síðustu ár. Ég man eftir að hafa furðað mig á því fyrir nokkrum árum að hin nútímalega Sanna Marin, fv. forsætisráðherra Finna, skyldi fara í áróðursför um álfuna til þess að hvetja Evrópuþj´óðir til að eyða meira í vopnaframleiðslu. Af því mér fannst það afstaða sem væri meira viðeigandi fyrir sextugan karl fyrir 30 árum. Ungar konur gera ekki svona, sögðu fordómarnir/áróðurinn, það var búið að lofa manni að konur væru diplómatískari, ljúfari stjórnendur – það væri feðraveldið sem sprengdi drasl í tætlur. Konur myndu semja og eyða skattpeningum í sjúkrarúm og kennslustofur og leikskólapláss. Nú er Kristrún Frostadóttir á svipuðum slóðum og Sanna Marin. Og allir bara á þessum slóðum, þetta eru einu slóðirnar. Sprengjur fyrir friði.

Ég segi ekki að ég sé einhamur í þeirri afstöðu minni að það sé vond hugmynd að eyða pening í stríð. Í varnir, meina ég. Í vopn. Í að drepa þá sem ráðast á okkur eða aðra sem eiga ekki skilið að láta ráðast á sig. Mér finnst líka vonlaus staða að Vladimír Pútín geti vaðið inn í öll þau lönd sem hann kærir sig um að eiga – og innantómt hjal að tala um að „semja frið“ við hann ef engar útskýringar fylgja á því hvernig sá friður á að líta út eða hvernig honum eigi að framfylgja (einsog Selenskí nefndi í Hvíta húsinu um daginn hefur Pútín 25 sinnum svikið sín eigin friðarsamkomulög). Og auðvitað verður að halda því til haga að Sanna Marin er Finni – það er hærri fórnarkostnaður í þessari jöfnu fyrir þjóðir einsog Finna, Eystrasaltsþjóðir og auðvitað Úkraínumenn. Og ég kaupi bæði þau rök að Íslendingar séu í góðri stöðu til þess að taka prinsippafstöðu með friði (þótt varla láti Trump Ísland vera ef hann ætlar að taka Grænland – enda lítur Ísland út fyrir að vera hluti af Grænlandi á kortinu hans) og að það sé ódýrt og jafnvel prinsipplaust að taka þannig prinsippafstöðu bara af því maður hefur sennilega engu að tapa. Af því sprengjurnar springa ekki nógu nálægt manni.

Ég kann ekki á þessu neina lausn, vel að merkja. Það má vel vera að Sanna og Kristrún og Macron og Starmer hafi bara rétt fyrir sér. Og kannski er standpína vopnaiðnaðarins bara óþægileg hliðarverkun.

Annað í þessu veldur mér samt ugg og mér finnst það minna rætt. Ef fer sem horfir munu borgaralegar stjórnir sósíaldemókrata og allra þjóða sjálfstæðisflokka margfalda fjárframlög til vopnaiðnaðarins á næstu árum; en á sjóndeildarhringnum eru líka kosningasigrar fasískra afla. Evrópa á eftir að lenda undir hælnum á sínum eigin drullusokkum – þó Trump og Pútín láti okkur vera. Við gætum þannig hæglega setið uppi með gríðaröfluga heri í öllum löndum Evrópu – sem væri stýrt af Svíþjóðardemókrötum, Frönskum þjóðfylkingum og þ´ýskum AFD-mönnum. Og Snorra Mássyni. Það er auðvitað nú þegar staðan í bæði Ungverjalandi og á Ítalíu. Og það finnst mér ekkert voðalega kræsileg tilhugsun, svona ykkur að segja.