Dagbók, 10. mars, 2025

Ég er veðurtepptur. Átti að vera í upptökum fyrir Kiljuna. En sit þess í stað heima í eldhúsi og ét carbonara afganga. Sem eru að vísu ágætir. Kannski kemst ég seinnipartinn – fluginu var frestað frá 9 í morgun til klukkan 15. En tökunum er lokið. Ég kemst vonandi í útgáfuhófið mitt á morgun. Til að fyrirbyggja misskilning þá er veðrið prýðisgott. Og mér sagði flugmaður í gær að það yrði að öllum líkindum flogið – en með þeim fyrirvara þó að það væri ómögulegt að sjá fyrir tiktúrur Flugfélagsins. Sem ætlar víst hvort eð er að hætta að fljúga hingað á næsta ári. Þá vantar tvö ár upp á 100 ára flugsögu til Ísafjarðar. Þórbergur Þórðasson flaug hingað (sem farþegi) með Súlunni og lenti 3. júlí 1928.

Þannig er því farið um margt. Það virkar ekkert. Ekki pósturinn. Ekki heilbrigðisþjónusta. Ekki almenningssamgöngur. Ekki bótakerfið. Og alltaf er það arðsemiskrafan sem eyðileggur allt. Ég er ekki viss um að fólk hafi alltaf spurt fyrst um arðinn þegar það var að byggja þetta þjóðfélag. En það er með arðsemiskröfuna á lofti sem það er hlutað í sundur og hent í ruslið.

Sá sem getur ekki haldið úti flugsamgöngum við Ísafjörð – með Loftbrú og öðrum niðurgreiðslum – er annað hvort að drepast úr arðsemisgræðgi eða einfaldlega ekki hæfur til að sinna viðskiptum og ætti að finna sér gott djobb við eitthvað annað. Á færibandi. Á kassa. En ekki í rekstri.

***

Það er ekkert að frétta af lestri. Ég lötra í gegnum Lady in the Lake. Hugsa eitthvað um eðli glæpasögunnar. Og hvar Chandler víkur frá forminu. Því er gjarnan haldið fram að bækur hans fjalli meira um stemningu – samfélagslýsingu – en glæpinn sjálfan og þá gjarnan vísað til þess að hann leysir ekki alltaf sína glæpi. En sú samfélagslýsing er augljóslega allt önnur og ekki jafn bundin af realisma og samfélagslýsingin í scandi-noir bókunum. Ekki þar fyrir að hún sé eitthvað fantastísk en hún er meira bíó – karakterarnir meiri steríótýpur, samfélagið ýktara. Scandi-noir samfélagið er svo sem ýkt líka – og kannski er þessi munur bara munurinn á tíðarandanum. Bæði gamla noirið og scandi-noirið bera þess merki að vera ort upp úr dagblöðunum. Og það var meira yfirborð í gömlu dagblöðunum – meira verið að lýsa hlutum og athöfnum, en alltaf með þessi fororði að undir öllu saman kraumaði siðspilling, morð og framhjáhöld og drykkja og barsmíðar. Í scandi-noirinu er yfirborðið gegnsærra – einsog í opinskáum einkaviðtölum eða kaþartískum facebook-póstum. Samtíminn er allur á viðstöðulausu trúnó og þegar allir eru á trúnó getur ekkert kraumað undir yfirborðinu. Kannski er það þess vegna sem scandi-noirið grípur svo oft til þess að nota „gömul leyndarmál“ stýra sögunni – af því að í fortíðinni er yfirborð sem felur eitthvað, þar er eitthvað til að afhjúpa. Og svo er ´í sjálfu sér líka algengt, held ég, að scandi-noirið takist á við það hvernig þetta opinskáa einkaviðtal er líka performans, líka yfirborð sem getur reynst tóm lygi þegar nánar er að gáð. En ég er ekki alveg viss um það.

***

Ég las viðtal á helginni við David Lagercrantz. Hann var að skrifa krimma um sænska bókmenntasamfélagið og talar mjög illa um það – þar vaði sósíópatar um og stýri öllu. Og ekki alltaf ljóst hvort hann er að tala um höfundana eða bissnissmennina á bakvið höfundana og stundum blandar hann því saman á hátt sem er ekki alveg sannfærandi (það er t.d. alveg satt að listamönnum hefur gjarnan leyfst að vera gallagripir og erfiðir í umgengni – en hið sama verður ekkert sagt um ritstjóra og það er engin rómantík í kringum millistjórnendur sem skeyta skapi sínu á öllum og/eða mæta fullir í vinnuna – að sama skapi eru höfundarnir oft valdalausir gagnvart bissnissákvörðunum og hafa takmarkaðra vald hver yfir öðrum). Einhvern veginn sló þetta viðtal mig falskt. Mér fannst hann vera að saka alla um að vera óheiðarlegir til þess eins að undirstrika hvað hann væri heiðarlegur og góður sjálfur – og mér fannst það bara ekkert styrkja þá hugmynd að hann væri heiðarlegur og góður eða einhver varðmaður smælingjanna, heldur þvert á móti, fór ég að leita að minnstu vísbendingum þess að hann væri það ekki. Samt var ég vel að merkja ekki ósammála neinu einu sem hann sagði neins staðar – mér fannst hann bara vera að tikka í of mörg sjálfsögð og fyrirsjáanleg box. Nefna Trump og að hann væri vondur – tékk. Nefna Harvey Weinstein og að hann væri vondur – tékk. Þetta var of mikið paint-by-numbers.

Ég las líka EKKI grein í New Yorker af því hún var handan gjaldmúrs. En ég sá glitta í punktinn í fyrirsögn og fáeinum málsgreinum. Sem var að bókstafstrúin – literalisminn – væri að gera út af við bíómyndir. Þessi bókstafstrú gengur ekki út á að túlka margræð og mótsagnarkennd trúarrit heldur þvert á móti að skrifa eitthvað sem er svo skýrt að það getur enginn misskilið það. Það er meining – hún er í 99% tilvika eitthvað sem 99% ætlaðra áhorfenda verða sammála (altso, það er predikað fyrir kórinn) – og það fer aldrei neitt á milli mála hver meiningin er. Það er ekkert rými til að túlka.

Ég veit ekki hvort þetta er satt – þótt ég þykist kannast við tendensinn úr bókum –  en ég fór á Mickey 17 á föstudag og hún þjáist dálítið af þessu. Eða réttara sagt þjáist seinni hluti hennar af þessu. Fyrri hlutinn er frábært existensíalískt drama en seinni hlutinn er mjög literalísk geimsápa – alveg skemmtileg en uppfyllir ekki loforð fyrri hlutans. Er eiginlega bara önnur mynd.

Á laugardag horfði ég síðan á aðra álíka geimmynd sem er líka með Robert Pattinsson og að mörgu leyti áþekkum söguþræði – við skulum segja að hann hálfrími (ég ætla ekki að rekja hérna söguþræðina, það er tilgangslaust fyrir þeim sem hafa séð myndirnar og þvælist bara fyrir hinum, sem gætu líka bara gúglað plottinu). High Life. Hún fer eiginlega alveg þveröfuga átt, estetískt, og maður veit varla almennilega hver söguþráðurinn er þegar hún er búin. Og samt er alveg ljóst frá fyrstu stundu hvar sagan endar – hvernig fer. Tímaflakkið er notað til að leysa mann undan allri plottkvöð – og það verða aðrir hlutir sem maður þarf að reyna að giska sig fram úr. Manni er ekki sagt hverjar reglurnar séu í þessum framtíðarheimi eða hvers vegna fólkið hagar sér einsog það gerir eða hvernig það lenti þar sem það lenti – heldur verður maður sjálfur að draga ályktanir. Á milli senanna eru eyður sem maður þarf að fylla upp í sjálfur. Og hún er hæg. Meira Solaris eða Stalker eða 2001: Space Odyssey. En ekki jafn fyndin og Mickey 17. En í sjálfu sér samt fyndin. Og falleg.

Kannski er ástæðulaust að leita að einhverri millileið til að sætta þessar öfgar. Þær mega bara vera svona. En Mickey 17 var samt aðeins of mikið on the nose einsog maður segir.