Dagbók 12. mars, 2025

Í gær hélt ég útgáfuhóf. Þar var margt um gott fólk og skemmtilegt að vera. Á eftir er svo ljóðakvöld í Mengi á vegum Ljóða og vina þar sem ég fæ að lesa í fríðum flokki.

***

Eftir útgáfuhófið í gær stökk ég í bíó og sá Anoru. Það er alveg óhætt að mæla með henni. Hún fjallar um strípidansmær sem verður fyrir þeim ósköpum að tælast af og giftast syni einhvers rússnesks óligarka – ungum og værukærum djammara með vinalegan hlátur sem reynist jafnvel enn saklausari en maður heldur í fyrstu. Það er eitthvað sérstakt væb í henni. Hún er klámfengin og jafnvel ofbeldisfull á köflum og ekki fílgúdd mynd á neinn hátt en samt er hún eiginlega líka lj´úfsár.

Og eftir bíóið var ég svangur og datt í hug að fara á Vitabar í fyrsta skiptið í áreiðanlega 20 ár. Þar var enginn gráðostaborgari á matseðlinum en hins vegar var maturinn á ívið skaplegra verði en gengur og gerist. Og ekki bara skaplegri miðað við miðbæ Reykjavíkur heldur bara vegasjoppur. Hamborgaratilboð með frönskum og sósu á 1900 kr.

***

Ofan í heillandi en ómögulegar hugmyndir um að skrúfa ofan af allri digitalíseringu og nettengingu – að hætta á samfélagsmiðlum, lesa ekki netmiðla, blogga ekki, fá sér fávitasíma (eða bara heimasíma), leggja kindlum og snjallúrum fyrir sólúr og steintöflur – bætast nú heillandi en ómögulegar hugmyndir um að bojkotta bandarískar vörur. Þetta hefur mikið verið í fréttum í Svíþjóð síðustu daga – hvort það stóð ekki að þriðjungur Svía sé með slíkt bojkott á sínum prjónum. Mér sem finnst nógu erfitt að lesa á kóríanderboxið í búðinni og humma fram af mér Söngvakeppnina. Það er líka dálítið erfitt að sjá hvar bandaríkin byrja og hvar þeim lýkur. Var Anora bandarísk mynd? Hún gerist í Bandaríkjunum og það er áreiðanlega stærstur hluti þeirra sem störfuðu við hana og fjármögnuðu hana bandaríkjamenn. Hún vann óskarinn! Chimamanda Ngozi Adichie var að gefa út nýja bók – forlagið er bandarískt. Netflix auðvitað, HBO og Disney – það eru allar streymisveiturnar sem ég er áskrifandi að. Amazon (kindillinn minn er að gefa upp öndina eftir ríflega áratugs þjónustu). Í göngutúr í morgun heyrði ég frábært lag með Söruh Vaughan – Great Day – hún var bandarísk. Og það er áreiðanlega ameríkani sem fær streymistekjurnar. Svo er það maturinn. Ætli það myndi ekki mest bitna á cheeriospökkunum – ég er eiginlega alveg hættur að éta það sjálfur þótt mér finnist það ágætt en börnin mín borða það. Ég gæti þá ekki klárað White Lotus. Ekki haldið áfram að lesa Raymond Chandler. Playlistarnir mínir á Spotify yrðu ekki svipur hjá sjón eftir að búið væri að hreinsa út ameríku. Þeim myndi fækka drastískt bíóferðunum. Ég horfi talsvert á alls konar youtubemyndbönd – mest grín eða innlegg um tónlist/hljóðfæri og hlaup – það er ansi mikið af því bandarískt. Ég held við ´séum enn að spá í að endurtaka Tom Waits kvöldið – ég má ekki einu sinni hlusta á Tom Waits! Eða Guns N Roses! Það er þá bara AC/DC og Nick Cave í öll mál. Ætli bandaríski söngvarinn í Viagra Boys, sem hafa verið að skemmta mér upp á síðkastið, sé með sænskan ríkisborgararétt? Hann hefur búið þar árum saman. Er það nóg?

Já, nei sennilega þarf að fara einhverja skynsamlega leið að þessu. En ég er alls ekki viss hvar maður dregur línuna eða hvort maður byrjar á þessu. Og ég verð að viðurkenna líka að það er eitt af því sem heillar mig við tilhugsunina um að prófa þetta. Ætli maður myndi ekki reyna að takmarka fyrst og fremst tekjuflæðið til Bandaríkjanna – ég á t.d. allan Tom Waits á geisladisk og svolítið af Tom Waits á vínyl og gæti annað hvort reynt að kaupa restina notaða eða keypt mér evrópskan geislaspilara (ég á ekki svoleiðis tæki) eða gefið undanþágu og sagt að Tom Waits og allir sem honum tengjast, Anti-Records sumsé, megi fá pening frá mér – enda verði hann áreiðanlega frekar nýttur til góðs en ills. Og svo væri svona ráðstöfun tæplega til langrar framtíðar, meira spurning hvort maður ráði við mánuð, sex vikur eða hálft ár.

Og því er auðvitað eins farið með lúddítísku tiktúrurnar – ég kemst ekki langt án rafrænna skilríkja og heimabankans og sæti pikkfastur alla daga ef ekki væri fyrir heimasíður flugfélaganna.

Ég þarf að hugsa aðeins um þetta.