Við eigum orðið svo mikið af orðum yfir allt sem hægt er að gera á okkar hlut að við getum varla rætt annað. Orðalistinn tekur engan enda. Og við vitum að sá okkar sem tekst að sannfæra fundarmenn – því lífið er líka viðstöðulaus fundur nema þegar það er beinlínis réttarhöld – um að hann sé fórnarlamb ofbeldis er sá eini sem verður ekki á endanum fundinn sekur um að hafa beitt ofbeldi.
Já, ég var víst að lesa nokkra þræði af innanflokksdeilum sósíalista. Herregud.
***
Tvö útgáfuhóf að baki og eitt ljóðaboð að auki. Allt hefur gengið bara einsog í sögu held ég. Ég las Þríhjól í Svíþjóð hjá Ljóðum & vinum – ég ætlaði ekki að gera það en svo langaði mig það og ég gerði það og ég held ég geri það aldrei aftur. Það er ekki ljóð sem á að lesa upphátt. Eða ekki ljóð sem´ ég á að lesa upphátt.
Næsta föstudag verð ég á Patreksfirði hjá Skriðu útgáfu og Birtu Ósmann. Það verður áreiðanlega mjög gaman. Og eftir tæpar tvær vikur verð ég á bókmenntahátíðinni á Flateyri. Ég er búinn að fara í Kiljuviðtal og í Víðsjá og það birtist einhvern tíma á næstu 10-12 dögum, reikna ég með.
Nadja er farin til Frakklands í endurmenntun eða símenntun eða allavega einhverja menntun. Aino er að fara til Ungverjalands á sundmót. Aram er að fara að spila með hljómsveitinni sinni – Villimönnum – á setningu skíðavikunnar.
Kontrabassinn sem ég er að reyna að kaupa ætti að koma til landsins næstu daga, svo þarf væntanlega að láta fiðlusmið líta á hann og senda mér hann vestur. Og svo vantar mig statíf og poka og helst hljóðnema líka. Fyrir liggja æfingar með Gosa sem er að fara að spila á Aldrei fór ég suður. Sem er sennilega það fullorðinslegasta sem ég hef gert í þessu hljóðfærabrölti mínu. Svo ætla ég að læra að djassa svolítið þegar ég er kominn með kontrabassann. Frönskunám gengur heldur hægar en ég vildi en maður hefur ekki tíma til alls.
Af öðrum áhugamálum – sem eru aðallega skokk og matreiðsla – er allt gott að frétta. Hljóp 10 kílómetra í gær og eldaði egg Benedikts í hádeginu og kóreska blómkálsvængi fyrir okkur Aram í gær. Sem minnir mig á að ég þarf eiginlega að fara að gera kvöldmatinn.