Furðulegt nokk

„Það hefur aldrei verið auðveldara að vera sósíalisti.“ Þetta var fyrirsögn í Dagens Nyheter í morgun. Á grein eftir Ninu Björk. Kannski er það satt, svona í kenningunni – það er allavega augljós þörf fyrir sósíalíska hugsjón. En á sama tíma hafa samtök sósíalista ekki mikið aðdráttarafl – og flokksbundnu sósíalistarnir virðast allir löðrandi í vanlíðan.

„Samtímalaxinn er stressaður einstaklingur.“ Segir einhver norðmaður á ensku í YouTube-auglýsingu. Ég veit þetta „hljómar betur“ á ensku („the modern salmon is a stressed individual“) en er það er ekki bara vegna þess að enskan er enn undirlagðari af sálfræðijargoni en íslenskan?

En hvort ætli sé erfiðara að vera sósíalisti eða samtímalax?

Ég stend mig að því að vera stöðugt fullur furðu þessa dagana. Mér finnst allir tala svo undarlega. Hugsa svo undarlega. Þetta er ekki endilega neikvætt – hvorki að fólk tali og hugsi undarlega né að ég fyllist furðu yfir því – en það hefur einhver áhrif á raunveruleikaskynið. Mér finnst svolítið einsog ég eigi að vera að lesa í þennan súbtexta. Hvað er laxamaðurinn að meina? Er þetta ekki einhver myndlíking? Er nokkuð til nema einstaklingar lengur – sagði ekki Thatcher eitthvað í þá veruna? Og eru ekki allir stressaðir?

Ég ýti vel að merkja alltaf á skip á YouTube-auglýsingum – ég þoli þær svo illa að ég hleyp jafnvel þvert yfir herbergið til þess að ýta á skip strax og á því er gefinn kostur. Svo ég veit ekki hvar þetta með stressaða laxinn endar. Í einhverri kví, grunar mig, með mikið af laxalús. Ekki vel semsé.

Dag Solstad er annars dáinn. Mér finnst vandræðalegt að hafa ekkert lesið eftir hann. Ég ætti að bæta úr því. Ég ætla samt ekki að fara að stressa mig á því – ætla ekki að hætta á að verða stressaður einstaklingur.

Skildu eftir svar