Af sprúðlandi fullnægingarlýsingum og smørrebrødsnautninni

Þriðjudagur. Ég var í Víðsjá í dag. Viðtalið hefst þegar það er svona hálftími liðinn af þættinum. Ég hlusta mjög sjaldan á viðtöl við sjálfan mig en ég hlustaði á þetta og þetta var alltílagi þótt ég hefði mátt segja sjaldnar „hérna“ og „sko“ og „sem sagt“ og kannski tala aðeins hægar.

Annars hef ég tekið eftir því að fólki finnst það ekkert tala hratt þegar það talar hratt. Því finnst það bara tala eðlilega.

Í morgun fékk ég þau skilaboð að kontrabassinn minn væri kominn til Reykjavíkur og færi af stað vestur ´a morgun eftir uppsetningu. Ég er rosalega peppaður.

„Fullnægingarlýsingarnar þóttu mér vægast sagt framandlegar“. Þetta var fyrirsögn á bókadómi í Dagens Nyheter í morgun. „Jag känner mig djupt främmande inför beskrivningarna av orgasmer.“ Um daginn var önnur fyrirsögn í sama blaði: „Skilnaðarskáldsaga Helle Helle er jafn mikil nautn og smørrebrød.“ Sennilega væri þjálla að segja „Að lesa skilnaðarskáldsögu Helle Helle er jafn mikil nautn og að borða smørrebrød“ en ég er bara ekki viss hvert gagnrýnandi var að fara með þessu og þori ekki neinum túlkunarþýðingum. Mér finnst það samt skemmtilegt enda er ég sérstakur áhugamaður um það hvernig maður tjáir sig um nautnina að lesa – mér finnst ekki endilega að gagnrýni eigi alltaf að vera analýtísk fyrst og fremst, heldur megi hún líka bara lýsa lestrarupplifun tiltekins einstaklings. Og þessi smurbrauðslýsing segir eitthvað. Einsog þetta með fullnægingarlýsingarnar. Þetta er allavega skemmtilegra en konfektviðlíkingarnar og allt það.

Annars tók ég eftir því að orðið „sprúðlandi“ var notað í auglýsingu fyrir Fimm ljóð á dögunum. Reyndar var það notað til þess að lýsa Náttúrulögmálunum. „Frá höfundi hinnar sprúðlandi skáldsögu“ stóð, minnir mig. Ég held að þetta orð sé eiginlega bara notað til þess að lýsa skáldsögum. Arngrímur Vídalín skrifaði aðeins um orðið fyrir nærri 20 árum síðan (þegar hann var sennilega 13 ára) og ég fann líka Facebook-umræðu um það en allir stóðu svolítið á gati. Hins vegar þykir mér alveg ljóst að hér sé komin sænska sögnin „sprudla“ – sem þýðir að búbbla eða tindra eða iða af lífi. Mér skilst að Þórbergur hafi notað þetta í ljóði en ég hef Pál Baldvin grunaðan um að hafa komið þessu í umferð í bókadómum. En ég finn líka eldri dæmi frá Soffíu Auði, sem hefur haldið upp á þetta á tímabili – og elsta dæmið úr bókadómi er frá Dagnýju Kristjáns 1980, sem fjallar um Hvunndagshetju Auðar Haralds.

Framan af virðist þetta líka hafa verið mikið notað um leikhús en tekið stökk í notkun upp úr miðjum fyrsta áratug þessarar aldar og þá aðallega um bókmenntir. Og kannski bara skáldsögur. Er ljóðabókum lýst sem sprúðlandi? Eru plötur nokkurn tíma sprúðlandi? Sjónvarpsþættir?

***

Á RÚV er viðtal við framkvæmdastjóra kvikmynda´hátíðarinnar Stockfish sem segir fjölda kvikmyndahátíða á Íslandi „umhugsunarefni“.

Þessar hátíðir fylgja ekki beint framboði og eftirspurn. Þetta veltur meira á því hverjum dettur í hug að vera með kvikmyndahátíð og framkvæmir það. Það er hollt að taka stöðuna og spyrja okkur hvað þurfum við margar kvikmyndahátíðir og hverju eru þær að þjóna?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekkert. Eiga kvikmyndahátíðir að fylgja framboði og eftirspurn? Eru það ekki Marvel-st´údíóin sem eiga að gera það? Ef manni dettur í hug að halda kvikmyndahátíð og kemur henni í framkvæmd – er maður þá að valda einhverjum skaða? Hefði maður betur sleppt því? Hver á að „taka stöðuna“ og ákveða hversu margar kvikmyndahátíðir eru nógu margar kvikmyndahátíðir og hversu margar of margar? Hver eru þessi „við“ sem eiga að spyrja að þessu?

Á Ísafirði er eitt bíó og þar eru tvær kvikmyndahátíðir á ári. Ég myndi alveg lifa það af þótt þær væru fjórar. Hugsanlega myndi ég meira að segja ráða við fimm.

Skildu eftir svar