Dinnerljóð

Einhvern tíma á Nýhilárunum þegar ég var orðinn þreyttur á ljóðapartíum – þreyttur á endurtekningunni – bloggaði ég um einmitt það. Að þetta væri alltaf eins. Fyrirsjáanlegt. Við værum að breytast í allt sem við þoldum ekki. Paint-by-numbers flón að látast vera ljóðskáld frekar en að vera það. Þetta vakti skiljanlega litla lukku hjá vinum mínum sem höfðu skipulagt ljóðakvöldið þar á undan – kvöldið þar sem ég varð fullsaddur. En á þessum tíma var samt einhvern veginn eðlilegra að vera ósammála um hluti. Og eðlilegra að skipta um skoðun. Eðlilegra að takast á. Það var ekki uppi nein krafa um harmoníu. Við bara þrættum og ég útskýrði hvað ég ætti við og baðst afsökunar á að hafa sært þá sem ég særði. Sennilega baðst ég meira að segja efsökunar og það þótti bara alls ekki glæpur.

Um svipað leyti – sennilega bara beint í kjölfar þessa kommentakerfisstríðs við vini mína – gekk ég með þá hugmynd í maganum að snúa ljóðapartíinu alveg á hvolf. Að hanna ljóðaviðburð þar sem ljóðlistin væri einsog dinnertónlist. Hún væri viðstöðulaust í bakgrunni. Lágt en ekki þannig að maður heyrði hana ekki. En gestir væru í raun að fást við eitthvað annað. Sósíalísera. Borða mat af hlaðborði. Þessari hugmynd var álíka vel tekið og þegar ég stakk upp á því að við myndum halda ljóðakvöld á strippklúbbnum Vegas. Sem sagt bara alls ekki vel. Og því varð aldrei neitt úr neinu heldur.

Um daginn tók ég upp eitt ljóð úr Fimm ljóðum. Ég var að fara að lesa upp einhvers staðar og var að æfa mig og ákvað að taka það upp til að hlusta. Svo fiktaði ég aðeins í hljóðinu af því mér finnst þanniglagað gaman og úr varð þessi upptaka sem hefur legið á harða drifinu mínu í nokkrar vikur. Og hún sem sagt minnir mig á þessa hugmynd mína um dinnerljóðakvöld.

Lyklavöld – úr Fimm ljóðum

Skildu eftir svar