Nef Hilmis

Í gær var helst í menningarfréttum – heimsins – að bandarískur sjónvarpsþáttur hafði gert grín að tönnunum í breskri leikkonu. Sú kona er fjarska fögur en með mjög áberandi tennur sem eru almennt ekki taldar til bóta – jafnvel þannig að það er alls ekkert ósennilegt að það hafi verið erfitt að bera þær á vissum skeiðum æskunnar. Eru tennurnar þó vel að merkja mjög sjarmerandi á henni í dag og óaðskiljanlegur hluti af hennar „star quality“. Konan tók þetta grín eðlilega aðeins inn á sig þótt ekki væri að heyra að hún væri neitt eyðilögð – „svolítið glatað“ væri líklega réttust þýðing á viðbrögðunum, og þau áreiðanlega m.a. tilkomin af því konan hefur tekið sér stöðu með þjáðum tannsystkinum sínum um víða veröld sem njóta þess fæst að vera brjálæðislega aðlaðandi Hollywood-stjörnur. Og eru sum unglingar á viðkvæmu skeiði. Hún tjáði sig um þetta á sínum persónulega fjölmiðli – þar snýst allt um hana, einsog hér snýst allt um mig – og fylgdi því svo skömmu síðar eftir með fréttum um að hún hefði fengið afsökunarbeiðni frá fólkinu sem stendur að sjónvarpsþættinum.

Ég er í fréttabindindi sem gengur út á að fara bara inn á f´réttasíður-skástrik-menning. Skástrik-kultur. Skástrik-books. Til þess að fá frið fyrir rorrandi síbyljunni sem segir mér ekkert. En þegar ég fer inn á þessar menningarfréttasíður spyr ég mig stundum hvers vegna ég sé alltíeinu byrjaður að lesa fréttir um instagramyfirlýsingar fræga fólksins. Hvers vegna er þetta frétt á Vísi á Íslandi? Í sænska ríkissjónvarpinu? Dagens Nyheter? Hvers vegna fer þessi frétt hringinn í kringum heiminn og hvers vegna heitir hún „menningarfrétt“? Kannski vegna þess að menning snýst svo mikið núorðið um það sem bandaríkjamenn kalla „representation“? Það er fréttapunkturinn.

Aðrar „menningarfréttir“ í gær voru til dæmis að einhver … fyrirgefið orðbragðið … óstabíl rasistakelling í Reykjavík hefði tapað máli gagnvart Icelandair – sem hafði bannað henni eitthvað, hún hafði komið með of stóra tösku, vildi ekki vera með grímu í covid, ég man þetta ekki og neita að smella aftur á þetta athyglisbilaða rugl – en þetta var sem sagt menningarfrétt af því konan hélt því fram að ferðin sem var ekki farin hefði átt að vera farin til að gera heimildarmynd sem ekkert varð úr. (Það er áreiðanlega einhver góður brandari hérna um kött Schrödingers en ég er bara ekki búinn að drekka nóg kaffi í dag til að finna upp á honum). Og að nefið á Hilmi Snæ hafi gengið aftur. Snúið heim.

Ég er ekki að reyna að vera hneykslaður (kannski bara smá; það er default hjá okkur öllum, við kunnum ekkert nema það); ég er allavega að einbeita mér að því að reyna að skilja. Og átta mig á einhverjum breytingum. Þegar ég … nei, nú segi ég bara „í mínu ungdæmi“, ég er kominn á þann aldur að það er viðeigandi. Í mínu ungdæmi var skemmtanabransinn/slúðrið og menningarsíðurnar á ólíkum stöðum í dagblöðunum. Samliggjandi oft en á ólíkum opnum. Þá var Hilmir þegar orðinn frægur og nefið á Hilmi var slúðurfrétt; Hilmir í Hamlet var menning. (Sama lögmál gilti um tennur og nef og flesta líkamshluta; sennilega hét það „Dægurmál“ eða eitthvað álíka). Og rasistakellingar-fara-í-mál-við-flugfélög var „moli“ einhvers staðar annars staðar í blaðinu. Ef efnið var of intellektúalt fór það í Lesbókina – sem var ekki sama og menningarsíðurnar. Ef það var póststrúktúralísk greining á viðtökum almennings gagnvart endurkomu nefs Hilmis Snæs var það greinaflokkur. Með heimildaskrá. Þótt það væri í raun bara um nefið á frægum manni. Sem væri snúið heim.

17 ára ég las allar dægurmálafréttirnar en fannst þær samt furðu plássfrekar og skildi ekki þá frekar en nú hvers vegna ég var að lesa þetta. Svona einsog maður skilur ekki alltaf hvernig nammiskálin fer að því að tæmast eða hvers vegna manni líði einsog maður hafi ekkert étið nema sykur svo dögum skipti.

Munurinn er ekki endilega fólginn í lág- og hámenningu þótt þetta snúist um fræga fólkið og sé auðvitað alltaf svolítil lágkúra – ekki málefnin sem slík, hvorki nefin né tennurnar, heldur botnlaus áhugi okkar á nefum og tönnum. Þannig var umfjöllun um sjónvarpsþátt oftast menningarumfjöllun en umfjöllun um ástarlíf leikarana í sama sjónvarpsþætti almennt ekki menningarumfjöllun – þótt hún ætti snertiflöt við menningarlífið.

Reyndar hvarflar að mér að tengingin þarna á milli sé trúarleg – ef við trúum á kvikmyndastjörnur einsog við trúum á guði og gyðjur, sem ég held að við gerum, þá eru dægurmálaskáldin Hómerar samtímans. Um þetta mætti áreiðanlega skrifa safaríka grein í Lesbókina ef hún væri ennþá til. Og þegar ég hugsa út í það var hún áreiðanlega skrifuð einhvern tíma.

Þá er ótalin önnur tegund af menningarumfjöllun sem er menningarpólitík. Nú standa til dæmis yfir deilur um framtíð Kvikmyndaskóla Íslands sem eru mjög plássfrekar í menningardálkum fréttasíðna. Þær eru mikilvægar og þær eru mikilvægar fyrir menninguna en þær eru annars eðlis en umfjöllun um menningarafurðir.

Ég veit að einstaka blaðamanni er uppsigað við menningarumfjöllun sem er ekkert nema pöff-pís – kynning/upphafning á verki/listamanni – og vilja finna á hana fréttavinkilinn. Sem er t.d. augljós í nefmálinu – þar er ósátt, deila, hot topic (líkamssmánun) og meira að segja lausn. „Nýr sjónvarpsþáttur í sjónvarpinu“ er ekki jafn augljós frétt og þótt slíkar fréttir séu stundum sagðar þá eru þær líka í grunninn óréttlátar – hvers vegna fá ekki allir sjónvarpsþættir þannig umfjöllun? Það er helst að þeir sjónvarpsþættir sem taki einmitt fyrir eitthvað hot topic – Adolescence er nýjasta dæmið – geti fengið þess lags aukaumfjöllun sem er þó ekki endilega vegna þess að þeir séu góðir heldur vegna þess að efni þeirra á einhverja beinni snertifleti við „ytri heiminn“ eða þær áhyggjur sem drífa áfram fréttalestur („er allt að fara til andskotans?“) Það er hægt að ræða við sérfræðinga um það hvort ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af raunverulegum börnum, það er hægt að rifja upp sambærileg mál úr raunveruleikanum o.s.frv. Sem er ekki jafn auðvelt með … segjum bara Hamlet. Þótt hann fjalli reyndar líka um þjáð ungmenni með minnimáttarkennd sem kostar aðra lífið.

Þá er líklega mjög eðlilegt fyrir listamenn sem vilja athygli að leita uppi kastaraljósið – finna hvað það er sem vekur á þeim athygli. Maður verður ekki frægur nema maður kunni það og vilji það (a.m.k. innst inni – slagsmál fræga fólksins við frægðina eru víst ekki einföld).

Einn munur á sænskri og íslenskri menningarumfjöllun er að af og til er reynt að koma af stað uppnámi í s´ænska menningarheiminum – á meðan sá íslenski er meira í því að lægja öldurnar svo allir í skóginum séu vinir og viðheldur þannig ráðandi fagurfræði og valdastrúktúr („öldur í skóginum?“ ég ber fyrir mig að ég sé áhugamaður um góða nykrun). Um daginn stakk t.d. einn af stóru menningarritstjórunum upp á því að allar bókmenntahátíðir væru blásnar af enda væru þær hundleiðinlegar. Það kallaði á fjaðrafok – og gáfulegar varnir. Tvær hlaðvarpskonur tóku upp á því að verðlauna „slátrun ársins“ í bókmenntagagnrýni – það hefur verið mjög hress debatt, m.a. um það til hvers gagnrýni sé. Einhver tók saman „bækur vikunnar“ hjá Dagens Nyheter og komst að þeirri niðurstöðu að auðveldasta leiðin til þess að koma skáldsögunni sinni á þann lista væri að vinna fyrir Dagens Nyheter eða þekkja fólkið sem stendur að listanum. Það þarf að hafa auga með nepótismanum (nú er reyndar nepó-hugtakið orðið alveg máttlaust í sænska menningarheiminum – enginn slagkraftur). Af og til snýst þetta líka um fagurfræðilegan ágreining – t.d. um orðalag í þýðingum eða að það sé of mikið af hinu og þessu í tísku (allir að skrifa um mömmu sína, allir að skrifa óskýrt og dreymandi, allir að skrifa krimma). En þetta er alltaf einhver að leita að fæting. Íslendingar eru átakafælnari – ekki endilega blaðamennirnir en menningarfólkið. Kannski vegna þess að við erum færri og nándin er meiri. Um daginn kastaði Hermann Stefánsson t.d. hanskanum – grýtti honum vígreifur í gólfið – í langri grein sem allir lásu en enginn deildi, allir hvísluðu um en enginn ræddi. Enginn tók upp hanskann, sem liggur þarna enn. Og það virðist enginn vita hvað eigi að gera við hann.

Sjálfsagt er nálægðin ekki eina skýringin. Sænskur menningarheimur er ekki svo miklu stærri en íslenskur og fólkið sem tekst þar á er oft í sams konar nálægð. Þetta er líka spurning um menningarmun. Íslendingar sjá sig oft sem skoðana- og átakaglaða en ég er ekki viss um að það sé raunsætt mat. Við erum mjög fljót að þagna þegar umræðan kemur að einhverju sem er hið minnsta viðkvæmt. Þar sem einhver gæti orðið sár. Og ef einhver snertir við hinu viðkvæma garga annað hvort allir saman í kór (eða tveimur gagnstæðum kórum) í fáein augnablik án þess að maður í raun greini orðaskil – og raunar mikið til þess að afvegaleiða umræðuna, til þess að tala um sárindin sem slík – eða að allir bara þegja og stara út í loftið.

Og kannski er munurinn sá að sænsk menning er ekki alveg mónókúltúr. Maður gerir ekki út af við sig á sama hátt þótt maður lendi upp á kant við einhvern. Það er ekkert voða mikið af fólki sem stýrir t.d. íslenskum bókmenntaheimi – að hverju kastljósið leitar – og það er allt meira og minna úr sömu klíkunni. Ef hún afskrifar mann fyrir vandræði er maður sjálfsagt bara doldið fucked.

Annars vil ég bara óska Hilmi til hamingju með nýja nefið. Flott nef.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *