Þorvaldur S. Helgason skrifar um Fimm ljóð fyrir Bókmenntavef Borgarbókasafnsins:
Fimm ljóð er óvenjuleg bók í höfundarverki Eiríks Arnar Norðdahl, ívið átakaminni og ópólitískari en fyrri ljóðabækur höfundar en þeim mun hófstilltari, fagurfræðilegri og kjarnyrtari. Þeim sem hrifust af Óratorreki og koma með þær væntingar til verksins gæti þótt Fimm ljóð daufleg við fyrstu sýn. En eitt af því sem síðari bókin hefur umfram þá fyrri er að hún ber meira traust til lesenda sinna. Með því að forðast fyrirframgefna merkingu gefur höfundur lesendum rými til að nálgast verkið á eigin forsendum og túlka ljóðin eftir eigin höfði. Fimm ljóð er bók sem stækkar með hverjum lestri og ljóðin fimm sem við fyrstu sýn virðast hversdagsleg eru þegar nánar er að gáð bæði margræð og útpæld.