Fréttir úr feluleiknum

Heimska er gefin út af Marpress í Póllandi og þýdd af Jacek Godek.

Það varð kaldara í gær. Sjötti ágúst er fullsnemmt fyrir haustið til þess að ganga í garð – en það er farið að minna á sig. Ég veit ekki hvort ég er undir það búinn. Ég er hættur að vera í sumarfríi – hættur að frílysta mig og hættur að sinna húsinu – og farinn að hanga á skrifstofunni, einsog virðulegum rithöfundi sæmir. En mig langar í fleiri sumardaga. Langar að grilla á pallinum. Það gæti reyndar sloppið í dag. Svo er Act Alone að byrja. Ég kemst sennilega lítið á morgun og hinn og ætla því að reyna að ná öllu í kvöld.

Maður er líka farinn að íhuga haustið. Plönin. Ég verð svolítið á ferð og flugi frá miðjum september og fram undir lok nóvember. Heimska kemur út í Póllandi 21. ágúst og Náttúrulögmálin í Svíþjóð 1. september. Það eru fjögur ár frá því það kom síðast út bók eftir mig á öðru tungumáli en íslensku – þegar Hans Blær kom á frönsku og spænsku og Brúin á sænsku – og því gleður þetta mig mjög. Það var líka von á Óratorrek á finnsku í ár en forlagið þar virðist hafa lent í einhverjum ógöngum. Sem er auðvitað verra, en þetta er þannig bransi. Bókin er þýdd – það gerði Tapio Koivukari – og kannski finnur hún sér heimili einhvers staðar fyrir rest.

Ég finn það samt að heilinn á mér er ekki alveg kominn í stellingar. Sköpunargleðin er í felum. Ég er með tvö verkefni á borðinu, annað liggur beinna við en hitt – það er að segja það kallar meira á útfærslur en nýjar hugmyndir og ég potaði aðeins í það í gær. Hitt bíður þess að allar vélar verði komnar á fullt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *