Ég hef aldrei áttað mig alveg á kallinu eftir því að innflytjendur eða hælisleitendur eða flóttamenn sem brjóti af sér missi dvalarleyfið – hvað þá að fólk sem hefur hlotið ríkisborgararétt missi hann við tiltekin brot. Ég átta mig bara ekki á því hvernig þetta tvennt hangir saman. Og finnst svona almennt að eitt eigi yfir alla að ganga – og sömu reglur að gilda. Að ef ég, sem íslenskur gangster, lendi í ofbeldisfullum útistöðum við erlendan gangster – þá meiki lítið sens að hann verði „sendur heim til sín“ en ég fái bara að halda áfram að terrórísera nágranna mína í Tangagötunni. Og reyndar skil ég ekki hvers fólkið, sem býr „heima hjá“ þessum erlenda gangster – eða hvert hann er sendur – á að gjalda að fá einhvern fávita aftur í hausinn, sem vill ekki einu sinni vera þar. Hvað hefur það til saka unnið? Hvers vegna er betra að einhver nauðgari búi á götunni í Aþenu eða í flóttamannabúðum í Sýrlandi en að hann búi í Kópavogi? Eða bara á Hrauninu.
Ríkisborgararéttur er líka undarlegt fyrirbæri. Erich afi minn fæddist í Þýskalandi sonur ´ísfirskrar konu og súdeta-Þjóðverja – sem var sem sagt tékkóslóvakískur ríkisborgari, af því þegar langafi fæddist voru súdetahéruð í Austurríki-Ungverjalandi, og þótt hann væri fluttur til Þýskalands varð hann tékkóslóvakískur ríkisborgari 1918. Á árunum eftir stríð gilti að ríkisborgararéttur fylgdi fæðingarlandi – af því það voru allir út um allt og allt komið í rugl – svo afi var þýskur. Þegar mamma fæddist á Íslandi 29 árum síðar voru lögin á Íslandi þannig að ríkisborgararéttur fylgdi föður. Svo mamma var þýsk. Þegar Dóra systir fæddist 19 árum eftir það var búið að breyta lögunum þannig að ríkisborgararéttur fylgdi móður. Svo Dóra systir var líka þýsk. Þær fengu ríkisborgararétt í maí 1978 með samþykkt frá alþingi – nokkrum mánuðum áður en ég fæddist, sem hefði annars líka verið þýskur ríkisborgari. Af því að langafi minn var fæddur í Austurríki-Ungverjalandi á nítjándu öldinni. Var kannski bóhem, einsog ég, án þess ég viti það.
Þegar við fjölskyldan vorum í Hondúras heyrðum við mikið af fólki sem var verið að vísa frá Bandaríkjunum – mágur minn vann við flóttamannaaðstoð – og mikið af því fólki hafði aldrei til Hondúras komið frá því það fæddist, átti þar enga fjölskyldu eða tengsl, talaði jafnvel ekki einu sinni spænsku. Neyðin sem hefur skapast víðs vegar í veröldinni vegna þess að það er verið að vísa fólki í burtu af öllum mögulegum tylliástæðum – af því „innflytjendamálin“ eru í svo miklum „ólestri“ og það má ekki taka þau „neinum vettlingatökum“ – er afar raunveruleg og ekki til þess að vel meinandi fólk fari að bæta á hana. En það segir eitthvað um súra – eða réttara sagt brúna – stemninguna í vestrænum þjóðfélögum að þegar ráðherra stígur fram með þessar hugmyndir sínar um að „fækka innflytjendum“ (eða „velja betur“ – fá bara menntaða efri millistétt en halda láglaunafólkinu úti) þá réttir fyrst formaður Sjálfstæðisflokksins upp hönd til þess segjast nú eiginlega eiga höfundarrétt á þessum hugmyndum, og svo lýsir formaður stærsta verkalýðsfélagsins, sem jafnan er álitin róttækur sósíalisti, því yfir að gagnrýni á þessa stefnu – sem er ekki bara útlendingafjandsamleg, heldur fyrst og fremst stéttfjandsamleg – sé eitthvað „woke gone mad“.
Trump er altso víða. Og allir vildu Lilju kveðið hafa.
Það er ágætt að halda því til haga að fjölgun innflytjenda á Íslandi er alls ekki vegna dvalarleyfa frá fólki utan EES svæðisins, hvorki innflytjenda, flóttamanna eða hælisleitenda – enda er algert hell fyrir það fólk að flytja hingað, einsog allir sem þekkja einhvern sem það hefur reynt geta borið vitni um – heldur vegna frjálsrar farar verkafólks innan EES. Og það er enginn að tala um að ganga úr EES – það er ekki hluti af neinum tillögum. Opnu samfélagi fylgja augljóslega alls konar áskoranir. En maður þarf að vera minnislaus fáviti – eða illa innrættur – til þess að vilja hækka aftur múranna milli Evrópulanda eða flækja þessi kerfi og gera þau dýrari.