
Einu sinni fannst mér hv´ítt pasta betra en heilhveitipasta. Svo fannst mér heilhveitipasta betra. En nú finnst mér hvítt pasta aftur betra en heilhveitipasta. Ekki veit ég hvað veldur. Annars er heilhveitibransinn hálfgert svindl. Það er oft ekki nema 10% heilhveiti í heilhveitivörum – restin er bara hvítt hveiti.
Ég ætla að gera salsiccia-pasta í kvöldmat. Bara inni samt. Ég er einn heima – stelpurnar eru að fara í sumarbústað. Svo ætla ég að horfa á úrslitaleik Mjólkurbikarsins á risaskjá á Silfurtorgi. Vestri-Valur. Og þaðan hleyp ég beint á djasstónleika í Edinborg – Osgood/Blak/Poulsen tríó. Á morgun í sama húsi verður svo black metal með Chögma og rokk með ísfirsku sveitinni Paranoid. Svissneska djasssveitin Quiet Tree verður á miðvikudag. Og á laugardag verður Pavement fögnuður – bíómynd um þessa frægu indísveit (sem ég sá á Hróarskeldu fyrir 15 árum) sýnd í Ísafjarðarbíó með Q&A við Bob Nastanovich úr sveitinni og svo tónleikar með Reykjavík! (og vinum) um kvöldið sem lýkur með dj-setti frá Nastanovich. Svo fer nú áreiðanlega að róast um eftir frekar rosalegt tónlistarsumar.
Heimska kom út í Póllandi í vikunni og Náttúrulögmálin er komin úr prentun í Svíþjóð – en kemur ekki út formlega fyrren 1. september. Mér gengur aldrei þessu vant ágætlega að skrifa – er bæði að skrifa nýja(r) skáldsögu(r) og reyna að búa til leikrit úr Náttúrulögmálunum. Það er sólskin dag eftir dag – ég elda mat á pallinum við borðið sem ég smíðaði í sumar. Spila á kontrabassann minn og hef það bara mjög gott, takk fyrir.