Frú Pedersen og Snorri Másson

Ætli það sé ekki aldurstengt hversu oft hugsanir mínar þessa vikuna hafa hvarflað til móður Jeppes og Patricks Pedersena. Annar skoraði sögulega fallegt mark og varð bikarmeistari með Vestra á meðan hinn sleit hásin með Vali. Og mamma þeirra hefur þurft að hringja í þá báða eftir leikinn. Ekki veit ég hvað það segir um innlærða kynjatvíhyggjuna að ég hafi ekki sömu áhyggjur af pabba þeirra. Eða hinni mömmu þeirra?! Pöbbum þeirra? Fósturstjúpum þeirra og framkvæmdastjórum danskra munaðarleysingjahæla? Ekki veit ég neitt um fjölskylduaðstæður þeirra annað en bróðernið – ég dreg mínar ályktanir af einhverjum tölfræðilegum líkindum. En þetta hlýtur að vera sárt og sætt. Og sárt og sætt. Og svo aftur sárt og svo aftur sætt.

Ég sá stutt brot með Snorra Mássyni á einhverjum samfélagsmiðlana á dögunum þar sem hann sagðist vera eðlishyggjumaður en dró svo í land með það – sagði eitthvað í þá veru að orðið væri í sjálfu sér fáránlegt, eðlishyggja, af því það fæli í sér efa á tilvist eðlisins. Og einsog við vitum öll er eðlið sjálfsagður sannleikur. Þetta hlægði mig svolítið. Ekki af því það sé enginn hluti tilvistar okkar bundinn við eðli – það er eðli okkar að þurfa öryggi og hamingju til dæmis. Og svo höfum við persónubundið eðli sem við látum stundum einsog sé almennt. Einsog að það sé eðli okkar að leita ástar og elska. Það á við um okkur langflest en ekki öll – það er eðli en það er ekki sammannlegt eðli. En það sem Snorri var að tala um, hafi ég ekki misskilið – þessi síbyljandi áróður internetsins er aldrei skýr og yfirleitt horfinn um leið og hann birtist – var kynhegðun. Að karlar séu stórir og sterkir vöðvaverndarar og konur séu hlýjir og kærleiksríkir umönnunarverndarar. Karlar kýla illmenni, konur setja plástra á börn. Því jafnvel þótt maður samþykki að tilhneigingar hópanna séu í þá átt og hafi verið á liðnum öldum þá er hlægilega vitlaust að halda að það í sjálfu sér sýni að það sé ekki lært. Alveg svona ég-féll-þrisvar-í-félagsfræði-103-vitlaust. Og þótt sanna mætti að fræið að tiltekinni hegðun – við erum að tala um hluti einsog að varalita sig og finnast gaman í byssó – væri „eðli“ (í merkingunni eitthvað sem allir fæðast með) og það væri ekki lært frá grunni þá gæti það verið lærdómur sem ýtir undir og nærir vissar tilhneigingar svo þær vaxi umfram það sem þær myndu gera annars – og það er ekkert sem segir að allt sem er í eðli okkar sé eitthvað sem við viljum næra. Við erum skepnur – hugsandi og elskandi – en við erum samt skepnur. Það sem hefur okkur yfir aðrar skepnur, á góðum degi, er hæfileikinn til þess að beisla það versta í eðli okkar – ekki hæfileikinn til þess að láta það stýra okkur.

Auk þess ætti að vera augljóst að að því marki sem við fæðumst með eðli þá er það ívið fjölbreyttara en að karlar vilji fara í byssó og konur varalita sig. Þegar ég var lítill voru áreiðanlega margir sem ályktuðu sem svo að það væri ekki í „eðli“ kvenna að spila knattspyrnu – þær hefðu einfaldlega ekki áhuga á því. Þær stelpur sem það gerðu voru kallaðar strákastelpur og töldust áreiðanlega vera að stríða gegn eðli sínu. Sem er fáránlegt konsept. Því það sem strákastelpurnar voru að gera var að fylgja eðli sínu – fótboltinn kallaði á þær og þær hlýddu kallinu – rétt einsog strákarnir sem varalita sig heyrðu snyrtidótið hvísla. Og hvorugt segir neitt um að það sé meðfætt eða lært eða að hluta meðfætt og að hluta lært – það er bara alls konar og skiptir engu andskotans máli. Maður fær það frá ömmu sinni heitinni og maður fær það frá vinum sínum og maður fær það úr útvarpinu og með móðurmjólkinni og á síðkvöldum úti í skúr með afa. Byltingin sem hefur orðið á síðustu árum – og er enn að verða –  er að mörgu leyti mjög sjálfhverf og einstaklingsmiðuð, sem hefur kosti og galla sem við getum alveg rætt, en hún snýst um að hver manneskja fái að fylgja sínu eigin eðli frekar en að neyðast til að troða sér í eðlis-boxin sem menn einsog Snorri Másson vilja sníða þeim (og jájá, ég heyrði líka „mér er alveg sama þótt fólk sé trans heima hjá sér rökin“ – þau eru ekki sannfærandi).

Að því sögðu er hugur minn enn hjá frú Pedersen.

Góðar stundir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *