Orðið er F-orðið

Nú ætla ég að segja svolítið sem við fyrstu sýn virkar mótsagnakennt – og væri nú svo sem ekki mér ólíkt, ég elska mótsagnir – en er það ekki. Ég held að það hafi sjaldan verið jafn mikilvægt og nú að segja einfaldlega sannleikann án þess að ýkja –  hafi yfirveguð orðræða einhvern tíma skipt máli er það nú. Og ég held að það sé allt að verða krökkt af pípandi fasistum.

Það að kalla einhvern fasista er eðlisólíkt því að kalla viðkomandi skrímsli að því leytinu til að skrímsli eru ekki til, en fasistar eru til og hafa alltaf verið til, í einhverri mynd. Að kalla einhvern fasista er ekki að segja þá færa um hvað sem er – færa um að réttlæta helförina eftirá, heldur færa um að réttlæta helförina fyrirfram, áður en það er komið í ljós að hún er helförin, meðan hún er enn bara skipulagðar „lausnir“ á vandamálum sem fasistarnir sjá ofsjónum yfir, ekki síst vandamálinu að samfélagið sé ekki nógu einsleitt, að innan þess séu ólíkir hópar. Nasistar Þýskalands 1935 hefðu aldrei gengist við því að vera nasistar 1955 – þeim hefði sárnað ásökunin. Og raunar könnuðust fæstir þeirra við að hafa verið nasistar 1935 og fannst mjög ómálefnalegt að vera alltaf að draga það upp, einsog það skipti einhverju máli árið 1955.

***

Ég hef aldrei svo ég muni eytt neinum af Facebook vegna skoðana þeirra. Mér hefur þótt fólk vera þreytandi vitleysingar – jafnvel þannig að ég hafi íhugað að slökkva á þeim bara, loka þau úti, á þeirri forsendu fyrst og fremst að það geri andlegri heilsu minni ekki gott að vera í stanslausu sambandi við dýpsta og reiðasta óöryggið í öðru fólki. Manni – a.m.k. mér – er það ekki eðlislægt yfir höfuð að vera í svona miklu sambandi við svona margt fólk, að vera á þessum stanslausa borgarafundi sem félags- og fréttamiðlar eru orðnir, og hvað þá þegar áróður sem maður hefur ímugust á er farinn að smjúga inn um allar glufur.

Ég á marga FB-vini sem ég veit ekkert hvernig ég eignaðist – sennilega er það fylgifiskur þess að vera hálfopinber persóna. Sumir skjóta aldrei upp kollinum en aðrir verða nöfn í hausnum á mér. Sigurður. Kristín. Njáll. Og svo framvegis. Og nú opna ég varla Facebook lengur án þess að glenna upp augun og klóra mér í kollinum og spyrja mig svo: Er Sigurður/Kristín/Njáll líka orðin(n) fasisti? Eða líka kominn út úr skápnum sem fasisti eða hvað maður á að kalla það – ég hallast að því að maður sé það sem maður gerir og sé maður í skápnum með pólitíska óbilgirni sína í garð hinna ýmsu þjóðfélagshópa þá sé maður ekki fasisti. Maður verður það þegar maður byrjar að beita henni – þegar maður veifar henni stoltur. En það eru heimspekilegar spurningar sem ég skal geyma til betri tíma.

Og allt hangir þetta saman við þróunina vestanhafs. Sem er orðin þróunin beggja vegna hafsins og í því miðju. Hvernig sem maður svo hanterar það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *