Ég þurfti að fara í margar búðir í Västerås áður en ég fann eintak af tímaritinu Vi Läser – sem var einu sinni til alls staðar. Hins vegar er það tímanna tákn að í öllum búðunum var tímaritið Skriva til. Vi läser er tímarit um lestur – fyrir þá sem elska að lesa bækur. Skriva er tímarit fyrir þá sem vilja skrifa sjálfir. Einhvern tíma var sagt um íslensk ljóðskáld að þau hefðu flest margfaldan áhuga á eigin ljóðum en ljóðum per se – og jafnvel alls engan áhuga á ljóðum annarra, þú fyndir hvergi færri ljóðabækur en í hillum þeirra sem ortu sjálf. Þetta voru auðvitað ýkjur og að svo miklu leyti sem sannleikskorn var í því að finna var það auðvitað líka misjafnt manna á millum. Mér sýnist hins vegar að á síðustu árum þá hafi áhuginn á því að skrifa prósa farið fram úr áhuganum á því að lesa prósa. Í Svíþjóð birtist þetta meðal annars í mikilli fjölgun hégómaforlaga – „vanity press“ heitir það á ensku,og nær yfir forlög sem borga ekki höfundum sínum ritlaun heldur þiggja sjálf greiðslu fyrir að gefa út bækur þeirra. Stundum er það „trygging“ – þannig að höfundurinn eigi að fá pening þegar hann slær í gegn. Á alvöru forlagi fær maður greiddar óafturkræfa fyrirframtryggingu – hún er í sjálfu sér skítur á priki og krónutalan hefur ekki hækkað á þeim 20 árum sem ég hef gefið út (sem að gefnu tilliti til verðlagsþróunar þýðir að fyrirframgreiðslur eru í dag um þriðjungur af því sem þær voru 2004). Einhver gæti sagt að þessi upphæð skipti engu máli en hún er allavega hvati fyrir forlögin að selja lágmarksfjölda eintaka – að ná upp í fyrirframgreiðsluna áður en bókmenntaverkið er afskrifað upp í gróðann af næsta reyfara.
En það þarf sem sagt að þræða verslanir til að finna Vi Läser. Ég man líka eftir því að fyrir mörgum árum var ritdeila í sænskum fjölmiðlum um nýja danska ljóðlist – og að hversu miklu leyti ný sænsk ljóðlist stæði henni að baki – altso ljóð ungra skálda. Tilefnið var útgáfa antológíu nýrra danskra ljóða á sænsku. Og þrátt fyrir að allir á menningarsíðunum hefðu á þessu skoðun var hægara sagt en gert að útvega sér eintak af bókinni – og var ég þá í Stokkhólmi og fór í stærstu bókaverslanir landsins. Og það var ekki vegna þess að bókin væri uppseld, hún hafði bara ekki verið pöntuð inn.
Bókamessan í Gautaborg er á helginni. Þangað fór ég fyrst fyrir 15 árum og hef áreiðanlega farið 5-6 sinnum síðan en það eru orðin nokkur ár síðan síðast – og þegar ´eg fór síðast var alls engin eiginlega bókamessa og ég f´ór ekki einu sinni til Gautaborgar heldur Malmö þar sem var streymi. Ég er pínu peppaður en líka ekki – bókamessur eru eiginlega líka hræðilegar. Þúsundir manns sem streyma í gegnum risastóra sali einsog uppvakningar í bókahafi – og á hverjum bás er einhver aumingjans rithöfundablók að tala á sviði sem er á stærð við lítið eldhúsborð fyrir framan fjóra tóma stóla og einn áhorfanda, sem er oftast einhver sem hann tók með sér, vinur eða elskhugi. Ég hangi yfirleitt mest í Rum för poesi sem er salur afsíðis þar sem eru bara ljóðaupplestrar.
Síðast þegar ég var á svæðinu var allt krökkt í nasistum líka – nasistatímarit á messugólfinu og Norræna mótstöðuhreyfingin [svo] með svona 40 manna kröfugöngu fyrir utan. Og fleiri þúsund manns að mótmæla nasistunum – og nokkur hundruð löggur að passa að mótmælendamótmælendurnir myndu ekki rífa nasistana á hol.
En þetta verður áreiðanlega mestmegnis gaman. Ég þyrfti bara helst að hvílast aðeins áður en ég fer – á fimmtudag. Helgin var mjög intensíf – Tom Waits tónleikar á laugardag og ferðadagur á sunnudag frá 8 og fram yfir miðnætti. Og ansi orkufrekt langhlaup í gær. Og ég svaf sem sagt illa í nótt og er dálítið einsog draugur.
***
Á dögunum birtist Q&A um haustbækur á Vísi – rætt var við tvær konur og tvo karla. Og sennilega var nú reynt að pólarísera kynjunum svolítið – í öllu falli voru konurnar báðar úr bókmenntaheiminum, María Elísabet Bragadóttir, rithöfundur, og Ingibjörg Iða Auðunnardóttir, gagnrýnandi í Kiljunni; en karlarnir voru Bergþór Másson bitcoin-trúboði og Hjörvar Hafliðason, hlaðverpill. Það eru svona dálkar líka í Vi Läser og ég var að lesa þá áðan og fór að hugsa hvort ég ætti að stela spurningunum og svara þeim sjálfur – en rek mig þá á að spurningarnar sem karlarnir fengu voru greinilega ekki alveg einsog þær sem konurnar fengu. Eiginlega virðist hlaðverpillinn ekki hafa fengið neinar spurningar – það er bara einsog einhver hafi kveikt á honum og hann svo bara blaðrað almennt um lestur sinn. Og trúboðinn fær stytta útgáfu af spurningalista kvennanna.
Annars sá ég að fólk var að fjargviðrast yfir bókum trúboðans – og þessum (vísvitandi) framkallaða mun á kynjunum – og kannski mest því að hann hefði valið Ayn Rand. Ég hef ekki lesið Fountainhead en ég þekki fullt af vinstrisinnuðu fólki sem hefur lofað hana – á tímabili var alltaf verið að mæla með henni við mig. Enda er þetta, eftir því sem ég kemst næst, eins konar listamanna-übermensch bók og vinstri-bóhem hafa alltaf verið ginnkeypt fyrir Nietszcheískum hugmyndum um snilligáfu. Ég hef alveg trú á að Fountainhead geti verið ágæt. Ég hef hins vegar lesið Atlas Shrugged og hún er í einu orði sagt vond. Í fleiri orðum sagt er hún hræðilega löng, allur hennar boðskapur, allt erindi hennar við lesanda, birtist strax á fyrstu síðu og er svo endurtekinn í þúsund síður þar á eftir – sögupersónurnar eru ekkert nema farartæki fyrir þessar frekar banal kaupsýslumannadýrkun, „flatari en pappírs-Pési“ – og ég fullyrði að það er ómögulegt að njóta hennar nema maður sé gersamlega dolfallinn yfir þessum boðskap.
Annað sem Bergþór nefnir er ágætt – „Nietzsche, Houellebecq, Knausgaard, Didion, Laxness og Pétur Gunnarsson.“
En spurningarnar voru sem sagt þessar (en svörin mín):
Er einhver go-to haustbók sem þú leitar í?
Nei. Ég þori ekki að sverja fyrir það en ég held að almennt þyki mér snemmhaustin alls ekki g´óður tími til lestrar – ég er alla jafna órólegur á þessum árstíma. Þetta skánar svo síðla hausts þegar nýju skáldsögurnar byrja að koma. Besti tíminn til að lesa er janúar-febrúar. Þá er ég í essinu mínu og einbeitingin í botni.
Hvað einkennir góða haustbók? Og hvað vill maður út úr haustlestrinum?
Þessu er auðvitað ekki auðsvarað (sjá svar 1). En ég gæti trúað að á haustin sé ég ginnkeyptari fyrir einfaldari bókum – og jafnvel þolinmóðari gagnvart væmni og þvíumlöguðu. Stórum og ofsafengnum tilfinningum.
Hvað er verið að lesa þessa dagana?
Ég er að lesa Ulysses og sitthvað henni tengt – sögu Írlands og handbækur. Auk þess er ég að lesa Dottern eftir Lenu Andersson og Doppelganger eftir Naomi W… nei ég meina Naomi Klein.
Er eitthvað sem þú mælir sérstaklega með fyrir fólk sem er að leita sér að einhverju að lesa?
Ég er mjög spenntur að fara fljótlega að lesa Rúmmálsreikning III eftir Solvej Balle – fyrstu tvær voru frábærar. Mæli með þeim.