Margt lítið um fátt eitt (fótbolti, bókmenntir, fótbrot, bókamessur)

Öll þessi ritlaunaumræða gerir ekkert annað en að triggera í mér frekjuna. Ég vil fá föst ritlaun sem ég þarf ekki að sækja um á hverju ári og ég vil að þau séu svona a.m.k. 40-50% hærri en þau eru – að lágmarki. Ég nýt bara talsverðrar velgengni – bý ódýrt, lifi sparlega – en ég er samt alltaf blankur. Kemur alltaf minna inn en fer út.

***

Það er búið að reka Davíð Smára. Þjálfara Vestra. Ég hef lítið fylgst með íslenskum fótbolta fyrren rétt svo síðustu misseri og skil þennan bransa ekki enn almennilega. Skil ekki hvernig trúnaðurinn virkar. Mér fannst frekar erfitt að horfa á Matta Villa – son Villa nágranna míns – spila með Víkingi á móti Vestra. Alveg fáránlegt eiginlega. Það er áreiðanlega enn skrítnara fyrir pabba, sem er Víkingsmaður frá fornri tíð. Mér finnst líka sem Spursari til svona tíu ára fáránlegt að Son sé að spila fyrir Los Angeles og Harry Kane sé með Bayern München. Og nú langar mig mest að fara bara að halda með næsta liði sem Davíð Smári þjálfar. En ég vil helst að allir sem leiki með Vestra leiki þá í því liði líka. Kannski þýðir þetta að ég skilji ekki fótbolta. Og sennilega er ég bara orðinn of gamall til að læra það.

***

Bókamessan í Gautaborg var skemmtileg. En ég er mjög lúinn á eftir. Mannþröng og fuglabjargshávaði er ekki alveg minn tebolli. Svo verða kvöldin stundum svolítið löng. En þau eru líka skemmtilegasti hlutinn af þessu og sá eini sem ég kann eitthvað á. Ég fór á silent disco (allir með heyrnartól) og söng Livin’ on a Prayer með útgefandanum mínum í karókí (ekki silent, því miður). Og í þrjá hátíðarkvöldverði með ólíkum höfundum og útgefendum og bókmenntadiplómötum. Hitti svona 300 kunningja í ólíkum mannhöfum – nikkaði, knúsaðist, tók í hendur, stutt spjall, óp í gegnum hávaðann á einhverjum bar. Tvö samtöl á sviði, tveir ljóðaupplestrar, mörg hot shots og talsvert af frönskum pylsum í 7-Eleven. Gautaborgarpósturinn tók á móti mér þegar ég kom í bæinn með fjarska fallegum dómi um Náttúrulögmálin. Öll eintökin sem útgefandinn tók með á messuna ruku út – Grimwalkerhjónin, sem einhverjir kannast kannski við, keyptu síðasta eintakið. Daginn sem ég kom heim birtist svo líka ægilega skemmtilegur dómur í Kyrkans Tidning – en guðfræðingar hafa auðvitað sérstakt sjónarhorn á þessa bók. Og gaman þegar þeir ná henni. Mér skilst það sé líka von á dómi í Expressen og svo verð ég bara að sjá hvernig fer með restina – söluna og athyglina. Það er mjög hátt til lofts í sænskum bókmenntaheimi.

***

Meðan ég var að spóka mig í útlöndum datt Aino og fótbrotnaði. Eða fékk sprungu í bein og var sett í gips. Það var hringt í okkur í morgun og við beðin að koma í aðgerð klukkan hálffimm. Sem er auðvitað ógerlegt af því aðgerðin er í Reykjavík. En við förum á morgun og þurfum að leggja út 160 þúsund krónur fyrir ferðum og gistingu. Og ég þarf að taka tveggja daga frí frá vinnu. Svo stendur í upplýsingapdfinu að greitt verði fyrir aðgerðina samkvæmt gjaldskrá. Sem ég veit ekki hver er. Ég held við fáum þetta allt endurgreitt á endanum en það verður kannski ekki fyrren eftir 12 vikur. En ég þarf samt að borga fyrir þetta núna og borga vextina af yfirdráttarláninu næstu 12 vikurnar. Konan mín er sænsk og ég skammast mín fyrir að vera íslenskur þegar svona kemur upp á.

Í gær fór líka Play á hausinn en sama barn átti miða til að fara að heimsækja ömmu sína og afa á Spáni. Það bjargaðist líka en það var ekki heldur ókeypis, þótt ég hafi ekki þurft að leggja út fyrir því sjálfur.

***

Ég er heima í tíu daga. Eða tæplega það ef talin er með þessi Reykjavíkurferð. Svo er það maraþon í Þýskalandi/Austurríki/Sviss (Drei-länderinn svokallaði). Tveggja vikna skriftafrí í bústað. Tveggja vikna kynningartúr um Svíþjóð og ein vika með Heimsku í Póllandi. Svo er bara farið að styttast í jól.

***

Í sænskum fjölmiðlum tekst fólk á um að hversu miklu leyti blaðamenn og orðræða þeirra um palestínumenn og stuðningsfólk palestínska málstaðarins afmennski það fólk. Vinstrimönnum finnst augljóst að orðræðan sé afmennskandi og þar með hættuleg en því hafna hægrimenn með öllu. Í bandarískum fjölmiðlum tekst fólk á um að hversu miklu leyti vinstrimenn (eða demókratar) og orðræða þeirra um repúblikana og stuðningsmenn MAGA-málstaðarins afmennski það fólk. Hægrimönnum finnst augljóst að orðræðan sé afmennskandi og þar með hættuleg en því hafna vinstrimenn með öllu.

Ég veit hvað mér finnst. Mér finnst alltílagi að kalla MAGA-fólk fasista af því mér sýnist það leggja stund á fasíska pólitík og ég held að þau séu alls ekki einlæg þegar kemur að því að óttast orðræðuna – þau eru bara að fella pólitískar keilur. Og mér finnst mikilvægt að rætt sé um fórnarlömb hamslauss hernaðar Ísraelsmanna af nærgætni og kærleika – að minnt sé á að þau eru ekki tölur á blaði heldur fólk – en að sama skapi má alveg reiðast sænskum kjallarahöfundum sem eiga það til að láta þetta allt snúast um sig og sína sýn á réttlætið. Eða sýn okkar hinna á þau sem fulltrúa réttlætisins.

***

Í dag er alþjóðadagur þýðenda. Það er orðið svo langt síðan ég þýddi nokkuð af viti sjálfur að ég get varla talið mig í þeim hópi. En ég á fjarska marga góða þýðendur sem ég er mjög þakkl´atur – John Swedenmark vann nýlega þrekvirki með þýðingu sinni á Náttúrulögmálunum á sænsku og margt hef ég líka heyrt gott um nýlega þýðingu Jaceks Godek á Heimsku þótt ég geti ekki lesið hana sjálfur. Svo eru allir hinir – Eric Boury, Jean-Christophe Salaün, Nanna Kalkar, Vicky Alyssandrakis, Anna Gunnarsdotter Grönberg, Enrique Bernárdez, Roula Georgakoupoulu, Betty Wahl, Tina Flecken, Alexander Sitzman, Jón Bjarni Atlason, Tapio Koivukari, Daria Lazic, Anna von Heynitz og Anita R¨ubberdt. Og svo allir hinir sem hafa þýtt stök ljóð eða greinar. Þýðendur eru hinar ókrýndu og ósýnilegu kempur bókmenntanna – án þeirra værum við öll bara eitthvað að garfa í naflanum á okkur.

Annars hef ég tekið eftir því upp á síðkastið að fólk er farið að forðast að tala um þýðendur og þýðingar og leitar í önnur orð. Einn segist „endursegja“ ljóð. Aðrir „útleggja á íslensku“. Og svo framvegis. Einu sinni var önnur hver bók ekki þýdd heldur „íslenzkuð“. Ég skil eiginlega ekki tilhneiginguna. Ætli fólki finnist það að þýða of hátíðlegt? Eða of hversdagslegt?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *