Nóbell

Ég veit ekki hvort mér finnst nóbelsverðlaunahafar sérstaklega skemmtilegir. Það er allavega eitthvað upp og ofan hvað ég næ sambandi við verk þeirra – Coetzee og Saramago eru kannski þeir sem ég hef helst aðdáun á. Og Dylan en það voru samt fáránleg verðlaun, einhvern veginn. Ég er enginn sérstakur HKL maður en átti svo sem tímabil þar sem ég hélt upp á Heimsljós og Gerplu. East of Eden var einu sinni uppáhalds bókin mín.

Nú renni ég yfir listann og sé að þetta eru nú ekki beinlínis höfundar sem mér hafa þótt leiðinlegir heldur. Orhan Pamuk fíla ég. Af þeim sem hafa fengið þetta í minni lífstíð eru ekki nema 4-5 sem ég hef ekkert lesið. Og kannski bara einn – Modiano – sem ég náði alls engu sambandi við.

Af þeim sem taldir eru líklegir held ég mest upp á Don DeLillo en það er samt eitthvað í mér sem vill hvorki að risastór höfundur né ameríkani fái þetta. Um Pynchon gildir sama – þar er ég reyndar mest Crying of Lot 49 maður, hitt hef ég hreinlega ekki haft tíma eða heilasellur til að skilja enn (ég hef samt plægt mig í gegnum Gravity’s Rainbow).

Af ´Íslendingum væri það helst Sjón – að öðrum ólöstuðum, þetta er ekki bara spurning um gæði heldur líka bókmenntategund, nóbelsverðlaun eru ekki fyrir hvernig bækur sem er, Sjón skrifar þessa bókmenntategund og hann er að mínu mati „nógu góður“. Reyndar er Anne Carson líka Íslendingur. Ef annað hvort þeirra fengi þetta þá væru Íslendingar búnir að rústa höfðatölumetinu næstu 200 árin a.m.k.

Af höfundum sem aldrei eru nefndir myndi ég nefna Will Self. Ali Smith – er hún ekki stundum nefnd? Mér þætti það líka skemmtilegt. En svo segir það eitthvað um sýn manns á bókmenntirnar að það sem manni dettur í hug er helst enskumælandi höfundar. Arnon Grunberg er hollenskur höfundur sem ég fékk dellu fyrir en eiginlega er það mest ein bók – The Jewish Messiah – sem ég náði svona góðu sambandi við.

Kraznahorkai hef ég ekki lesið nógu mikið – bara eina stutta bók – en ég hef trú á honum. Ko Un er aftur á lista sé ég – eftir nokkur ár af kansli – og ég held mikið upp á ljóðin hans. En það er kannski ekki gott fyrir kvennabaráttuna að hann vinni. Cesar Aira er frábær – mjög sérstakur, auðlesnar bækur sem eru allar um 100 síður og leysast allar upp í vitleysu. Mér finnst Murakami fínn – þótt hann sé, einsog einn vinur minn sagði um Ishiguro, „middle of the road höfundur“. Og einsog með Dylan þá er hann bara svo stór að það er kjánalegt að vera að hengja á hann orður. Sama gildir um Isabel Allende. Yoko Tawada er á listanum og Colm Toibin og Carl Frode Tiller – allt fínir höfundar. Og fleiri! Það er víst nóg til af góðum höfundum. Vonandi fær einhver þeirra verðlaunin á morgun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *