Ég er svolítið einsog undin tuska og kenni samtímanum um. Það er sjálfsagt óverðskuldað en ég er nýbúinn að lesa tvær sænskar bækur sem eru fremur krítískar á samtímann – tæknina – og því leitar hugurinn þangað. Sú fyrri heitir Ingen Surf og er eftir kunningja minn Jonas Gren – sem er þekktari sem ljóðskáld (ég hef þýtt eftir hann ljóð sem birtust á Starafugli). Þetta er „bók almenns eðlis“ – einhvers konar debattrit sem stefnt er gegn snjallsímavæðingunni frekar en internetinu sem slíku. Jonas tekur þar saman það sem maður veit: þetta helvítis tæki hertekur stöðugt athygli fórnarlamba sinna með því að hneppa þau í dópamínþrældóm og rænir þau þannig sálarrónni, einbeitingunni, sköpunargleðinni og hamingjunni. Það sem kemur manni kannski mest á óvart er hversu lítið umdeilt þetta reynist – Jonas rekur ýmsar skoðanakannanir sem sýna að við viljum flest losna við snjallsímana, samfélagsmiðlana, sítenginguna. Við hötum þetta helvítis drasl. Við viljum vera frjáls en veljum að vera það ekki – af því að við fáum dópamín, völd, athygli* og ákveðna ofurkrafta í skiptum fyrir andlega ró, tíma til að melta og íhuga.
* Bara athygli annarra. Við missum okkar eigin. Það eru skiptin.
Ég er sem sagt að hugsa um að ganga í takkasímasamfélagið. Það krefst smá undirbúnings. Og felur ekki endilega í sér heldur að maður noti aldrei internetið eða samfélagsmiðla – heldur bara að maður skipi þeim út í horn og kenni þeim að hlýða sér en ekki öfugt.
Hin bókin heitir Allting Växer og er eftir Lyru Koli, sem ég þekki reyndar líka lítillega – hún og kona sem heitir Mikaela Blomquist eru með sænskt hlaðvarp og þær komu til Ísafjarðar í vor til þess að taka viðtal við mig. Þetta er vísindaskáldsaga sem gerist í óskilgreindri nærframtíð eftir loftslagshamfarir – í einhvers konar búbblu – þar sem allir eru sítengdir í gegnum ígræðslur, sem stýra líka hormónabúskap fólks svo það þarf enginn að vera leiður nema þegar hann vill það (sem er stundum – maður vill kannski geta farið að grenja í bíó og þá skrúfar maður bara frá). Fólk er reyndar líka í alls konar samtalsmeðferðum til þess að díla við tilvistarkreppur sínar. Manni fer fljótt að finnast einsog allt mannlegt sé í raun ónáttúrulegt.
En þar sem er dystopísk framtíð er líka andspyrnuhreyfing sem vill snúa aftur til „náttúrunnar“ en er ekki – frekar en við í dag – viss um það hvað náttúran sé, hvað sé náttúrulegt og hvað ónáttúrulegt. Þetta er fremur sínísk bók því þótt fólkið í henni sé fullt af von og vonbrigðum og jafnvel byltingaranda þá eru útleiðirnar alls ekki ljósar og gremjan sem það veldur kalla á öfgar og mannfyrirlitningu.
Mjög eftirtektarverð bók og umhugsunarverð. Eitt af því sem aðalsöguhetja bókarinnar, Jossi, gerir er að leita að textanum við Evert Taube lagið Sjösala vals, sem hún finnur og muldrar svo mikið blómanöfnin í textanum – gullviva, mandelblom, kattfot og blå viol. Hún skilur þau ekki af því í framtíðinni tala allir ensku, en þau segja henni eitthvað og hún veltir fyrir sér hvernig þau líti út. Hún fer svo líka á stúfana eftir laglínunni sem hún finnur ekki. Íslendingar þekkja fæstir þennan texta – en þeir kannast ágætlega við laglínuna og mín kynslóð sérstaklega við þessa útgáfu:
Einsog fram kom í umræðunni um Páfagaukagarðinn í vor tilheyri ég bókmenntaelítunni í þessu landi. Ég lánaði að vísu eintakið mitt og hef ekki séð það síðan og því ekki getað gert það sem mig hefur langað að gera – að athuga hvort að appelsínugula endurútgáfan sé sama bókin og sú bláa, en um það er ég alls ekki viss – en hún skilar sér sjálfsagt. Hins vegar fékk ég nú enn eina ferðina senda nýja bók og þessi var ekki merkt Akörn heldur Rögnu Sigurðardóttur, sem ég held talsvert uppá og þess vegna hef ég sennilega fengið svona „áhrifavaldaeintak“.
Bók Rögnu heitir Útreiðartúrinn og er einsog tvær til þrjár glæpasögur í einni – sögur sem er gert að spegla hver aðra.
Aðalsagan segir af sambandi feðga. Pabbinn/sögumaðurinn er miðaldra og sonurinn unglingur á erfiðu skeiði, afundinn og leiðist allt, sérstaklega ef það kemur frá pabba hans. Sonurinn lendir ásamt vini sínum í barsmíðum út af einhverri tik-tok áskorun – og eiginlega allt við það reynist föður hans frá fyrstu stundu óleysanleg ráðgáta, sem flækist svo bara og flækist eftir því sem líður á bókina, og raunverulegri ráðgáta skýtur upp kollinum. Um hana er víst best að segja sem minnst á meðan fólk hefur ekki haft ráðrúm til að lesa bókina sjálft.
Næsta saga segir af forföður þeirra feðga sem var sakaður um að hafa myrt mann í ölæði seint á nítjándu öldinni. Sá lýsir sig saklausan en viðurkennir samtímis að muna alls ekki hvað gerðist. Margir kaflar bókarinnar gerast á þeim tíma – en áherslan er ekki síst á ástarsamband hins meinta morðingja við konu sem hann hefur nýtrúlofast (og barnað í þeim sama útreiðartúr og morðið á sér stað). Eiginlega er hennar sjónarhorn mest ofaná.
Þriðja glæpasagan er sagan af einelti föðurins en löggan sem fylgir syni hans heim eftir barsmíðarnar reynist vera gamall „vinur“ – maður sem beitti hann einhvers konar andlegu ofbeldi þegar þeir voru börn með því að ýmist draga hann til sín eða ýta honum frá sér, virkar einsog einhvers konar sósíópati – og gaslýsir hann alltaf þegar hann reynir að taka það upp. En vegna þess að maður fær söguna bara frá pabbanum og hún er upprifjun á einhverju sem gerðist fyrir mörgum áratugum er maður heldur aldrei alveg viss sjálfur hvað snýr upp og hvað niður í þeim samskiptum.
Þessar fléttur eiga það sameiginlegt að fjalla um ofbeldisverk sem eru ekki alveg jafn klippt og skorin og maður gæti haldið í fyrstu og þar sem fórnarlömbin eru auk þess einhvers konar þátttakendur í eigin ofbeldisverkum (án þess að ég vilji fara út í einhverja fórnarlambssmánun hérna!)
Stígandinn í bókinni er hægur og Ragna skrifar sem fyrr af fágun og yfirvegun, flugeldalaust, svo það kemur manni sjálfum ekki minnst á óvart þegar maður er alltíeinu farinn að ofanda. Ég veit ekki hvort það er rétt að kalla þetta stúdíu á ofbeldismenningu – eiginlega finnst mér Ragna ekki vera að skrifa út úr þannig samhengi, ekki til þess að koma með einhverja risa yfirlýsingu um eðli ofbeldis, heldur sé hún frekar að segja okkur eitthvað um sársaukann og vonleysið og hvernig þau systkinin særa fram eyðileggingarkraftinn í fólki. En þetta er ekki einföld bók heldur og ég á áreiðanlega eftir að melta hana lengi – og svo lesa hana aftur.
Hnotskurn: Hræðileg bók (sérstaklega fyrir fólk sem á eða hefur átt eða ætlar að eiga unglinga) en framúrskarandi skáldsaga.
Eftir því sem ég kemst næst birtist Útreiðartúrinn í bókabúðum ekki á morgun heldur hinn. Ef ég væri þið myndi ég mæta strax við opnun.