Við flugum frá Helsinki niður Evrópu, skutum okkur undir Rússland og fórum svo að segja milli stríða austur til Bangkok. Með Úkraínu og Rússland norðan við okkur og Sýrland og Ísrael/Palestínu sunnan við okkur. Flugið var langt og ég svaf sama og ekkert. Í fluginu frá Íslandi til Helsinki lenti ég fyrir aftan einhvern duckfaced áhrifavald sem hafði framfæturna uppi á sætinu fyrir framan sig, hallaði bakinu aftur á mig – ég bókstaflega æpti þegar ég fékk það á hnén – og sat svo og skrollaði myndum af kjólum alla leiðina. Í lengra fluginu hafði ég bókað og borgað fyrir betra sæti sem ég svo fékk ekki. Með þessum afleiðingum að ég kom svefnlaus til Bangkok. Og það fyrsta sem ég gerði þegar við komum heim til mágs míns og fjölskyldu var að skríða inn í herbergi og leggjast fyrir í klukkutíma. Síðan þá hafa orðið nokkrir leiðangrar niður í bæ. Mér finnst mjög gaman að flannera sjálfum og ekki síður að hlaupa um garðana en það er svona misvinsælt hjá öðrum í fjölskyldunni, sem eru auðvitað sumir hverjir, ef ekki hreinlega allir, með styttri lappir en ég. En ég fékk þó Aram með mér í einn fimm tíma leiðangur fyrsta heila daginn okkar. Nú erum við komin til Ayutthaya, sem var hugsanlega – segja sérfræðingar – einu sinni stærsta borg heims. Ég hef bæði séð því haldið fram að hér hafi búið þrjár milljónir og ein milljón. Ekki veit ég hvað ég á að gera með það misræmi annað en yppta öxlum. Nú búa hérna 50 þúsund manns sem flestir lifa af því að sýna musterisrústirnar. Hér er mjög mikið af musterisrústum. Það er auðvitað margt hérna sem rifjar upp veturinn sem við eyddum í Víetnam fyrir sléttum tíu árum síðan – þegar það var hægt að setja Aino á bakið og Aram á bögglaberann – en af einhverjum orsökum hefur Kúba líka margoft komið upp í hugann. Kannski sem kontrast. Ég fór auðvitað til og um Kúbu áður en það voru neinir farsímar og maður vill útskýra fyrir börnunum hvernig maður spurði fólk – sem maður deildi engu tungumáli með – hvenær það kæmi rúta eitthvert og fékk mjög óljós svör en sat svo bara í þrjá tíma og beið í trausti þess að það kæmi rúta. Hvernig maður treysti alls kyns svörtum leigubílum og öðru fólki til að segja manni satt og fara með mann þangað sem maður ætlaði. Og hvernig maður stikaði sér leið um Habana útfrá hnitakerfinu – þar sem strætin eru númeruð. Hvernig maður sat kannski á dyraþrepinu einhvers staðar klukkustundum saman og beið eftir að viðkomandi birtist – sem vissi ekki að væri von á manni, þótt maður þættist vita að maður mætti gista í nokkra daga. Og hvernig maður fór í burtu í mánuð og hafði ekkert samband við neinn heima allan þann tíma (ef frá er talið þriggja mínútna símtal til mömmu og pabba á aðfangadag – sem kostaði einsog tíu rommflöskur). Í dag sáum við talsvert af bleikum fílum. Annars er í sjálfu sér fátt að frétta.
Ef 46 væri 27
Ég nefndi einhvern tíma í sumar – sennilega í kringum afmælið mitt – að George Orwell, David Foster Wallace og Albert Camus hefðu allir átt það sameiginlegt að deyja 46 ára. Í gær rakst svo á tvo í viðbót – Charles Baudelaire og Oscar Wilde. Fjörutíuogsex er greinilega tuttuguogsjö rithöfunda. Baudelaire fékk heilablóðfall, lamaðist og dó svo – allt afleiðing ólifnaðar. Oscar Wilde lést úr heilahimnubólgu – fátækur og ofsóttur og til þess að gera nýsloppinn úr fangelsi (þar sem hann sat fyrir kynhneigð sína). Orwell dó úr berklum, Camus í bílslysi og DFW framdi sjálfsmorð – einsog var rætt hér áður . 27 skáld er annars gott ljóð eftir Val Brynjar. Og kynslóð 27 er heiti yfir hóp höfunda á Spáni sem áttu sameiginlegt að koma fram 1927. Það styttist í 2027. Nú þyrfti ég góðan talnafræðing til að rýna í þetta allt saman fyrir mig. En 27 er ekki talan, 46 er talan. Ég er 46, söngleikurinn Grease er 46, Harry Martinson – sem er frægastur fyrir að hafa veitt sjálfum sér Nóbelsverðlaunin – dó fyrir 46 árum. Einu sinni bjó ég í heilan mánuð í Villa Martinson í Jonsered, skammt utan við Gautaborg, sem kennd er við hann, þá var ég 36 ára (17 í rithöfundaárum), og villan stendur við William Gibsons väg (sem er ekki William Gibson höfundur Neuromancer heldur William Gibson iðnjöfur í Jonsered) … nei nú er ég kominn út fyrir efnið. HP Lovecraft dó líka 46 ára. Þá eru þeir sex. Lovecraft skaut sig eftir að hafa fengið þær fréttir að móðir hans, sem var mikið veik, myndi ekki lifa af. Ég hef lítið lesið hann en þó lítinn kviðling sem hafði talsverð áhrif á mig – löngu áður en ég byrjaði að lesa ljóð var ég mjög fasíneraður af textanum á legsteini skrímslisins Eddies utan á Live After Death plötu Iron Maiden (sem er með bestu live plötum). That is not dead / Which can eternal lie / Yet* with strange aeons / Even death may die. Vinur minn átti stóran fána þar sem ég las þetta og ég fór oft með þetta. Og þetta fjallar auðvitað um dauðann og eilífðina. Að vera 46 ára. Þetta „yet“ er „and“ hjá Lovecraft – en við höfum það einsog ég lærði það. Er líf eftir 46? Það er svo stóra spurningin. Ég er allavega með eina bók sem kemur út áður en ég verð 47. Allt sem gerist eftir 1. júlí 2025 er svo bara bónus. Kannski fer ég bara aftur í rækjuna.
Lán og laun
Það er búið að úthluta listamannalaunum fyrir næsta ár og þess vegna eru allir listamenn landsins hættir að tala um stjórnarmyndun og kosningar í þessu nú vinstriflokkslausa landi. Menningarmálaráðherra – kannski sá besti sem við höfum haft – er líka farin úr embætti. Hún hlustaði á kröfur um að auka hlut nýliða – en þar með rýrðist hlutur „lengra kominna“ og að mér sýnist mest hlutur karla milli þrítugs og fertugs; Dagur, Jónas, Halldór Armand, Björn Halldórs fara allir niður í núll. Ég reikna með því að það verði nýliðaþétt á listanum sem birtist á fimmtudagsmorgun. Ég fékk 12 mánuði. Verð áfram í vinnunni minni næsta árið. Ég er ekki „þakklátur“ fyrir að hafa ekki verið rekinn og ekki svo auðmjúkur heldur að ég sé ekki löngu farinn að taka þessu sem gefnu. Mér finnst ég alveg þurfa að vinna fyrir laununum mínum en ég er – einsog ég hef nefnt áður – farinn að bera mig meira saman við fólk sem er í vinnu við aðra hluti. Konan mín er menntaskólakennari og hún þarf ekki að búa við það að fá bréf einu sinni á ári um það hvort hún fái að vinna áfram á næsta ári – hvort hún verði færð niður í hálft starf eða bara sett út af sakramentinu (einsog Elísabet Jökuls – ef það segir okkur eitthvað þá segir það okkur að enginn er óhultur). Ég reikna með að það sé hægt að reka hana en það er þá fyrir afglöp í starfi eða álíka. Hér eyddi ég einhverri einræðu um tekjur höfunda – hef sagt það sama of oft, þetta er hungurlúsabransi þegar maður er á fullum launum og fátæktargildra þegar maður er það ekki. Margir „stærstu höfunda þjóðarinnar“ lifa í þeirri gildru ár eftir ár. Og sumir sem manni finnst eiginlega að ættu bara vera á föstum tekjum – það er óþarfa skrifræði að vera að láta þá sækja um – eru teknir niður, kannski bara vegna formgalla eða veikinda eða einhvers sem ætti alls ekki að spila neina rullu. Ég nefni bara Gyrði, Elísabetu og Einar Kára – sem hafa öll lent í þessu síðustu ár. Það er sóun á hæfileikum þeirra – og mætti svo sem tína fleiri til. Fjórmenningana hér að ofan til dæmis. Til hvers var verið að eyða peningum í að leyfa þeim að skerpa list sína ef það á svo ekki að nýta það til neins annars en að leyfa þeim að finna sér eitthvað annað að gera? Það er ekki góð nýting á almannafé að ala upp höfunda til þess að þeir geti svo bara farið og fokkað sér. *** Svo er bara spurning hvaða ríkisstjórn við fáum og hvernig fari um menninguna þar? Ég hef svolitlar áhyggjur af því að Inga Sæland sé ekki mikil áhugamanneskja um menningarstyrki og að þær Kristrún og Þorgerður hafi kannski meiri áhuga á True Detective: Night Country menningarpólitík en tilraunaljóðlist.
Tómur bílskúr
Tvennt hef ég ætlað að nefna hérna. Annars vegar að Tom Waits tónleikarnir í Edinborgarhúsinu tókust vonum framar og jafnvel rúmlega það. Húsið var stappfullt, stemningin einsog í draumi og grúvið í hljómsveitinni himneskt. Hins vegar að ég gladdist mikið að sjá Birgittu Björg tilnefnda til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Moldin heit – það þótti mér verðskuldað. *** Vinur minn er að skrifa ritgerð og spurði mig á dögunum hvernig á því stæði að svo margir Íslendingar lékju tónlist, væru í kór eða spiluðu á hljóðfæri, ýmist í hljómsveit eða bara heima hjá sér. Ég hef svo sem litla innsýn inn í Ísland allt en ég hef oft velt þessu fyrir mér með Ísafjörð – því ég þykist vita að hér spili a.m.k. talsvert fleiri tónlist en þar sem ég hef búið erlendis. Ég held að tónlistarskólinn leiki þar stóra rullu og sú staðreynd að þar hefur nám jafnan verið á viðráðanlegu verði svo að tónlistarnám er ekki jafn elitískt og það er víða erlendis, í gegnum tíðina hafa flestir geta ráðið við að senda börnin sín. Þá er líka hægt að vera í tónlistarnámi án þess að það heltaki allt manns líf; ég þekki fullorðinn Svía sem spilar ekki á píanó í dag þrátt fyrir 12 ára nám vegna þess að námið var bara svo stíft, árangurs var krafist umfram spilagleði, og þótt hún geti leikið klassíkina fram og aftur gefur það henni ekkert nema upprifjun slæmra minninga. Nú held ég vissulega að maður geti komist í elitískt nám í TÍ – a.m.k. á sum hljóðfæri – en valkosturinn að vilja bara læra svolitla músík, eiga dálitla músík í lífi sínu, að njóta tónlistar sem gerandi, er held ég hornsteinn starfsins. Tónlistarstarfið í bænum er líka eiginlega jafn gamalt og bærinn sjálfur – hér hefur verið ríkulegt tónlistarstarf síðan hér fór að vera fleira fólk en bara danski kaupmaðurinn og presturinn. En auðvitað kemur líka fleira til en skólinn. Kórarnir tilheyra ekki allir skólanum og það eru hljómsveitir og það eru settir upp söngleikir bæði hjá MÍ og LL og Leiklistarhópi Halldóru. Þá er Tónlistarfélag sem heldur reglulega tónleika, Edinborg býður upp á heimsklassa djass 5-6 sinnum á ári, það er live tónlist á börum og tónlistarhátíðir – Við Djúpið og Aldrei fór ég suður. Já og svo er annar skóli þar sem er líka kennt á píanó og var lengi kennt á gítar – Listaskóli Rögnvaldar (þar með held ég að Ísafjörður hljóti raunar að eiga höfðatölumet í fjölda tónlistarskóla). Og fyrst og fremst er ríkulegt tónlistarlíf eitthvað sem verður til í symbíósu, í grósku og þetta nærist allt hvert á öðru einsog ólík stig í sama lífkerfinu. Einn strákur byrjar að læra á gítar í einhverri dellu eftir Aldrei fór ég suður, eignast hljóðfæri, hættir svo, systir hans tekur hljóðfærið upp þremur árum seinna og kennir sjálfri sér í nokkur ár, stofnar svo hljómsveit með vini sínum sem kann ekkert og skráir sig á bassa í tónlistarskóla til að ná hraðari framförum, til þeirra kemur strákur sem hefur verið að læra á píanó í 100 ár, unnið keppnir og gert það gott, og hann þekkir stelpu sem var dregin nauðug í barnakór af því foreldrar hennar eru kórafólk, og getur því sungið, hún á frænda sem getur lánað þeim magnara, til þeirra kemur strákur sem langar að vera trommari en á ekki trommusett og kann ekki að tromma en hefur aðgang að því sem mestu skiptir: bílskúr – svo finnst trommusettið í geymslu hjá einhverjum (af því það er svo mikið af fólki alls staðar sem hefur lært á hljóðfæri, verið í hljómsveit, því fylgir krítískur massi af hljóðfærum), og svo haltra þau af stað, nokkrum árum seinna spilar hljómsveitin á Aldrei og hringurinn byrjar upp á nýtt. Tónlistarskólinn fær fleiri nema, það myndast fleiri hljómsveitir, fleiri byrja í kór, fleiri taka þátt í söngleikjum, fleiri byrja að semja lög, fleiri gera tónlistina að lífi sínu, verða atvinnutónlistarmenn og tónlistarkennarar sem kenna næstu kynslóð af fólki sem fær stjörnur í augun á Aldrei. Einsog önnur lífkerfi getur þessi gróska verið viðkvæm. Bregðist einn eða fleiri hlekkir dregur hratt úr henni og á einhverjum tímapunkti snýst slagurinn ekki lengur um að viðhalda gróskunni, að rækta garðinn sinn, heldur að berjast við visnun. Þannig er t.d. leiðinlegt að Aldrei hefur verið hálf lokuð fyrir heimamönnum frá því atriðum var fækkað fyrir nokkrum árum, menntaskólinn er eiginlega alveg hættur að halda tónleika (og menntstock hefur ekki verið haldið í 20 ár) – mér sagt það sé aldrei spiluð live tónlist á grunnskólaviðburðum og þannig er eiginlega enginn vettvangur fyrir unglingahljómsveitir að spila (það var þó ein sem spilaði á markaðsdeginum í Bolungarvík í fyrra og ein mun spila við tendrun jólatrésins á Silfurtorgi á morgun). En það er alveg áreiðanlega enginn hlekkur í þessari keðju jafn mikilvægur og tónlistarskólinn, og tónlistarskólinn er í verkfalli vegna þess að kennararnir lifa við óþolandi kjör. Það hefur verið sagt að tónlistarskólaverkfall komi ekki við marga – að það hafi ekki nægan slagkraft – og það má að einu leyti til sanns vegar færa: tónlistarskólar eru ekki sams konar „geymslustaðir“ og þeir skólar þar sem nemendur eyða meiri tíma. Börn lenda ekki í langtíma reiðuleysi ef þeir loka – foreldrar lenda ekki í vandræðum með að koma börnunum fyrir, þurfa ekki að taka sér frí frá vinnu til að sinna þeim sem komast ekki í 2×30 mín gítartíma á viku. Skipulag hagkerfisins raskast ekki. En að öðru leyti getur slagkrafturinn til lengri tíma orðið mjög mikill – á meðan það er ekki kennt visnar það ríkulega tónlistarlíf sem við njótum. Við þurfum sennilega að glenna aðeins upp augun og gaumgæfa þróunina – sjá nokkra leiki fram í tímann – til að skilja margföldunaráhrifin af tónlistarnámi barna – að tónlistin sem við njótum í lífi okkar sprettur ekki upp úr engu. Dag einn stendur maður upp og áttar sig á því að tónlistin hefur hljóðnað. Symbíósan er hætt. Alltíeinu er enginn til að kenna byrjandanum á bassa, elítupíanóleikarinn er fluttur til að fá kennslu annars staðar, fyrir rest er enginn stuðningur, enginn gítar bakvið sófa, ekkert trommusett í bílskúrnum hjá frænda, engir kórar, engir tónleikar, engir söngleikir, engir magnarar, ekkert nema tómur bílskúr og leiðindin ein. Og það þarf raunar engin verkföll til. Léleg kjör valda sama skaða – á Ísafirði hefur ekki verið barnakór eða söngkennsla síðan í vor út af kennaraskorti. Barnakórinn var í sérstökum blóma, nýkominn heim af kóramóti í Danmörku – hópeflið og kærleikurinn alveg í botni. Það er ekki gefið að sá skriðþungi verði til staðar þegar og ef starf hans hefst að nýju. Og það er ekki heldur gefið að nemendur snúi allir aftur blússandi mótiveraðir úr löngu verkfalli – það verður áreiðanlega brött brekka fyrir marga að koma sér aftur í gírinn. En það er ekki nóg að „leysa verkfallið“ – þessu tiltekna verkfalli lýkur reyndar 20. desember, hvort sem semst eða ekki – heldur þarf að tryggja tónlistarkennurum (og öðrum kennurum) almennileg kjör. Ef kennarar koma út úr þessu með einhverja „meh“-lausn, allir þjakaðir og slitnir, tekur þetta sig bara upp aftur þegar búið er að safna nýjum verkfallssjóðum. Og svo aftur og aftur og aftur meðan námi í landinu hnignar og tónlistin hljóðnar.
Strætóspítt vs spíttstrætó
Ég fer alveg að skilja við ljóðabókina mína. Ég er enn að íhuga titilinn – eiginlega er ég búinn að henda gamla titlinum, Síreglulegri ringulreið, og svona níutíuprósent viss um nýja (sem er leyndarmál) en ég þarf að gefa því nokkra daga. Titillinn Síreglulegri ringulreið er næstum því það elsta í bókinni og á ágætlega við það verk sem ég hélt ég væri að skrifa þegar ég byrjaði en ekki nándar nærri jafn vel tæplega átta árum síðar. Þetta var þegar fólk var að tala um strætóljóð vs spíttljóð, 2017-2019 sirka. Síreglulegri ringulreið lýsir auðvitað ágætlega samgöngukerfum fólks þótt það hafi kannski ekki verið það sem ég hafði í huga. Ég hafði ekkert sérstakt í huga, bara að þetta hljómaði fallega, held ég, að það væri galdur í þessu, leikur í orðunum sem mér finnst vænt um – að tungumálið sjálft dansi og orðin rísi upp yfir einfalda merkingu sína – og hugtakið er enn í bókinni þótt það fái ekki að varpa merkingu sinni yfir allt annað í henni. Og mér finnst það vel að merkja ekki verra fyrir að það sé erfitt að segja það upphátt fimm sinnum hratt. Strætóljóðin voru, minnir mig – samkvæmt „umræðunni“ – kyrrari myndir, meiri einlægni; spíttljóðin æstari myndir og meiri kaldhæðni. Það kannaðist samt eiginlega enginn við að skrifa a eða b – enda væri það líklega skrítið, óþarflega þröng fagurfræði, og svo eru kyrrð og æsingur og kaldhæðni og einlægni relatíf hugtök sem byggja á einhverjum persónulegum núllpunkti (það sem einum finnst vera ægilegur æsingur finnst öðrum bara kósí). En kannski sagði það mest um afstöðu fólks hvort það taldi meiri þörf á að verja einlægnina eða verja kaldhæðnina. Ég var allavega í síðarnefnda liðinu – og raunar í því liði að finnast kaldhæðni mjög einlægt viðbragð, einlæg tjáning, og alls ekki það varnarviðbragð sem hún er stundum sökuð um að vera. Og líka í því liði að finnast einlægni mjög oft leysast upp í leikaraskap – þetta verður skýrara með hverju árinu, fólk blottar sig í einlægum einkaviðtölum til þess að markaðssetja sig sem „relatable“ og „vulnerable“. Svona einsog Wicked-leikkonurnar sem mér skilst að mæti ekki í viðtal án þess að fara að gráta. Kannski er ég bara svona kaldhæðinn en ég er ekki viss um að það sé allt gert í einlægni. Sem þýðir sem sagt ekki að ég sé ekki með einlægninni í liði líka – bara að leiðin til einlægninnar er ekki að klæða sig í hana, að performera hana, að glenna upp augun og tárast. Hún er margbrotin og kaldhæðni er ekki bara mikilvægur hluti hennar heldur er þessi einfaldasta útskýring á eðli hennar – að segja eitt og meina annað – er líka bærileg útskýring á því hvað listaverk gera og í hvaða sambandi þau eiga við sannleikann (hver sagði þetta aftur með að skrifa skáldverk væri að ljúga til að geta sagt sannleikann?). Nýja bókin er samt ekki spíttljóðabók. Síreglulegri ringulreið – bókin sem ég hélt ég væri að fara að skrifa árið 2017 – var líklega spíttljóðabók. En hún breyttist bara í höndunum á mér, varð samt ekki heldur strætóljóðabók – enda væri það óþarflega þröng fagurfræði, og undarlegt að sveiflast einsog ljóðrænn vindhani –ætli það verði ekki einhver annar bara að setja á hana stimpil. Hún varð bara það sem hún er og ég veit ekki einu sinni hverjum það er að kenna. p.s. það var ekki ég sem fattaði þetta sjálfur með titilinn, það var yfirlesari, en það blasti við strax og það hafði verið sagt.
Léttlestrarbækur fyrir fullorðna
Tvisvar nýlega hef ég séð bók gagnrýnda með þeim orðum að þetta sé tilvalin bók fyrir fólk sem les lítið, les ekki nóg, finnst bækur kannski ekki skemmtilegar en ætti að finnast þær skemmtilegar, ætti að lesa meira – eitthvað í þá áttina. Látum vera þessar tilteknu bækur – eða aðrar sem hafa fengið sama stimpil – ég veit ekkert hvort þær eiga stimpilinn skilið eða hvað þær gera sem gerir þær svona góðar fyrir fólk sem les ekki „nóg“ eða einu sinni hvað er „nóg“ eða hvers vegna einhver sem langar ekki að lesa bækur ætti að lesa bækur (til að vera ekki vitlaus, gæti einhver svarað, en á móti myndi ég tefla: hvað ef fólk vill vera vitlaust? á að smána fólk fyrir fávisku og ólæsi ef það er val, jafnvel fagurfræði, trú, heimspeki, lífsstefna?) En konseptið – á maður að kalla þetta léttlestrarbækur fyrir fullorðna , er það ekki pælingin? Ég veit ekki hvað mér finnst um þetta. Þetta er í öllu falli sorglegt. Hugsanlega patróníserandi gagnvart bæði höfundi og lesanda („ertu of vitlaus til að lesa venjulegar bækur? prófaðu þessa!“). Hljómar dálítið einsog örvæntingarfull líkræða – svona einsog ræðumaðurinn sé enn á afneitunarskeiði sorgarinnar. Einhvern tíma í upphafi aldarinnar skrifaði Kristján B. skemmtilega grein í TMM (sem ég svaraði með hortugheitum) þar sem hann benti á að nær öll umræða um „ljóðið“ væri umræða um dauða þess – með öfugum formerkjum, sannarlega, að ljóðið væri nú „hvergi nærri dautt“ og eitthvað þannig, en samt um dauðann, ljóðið og dauði ljóðsins fóru ævinlega saman. Þetta slær mig á svipaðan hátt. Og þetta slær mig líka einsog þegar Mogginn fór að fjölga Hollywood-og-poppmenningarsíðunum á kostnað annarrar menningar – og ég hugsaði: þennan slag vinnur mogginn ekki, mogginn verður aldrei nógu mikið DV til að vinna DV í keppninni um það hver sé mest DV. Nú er öll fjölmiðlun – á góðum degi – einsog poppsíðurnar í DV 1996. Ég held að fólk sem finnst venjuleg skáldsaga of erfið aflestrar muni alltaf velja heldur að horfa á Netflix. Af því Netflix er betra í afþreyingu. Skáldsaga verður aldrei auðlesnari en syfjugláp og hámhorf, sama hvað hún reynir. Ég er ekkert að dissa Netflix með því – ég horfi mikið á Netflix. En kostir skáldsögunnar eru dýpið sem hún getur sótt á og á það dýpi kemst maður ekki nema maður syndi með – lesandi er þátttakandi í skáldsögu, hjálpar henni að verða til, hann þarf að anda fyrir sögupersónurnar, hreyfa hendurnar, sprikla. Áhorfandi er passífari – a.m.k. rétt á meðan áhorfinu stendur – hann er ekki krafinn um neina vinnu, sjónvarpið spriklar fyrir hann. Þess vegna er sjónvarpsgláp svona ágæt afslöppun. Og þá stendur eftir spurningin hvort að léttlestrarbækur fyrir fullorðna geri eitthvað fyrir lesendur sína sem sjónvarpið gerir ekki – annað en að halda að þeim ritmáli, texta. Verður maður læsari af því að lesa einfaldari texta? Sem aftur rifjar upp allar þessar hugmyndir um „að lesa sér til gagns“ og hvað það þýði. Í morgun las ég grein þar sem fram kom að háskólanemar í Svíþjóð geta ekki lengur lesið fræðirit og kennararnir eru farnir að þýða fræðiritin yfir á almennara mál, því annars skilur enginn neitt. Í síðustu viku sá ég álíka frétt frá Ameríku sem snerist um kúrslitteratúr almennt – líka í enskudeildum þar sem nemendur einfaldlega megnuðu ekki að lesa heilt skáldverk á viku, sem áður var norm. Kanarnir gætu einfaldað skáldverkin. Það eru til styttar léttlestrarútgáfur af næstum því öllum klassíkerum heimsbókmenntanna. Það er hægt að skipta út William Carlos Williams fyrir Rupi Kaur. Ef þeim tækist með því að klára fleiri bækur – væru þeir þá læsari? Enski rithöfundurinn Will Self sagði í einhverjum fyrirlestri að skáldsagan hefði fallið af stalli sínum þegar fólk hætti almennt að ljúga því opinberlega að það hefði lesið klassíkina – eða í versta falli að það ætlaði að gera það seinna. Þegar fólk „skilaði skömminni yfir“ að vera ekki með á nótunum í gömlum og nýjum bókmenntum. Og það varð fínt – og „relatable“ – að vera ólesinn og a.m.k. semí-stoltur af því, og í öllu falli ekkert verra eða hallærislegra en að vera einhvers konar mennta/listasnobb. Sem hann sagði minnir mig að hefði gerst á tíunda áratugnum. Self tók reyndar skýrt fram að sér þætti af og frá að skáldsagan væri „dauð“ – hann hefði lesið feykilega margar frábærar nýlegar skáldsögur – en að hún væri bara ekki miðlæg í menningunni lengur. Mér sýnist annars að bretar lesi að meðaltali 15 bækur á ári, bandaríkjamenn að meðaltali 12 á ári en Íslendingar rétt rúmlega 2. En það kemur auðvitað ekki fram hversu hátt hlutfall þessara bóka eru Skúli skelfir eða hversu hátt er Ulysses.
Herregud
Það eru kirkjur framan á a.m.k. þremur bóka minna (ég er ekki sjálfur viss með fjórðu, er þetta kirkja? ) – og bara á þeim íslensku, ég man ekki eftir neinni kirkju á þýddri bók eftir mig. Ég rak augun á þetta bara í gær, bætti nýlega inn þessum kápumyndum hérna á kantinum og var eitthvað að gægjast á þær. Samt koma kirkjur eiginlega bara við sögu í einni – þeirri nýjustu. Að vísu er Hörpu breytt í risastóra mosku í Gæsku en það er engin moska eða kirkja framan á þeirri bók. Bara fullt af fésum. *** Ég settist niður með 15 ára syni mínum í gær og hjálpaði honum að taka kosningapróf. Það var vel að merkja hann sem bað mig um þetta, ég var ekki að troða þessu upp á hann, og ég gerði mitt besta til þess að presentera einfaldlega sem flestar hliðar allra mála af hlutleysi – þótt hann þekki mig auðvitað nógu vel til að vita hitt og þetta um skoðanir mínar – og margtuggði það ofan í okkur báða að þetta væru flókin mál, snerust ekki endilega um rétt eða rangt, en samt væri þess í raun krafist að maður segði af eða á. Maður getur t.d. ekki bæði styrkt Úkraínu í varnarstríði sínu við Rússland og ekki styrkt það (þetta fannst okkur báðum vera ein af erfiðustu spurningunum). Og já svona próf eru ótrúlegar einfaldanir en nei það á ekki að svara þeim samt einsog Sigmundur Davíð sem skrifaði langar ritgerðir undir öll sín svör um hvað spurningarnar væru miklar einfaldanir og það væri ekki hægt að svara þessu – það er verið að fiska eftir einföldum prinsippum vegna þess að einföld prinsipp skipta kjósendur máli, ef maður vildi orðhengilshátt myndi maður bara hringja í Sigmund og leyfa honum að láta dæluna ganga. Við ræddum líka að það væri mikilvægt að maður festist ekki í skoðunum sínum – það tæki langan tíma að mynda sér ígrundaðar skoðanir á einhverju og þótt maður svaraði einhverju á einn veg í svona prófi mætti maður skipta um skoðun daginn eftir. Þetta á vel að merkja ekki jafn vel við þingmenn, sem ber ákveðin siðferðisleg skylda til þess að fylgja þeim hugsjónum sem þeir eru kosnir til að fylgja, og ættu helst ekki að skipta um skoðanir á daglegum basis. En sem kjósandi og hugsandi mannvera vill maður vera dálítið fluid – ég sé enga ástæðu til að kenna drengnum „flokkshollustu“ þótt sumum finnist eiginlega engin pólitísk dyggð vera æðri. Það er ekki galli á lýðræðinu að fylgið skuli vera á meira flakki en áður, heldur kostur – hollustu verður maður að vinna sér inn. Við rákum okkur líka á að í raun var lítið af spurningum um sumt – það var t.d. ekkert spurt um menningarmál. Og svo svara frambjóðendur augljóslega ekki endilega alltaf bara því sem þeim finnst sjálfum heldur milda það, svara því sem er líklegt til vinsælda – enda vilja þeir láta kjósa sig. Ef marka má kosningaprófið eru t.d. allir flokkar hlynntir því að hækka lágmarkslaun. Ekki vegna þess að þeir ætli allir að hækka lágmarkslaun heldur vegna þess að fólk á lágmarkslaunum er kjósendur og það vill fá atkvæðin þeirra. Þegar hann var búinn að svara öllu sátum við heillengi og fórum yfir svör ólíkra frambjóðenda – allra sem við könnuðumst við. Það var líka gott fyrir hann (og mig) að sjá hvað er mikið af fólki í framboði, hvað maður hreinlega þekkir marga frambjóðendur persónulega í svona litlu landi, hvað valdið er nærri manni – hann hefur unnið með einum á Tjöruhúsinu, það býr einn í húsinu á móti okkur, einn hefur kennt honum í grunnskóla, annar er pabbi bekkjarfélaga hans, einn er mamma bekkjarfélaga systur hans og svo framvegis. Og þarna gefst manni líka tækifæri til þess að fá innsýn í aðrar hliðar frambjóðendanna – hvaða tónlist þeir hlusta á og hvaða bækur þeir halda upp á. Við skoðuðum sérstaklega þá sem hann var mest sammála og þá sem hann var minnst sammála – ég man ekki hvað hann hét, sem fékk lægstu prósentuna, en hann hlustaði á fína músík og hafði ágætis smekk á kvikmyndum og bókmenntum. Það er líka lexía í því. Þá var augljóst að sumum flokkum átti hann enga samleið með og öðrum meiri – og svo voru frambjóðendur eins flokks (*hóst* framsóknarflokksins *hóst*) einfaldlega út um allt á rófinu. Við vorum ábyggilega hátt í þrjá tíma að dunda okkur við þetta og hann var samt – eðlilega – alls ekki viss á eftir hvað hann myndi kjósa ef hann fengi að kjósa núna. Ég skil það, er sjálfur búinn að vera í viðstöðulausu kosningaprófi í 30 ár og veit enn ekki hvað ég á að kjósa. *** En með þessari yfirferð í gær komst ég allavega að því að frambjóðendur a.m.k. þriggja flokka nefndu bók eftir mig sem sína eftirlætis bók – svo ég, sem er mjög auðskjallaður, er búinn að þrengja hringinn í Samfylkingu, Viðreisn og VG. Nema auðvitað að samkvæmt prófinu er ég mest pólitískt sammála Sósíalistum, VG og Pírötum – en mér finnst fullreynt með VG í bili, formaður Pírata í kjördæminu er vægast sagt lítill aðdáandi minn (þótt ég sé reyndar nokkur aðdáandi hennar, þá er ég samt of hégómagjarn, kannski bara of mikil smásál, til að kjósa hana) og Sósíalistar hafa bara ekki tekið neina afstöðu til bóka minna, enn sem komið er (ég er að vísu ekki búinn að fínkemba þennan lista og það er alveg opið að einhver sósíalisti hafi t.d. nefnt … segjum bara Blandarabrandara … sem sína eftirlætisbók). Raunar hef ég það á tilfinningunni – þótt ég hafi ekki tekið það saman – að Sósíalistar og Píratar eigi það sameiginlegt að hafa mest nefnt einhvern amerískan fantasíulitteratúr, sem er heimur sem ég hef litla sem enga innsýn í. Ætli sé þá ekki bara best að kjósa Framsókn?
Lestrargæska
Það var pistill um samfélagsmiðilinn Goodreads í Heimildinni um daginn og hversu hvimleitt það væri að þar væru sumar bækur ekki skráðar – t.d. eldri ljóðabækur – og höfundur pistilsins, hún heitir Fríða og er alveg áreiðanlega Þorkelsdóttir, sagðist stundum kinoka sér við að lesa þær, af því það kostaði hana hluta af dópamínkikkinu að geta ekki merkt þær sem lesnar. (Þetta eru áreiðanlega ýkjur enda hefur sama Fríða áður birst í fjölmiðlum sem sérstakur safnari sjaldgæfra ljóðabóka). Já, já, ég sagði kinoka, það þurfti einhver að gera það. Annars hefði það úrelst. Nú er það aftur í umferð. Allavega. Nú er ég búinn að lesa Glerþræðina eftir Magnús Sigurðsson – sem er sennilega ástæðan fyrir því að sagnorðið kinoka er svona ofarlega í orðabankanum, Magnús skrifar skemmtilega fornt mál og vitnar mikið í enn fornara mál – og hálfa Innanríkið eftir Braga Ólafsson – sem er sennilega ástæðan fyrir því að ég er alltaf að grípa svona fram í fyrir sjálfum mér, sem ég geri svo sem alveg annars, en kannski ekki alveg jafn mikið og núna – og hvorug þeirra er á Goodreads. Nú halda vinir mínir á Goodreads (sem eru meðal annarra áðurnefnd Fríða sem er áreiðanlega Þorkelsdóttir) að ég hafi hreinlega gefist upp á bókmenntaheiminum, eða í öllu falli þessum miðli, Goodreads, með enga bók skráða „currently reading“ og hafandi ekkert klárað síðan ég lauk við Karitas án titils í síðustu viku. *** Ég er alveg að hætta að vera þunnur eftir síðustu helgi. Það ætti að hafast fyrir næstu helgi ef ég er duglegur að drekka steinefnadrykki og fæ sæmilegan svefn. Þetta er allt að koma. Ég týndi brúnu leðurhönskunum mínum á laugardag. Þá keypti ég í Tösku- og hanskabúðinni við Laugaveg fyrir þremur árum daginn eftir að ég týndi mjög svipuðu pari, sem ég hafði sennilega fengið gefins, eftir upplestur á Höfn í Hornafirði. Það kvöld hafði ég líka setið að sumbli með aldavini mínum Ófeigi Sigurðssyni – þá var hann áheyrandi á upplestri hjá mér, einsog ég var áheyrandi að upplestri hjá honum á laugardag (annars mæta höfundar lítið á upplestra annarra nema það séu útgáfuhóf og það sé áfengi í boði eða þeir eigi sjálfir að koma fram eða þeir séu hreinlega í ástarsambandi með viðkomandi höfundum, sem er reyndar furðu algengt) – og við ekkert hist í millitíðinni. Ég ætla ekki einu sinni að segja að ég hafi reynt að leggja saman tvo og tvo, enda hef ég aldrei vitað minn aldavin uppvísan að öðru en fullkomnum heiðarleika, þótt hann sé svolítið stríðinn, ég hef heldur ekki verið í neinu ástandi þessa daga til þess að leggja saman tvo og tvo – kannski helst ég hafi ímyndað mér í þynnkurofunum að einhver, alls ekki Ófeigur, væri að safna brúnum leðurhönskum af mér og ætlaði svo að skila þeim öllum í einu þegar safnið væri orðið hæfilega stórt til þess að húmorinn í því væri öllum ljós – og þótt ég hafi aldrei fundið hanskana sem ég týndi á Höfn þrátt fyrir að hafa snúið aftur á veitingastaðinn þar sem þeir týndust þá fann ég parið sem ég týndi á laugardag strax og ég spurði eftir þeim. Þeir voru bara á barnum. Málið telst að fullu leyst. *** Næst á dagskrá er svo Svört messa. Því fylgir líka dálítil saga (þessi anekdótustemning hans Braga er mjög smitandi). Ég vaknaði einn laugardagsmorgun í sumar – það var síðasta skipti sem ég var svona þunnur, eftir brúðkaup vinar míns, ég hef verið venju fremur meðvitaður um heilsuna alveg síðan – með fjögur missed calls frá ónefndum kollega mínum, frægum manni sem ég hafði ekki heyrt frá síðan við settumst niður til að semja um frið á Næsta bar klukkan svona fimm að nóttu fyrir áreiðanlega 20 árum. Þá höfðum við maðurinn ekki hist nema einu sinni eða tvisvar – og varla hægt að segja að við höfum hist, ég hafði verið viðstaddur einhverja upplestra hans, að vísu mjög einbeittur enda einlægur aðdáandi, en hann hafði verið eitthvað ósáttur við eitthvað sem ég hafði skrifað um íslenska ljóðlist (sem ég þreyttist ekki á að níða á þessum árum, sem var áreiðanlega mjög þreytandi fyrir aðra). Hvað um það. Ég er einsog ég hef áreiðanlega nefnt ægilegur símaslóði og hringdi aldrei til baka, ætlaði alltaf að skrifa honum, gerði það ekki, en fyrir fáeinum vikum hringdi hann aftur. Og þá bara svaraði ég. Erindið var upphaflega ekki að segja mér að lesa Svarta messu en á endanum var það samt það sem einhvern veginn varð aðalatriðið og mig er farið að gruna að það hafi alltaf staðið til. Að hann hafi hringt til þess að fá mig til þess að lesa Svarta messu, fyrst ég reyndist ekki hafa gert það áður. Ég er allavega búinn að lofa að lesa Svarta messu og gefa skýrslu. Ég veit ekki hvort kolleganum finnst bókin sjálfum góð og ætlar að sjá hvort ég hafi ekki áreiðanlega líka smekk fyrir henni – eða hvort honum finnst hún léleg og vill fá staðfest að það sé rétt hjá sér. Nema hann búist við því að ég hafi öndverða skoðun á henni en hann og hann vilji grípa mig við einhverja smekkleysu (þetta er ekki vísbendingaleikur, kolleginn tengist Smekkleysu ekki neitt, nema bara einsog allar íslenskar bókmenntir – eða allar bókmenntir heimsins – hanga í sama streng). Það gæti líka verið – kannski er það sennilegast, nú þegar ég hugsa út í það – að hann vilji bara vita eitthvað allt annað en hvort mér finnst hún góð eða léleg, eitthvað loðnara, fagurfræðilegra, heimspekilegra en þumal upp eða þumal niður og það gæti verið að Goodreads sé strax farið að takmarka skilning minn á bókmenntaverkum við fimm stjörnu skalann. Svört messa eftir Jóhannes Helga er ekki heldur á Goodreads.
Tómt baðkar
Ég er loksins vaknaður eftir svefnlitla nótt. Að vísu vaknaði ég líka fyrr í morgun og kom krökkunum út í lífið – þau eru ekki á listamannalaunum og geta ekki leyft sér að fara aftur í rúmið ef þau sofa illa. Sem ég held reyndar að þau geri blessunarlega aldrei. Ætli það sé þess vegna sem við höldum að börn séu saklaus? Af því þau sofa svo vel. Börn eru ekki saklaus. Nema mín börn auðvitað, mín börn eru saklausa undantekningin sem sannar regluna. Þess vegna sofa þau svona vel. En ég er sem sagt á listamannalaunum og gæti sofið allan daginn alla daga ef ég kærði mig um. Að vísu myndi ég sennilega ekki fá mikið oftar úthlutað ef ég léti það eftir mér. Og svo hefur það reyndar ekki heldur höfðað til mín, svefnlífið, hvernig sem á því stendur – þótt ég vildi gjarna sofa svolítið betur svona heilt yfir, þá langar mig alls ekki að sofa lengur . Og sennilega myndi ég heldur sleppa því að sofa en að sleppa því að skrifa (sem er það sem ég fæ listamannalaun fyrir að gera). Ég var spurður að því á helginni hversu vel ég myndi pluma mig án listamannalauna. Ég held ég hafi aldrei náð að svara – það voru fleiri til svars og það kom bara ekki að mér – en svarið er bara alls ekki neitt. Þau eru 90% allra minna tekna og þótt ég sé á fullum launum þá eru þau lág og ég mjaka mér í gegnum lífið með yfirdráttarlánum og hundakúnstum einsog allir aðrir í þessum bransa. Ef ég fengi ekki listamannalaun myndi ég bara þurfa að finna mér aðra vinnu. Og það er ekki vegna þess að ég skrifi ekki af og til vinsælar bækur, því það hef ég sannarlega gert – það er bara horlús sem fæst fyrir það. Mér reiknast til að heildartekjur mínar af Náttúrulögmálunum hafi farið í að mæta verðbólgunni – á svona fimm mánuðum. Ekki það ég ætli að fara að breyta þessu bloggi í blogg um efnahagsmál. Eða mín persónulegu fjármál. Og ef satt skal segja hef ég meiri áhyggjur af andagift minni en efnahag og ekki bara vegna þess að án andagiftarinnar missi ég áreiðanlega listamannalaunin. Einsog ég hef nefnt hér fyrr er ég búinn að keyra mörgum skáldsögum á vegg í ár – þetta hefur verið hræðilegt ár, mér líður einsog tappinn hafi verið tekinn úr mér og allt hafi lekið út, einsog tómu baðkari í vatnslausu húsi. Eða kannski er ég ekki baðkarið heldur þessi sem liggur á botninum og spriklar. Blessunarlega á ég ljóðabókina sem er á lokametrunum og kemur út í vor – hún heldur í mér sköpunarlífinu. Það má ekki gera of lítið úr því. Ég er ánægður með hana og ég get eytt dögum mínum í að vinna við hana svo ég þarf ekki bara að bora í nefið – en ég er löngu búinn að skrifa flest ljóðin, svo það er meira ritstjórnarvinna en frumskrif og þeir mótorar eru alveg í lagi, það er ekki að ég geti ekki barið saman setningar eða lagað til myndlíkingar eða séð hvað virkar og hvað virkar ekki, mig vantar bara hugmynd af þeirri stærð að hún haldi saman bók, að hún haldi brennandi báli í ástríðu minni í 100 til 700 blaðsíður, að lágmarki þrjá mánuði og helst ekki meira en sautján ár. Kannski kemur sú hugmynd bara ekki af því ég er ekki búinn að skila af mér ljóðabókinni. Og kannski er það alveg sanngjarnt. En það hjálpar mér ekkert í baráttunni við örvæntinguna. Þetta eru auðvitað ekki fullkomlega ókunnugar slóðir. Ég hef skrifað vitleysu og hent handritum áður, ég hef örvænt, ég hef setið vikum saman og starað á tóman tölvuskjá með ekkert fyrir stafni annað en að hugsa um hvað ég sé vitlaus og hæfileikasnauður. Og svo myndast glufa í skjánum, færist litur í veröldina, orð í heiminn og saga fæðist. Það gerist. Þetta er ekki ferli sem er hægt að þvinga mikið fram – það er hægt að kreista út úr sér „einhverja bók“ með því að raða upp nógu mörgum orðum en það er ekki hægt að kreista út úr sér bókmenntaverk sem gleður einhvern, sem gæðir veröldina einhverju nýju. Það er hægt að mæta í vinnuna. Það er hægt að lesa bækur. Fara í göngutúra eða út að hlaupa. Það er hægt að leita uppi einhver ævintýri. Það er hægt að tala við fólk. Það er hægt að skrifa „Einu sinni var“ og prófa að máta eitthvað orð aftan við það. „Einu sinni var hestur ? Einu sinni var kjallari ? Einu sinni var kjánaprik sem vissi bara ekkert hvað hann átti af sér að gera ?“ Og á endanum gerist eitthvað. Ég veit það vel – svona fræðilega séð, sögulega séð – en aftur gerir það mér bara ekkert gagn hér og nú.
Opin
Dagskráin á Opinni bók var frábær í ár. Helmingur höfunda var heimamenn – Didda, mamma og Gylfi Ólafsson – og helmingur gestir – Offi, Brynja og G. Andri. Ég lét svo bjóða mér í mat með þeim um kvöldið þótt ég hefði aldrei þessu vant ekki átt neina aðkomu að viðburðinum, hvorki sem höfundur eða meðhjálpari. Ég mætti bara sem sú bókmenntaprinsessa sem ég er. Það var fjarskalega gaman að hitta kollegana að sunnan – við Offi erum auðvitað aldavinir – og svo er þetta bara svo skemmtilegt fólk. Ég drakk allavega alltof mikið, talaði alltof hátt og alltof mikið og greip sennilega mikið fram í fyrir öðrum og sagði áreiðanlega mjög vafasama hluti með reglulegu millibili – en það var bara vegna þess að mér finnst ég svo skemmtilegur þegar ég er í glasi. *** Ég hef verið svolítið hugsi yfir afstöðu minni til Karitasar án titils sem ég las á dögunum og fannst að mörgu leyti frábær en samt var alltaf eitthvað að trufla mig og ég held ég hafi sett fingurinn á það: þetta er bók um fólk sem er exepsjónalt og fólk sem er það ekki og skilin þar á milli eru of skörp fyrir mig, ég trúi þeim ekki, veröldin skiptist ekki uppi í fáar hetjur og mikið af streðandi normalfólki. Það tekur reyndar ekki af bókinni að hún er átakamikil og skrifuð af mikilli stílgáfu og innsæi og aðalkarakterarnir eru eftirminnilegir – skáldsagan er ekki minna afrek þótt þessi skekkja sé í samfélagslýsingunni.