Ekkert teik – aflýst – move along

Hermann teikaði færslu mína um Brautigan með sinni eigin færslu um Brautigan og þá hvarflaði að mér að teika einhvern annan í dag. Ég byrjaði á að líta inn hjá Snæbirni og hann reyndist vera með gestabloggara og þá datt mér í hug að kannski ætti ég líka að fá Jón Kalman til að skrifa færslu hjá mér? Hefur hann nokkuð betra að gera? Svo gæti hann skrifað hjá Hermanni þegar hann er búinn að skrifa hjá mér? Næst datt mér í hug að teika Jón og skrifa bara sjálfur um einhvers konar „heimslið í bókmenntum“ – ekki síst til þess að mótmæla því að markverðir gefi ekki boltann, og líka því að Peter Handke væri ekki í markinu, auðvitað á Peter Handke að vera í markinu, en svo mundi ég að ég hef minna en ekkert vit á knattspyrnu og ákvað að láta vera að hætta mér út á þannig refilstigu. Lommi vitnar bara í Hannes Hólmstein – sem sagði einu sinni við mig á Facebook, í umræðu um listamannalaun, að það ætti einhver að borga mér fyrir að skrifa ekki neitt – og ég vitna ekki í svoleiðis fólk nema tilneyddur. Hlín Agnarsdóttir skrifar um að hún hafi farið í 70 dollara kjól í boð í Rikssalen í slottet í Stokkhólmi – ætti ég að skrifa um það þegar ég fór í 250 SEK jakkafötum úr Stadsmissionen í Gyllene Salen í Stadshuset? Var ég kannski búinn að því einhvern tíma? Arngrímur skrifar um báðar hárgreiðslur Andy Garcia – ég gæti komið Andy til varnar, hann er með mikið duende og fyrirtaks leikari, en á þessu hef ég samt ekki mjög sterkar skoðanir. Ármann skrifar um eitthvað Tolkien-innblásið sjónvarpsefni sem ég hef enn minna vit á en knattspyrnu. Björn Halldórsson hefur ekkert skrifað síðan hann skrifaði að hann hefði sótt um listamannalaun og Brynjar ekkert síðan hann skrifaði að hann hefði ekki tíma til að skrifa fyrir föðurhlutverkinu. Haukur Már skrifaði síðast um Joe Rogan, Elon Musk og Donald Trump (sem er einmitt það sem ég er að reyna að hætta). Lóa Björk plöggaði nýju sýningunni sinni, Þorvaldur plöggaði bókum eftir vini sína, Þorsteinn skrifaði um Megas, Berglind um Uppvöxt Litla trés og Þórdís sagðist ekki hafa lesið Han Kang. Ég hef lesið Han Kang og er búinn að blogga um það, ég er frekar nýlega búinn að blogga um Megas, ég er búinn að plögga sýningunni minni (Tom Waits tónleikar í Edinborg laugardaginn 23. nóvember!) og líka búinn að plögga bókum vina minna (og kunningja meira að segja líka). Já og ég hef skrifað um Uppvöxt Litla-trés. Þessi tilraun sem sagt mistókst. Bloggi dagsins er hér með aflýst.

Vatnsmelónustjörnubörn

Alltaf þegar ég sé mynd af honum finnst mér einsog Richard Brautigan hljóti að hafa verið í Crosby, Stills & Nash. Eða í Crosby, Stills, Nash & Young. Sem hefði þá auðvitað verið Crosby, Stills, Nash, Young & Brautigan. Kannski stofna ég einhvern tíma koverlagaband sem gerir bara ráð fyrir því að þannig hafi verið. Ég sé fyrir mér að Brautigan hafi sungið og leikið á þvottabretti – og þrátt fyrir að hann hafi ekki endilega verið lagvissastur í sveitinni eða músíkalskastur, kannski pínu lagvilltur og taktlaus á köflum, þá hafi fylgt honum ákveðið ljóðrænt kæruleysi sem hafi gætt sveitina einhverju alvöru „star quality“ sem hana hafi skort. Svo samdi hann auðvitað stórkostlega texta, við skulum ekki gleyma því. En hvað er „star quality“ – hvað gerir listamenn að „stjörnum“? Það er fullt af fólki sem er listamenn sem er ekki frægt og það er fullt af frægum listamönnum sem eru ekki stjörnur. Karisma og X-faktor og duende eru orð sem eiga að fanga það sem í grunninn er alltaf eiginleikinn til að gera mann smá ástfanginn – fá mann til að halda með sér, vilja fylgja sér, teygja sig í læktakkann, klappa hástöfum. Stundum þrátt fyrir að maður hafi lítið þess unnið – sé jafnvel meðalmennskan uppmáluð (sem er ekki það sama og að segja að allar stjörnur séu hæfileikalausar; bara að þetta á ekki alltaf, að mínu mati, í beinu sambandi við gæði eða afrek). Það er ekki fegurð samkvæmt fegurðarstöðlunum, að vera gangandi gullinsnið úr tónuðum vöðvum og lýtalausri húð, það er ekki að syngja alltaf nákvæmlega réttu nóturnar eða skrifa alltaf fullkomnar setningar eða að vera skýrmæltur og beinn í baki. Sumar stjörnur virka meira að segja „minnimáttar“ í einhverjum skilningi – lúðalegar eða klaufalegar eða bara gangandi kaos sem bíður þess eins að fuðra upp. Sumt fólk gæti ekki póstað veðurspánni án þess að fá þúsund læk. Einu sinni sá ég tvít – mig minnir að það hafi verið frá Neil Gaiman eða Stephen King (báðir miklar stjörnur) – sem hafði augljóslega verið samið með rasskinninni. „FRFARGkjggea8934“ eða álíka. Og ég horfði á lækin hrúgast upp. Augljóslega er sumt af því bottar en ég held að stærri hluti sé fólk sem vill bara alltaf nálgast mikilfengleika stjörnunnar þegar færi gefst. „Oh, hann samdi tvít með rassinum!“ Svona einsog hann hefði verið að flauta þjóðsönginn með sama líffæri. Ég finn það sjálfur að sumt fólk kallar einfaldlega fram í mér miklu meiri „samstöðu“ eða „kærleika“ eða „aðdáun“ eða hvað maður vill kalla það en aðrir, sem þurfa að hafa meira fyrir mínu lófaklappi. Reyndar má kannski líka ímynda sér – ég gæti viljað kannast við það sjálfur – að aðrar stjörnur veki hjá manni meira óþol en Jón og Gunna. Að maður læki bara alls ekkert sem þau segja af því maður þoli ekki neitt sem þau segja. Fari aldrei í bíó ef þau eru að leika, kaupi aldrei bækurnar þeirra, hlusti ekki á lögin – og í hvert skipti sem þau séu nefnd hnussi maður: OFMETIÐ DRASL. Og það sé þá í öfugum hlutföllum við þá aðdáun sem sama fólk vekur hjá öðrum. ÓSKILJANLEGT gaggar maður. Og þá er „star quality“ hugsanlega bara eiginleikinn til þess að kalla fram tilfinningar – eins konar magnari. Ég held þetta sé vel að merkja ekki það að við speglum okkur sjálf í stjörnunum – við erum ekki svona góð í að dýrka okkur sjálf – það er meira að við sjáum þær sem eitthvað dásamlegt sem við fáum að eiga hlutdeild í, einsog börnin okkar, eitthvað sem við getum dýrkað án þess að festast í niðurrifi sjálfsmeðvitundarinnar. En kannski – bara kannski – er þetta vegna þess að stjörnurnar sjálfar eru góðir narsissistar. Að þær skorti sjálfar lykilþætti sjálfsmeðvitundarinnar. Að þær trúi því – innst inni, frekar en á yfirborðinu, af því þetta virkar nú ekki sympatískt ef í það glittir – að þær séu frábærari en aðrir (og stundum jafnvel frábærari en aðrir í sjálfsmeðvitund). *** Þessu tengt og ótengt – ég er alltaf líka að tala um eigin mikilfengleika, þetta er mitt blogg, hér er ég eina stjarnan – fór ég að hugsa um það í gær að í kúltúrbarnaumræðunni um árið hefðum við aldrei tekið upp hinn endann á þræðinum. Að það er ekki bara að börn frægra listamanna njóti góðs af tengslaneti foreldra sinna – eða fái það tengslanet beint í æð, það haldið þeim undir skírn sem bestu vinir foreldranna og tengist þeim tilfinningaböndum frá unga aldri – heldur að börnin þjóna líka þeim tilgangi að viðhalda mikilfengleika foreldra sinna. Þetta eru kaup kaups. Ég útvega þér útgáfusamning og þú sérð til þess að bækurnar mínar verði endurprentaðar þegar ég er dauður. Ég kynni þig fyrir heimsbókmenntunum frá því þú ert í vöggu og þú mætir í viðtöl til að halda mikilfengleika mínum á lofti eftir minn dag. Sá mikilfengleiki þarf vel að merkja ekki að vera eintóm dásömun – í Svíþjóð er sterk hefð fyrir því að kúltúrbörnin mæti í viðtal til þess að ræða hvað foreldrar þeirra voru hræðilegir uppalendur og manneskjur, en alltaf með þeim undirtóni samt að þau hafi fórnað öllu fyrir listina, hún hafi alltaf verið mikilvægust. Af því það er arfleiðin. Það sem ég er að reyna að segja er að ég er ekki viss um að ég hafi a) verið nógu duglegur að halda Dostójevskí að börnunum mínum og b) að ég hafi alls ekki vanrækt þau nóg til þess að úr því verði almennilegt opinskátt einkaviðtal þegar fram líða stundir. En nú veit ég allavega hvaða áramótaheit ég strengi í janúar.

Drullan og framandgervingin

Það er allt á kafi í drullu. Falla aurskriður úr fjöllunum allt í kringum okkur. Áðan rakst ég á vin minn sem var búinn að sitja fastur – í ágætis yfirlæti, held ég – milli tveggja skriða í Ísafjarðardjúpi frá því á mánudag. Í gær féllu a.m.k. tvær skriður á veginn út í Hnífsdal – og Eyrarfjall iðar allt. Það er lokað milli bæja og bæjarhluta á kvöldin. Ég man ekki eftir svona ástandi. Enda er veðrið óvenjulegt. Hlýtt og mikil úrkoma. Á venjulegu ári værum við bara að drukkna í snjó. Ég reyni að láta sem minnst á því bera að ég hafi eitthvað verið að skrifa um þessa hluti í fyrra – og raunar skrifað hálft fjallið af stað – enda er þetta ekki mér að kenna. *** Ég hef aldrei tekið það saman en mig grunar að það fari meiri pappír í að prenta út ljóðabókahandrit en skáldsagnahandrit. Ég held að ég prenti skáldsögurnar mínar ekki út í fullri lengd nema tvisvar – kannski þrisvar. Nýju ljóðabókina hef ég ábyggilega prentað 20 sinnum og er hvergi nærri hættur. Það geri ég til að geta krotað í með penna. Sem þýðir ekki að ég editeri ekki í tölvunni líka. Sumt verður bara ljósara á pappír og annað verður ljósara á tölvuskjá. Og raunar er líka hægt að breyta um leturtegund og skipta um ritvinnsluforrit og gera alls konar trix og hundakúnstir til þess að sjá ljóðin upp á nýtt. Kannski er þetta svipað og þegar þeir sem pródúsera músík hlusta á hana í ólíkum hátalarategundum – mixa hana fyrst í fyrsta flokks stúdíóhátölurum, hlusta svo á hana í bílnum, í símahátölurunum, heima í eldhúsi, lélegum heyrnartólum, góðum heyrnartólum, og laga hana til svo að hún „virki“ við allar mögulegar aðstæður. Að vísu verða ljóðin sennilega mest lesin í þeirri leturtegund sem verður í bókinni. En þetta er samt aðferð til þess að tryggja einhver heilindi. Til að sjá brestina. Svo les maður þau upphátt. Fyrir annað fólk – prófar þau á áheyrendum. Í einrúmi. Tekur þau upp og hlustar á þau. Les þau línu fyrir línu. Les alla bókina hratt – svona rétt tæplega skimar (þetta gerði ég áðan, það er annar taktur, önnur upplifun). Flettir henni fram og aftur og les erindin öll í vitlausri röð – handahófskenndri. Hvernig ganga erindi 12 og erindi 2 saman? En erindi 17 og 8? Hvernig er bókin afturábak? Hvernig er hún ef maður les bara hægri síðurrnar á opnunum? Ég hef líka prófað að þýða stök erindi og ljóð á önnur mál sem ég kann til þess að fá betri tilfinningu fyrir þeim. Allt til þess að ala á einhverri mónómaníu gagnvart textanum og til þess að gera hann nýjan fyrir sjálfum sér – rétt passlega ókunnuglegan, svo maður geti ímyndað sér að þetta sé eftir einhvern annan, aftengt egóið (sem minnir auðvitað á trixið að leggjast á handlegginn á sér þangað til hann sofnar og fróa sér síðan – af því það sé næstum einsog að vera ekki einn að þessu). Og svo geri ég ekki neitt. Fer út að hlaupa. Geri jóga. Kaupi í matinn. Stari út í bláinn. Kæli hugann, kæli hjartað, kæli augun, kæli fingurna, og kem svo aftur að handritinu til þess að gera þetta allt aftur.

TW

Það er fjarska gaman að spila á kontrabassa. Og hljómurinn er fagur. Ég fékk lánaðan forláta bassa fyrir tveimur vikum til þess að geta spilað á hann í að minnsta kosti einu lagi og kannski þremur á Tom Waits heiðurstónleikunum sem við ætlum að halda 23. nóvember. Það er líka áhugavert ferli að fá svona ferlíki í hendurnar og finna hvernig hann byrjar smám saman að hlýða manni betur – hvernig maður verður minna þreyttur af að spila hann, hvernig siggið myndast og hendurnar eiga betra með að finna nóturnar á hálsinum. Ég þarf enn einhvern referans – að spila opinn streng – og er smá stund í hvert skipti að stilla mig af. Þetta er smá glíma – en hægt og bítandi verður hún að dansi og verður áreiðanlega fyrir rest einhvers konar erótískt ævintýri. Fljótlega eftir tónleikana þarf ég svo að skila honum. Og fljótlega eftir það fer ég til Tælands fram yfir áramót. En einhvern tíma á nýju ári þarf ég að finna út úr því hvernig ég get eignast kontrabassa. Ég er byrjaður að leggja á ráðin um hvað ég geti selt til þess að eiga fyrir honum. Hvað er maður aftur með mörg nýru og hvað er stykkjaverðið? Kontrabassar eru ekki alveg ókeypis tæki en mér sýnist að ég geti t.d. fengið Gewa Premium Line 3/4 bassa á Thomann sem uppfyllir þarfir mínar fyrir tæplega 300 þúsund (með tolli). Eftir því sem ég kemst næst ætti mér að duga bassi sem er með gegnheilli framhlið en lamíneraður á hliðum og baki – það er fyrir djass og popp og blús og rokk. Pizzicato músík. En maður þarf líklega dýrara hljóðfæri ef maður ætlar að fara að spila mikið klassík með boga. Sem stendur ekki til. *** Ég hef verið mjög leslatur síðustu daga. Veit ekki hvað veldur. Er að lesa Karitas án titils og finnst hún góð og áhugaverð og hún kallar á mig – en óþarflega oft þegar hún kallar þá svara ég með einhverju leiðindadæsi. Kannski er það veðrið. Það er óþarflega dimmt og blautt.

Íslenski draumurinn

Hvað segir það um mann ef maður hefur það að markmiði í lífinu að það leiti enginn til manns í vandræðum? Að maður beinlínis vilji vera náunginn í hverfinu sem enginn biður um bolla af sykri eða afnot af sláttuvél? Eða maðurinn í fjölskyldunni sem enginn myndi vilja gista hjá á ferðalagi? Vinurinn sem er aldrei beðinn um að hjálpa í flutningum? Foreldrið sem er aldrei beðið um að skutla? Bæjarbúinn sem er aldrei beðinn um að leggja hönd á plóg með eitt eða neitt – af því hann hefur lýst því yfir að hann muni ekki hjálpa, vandamál annarra komi honum ekki við? Þetta er svo undarleg afstaða að ef manni birtist svona illmenni í barnabók myndi maður dæsa yfir „boðskapnum“ – þarf í alvöru að troða því ofan í fólk að hluti af því að vera almennileg manneskja sé að leggja sitt af mörkum til þess að sem flestir hafi það bærilegt? Sem kallar á spurninguna: Hvaða barnabækur las eiginlega Sigmundur Davíð þegar hann var barn? Hvernig getur maður haft það að markmiði að enginn sæki um hæli á Íslandi? Eða í Danmörku? Danmörk og Ísland eru meðal ríkustu og öruggustu landa í heiminum og það eru 117 milljóns í vergangi vegna átaka sem má að stórum hluta rekja til pólitískra, efnahagslegra og hernaðarlegra ákvarðana sem voru og eru teknar á vesturlöndum, ákvarðana sem hafa gjarnan verið teknar til þess að viðhalda auðæfum okkar og áhrifum? Er þetta einu sinni umdeilt? Ég er ekki að segja frekar en nokkur annar að við eigum að taka á móti „öllum“ eða öllum sem vilja koma – sem eru ekkert einu sinni mjög margir, miðað við stærðina á hópnum öllum – en hvernig dettur manni í hug að það geti verið uppskrift að velgengni í stjórnmálum að gera út á að auglýsa kaldlyndi sitt og segjast bara ekki ætla að gera neitt? Að vandamál annarra séu ekki okkar vandamál? Hér er ekki til neinn helvítis sykur og sláttuvélin er ekkert leikfang og ekki komst þú til að hjálpa mér að flytja og þessi sófi er nú ekki gerður til að sofa á honum? Er það í alvöru „Íslenski draumurinn“ – að við læsum sveitabýlinu fyrir bágstöddu ferðafólki sem er að reyna að brjótast í gegnum blindhríðar heimsins? Hvernig getur uppspretta stolts – eða ættjarðarástar! – legið í að skilgreina sig út frá kaldlyndi og kjarkleysi, að maður ætli bara ekki að fást við vandamálin sem lífið kallar mann til þess að leysa? Stolt fær maður af afrekum sínum og það eru engin afrek merkilegri en að hjálpa öðru fólki að lifa mannsæmandi lífi. Af uppgjöf og kaldlyndi uppsker maður skömm – skömm annarra, sannarlega, en líka skömm á sjálfum sér. Sem er hugsanlega sýnu verra. Ekki að það séu fréttir að Miðflokkurinn sé fullur af … fyrirgefið orðalagið … getulausum aumingjum.

Vitleysuvandamálin

Ég hafði varla sleppt fingri af orðinu í gær þegar veðrið varð í alvöru dýrvitlaust. Nadja bað mig að sækja sig í vinnuna og ég keyrði sjálfur þessa 500 metra á hljómsveitaræfingu um kvöldið. Hefði nú sennilega gengið samt ef ég hefði ekki verið með hljóðfæri og magnara í fanginu. *** Einsog flest sem fólk sem hefur yfir höfuð áhuga á hugsunum sínum er ég að reyna að láta ekki Trump hertaka í mér heilann. Eða Miðflokkinn. Ég vil kannski samt nótera hérna fyrir sjálfan mig að það hvarflaði að mér í gær að sennilega upplifi kjósendur hans – eða þeir sem íhuga að kjósa þannig – opinskáa umræðu demókrata um það „hvernig eigi að ná til þeirra“ og „hvernig eigi að skilja þá“ sem niðurlægjandi annars vegar og sem loforð um að reyna að manipúlera þá hins vegar, þegar loksins takist að skilja þá. Trump virkar filterslaus – ég er ekki viss um að hann sé það, en hann virkar þannig, og fólk sem virkar filterslaust getur kallað á ákveðna tegund af trausti, jafnvel þótt það virki líka hálfstjórnlaust. Manni hlýtur að finnast maður sjálfur geta „séð í gegnum það“ og kannski er það þannig sem hann skapar þessa nánd við kjósendur. Ef við ímyndum okkur að við sætum við pókerborð með Harris og Trump, báðum í essinu sínu, myndi líklega allt óbrjálað fólk óttast hana frekar en hann – af því hún er augljóslega hæf, hún hefur augljósa sjálfsstjórn, er umkringd ráðgjöfum og fer eftir ráðgjöf þeirra. Það er það sem fólk á við þegar það hugsar um Trump sem „anti-establishment“. Það sér stjórnmálamenn sem andstæðinga sína – gerir jafnvel ráð fyrir því að þeir séu allir (jafn) óheiðarlegir. Þá er ekki betra að þeir virki góðir í að fela það. Og kannski er það grunntónninn í bandarískum stjórnmálum 21. aldarinnar: Fólk er ekki að kjósa sér þjóna vegna þess að það trúir því ekki að kerfið sé gert til þess að þjóna þeim; því hæfari sem frambjóðandi virðist, því líklegri er hann til þess að vera afsprengi kerfisins. Og kerfið sér það sem stærri, sterkari og verri óvin en týpur einsog Donald Trump. *** Í dag pantaði ég mér bók sem ég tók einu sinni á háskólabókasafninu í Þrándheimi. Það var haustið 2001. Howl: Original draft facsimile, transcript and variant versions, fully annotated by author, with contemporaneous correspondence, account of first public reading, legal skirmishes, precursor texts and bibliography . Ég var með hana til hliðsjónar þegar ég kláraði að þýða Ýlfur og ég hef oft hugsað út í ýmis atriði úr henni sem ég er ekki viss um að séu einsog mig minnir. Það er sérstaklega eitt atriði sem mig langar að slá upp og kannski deili ég því með ykkur þegar bókin kemur. En svo fannst mér líka bara að þetta væri bók sem ég ætti að eiga. Þetta er ein af bókunum í lífi mínu. Helst hefði ég viljað kaupa harðkápuna en hún kostar ríflega 200 dollara og ég kaupi of mikið af bókum til að leyfa mér að eyða 200 dollurum í eina – svo ég keypti kiljuna frá 2006.

Október í nóvember

Það er að gera vitlaust veður. Vindáttin er að vísu þannig að kannski lætur hún okkur hérna mest í friði. En það eru samt 13 m/s í spánni. Fjöllin skýla manni ekki frá veðurspánni. *** Í dag eru liðin 107 ár frá októberbyltingunni. Sem heitir þetta af því 7. nóvember er ennþá október samkvæmt gregóríanska dagatalinu. Sú saga er sennilega bæð of flókin og infekteruð til þess að hún verði smættuð niður í slagorðin sem hún þó er yfirleitt smættuð niður í – næstu 70 árin rúmlega fóru í að rífast um það hvort þetta hefði verið góð hugmynd eða ekki, framin af góðu eða vondu fólki með góðar eða vondar fyrirætlanir, eitthvað sem tókst einsog það átti að takast eða eitthvað sem fór hryllilega úrskeiðis, sitt sýndist hverjum og svo hrundu Sovétríkin og þar með lauk því rifrildi. En það hlýtur að vera óumdeilt að hún vakti með mörgum gríðarlegar vonir um að hægt væri að byggja réttlátari heim – og kannski aðeins umdeildara, en þó varla svo neinu nemi, er sú kenning að tilvist kommúnistabyltinganna hafi orðið til þess að tryggja verkamönnum í hinum kapítalísku löndum meiri velferð en annars hefði orðið. Að Sovétríkin, fyrst og fremst, hafi vakið ugg í brjósti iðjuhöldanna. Það voru líka margir sem mökuðu krókinn á kalda stríðinu. Máls og menningarveldið til dæmis – og þar með stór hluti íslensks bókamarkaðar, sem væri ekki einsog hann er í dag án … Stalíns. Svo var auðvitað braskað í kringum herinn. Verktakabransinn væri ábyggilega annar án Roosevelts. Báðir aðilar eyddu miklu fé í menningu – af því þeir vildu sýna hinum að þeirra menning væri æðri. Þannig lagði CIA m.a.s. talsvert fé í framúrstefnulistamenn af því þar á bæ ályktuðu menn að ef Rússar sæju hvað vestrænir listamenn væru flippaðir og róttækir myndu þeir fyllast öfund – og Rússar á móti lögðu jafnvel sömu öflum lið á þeirri forsendu að þeir gætu grafið undan vestrænum kapítalisma (sem var oft í samræmi við markmið framúrstefnulistamannanna sjálfra, og þegar það var það ekki, var markmið þeirra oft óreiða sem hefði gert það hvort eð er). Sögukennarinn minn í menntaskóla, Björn Teitsson, var góður og gegn framsóknarmaður – afar vandaður maður og svo fróður að við gerðum okkur leik að því að reyna að standa hann á gati. Það tókst einu sinni: hann vissi ekki hvað Ku Klux í Ku Klux Klan stóð fyrir – en sló því upp í frímínútum (og ekki á netinu, sem var ekki sú alfræðiorðabók 1996 sem það átti eftir að verða síðar). Ku Klux er sama og Kyklos – hringur eða hópur – og Ku Klux Klan er tátólógía, þetta þýðir bara klansklanið, fjölskyldufjölskyldan. Allavega – Björn sagði einhvern tíma að það væri erfitt að útskýra það eftirá en að á áttunda áratugnum, þegar Kína og Sovétríkin unnu hvern stórsigurinn á fætur öðrum og meira en helmingur jarðarbúa lifði við sósíalíska stjórn, hefðu liðið mörg ár þar sem það fólk sem fylgdist almennilega með gangi heimsins var sannfært um að sósíalisminn hlyti að vinna. Hann væri augljóslega hæfari – þar væri meiri framleiðni og þar væru stærri afrek að eiga sér stað. Svo kom auðvitað í ljós seinna að megnið af afrekum Kínverja voru bara til á pappírunum og að afrek Sovétmanna voru að sliga bæði ríkiskassann og sjálfa þjóðina. En það vissi enginn þá. Ósigur sovét-sósíalismans var áreiðanlega óumflýjanlegur. Skrifaður í kóðann – einsog Marx sagði reyndar um kapítalismans og gæti enn átt eftir að eiga rétt fyrir sér um. Hvað sem því líður ljóst að sigur kapítalismans, að hann skuli ríkja óumdeildur, hefur haft í för með sér að „innri mótsagnir hans sjálfs“ hafa aukist. Hann eirir ekki plánetunni og verðlaunar narsissisma á kostnað alls annars og allra annarra – og misskiptir auðvitað bæði valdi og velferð. Þar er ekki um að kenna neinum „vondum kapítalistum“, heldur bara vélvirkinu sem slíku og aflinu sem það virkjar – það er sami kraftur sem færir okkur þennan myndarlega framtíðarheim sem við lifum í og sem svífst einskis til þess að koma honum á laggirnar, sami kraftur sem færir okkur allsnægtirnar og sem drekkur auðlindirnar í botn. Og kannski er það líka sjálf lífshvötin, kannski er ekki hægt að lifa til fulls án hennar – og kannski er ekki hægt að lifa í raun nema lifa til fulls. Guð veit að Stalín tókst sannarlega ekki að gera út af við frekjuna og hamsleysið og samkeppnisbrjálæðið – ég efast meira að segja um að hann hafi reynt.

Æfingar á uppgjafatóni í h-moll

Ég hraðbugaðist strax og kviknaði á útvarpsvekjaranum. Af því ég er hættur að lesa fréttamiðlana á netinu liggur beint við að reyna að ná útvarpsfréttum og besta leiðin til þess að gera það – ef maður vill ekki bara hafa kveikt á útvarpinu allan daginn – er að vakna bara við fréttirnar. Fréttastofa RÚV, klukkan er átta, veröldin brennur. Ekki einu sinni reyna að fara fram úr. Það er ekki til neins. Rauð viðvörun. Harmur og dauði yfirvofandi. Best að gefast bara upp strax. Það er ekki einsog þetta komi þér heldur við. Þetta er að gerast langt í burtu. Eiginlega mætti segja að þetta sé að gerast í sjónvarpinu, ameríka er ekki staður heldur raunveruleikasjónvarpsþáttur (eða nístandi skáldævisaga einsog við köllum það í bókmenntabransanum) og auðvitað vann raunveruleikasjónvarpsstjarnan, reyndasti sérfræðingur sjónvarpsins í sjálfhverfu. Ég skildi óánægjuatkvæðin 2016. Ég hef samúð með níhilismanum. Stundum vil ég líka bara að veröldin fuðri upp í óreiðubáli. En þeir sem kusu Þrömp núna voru ekki að kjósa einhvern ófyrirsjáanlegan trúð, ekki að kjósa Washington-utangarðsmann, heldur innmúraðan fyrrverandi forseta sem hefur komið sínu fólki fyrir víðs vegar í valdakerfinu og hvers stefnumál eru ekki níhilísk heldur fasísk regla samkvæmt führerprinsippinu. Ég er að hugsa um að tileinka mér einhver skipulögð trúarbrögð bara til þess að geta beðið til guðs um gæsku og kærleika. *** Mér skilst að eitthvert fjölmennasta útgáfuhóf sem haldið hefur verið í geyminum sem er Fiskislóð 6 – hin risavaxna bókabúð Forlagsins – og þar með sennilega á landinu, hafi farið fram á sunnudag. Þar var engin önnur en mamma mín, Herdís Hübner, að kynna ævisögu sína um Auri Hinriksson, Ég skal hjálpa þér. Og kemur ekki á óvart enda er mamma mín fjarska vönduð bókmenntakona – og reyndar líka mikilvirkur þýðandi – og saga Auriar ótrúlega fasínerandi. Ævisaga ársins, ekki spurning. *** Mér skilst að Storytel hafi verið í fréttunum. Og launamál höfunda. Ég þreytist ekki á að nefna að í hvert skipti sem einhver hlustar á ljóðabókina Hnefi eða vitstola orð á Storytel þá fæ ég þrjár krónur. Ég er að safna mér fyrir hamborgaratilboði – þúsund spilanir ættu að duga – en vegna verðbólgunnar og dvínandi áhuga bókmenntafólks á ljóðum (að ég tali nú ekki um skrítnum tilraunaljóðum) þá hækkar upphæðin sem ég þarf hraðar en ég næ að þéna fyrir henni, svo mig vantar alltaf meiri pening á morgun en í dag. Þetta endar sennilega með því að ég svelt í hel. Til þess að eiga fyrir Storytel áskriftinni þyrfti ég að fá 1.100 spilanir á mánuði – 13.160 spilanir á ári. Það þykir gott að selja ljóðabók í 300 eintökum (eða þótti fyrir 8 árum þegar ég gaf síðast út ljóðabók – sennilega hefur þetta dregist mikið saman síðan þá).

Netagjörð

Ég skildi ekkert hvers vegna allir voru sestir þegar ég kom. Og viðburðurinn byrjaður og klukkan samt bara í mesta lagi fimm mínútur yfir. Það hafði tekið aðeins lengri tíma en ég hélt að ganga inn í Netagerð og ég hafði þurft að snúa við til að sækja gleraugun mín og svo voru fjarska falleg norðurljós yfir firðinum svo ég gekk mestalla leiðina með nefið upp í himingeiminn. Kom svo á staðinn, þræddi leiðina milli vinnustofana í átt að viðburðarýminu og þar var fullur salur af fólki að hlusta á Kiru Kiru leika á spiladós. Ég baðst afsökunar á að koma of seint og skaut mér í sæti. Tveimur mínútum síðar hætti Kira að leika á spiladósina og kynnti mig á svið. Ég var ekki einu sinni kominn úr jakkanum. Fiskaði gleraugun upp úr bakpokanum og útskýrði að það væri þeirra vegna sem ég væri seinn. Og aulaðist eitthvað og las svo tvö ljóð. Þegar ég settist tilkynnti Kira svo að nú væri komið að síðasta dagskrárliðnum – stuttmyndasýningu – og þá áttaði ég mig á því að ég hlyti að vera alltof seinn. Búinn að missa af upplestri Þórdísar og Heiðrúnar og tónlistinni og áreiðanlega annarri stuttmynd líka. Þetta var mjög vandræðalegt. Ég lendi sem betur fer sjaldan í svonalöguðu. Fannst einsog allir hlytu að hugsa að ég væri nú meira merkikertið sem kæmi bara til að lesa sjálfur en nennti ekki að hlusta á hina. Mér hafði fundist 21 svolítið seint en hafði ekki orð á því. *** Annars er ég búinn að slökkva á vélinni. Kominn í hvíld frá samfélags- og vefmiðlum – með undanþágu fyrir Liberation sem hjálpar mér að læra frönsku. Og ætla að halla mér meira að útvarpi og prentmiðlum og sjónvarpsfréttum. Og ætla líka að sinna Goodreads og Strava og Duolingo og þessu bloggi og bloggunum hérna á hlekkjalistanum – það met ég sem nærandi hegðun frekar en mergsjúgandi.

Stjörnur

Það er talsvert rætt um stjörnugjöf í Svíþjóð eftir að Aftonbladet tók hana upp. Í morgun las ég svo þýdda grein eftir norskan sérfræðing sem bar saman reynsluna af því þegar NRK tók upp stjörnugjöf – mig minnir að það sé meira en hálf öld síðan – og sagði hana ekki góða. Ekki endilega vegna þess að henni fylgdi skýr gildiseinkunn heldur vegna þess að þessa gildiseinkunn er hægt að nota tölfræðilega til að skapa „meðaltal“. Þannig fá bíómyndir ekki lengur bara þrjár eða fjórar stjörnur – þær fá 7,1 á IMDB og fólk forðast það sem fer undir 7, sem er ekki bara það sem er illa gert, heldur líka það sem er óvenjulegt eða skrítið og kannski ekki ætlað öllum. Þannig ýtir þessi einkunnakúltúr undir meðalmennskuna og verðlaunar áhættufælni listamanna. Þá hefur þetta líka í för með sér að fjölmiðlar vilja helst ekki annað en fimm stjörnu gagnrýni eða slátrun – vegna þess að mælingar sýna að það er það sem fólk les. Það hefur enginn áhuga á að vita hvers vegna einhver bók fékk þrjár og hálfa stjörnu. Einhver fjölmiðill í Noregi (ég finn ekki greinina) bauð meira að segja gagnrýnendum sínum að velja sjálfir verk til að fjalla um (sem er talsvert algengara á Íslandi) og bað þá sérstaklega að velja helst verk sem þeir töldu líklegt að fengi eina eða fimm stjörnur og láta hitt vera. Og vegna þess að fólk vill helst ekki slátra – gagnrýnendum finnst það ekki gaman – völdu eiginlega allir bara fimm stjörnu verk til að fjalla um. Og hitt fékk einfaldlega enga umfjöllun. Þetta hljómar auðvitað einsog ákveðin mótsögn – en kúltúrinn hefur ólík áhrif á skaparana (sem miða á nógu háa einkunn til að ná) en miðlana (sem vilja helst fella eða útnefna dúxa). Mér er þetta hugleikið af því ég tók upp á því nýverið að gerast virkur á samfélagsmiðlinum Goodreads. Þar gefur maður stjörnur – og velur sér auðvitað bækur sjálfur, sem eru gjarna bækur sem maður er spenntur fyrir, og þær fá varla minna en þrjár af fimm nema maður þekki sjálfan sig og smekk sinn þeim mun verr. En kannski ætti maður að hætta að gefa stjörnur?