Nóvember

Go away you rainsnout
Go away blow your brains out
November Það fór auðvitað einsog það hlaut að fara. Nóvember kominn og ég farinn að íhuga að raka af mér skeggið. Í Bandaríkjunum eru menn rétt að byrja að spara. Mér finnst einsog þetta sé farið að íþyngja mér. Ég er að verða svo framþungur. Einsog það sé ekki nóg eitt og sér að veturinn gangi í garð. Ég var að vísu búinn að gefa ljósmyndara sem sérhæfir sig í að taka myndir af skeggjuðum körlum vilyrði um að hann mætti taka af mér mynd áður en ég skæfi þetta af andlitinu. Annars er lífið bara skroll. Fréttir og fréttir og fréttir og einstaka status með ógurlegum skammti af því sem internetið vill troða upp á mann þar á milli. Alls konar sniðugheitum sem eru hönnuð til þess að grípa athygli manns. Sumt er auglýsingar fyrir drasl sem mann vantar ekki, annað fyrir drasl sem mann gæti vantað, en flest er ekki einu sinni að reyna að selja manni neitt og hefur engan sjáanlegan tilgang annan en að afvegaleiða hugsanir manns. Kannski er þetta einhver framtíðarsúrrealismi – eitthvað viðstöðulaust grín á kostnað vitundarinnar. Ég er allavega ekki viss um að ég sé að græða mikið á þessu. Einu sinni þegar ég var svona 10-11 ára var ég úti að ganga, ég man það mjög skýrt, og það hvarflaði að mér – eiginlega var það meira staðfastur grunur, jafnvel volg vissa – að allir í heiminum nema ég væru geimverur (eða vélmenni) og ég þátttakandi í einhvers konar rannsókn eða tilraun, hverrar tilgangur var aldrei ljós og skipti engu máli. Mér skilst að þess konar sólipsismi sé ekki óalgengur hjá börnum – þetta gerist þegar maður byrjar að geta hugsað abstrakt, að sjá heiminn bara út frá sjálfum sér einsog enginn annar sé til er fyrsta skrefið í þá átt að geta sett sig í spor annarra, að skilja hvað sjónarhorn er – en ég er ekki frá því að í dag hvarfli stundum að mér að öll tölvusamskiptin séu bara samskipti við gervigreind og algóritma, sem er eiginlega það sem ég hélt að væri raunveruleikinn þarna árið 1988. Og hafði rangt fyrir mér. En hef rétt fyrir mér núna. Núna er ég þátttakandi í einhverri tilraun frá því snemma á morgnana og þar til ég rekst á einhvern af holdi og blóði – ég held enn að kjötfólk sé raunverulegt, þið leiðréttið mig ef svo er ekki – sem er kannski orðinn mikill minnihluti samskipta. Ég hef síðan alltof mikinn áhuga á að vita hvernig fólki gengur í kosningunum vestanhafs og líka þeim sem verða hér í miðju hafinu og svo auðvitað hvernig fer í jólabókaflóðinu – hver vinnur jólabókaflóðið! – til þess að slökkva á miðlunum og hætta að skrolla. Arnaldur er búinn að selja 20 milljón bækur. Að vísu bara nokkrar í ár og allar þeirra í dag. Kannski vinnur Trump vestanhafs og Miðflokkurinn á Íslandi (ég er ekki að líkja Arnaldi við Trump eða Miðflokkinn en Miðflokkurinn og Trump eru augljóslega af sama sauðahúsi). Ég er áráttuvera og ég á eftir að leyfa vélinni að gera út af við mig á endanum.

Raunir kontrabassaleikarans

Djöfull er erfitt að spila á kontrabassa. Ég er búinn að vera að æfa mig seinnipartinn og það eina sem gerist er að ég spila verr vegna þess að ég er orðinn dofinn í vinstri handleggnum. Ég þarf eiginlega bara að ráða við að spila eitt lag en það eru nokkur trikkí smáatriði sem setja mig út af laginu. Ég hef 23 daga. *** Á laugardaginn verður viðburður á vegum Þúfu hérna uppi í Netagerð. Þar er sem sagt listrými fyrir þá sem ekki þekkja til – alls kyns smiðjur og verkstæði. Þórdís Björnsdóttir, vinkona mín úr Nýhil og alls konar fleiru – við fórum t.d. saman á debutantseminarium í Biskops-Arnö fyrir … 19 árum – er að gefa út skáldævisögu og túrar landið með aðstandendum forlagsins (sem er miklu meira en forlag sýnist mér – einhvers konar almennt framkvæmdabatterí). Þar les hún upp og Þúfa sýnir stuttmyndir og svo er gestum boðið að vera með – ég verð með hér og les úr ljóðabók sem kemur út næsta vor (staðfest!) og á Hólmavík sá ég að Bergsveinn Birgisson ætlar að lesa. Það er held ég á sunnudag. Svo hitti ég Benný Sif í Reykjavík um daginn – og þurfti að byrja á því að biðjast afsökunar að hafa ekki svarað í símann, ég svara nefnilega eiginlega aldrei í símann, einu sinni fannst mér það bara leiðinlegt og forðaðist það og svo fór ég að leyfa mér að svara sjaldnar og sjaldnar og nú er þetta nánast orðið að einhverju syndrómi. Ég er alltaf að hitta eitthvað fólk sem er mér reitt fyrir að hafa ekki svarað í símann. Nema hvað þegar ég var búinn að biðjast afsökunar sagði hún mér að hún væri líka að fara á túr (þess vegna var hún að hringja, til að spyrja mig út í eitt og annað um túrinn sem ég fór í fyrra). Hún sagðist minnir mig ætla með einhverjum öðrum líka – en nú er stolið úr mér hver það var. Og svo er Hallgrímur að fara á túr. Með sýningu sem verður í einhverju leikhúsanna í Reykjavík. Það er eitthvað grand. Þar kostar líka inn. En hann kemur ekki fyrren ég er farinn til Tælands. Mér finnst mjög gaman ef þetta er að fara að komast í tísku. Á norðurlöndunum er það nú eiginlega regla frekar en undantekning að höfundar taki túr – a.m.k. stuttan. Og sennilega víðast hvar. *** Þetta var annar undarlegur dagur. Sennilega var ég bara með flensu í morgun. Það bráði af mér en ég var eiginlega bara frekar lélegur. Lagðist aftur í rúmið. Hristi það svo af mér seinnipartinn og fór að sinna hlutum en kannski engu af viti. Hausinn á mér eða hjartað eða hvað það er sem stýrir þessum tilfinningum mínum er líka enn í einhverju limbói. Það er einsog ég nenni eiginlega ekki að vera ég sjálfur. Og mér fallast nú bara hendur yfir því að eiga að vera einhver annar. Ég er næstum búinn með Skrípið hans Ófeigs. Ég held þetta sé hreinlega besta bókin hans. Ógurlega skemmtileg – alveg til að hlæja að upphátt, hástöfum, lemja á hnéð – stíllinn meistaralegur og sagan einhvers konar fagurfræðileg yfirlýsing – sem fer gjarnan yfir strikið og hefur allar fjarvistarsannanirnar, þetta er skáldskapur ekki kjallaragrein og persónurnar bera ábyrgð á afstöðum sínum, en þegar maður fussar ekki og sveiar þá kinkar maður ákaft kolli. Einmitt svona! Einmitt svona er lífið!

Tilfinningar

Kæra dagbók. Ég er í einhverju undarlegu tilfinningalega ástandi í dag. Ég skiptist á að sýna veröldinni mikla auðmýkt – verja alls konar fólk og málstaði sem ég myndi kannski á öðrum dögum fordæma án minnsta hiks – og að vera fullkomlega vonlaus og svartsýnn. Ég er ekki einu sinni viss um að „skiptist á“ sé rétt – það er eiginlega einsog ég sé í þessum ástöndum báðum í einu. Reiður og dæmandi og bljúgur og afsakandi. Ætli ég sé að fá heilablóðfall? Hvaða lykt er það aftur sem maður á að finna þegar maður er að fara að fá heilablóðfall? Aska? Reykur? Strokleður? Ég held að öfund og valdaátök og hagsmunir og löngun til þess að stýra sögunni um sjálfan sig ráði miklu um það hvernig fólk hagar sér í menningunni (einsog svo víða annars staðar). Hverja það þolir ekki og hverjum það binst böndum. Þetta á líka við um sjálfan mig. Ég held ég sé svolítið þreyttur á því. Þetta er keppni um pláss og ég vildi að hún væri eitthvað annað. Eitthvað göfugra. Sumt finnst mér göfugt og sumt finnst mér lélegt, einsog gengur, en flest finnst mér samt skiljanlegt. Ekki allt, en flest. Menningin er allavega ekki pólitíkin – guði sé lof fyrir það. *** Ég svaf ekki mikið í nótt. Og hljóp 13 km í morgun og fékk mér svo mjög sterkan hádegismat. Og borgaði mjög háan óvæntan reikning. Kannski er ég í einhverri náttúrulegri vímu. *** Gravity’s Rainbow hefur ekkert komið upp úr töskunni í dag. Kannski er ég alls ekki upplagður til þess að lesa hana. Ég hef tekið eftir því að besti tími ársins til þess að hella sér í erfiðan lestur er fyrstu mánuðir nýs árs. Janúar og febrúar og mars. Þá hafði ég séð fyrir mér að lesa Finnegan’s Wake og endurlesa Ulysses – af því ég er að fara í menningarreisu til Dyflinnar með vinum mínum. Við ætlum að lesa Ulysses saman og fara svo í spor Leopolds og Stephens. Það er alltílagi að ná ekki markmiðum sínum. Ég held ég fari bara og kaupi mér Skrípið áður en bókabúðin lokar. Nú er tíminn til að lesa Skrípið. Og kannski hellist yfir mig löngun til þess að tækla Pynchon fyrir áramót. *** Þann 23. nóvember ætla ég og ellefu vinir mínir að halda svokallaða „tribute“ tónleika til heiðurs Tom Waits sem verður 75 ára í desember. Það verða líka haldnir svona tónleikar á höfuðborgarsvæðinu á næstu helgi, minnir mig, en við ætlum að halda okkar eigin hérna. Og svo eru svona tónleikar sjálfsagt haldnir út um allan heim þessa dagana. Tom Waits á mjög heita aðdáendur. Sjálfur hlustaði ég nánast ekki á neitt annað í mörg ár milli tvítugs og þrítugs og reyndi einu sinni mjög mikið að fá miða á tónleika – við Skúli frændi (mennski) vöktum heila nótt, hringdum og hringdum til Írlands og endurhlóðum einhverja miðasölusíðu, en án árangurs. Seinna var ég kominn í eitthvað plott með Ödda mugison um að reyna að redda miðum í gegnum Dag Kára (sem gerði Little Trip to Heaven og var þá í einhverjum tengslum við manninn – minnir mig, þetta er langt síðan). En það gekk ekki neitt. Einu sinni reyndi ég líka að komast á svona tribute tónleika – það var 1999 í Berlín og ég man að heitið var Tom Waits for Charles Bukowski og þetta var svona tvöfalt tribute. En það var samdægurs og allt löngu uppselt.

Regnboginn

Ég hafði séð fyrir mér að lesa kannski svona 100 síður af Gravity’s Rainbow í dag. Ég er búinn með 17 og finnst einsog ég hafi lesið þrjár heilar skáldsögur. Mér skilst reyndar að fyrstu 100 síðurnar – af 770 – séu stærsti hjallinn. Þá sé maður búinn að „ná“ þessu og geti lesið restina í rólegheitunum. Kannski er best að gera ráð fyrir að það taki bara út nóvember að lesa hana. Það tók rúmlega mánuð að lesa bæði Ulysses og Infinite Jest. Eða kannski rétt tæplega mánuð að lesa Ulysses. Infinite Jest varð þess valdandi að í fyrsta skipti frá því við fjölskyldan byrjuðum að halda sameiginlega lestrardagbók fyrir hátt í áratug skrifaði ég enga bók einn mánuðinn. Í byrjun árs gerði ég lista yfir ólesna klassík sem ég vildi komast yfir í ár – 12 bækur – og af stóru þungu bókunum er Gravity’s Rainbow ein eftir. Og hinar tvær – Njála og Karítas án titils – báðar íslenskar og KáT meira að segja frekar stutt held ég. Ætli ég taki þær ekki með mér til Bangkok bara. Það er bara spurning hvað ég geri með jólabókaflóðið. Ég iða í skinninu að lesa Skrípið hans Ófeigs og nýjar bækur Brynju Hjálmsdóttur og Tómasar Ævars og Birgittu Bjargar. Að minnsta kosti. *** Í umræðunni um menningarblöndun sem sprottið hefur af miðflokksflörtandi ummælum Bjarna Ben hefur fólk svo sem réttilega haldið því fram að menningarblöndun sé forsenda allrar menningar – það er engin menning án blöndunar. Í þessu blandast reyndar saman mörg menningarhugtök – Bjarni er sjálfsagt ekki að tala um tónlist, t.d., eða matargerð, hann hefur áhyggjur af því að brúna fólkinu fylgi leti og svindl og fyrirlitning og „skortur á umburðarlyndi“ (sem er auðvitað fyndnast af öllu). Og svo talar hann áreiðanlega um einhvers konar skiptingi – klofið samfélag – alveg án þess að átta sig á því að það sem hann er að tala um þar (og vísar til norðurlandanna og annarra landa sem „við berum okkur saman við“) heitir stéttaskipting og hún er ekki litgreind nema af atvinnulífinu sem raðar fólki af ólíku litarhafti í tiltekna röð, frá hottintottum til Garðbæinga. En það sem kemur stöðugt upp í hugann á mér sem skaðleg erlend áhrif – skaðleg menningarblöndun – er einsleitni alþjóðlega markaðssamfélagsins þar sem allir bæir, frá Bangkok til Auschwitz til Reykjavíkur, hanga saman á keðju sömu verslanakeðjanna – H&M og Dressman og IKEA og Subway og svo framvegis. Og meira að segja þegar það eru ekki keðjur þá er mótið sem verslunin er steypt í það sama – ef það er ekki McDonalds þá er Metro (Hesburger, Max, und so weiter), skyndibitastaður skapaður í sömu mynd. Ungt fólk ferðast síðan á milli staða með tékklista – og einkunn hvers staðar lækkar fyrir hvern faktor sem vantar. Það vantar McDonald’s í Reykjavík. Vantar Subway’s á Ísafjörð. Við gerum kröfu um að allir staðir séu helst sami staðurinn – það eina sem Íslendingar krefjast í útlöndum er að verðið sé lægra. Hver staður í heiminum missir þannig dálítið af sérstöðu sinni með því að verslunarrýmið sé allt hernumið af hinu alþjóðlega fyrirsjáanlega og skyldubundna. Það væri mjög gaman ef það væri hægt að vinda eitthvað ofan af þessu. En það er ekki það sem Bjarni Ben er að tala um. Eða Snorri Más eða Sigmundur eða Arnar Þór eða neinn af þessum trúðum sem halda að veruleikanum stafi fyrst og fremst ógn af fjölbreytileikanum.

Í hjartanu

Leikurinn endaði 3-1 fyrir óheppni minni. Fluginu í gær var aflýst. Ég fékk samt fría gistingu á gömlu loftleiðum og kvöldmat og tók því bara rólega en ég missti af bíókvöldi með fjölskyldunni og græddi aukaferðadag. Komst hálfa leið í gegnum Kul eftir Sunnu Dís. Sem mér skildist á Heimildarrýninni að væri síðri hlutinn – myndin af lífi aðalsöguhetjunnar er enn mikið að koma í ljós og svo sem ekki margt gerst. Mér er þvert um geð að segja bækur langdregnar – af því mér finnst það upphefja lesleti og ég fíla tíma í bókmenntum, að maður dvelji með þeim – en ég get ímyndað mér að einhverjum þætti þetta langdregið. En að sama skapi er mikið af upplýsingum þarna – eða vísbendingum – ég er enn að reyna að átta mig á því hvað sé að. Bókin gerist á tilraunaheilsuhæli sem er augljóslega á Flateyri – fílingurinn í tilraunahælinu, listasmiðjur og kajakferðir, er meira að segja svolítið einsog ég ímynda mér að fílingurinn geti verið í Lýðskólanum. Aðalsöguhetjan er í einhvers konar kulnun – en það hvílir augljóslega meira að baki. Stundum held ég að það sé bara eitthvað tráma sem sé smám saman að koma í ljós, stundum virðast þetta vera einhvers konar reiðivandamál (eða bæling á reiði – það er ofsi í sögupersónunni en hún kannski öskrar ekki mikið) en kannski er ég líka eitthvað að spegla hana í Elskling sem ég sá í bíó á útleiðinni og lifir með mér. Landsbyggðarmyndin? Eftir lestur síðustu ára er ég alveg að verða sérfræðingur í því hvernig vestfirsk þorp birtast í bókum – mér finnst þetta sannfærandi lýsing á Flateyri, en með þeim formerkjum þó að flestar sögupersónurnar eru utanbæjarmenn „í leit að sjálfum sér“ eða að „hlaða batteríin“ eða hvað maður kallar þetta fjallablæti borgarbúa (en það er einmitt það sem maður gerir á heilsuhælum, held ég, hleður batteríin og finnur sig, meira að segja á stórborgarhælum). En Flateyri er líka rosalega mikið þannig staður. Kannski helst að fjarvera útlendinga sé áberandi. En þá er þetta auðvitað ekki Flateyri – þetta er ónefndur staður í bókmenntaverki og lýtur sínum eigin demógrafísku lögmálum. Hér tók ég pásu til að reyna að fljúga til Ísafjarðar. Við hringsóluðum smá og flugum svo aftur til baka í Vatnsmýrina. 4-1 fyrir óheppni minni. Næsta athugun er klukkan 12. Í fluginu komst ég langleiðina út á enda. Una – söguhetjan – er á leiðinni aftur til Reykjavíkur. En hún kemst auðvitað ekki nema að það verði flogið. Sem er í sjálfu sér ekki mjög líklegt.

Vélin vestur

Fagur dagur í Reykjavík. Var kominn í rúmið í Keflavík upp úr þrjú og rétt náði morgunverðarleifunum á hótelinu fyrir lokun. Stökk svo upp í strætó niður í miðborg og kíkti í bókabúð – Skálda er lokuð á sunnudögum svo það var Eymundsson í Austurstræti. Langaði að byrja á jólabókaflóðinu og Eymundsson á Ísafirði er einsog Skálda lokuð á sunnudögum. Náði mér í Kul eftir Sunnu Dís – sem byrjar á lendingu á Ísafjarðarflugvelli. Eða því sem hlýtur að vera Ísafjarðarflugvöllur. Kláraði bók II af Rúmmálsreikningnum í fluginu. Og frönsku seríuna Détox (drasl, en alltílagi til að hlusta á frönsku og reyna að skilja eitthvað). Og Eternal Sunshine of the Spotless Mind – sem ég hafði nærri alveg þurrkað úr minni mínu á þeim tuttugu árum sem eru liðin frá því ég sá hana. Mig langar að vita hvenær næstu bækur í Rúmmálsreikningnum koma út. Þetta á auðvitað að vera einsog með Harry Potter að þetta komi út á alvöru tempói og jafn óðum. Bókaútgefendur hljóta líka að stórtapa á okkur sem gætum hæglega útvegað okkur svona bækur á öðrum málum – allar fjórar eru komnar á sænsku og ég get svo sem alveg lesið dönsku. Og er svo sem líka með það á langtímaplaninu að koma dönskunni, norskunni og líka þýskunni í eitthvað nothæft ástand. Það er mest æfingaleysið sem heftir mig – en manni leiðist að æfa sig, þá verður maður andstuttur og illt í vöðvunum. Og manni finnst maður svo vitlaus að skilja ekki allt. Þannig fer illa með litla viðkvæma egóið mitt. Bíð nú eftir manni á Rosenberg. Er þetta ekki borgarlífið sem ég var að óska mér í gær? Americano á Rosenberg og svo tölum við áreiðanlega um bókmenntir, ég og vinur minn, sem er frægur rithöfundur. Við höfum að vísu ekki tíma til að fá okkur pizzu og fara í bíó af því ég þarf að ná seinni vélinni vestur.

2-1

Fluginu mínu var frestað um tvo tíma. Sem þýðir að ég lendi ekki fyrren eftir tvö í nótt. Fjögur að pólskum tíma. En svo kom taskan mín önnur af bandinu í Varsjá svo ég er ekki bara óheppinn. En svo kom líka í ljós að einhver hafði gleymt að láta mig vita af því að maður yrði að tékka sig inn netleiðis – ég bókaði ekki flugið mitt sjálfur og fékk ekki tölvupóstana til útskýringar á þessu – svo ég þurfti að leggja út 8 þúsund krónur til þess að mega tékka inn. Svo ég er þá meira óheppinn en heppinn. Það er tvö-eitt, einsog leikar standa. En kvöldið er ungt. Í fluginu frá Katowice til Varsjár hlustaði ég á nýtt hlaðvarp Benedikts. Viðtöl Einars Kára við Brynju Hjálmsdóttur, Tómas Ævar Ólafsson og Dag Hjartarson og fannst þau öll svo gáfuleg og dásamleg bara. Blátt áfram og blátt áfram áhugasöm um það sem þau eru að gera – vel lesin og greinilega í einhverri samræðu – og alltíeinu langaði mig að búa í borg og tilheyra einhverri svona bókmenntakreðsu sem hugsar um eitthvað annað en stjórnmál allan liðlangan sólarhringinn (það er ekki fólkið í kringum mig sem gerir það heldur internetið, internetið er bara svo stór hluti af upplifun minni af öðru fólki – og sjálfsagt á það við um alla). Fer í bíó og borðar pizzu. Og ég var sem sagt eitthvað svo bókmenntavongóður eftir þessa hlustun. Svo lenti ég í Varsjá og tékkaði mig út og náði í töskuna og tékkaði mig inn og fór í flugvallarbókabúðina og þá varð ég alltíeinu bókmenntasvartsýnn af því það var SVO MIKIÐ af bókum – sem maður gæti í sjálfu sér ætlað að væri gott en vandamálið var að mig langaði ekki að lesa nema mjög lítið af þessum bókum. Og ekki af því þetta væri allt eitthvað sjoppudrasl. Ég tók upp The Fraud eftir Zadie Smith og hugsaði bara: nei, ég nenni ekki að lesa meira eftir Zadie Smith. Einsog ég væri bara búinn að uppgötva hana. Hún gæti ekki boðið mér upp á neitt nýtt. Sem er auðvitað ekki satt. Þegar mér finnst bækur vera of margar verð ég líka kvíðinn yfir því að vera sjálfur að bæta í þennan haug. Hvers vegna þarf svona ógurlega margar bækur? Hver á að lesa þetta allt saman? Sennilega var ég bara með lágan blóðsykur. Í hádeginu fékk ég mér lítið zapiekanka (sem er pólskur réttu sem er einsog kroppsæla með engu loki – kroppsæla er ísfirskur réttur, samloka með hakki, lauk, osti og sósu) en hafði ekkert borðað annars og klukkan orðin átta. Ég fór og fékk mér hamborgara og kom svo aftur í bókabúðina og keypti The Books of Jacob eftir Olgu Tokarczuk. Ég hugsa að ég lesi hana samt ekki alveg strax. Hún fer á náttborðið og ég les hana eftir áramót. Hún er líka næstum þúsund síður og það er svo margt á dagskránni. Jólabókaflóðið og Gravity’s Rainbow þar efst á blaði. Annars er ég byrjaður á Rúmmálsreikningi II. Þetta er alveg dæmalaust – umturnandi bókmenntaverk. Ég hélt að Ali Smith væri nýi uppáhaldshöfundurinn minn en kannski er bara kominn tími til að skipta. Strax! Varla nema ár eða tvö síðan ég gekk í Ali-liðið.

Þrjú flug

Þrjú flug. Það er það sem ég þarf yfirleitt til þess að komast eitthvað. Eitt frá Ísafirði, eitt á einhvern flugvöll til millilendingar og svo eitt þaðan á áfangastað. Og svo þrjú til viðbótar til baka. Ekki getur þetta verið mjög gott fyrir umhverfið. Mestu skiptir samt hvað mér sjálfum leiðist þetta. Ekki kannski flugið sem slíkt en allt havaríið í kringum það. Fyrst flýg ég til Varsjár – þar þarf ég að sækja töskuna mína og tékka mig aftur inn í Keflavíkurflugið. Svo þarf ég að gista í Keflavík (enda komið fram yfir miðnætti þegar ég lendi). Og á morgun flýg ég svo heim. Mig dreymir um að fljúga beint. Ef einhver finnur upp sjálfstýrandi flugbíl skal ég gerast vinur einkabílsins. Annars finnst mér skemmtilegast að fara um fótgangandi. Nú eða á hlaupum, það er líka ágætt, þótt ég hafi lítið notað hlaupin beinlínis til þess að komast á milli staða.

Síðasti dagurinn í Póllandi

Hér hef ég heyrt mikið af tónlist sem ég hafði ekki heyrt lengi. Veitingastaðir – sérstaklega í Kraká – spiluðu mikið af 90’s poppi og rokki. No Doubt og Metallicu. Mér fannst samt steininn ekki taka úr fyrren ég sá risastóra auglýsingu fyrir fyrirlestur með Francis Fukuyama – sem ég vissi ekki einu sinni að væri til lengur. Einhvern veginn segir það eitthvað um endalok sögunnar. Kannski lifir hann bara tíunda áratuginn aftur og aftur. Hér er kannski í einhverjum skilningi ennþá 1990 – fólk enn að díla við arfleiðina sem fylgir falli kommúnismans. (Í öðrum skilningi er ágætt að halda því til haga að ég er ekki að taka undir einhverja fordóma um að Pólland sé „eftirá“ – enda er það í fyrsta lagi fáránlegt konsept, í öðru lagi er nostalgía og 90’s æði mjög í móð um veröld víða 2024, og í þriðja lagi á það ekki við um neitt nema einstaka eiginleika – ég heyrði músík sem ég hef ekki heyrt lengi, sá plakat með Fukuyama og svo er ýmislegt staðnað í pólitíkinni). Ég átti gott spjall við fólk í gær – um pólska sögu, samskiptin við Úkraínu (sem eru sögulega erfið en allir ákveðnir í samstöðu í dag) og vinstrimennsku. Það er svo undarlegt – eða kannski er það ekkert undarlegt – að allir Pólverjar sem ég hef kynnst eru frjálslyndir vinstrimenn af einu eða öðru taginu. En allt sem maður heyrir um pólska pólitík er auðvitað ekki það – það er hrottaleg og íhaldssöm hægrimennska. Hér hljómar auðvitað sakleysislegasta vinstrislagorð einsog maður sé að kalla á endurkomu kommúnismans (vinir mínir fullyrtu að á tíunda áratugnum hefði gamli kommúnistaflokkurinn verið svo áfram um að sanna að hann væri ekki kommúnistaflokkur að hann hefði eiginlega orðið nýfrjálshyggjuflokkur). Ég fann líka fyrir því að fólk væri í vörn. Mér var margsagt að Pólverjar væru ekki íhaldssamir. Þeir væru ekki hommahatarar. Og svo framvegis. Og ætli fólki sé ekki vorkunn. Í fyrsta lagi ýkjast svona hlutir sjálfsagt eitthvað í fréttalinsunni (alveg einsog ég hitti aldrei vinstrisinnaða Pólverja les ég aldrei fréttir um Pólland sem fjalla ekki um hægrimennskuna – einsog það sé ekki annað í fréttum). Og í öðru lagi er óþarfi að gefast upp fyrir þeirri sjálfsmynd að maður sé vondur – það er áreiðanlega hollt að horfast í augu við sjálfan sig en maður má samt ekki falla fyrir rangri narratífu um sjálfan sig, skipa sig í hlutverk vonda karlsins. Ef maður ypptir öxlum og segir: jæja, þá, við hötum homma – er líklegt að það verði sannara en ella. Altso, ég skil varnarstöðuna. Ég spurði líka út í seinni heimsstyrjöldina og lögin um að maður mætti ekki tala um samstarf Pólverja við nasista en veiddi lítið – vinir mínir sögðu að það væru engin lög í Póllandi sem takmörkuðu tjáningarfrelsið (note to self: skoða það nánar) og þótt þeir tækju undir að auðvitað hefðu sumir Pólverjar unnið með nasistum þá virtist þekking þeirra á sögu pólska samstarfsins talsvert takmarkaðri en þekkingin á pólsku andspyrnuhreyfingunni. Altso, þegar ég spurði um óþokka fékk ég sögur af hetjum. Aftur varnarstaða sem ég skil og þegar ég fór yfir það sem ég þekki af litháískri sögu í þessum efnum (sem er umtalsvert meira en ég veit um pólska sögu) kinkuðum við öll kolli og sammæltumst um að við ættum öll rætur í bæði óþokkaskap og hetjuskap – myndin væri margbrotin og það væri áskorun að takast á við hana og að við værum öll (mismikil, kannski) fórnarlömb sögunnar. Eitt sem mér verður líka reglulega hugsað til hérna: Á sjöunda áratugnum flykktust sænskar konur til Póllands í fóstur … ég get ekki vanið mig af þessu. Þungunarrof. Af því sænska folkhemmet var íhaldssamt en pólski kommúnisminn ekki – kommúnistar ætluðu a.m.k. í orði kveðnu líka að útrýma feðraveldinu, en sósíaldemókratar, sem hafa gjarnan verið hófsamari, stóðu vörð um það á norðurlöndum. Í dag hefur þetta snúist við – eftir hrun kommúnismans tók kaþólskan eiginlega við sem móralskur vegvísir – og sænskir sósíaldemókratar eru hættir að verja feðraveldið (og raunar hættir að verja jöfnuð líka – hafa hlutað sundur folkhemmet og selt einkaaðilum). Að vísu held ég að Svíar takmarki fóstureyðingar við fólk sem er með fasta búsetu í landinu svo þeir eru kannski ekki byrjaðir að endurgjalda pólskum konum greiðann frá því í gamla daga – en það kannski kemur að því.