Ég sporðrenndi fyrsta hlutanum af Rúmmálsreikningsseptólógíu Solvejar Balle. Af áfergju. Ef hún heldur þetta út – sjö bækur af sama krafti, sömu dýpt og sama bókmenntalega intensíteti – er þetta einfaldlega sögulegt. Á Joyce-skalanum sögulegt. Annars var ég bara að leggja hana frá mér svo ég ætla ekki að segja meira um hana í bili nema þetta – þennan hástert. *** Það eina sem mér finnst undarlegt við að „frægt fólk“ (sem er auðvitað frekar abstrakt konsept í 400 þ. manna landi) fari í framboð er hversu viljugt þetta fólk – listamenn, fræðimenn, blaðamenn o.s.frv. – er að tefla trúverðugleika sínum í tvísýnu. Það vita það allir sem hafa tekið þátt í pólitísku starfi – jafnvel bara óflokksbundnum en skipulögðum aktífisma – að það kallar á alls kyns málamiðlanir sem eru ekki endilega samræmanlegar listrænum eða heimspekilegum metnaði. Þú skuldbindur þig til þess að gera það sem þarf til þess að ná pólitískum árangri – sem er þá meðal annars að láta vera að gagnrýna flokkinn í fortíð, nútíð og framtíð, sérstaklega á meðan kosningabaráttunni stendur, og jafnvel leggja þig í líma við að verja óverjandi hluti. Óverjandi málamiðlanir. Óverjandi afleiðingar málstaða. Óverjandi fórnarkostnað. Og í stjórnmálastarfi geta komið upp ófyrirsjáanlegar aðstæður – einsog Covid – þar sem stjórnmálaflokkar taka alls konar óvæntar afstöður og þá verður hópeflið undantekningalítið til þess að hver fylgir bara sínum listabókstaf, sínum bönker. Sérstaklega er þetta undarlegt þegar listamenn eru annars vegar því stjórnmálin – og aktífistarnir, lobbíistarnir – eru mjög fljót að snúa sér gegn allri list sem er óþægileg fyrir málstaðinn. Auðvitað er þetta samt spurning um persónuleg heilindi og fólk hlýtur að svara þessu fyrst og fremst fyrir sig sjálft. Ég fór tvisvar í framboð í kringum tvítugt og fékk strax ógeð – þótt fólkið væri frábært og málstaðirnir góðir; það er mekaníkin, dýnamíkin, sem gerir þetta vonlaust, ferlarnir og menningin. Eitthvað undarlegt sambland af fylgispekt og þrætugirni – einsog að láta barmmerkið stýra sér. Og svo þegar maður er búinn að fara í framboð situr maður uppi með það, a.m.k. í dágóðan tíma á eftir. Þá er maður þetta fyrirbæri – þessi flokkur – og þegar hann hreyfir sig og breytir um lögun gerir maður það líka, nema manni takist með harmkvælum að skera sig einhvern veginn lausan.
Hamfara- og jólabókaflóðið 2024
Ég sit á ansi fínu hótelherbergi í Katowice. Ég þarf ekki að lesa nein ljóð fyrren á morgun. Daginn ætla ég að mestu að nota til þess að vinna. En akkúrat núna sit ég og hlusta á ræstitæknana þrífa herbergin á ganginum og hef áhyggjur af því að þeir banki og trufli mig í miðri setningu til þess að spyrja hvort mig vanti handklæði (mig vantar ekki handklæði en ég gæti þegið meira instant kaffi). Þessar áhyggjur eru nógu miklar til þess að trufla mig einar og sér en ekki nægar til þess að ég standi upp og hengi do not disturb skiltið á hurðarhúninn. Enda er það einsog eitthvert skarlatsmerki sem þýðir eiginlega bara að maður sé þunnur. Og ég er ekki þunnur. Þess vegna er ég að blogga. Til að drepa tímann þar til ræstitæknarnir hafa lokið sér af. Á tveggja til þriggja ára fresti fer mig að langa til þess að eiga rúmgóða heimasíðu … og í þessum orðum skrifuðum bankaði ræstitæknirinn upp á og gaf mér meira kaffi. Nema hvað, já, rúmgóða heimasíðu – ég læt ekki staðar numið fyrst ég er byrjaður – þar sem finna má upplýsingar um það sem ég hef gert en þar sem má líka finna eitthvað af verkum mínum. Hljóðaljóðin, vídjóljóðin, einhver dæmi, þýðingar og svo framvegis. Síðu einsog þessa. Einu sinni átti ég enn rúmbetri síðu þar sem mátti líka finna allar meira alvöru greinar sem ég hafði skrifað. Svo líða tvö-þrjú ár í viðbót og þá fer þessi síða að fara í taugarnar á mér. Einsog þetta sé alltsaman bara til marks um óþolandi hybris, útblásið sjálf mitt, ekki skárra en hver önnur uppáþrengjandi þvottaefnisauglýsing, hvert annað product placement. Og þá langar mig að eyða þessu öllu og opna bara einhverja blogspot síðu. Satt best að segja hefur þetta líka með blankheit að gera. Ég borga helling fyrir að halda þessu úti – og annað eins fyrir að halda Starafugli í loftinu, þar sem ekkert gerist lengur. Og svo hafa þessar heimasíður yfirleitt ekki heldur litið út eða virkað einsog ég vildi helst að þær gerðu. Þegar ég hef fengið aðra til að hjálpa mér hafa hlutir sem virka einfaldir í hausnum á mér reynst illgerlegir og þessi síða er eitthvað wix-módel sem er tregt til að hlýða mér, íhaldssamt, ekki „intúitíft“ og satt best að segja ekki mjög fallegt. En nærtækast af því sem ég fann fyrir mann sem kann ekki að forrita nema allra einföldustu skipanir. Ég er samt ekkert að fara að henda þessu. En ég kannski endurhugsa þetta blogg svolítið – hætti að vesenast með myndir, hætti að senda út tilkynningar um færslur, hætti að deila á facebook og skrifa oftar og minna í einu. Það er allavega planið. *** Og samt læt ég ekki staðar numið. Mér sýnist jólabókaflóðið ætla að drukkna í hamfaraflóði jólakosningabaráttunnar. Og það skánar varla héðan af – það verður kannski ekkert jólabókaflóð fyrren í desember. Þangað til lesum við bara kosningabæklinga. Eða réttara sagt tilkynnningar og yfirlýsingar á net- og samfélagsmiðlum. Ég hef enn ekki lesið neina af skáldsögunum – bara Hníf Rushdies og Karlmann RHV – en ætla að reyna að bæta úr því fljótlega eftir að ég kem heim. Annars ætlaði ég líka að fara að lesa Gravity’s Rainbow og Rúmmálsreikningana hennar Solvej Balle. Telst bók II í þeim flokki vera í jólabókaflóðinu? Hún kom ábyggilega út í ár – en kannski var það í vor? Annars er afstaða mín til jólabókaflóðsins mjög tvíbent. Ef ekki þrí- eða fjórbent. Þetta er auðvitað markaðshátíð. Og dregur stundum fram í fólki … kannski ekki það versta en það grynnsta. Af því það grynnsta er fljótast að skila sér. Rithöfundar mæta í einlæg viðtöl og tala beint inn í eðluheilann á öðrum – yfirleitt meira um sjálfa sig eða einhver dægurmál en það sem þeir voru að skrifa. Menningarfjölmiðlarnir gera yfirleitt betur – Lestin, Víðsjá, Kiljan, bókablöðin – en þar er tempóið samt stundum þannig að yfirveguð vinnubrögð mega víkja svo allir komist að. Sjálfum finnst mér þetta óþægilegt þegar ég er með bók – að hafa áhyggjur af velgengni hennar. Þetta er kannski ekki hræðilegt – ekki viðstöðulaust kvíðakast – kannski meira svona einsog þegar barnið manns kemur ekki heim á réttum tíma og það næst ekki til þess. Ég treysti börnunum mínum og þau skila sér alltaf en ég er samt ekki rór rétt á meðan. Jólabókaflóðið er tveir mánuðir af þessu (jájá ég veit það er asnalegt að líkja bókum við börn; takið líkingunni vinsamlegast með saltklípu). Maður vill vera á metsölulistunum og maður vill fá tilnefningar og verðlaun og þýðingar – og peninga! – en í öllum þeim sirkus þarf maður líka að hafa fyrir því að minna sjálfa sig á að bókmenntir eru eitthvað annað en það; að velgengni á markaði, í bókabúðum, ritdómum og hjá verðlaunanefndum, segir ekkert um eiginleg gæði þess sem maður hefur gert. Því það er enginn annar að fara að minna mann á það fyrren í fyrsta lagi í janúar. Kannski er því jafn ágætt fyrir bókmenntirnar að fá frið í skjóli kosningabaráttunnar og það er vont fyrir bókamarkaðinn. Og kannski hrynur bókamarkaðurinn síðan og tekur með sér bókmenntirnar og á næsta ári verður bara tik-tok-jólaflóð. *** Þetta er sem sagt síðasta færslan sem ég deili á facebook eða sendi út tilkynningu um í bili. Það verður samt áreiðanlega meira skrifað hérna næstu vikurnar.
Auschwitz
Ég er túristi í Póllandi. Hér er gott að vera. Maturinn er góður, drykkirnir eru góðir, borgin er falleg og veðrið hefur leikið við borgarbúa – sem voru víst ansi lúnir á haustrigningunni um það leyti sem ég kom. Víða þar sem túristar koma saman eru útskýringar á því hvernig maður segi eitt og annað á pólsku – hvernig maður þakki fyrir sig og bjóði góðan daginn o.s.frv. – og ef maður býður svo góðan daginn af sinni takmörkuðu getu fær maður afgreiðslu á pólsku nema maður sigli samskiptunum algerlega í strand. Matseðlar eru alltaf á tveimur tungumálum. Skilti stundum bara á einu – pólsku. Flestir veitingastaðir heita pólskum nöfnum – ensk veitingastaðaheiti eru álíka algeng og ítölsk sýnist mér, alls ekki óalgeng en sannarlega ekki í meirihluta. *** Ég fór í Auschwitz. Það þarf ekki að útskýra það fyrir neinum hversu þrúgandi heimsókn í Auschwitz getur verið. Og dauðinn er í sjálfu sér líka nálægur í gyðingahverfinu, þar sem ég fór líka í sögugöngu, og þar sem er nóg af gyðingaveitingastöðum og menningarstofnunum en fjarska fáir gyðingar af holdi og blóði. Þeir voru 68 þúsund þegar best lét – eftir stríð sneru 2-3 þúsund aftur af þeim sem enn lifðu (sem voru ekki mikið fleiri). Í dag ná þeir ekki þúsund – ná ekki íbúafjölda Bolungarvíkur. Enda mætti þeim nýtt pogrom strax og þeir sneru aftur – í ágúst 1945. Það er verslunarmiðstöð alveg ofan í Auschwitz I. Burger King, KFC, McDonalds, H&M. Ég stóð sjálfan mig að því að vilja ekki að hún væri þar og svo sló hugsuninni niður í mig líka hvort ég væri að biðja um „gömlu góðu Auschwitz“ og þá væri kannski betra að Auschwitz væri bara H&M verslun. Bönker Hitlers er undir fullkomlega ómerkilegu bílastæði í dag, þar var ekki einu sinni skilti fyrren 2006. Ég fór í einhverja hringi með þetta í höfðinu en komst ekki að neinni niðurstöðu. Frekar en svo margt annað. Ég eyddi dálitlum tíma í Jurbarkas 2011 – þar sem svo til engar leifar eru um fjöldamorðin og misþyrmingarnar sem gyðingar máttu þola sumarið 1941, þar sem fólkið á tourist information skrifstofunni gat ekki svarað einföldustu spurningum og þar sem enn voru uppi minnismerki um mennina sem höfðu stundað fjöldamorðin (af því þeir voru svo líka hetjur fyrir að hafa barist gegn Sovétríkjunum eftir stríð). Þar sem grafreiturinn var í niðurníðslu – bókstaflega bara athvarf fyrir unglinga til að spóla í hringi – búið að sparka marga legsteinana niður í einhverjum fíflagangi. Þar sem minnismerkin – „hér voru 422 gyðingakonur myrtar“ – voru á stærð við hálfan seríospakka á litlu priki og falin lengst inni í skógi þangað sem lá ekki einu sinni göngustígur nema hálfa leiðina. Þetta er alveg á hinum endanum – hér er allt undirstrikað, áherslumerkt, og sagan ekki óskýr og loðin og samsett úr mótsögnum, heldur straumlínulöguð og skýr. Það fór talsvert af orku minni í þessum sögugöngum í að hlusta á það hvernig leiðsögumennirnir sögðu frá, frekar en bara hvað þau sögðu, sennilega vegna þess að ég veit að í Póllandi gilda ströng lög um hvernig hlutunum er stillt fram og atburðir túlkaðir. Í Auschwitz lagði leiðsögukonan áherslu á sérstöðu gyðinga í helförinni og talaði aldrei um nasista án þess að skeyta forskeytinu „þýskir“ framan við. Önnur fórnarlömb voru nefnd lítillega – varla samt án þess að nefna að ekki hefði verið farið jafn illa með þau – en það var ekki einu orði vikið að samstarfsmönnum nasista í Póllandi eða pólskum nasistum – enda er hreinlega ólöglegt að tala um þannig lagað . Bæði í göngunni um gyðingahverfið og í Auschwitz var kastljósinu beint að pólverjum sem hefðu hjálpað gyðingum – aðallega Jan Karski, Oskar Schindler og Maximilian Kolbe. Fyrir utan Auschwitz II er skilti sem auglýsir annað safn sem fjalli um sögu Roma-fólksins í helförinni – 3 km í burtu (sem er lengra en frá Auschwitz I til McDonalds). Ég varð ekki var við að margir færu þangað. Það kom minna á óvart að ekki væri orði vikið að samtímanum. Hvorki þjóðarmorðinu á Gaza eða þeirri sífellt ágengari stefnu evrópuríkja að reka fangabúðir fyrir „óæskilegan útlendingaskríl“ samtímans í nágrannalöndum – fjarri vinveittum stofnunum, fjarri aktívistum sem flækja málin og fjarri eftirliti, þar sem ekki sést til þeirra. Eiga þessar fangabúðir að taka við af því sem nú er kallað „lokuð búsetuúrræði“ – og eftir því sem ég kemst næst er varla nema tímaspursmál fyrren allir hælisleitendur (og allra fyrst ungir karlar) verða sendir til Albaníu og Túnis og svo framvegis – þar sem þeir verða alveg áreiðanlega látnir daga uppi. Og nei, ég er ekki að halda því fram að neitt af þessu sé einsog Auschwitz – eins ljótt og það er. En það væri líka lélegur sagnfræðingur sem héldi að helförin hefði bara óforvarendis skotið upp kollinum í Auschwitz – hún átti sér langan aðdraganda og sá aðdragandi er stundum ansi líkur stefnu evrópuríkja í málefnum flóttamanna og hælisleitenda. Og ég veit ekki hvaða tilgangi öll þessi sögukennsla á að þjóna ef við megum ekki læra af henni. Það gerir fórnarlömbum Auschwitz lítið gagn að við grátum í koddann 70 árum seinna. Það sem við þurfum að læra af sögunni er að stöðva harmleikina áður en þeir eiga sér stað.
Allt í réttri röð
Það er alls konar sem mig langar að ræða, flest bókmenntatengt. Nú langar mig að segja „Tökum þetta í réttri röð“ en átta mig á því að ég veit ekkert hver „rétt röð“ er. Þetta er því tilviljunarkennd röð. *** Nóbelsverðlaunin til Han Kang. Mér heyrist nær allir sem ég þekki vera sammála um að Grænmetisætan sé stórkostleg bók (ef frá er talinn Sverrir Norland sem skilaði óvæntu séráliti á Facebook). Hins vegar eru ekki allir jafn sammála um að aðrar bækur hennar séu jafn góðar eða hvort heildarverkin sem slík haldi „nóbelsgæðum“ – hvað sem nóbelsgæði nú annars eru. Ég hef ekki lesið hana ennþá en á – í kaupfélagi við eiginkonu mína – tvær bækur sem fóru beint á náttborðið. Stundum hefur mér þótt leiðinlegt að nóbelsverðlaunin falli í skaut höfundum sem eru of vinsælir – þau þjóni betur tilgangi sínum með því að fara til höfunda sem maður hefði sennilega ekki uppgötvað annars, víkki sjóndeildarhring okkar hinna bókelsku. Nú voru mín fyrstu viðbrögð þveröfug, af einhverjum orsökum – ég bara gladdist og fannst sem að kannski þyrftu þau af og til að fara til höfunda sem njóta almannahylli einmitt til þess að við skildum að þetta snerist ekki um vinsældir. Maður gæti verið vinsæll og samt frábær, gæti verið óþekktur og samt frábær, bókmenntir væru einfaldlega mældar á öðrum og annars konar vogarskálum. Viðbrögðin verða hins vegar öðruvísi í bókmenntaheiminum þegar þetta er höfundur sem flestir hafa lesið og þegar myndað sér skoðun á. Þá er víst að einhverjir fagni og aðrir hvái. Skemmtilegasti textinn sem ég hef lesið um þessi verðlaun hingað til er eftir vin minn, rithöfundinn Mats Kolmisoppi, og birtist í Göteborgs Posten í morgun – Akademien belönar småborgerlig ersatzlitteratur – og hann er sko ekki kátur. Fyrst og fremst er textinn þó um nýjustu bók Han Kang og Mats játar sjálfur að hafa notið Grænmetisætunnar. Rúnar Helgi fékk að mér þótti ósanngjarna útreið í Kiljunni fyrir bók sína Þú ringlaði karlmaður . Nú má fólki auðvitað finnast það sem því finnst um bækur og þótt ég væri ósammála niðurstöðu Þorgeirs og Árna Matt var það fyrst og fremst lýsing þeirra á bókinni – að þetta væri samantekt á kynjafræði sem allir ættu að þekkja (og eiginlega geta meðtekið með því einu að spyrja næstu konu), og að Rúnar kæmist að þeirri niðurstöðu helst að konur þyrftu bara að vera meira næs við karla – sem var einfaldlega röng, rangur lestur, röng túlkun og röng útlegging. Ég bara skil ekki hvar þeir fundu þessa niðurstöðu. Ef hún er í bókinni fór hún framhjá mér. Sjálfum þótti mér þetta góð bók og ekki síst af því hún er heiðarleg og einlæg og hún fjallar um mann sem er að mörgu leyti öðrum ólíkur – bæði er persónuleg upplifun hans á kynjahlutverkum í gegnum tíðina mjög oft á ská – og svo er hann örgeðja og krítískur að eðlisfari, ólíkur fólki að upplagi, tilbúinn til þess að þrátta en líka gjarn á að verða sár í þrætunum, og í ofanálag býsna góður í að sjá þessa þætti í eigin fari og díla með þá. Hann berst eiginlega á tveimur vígstöðvum – annars vegar til þess að verja sig og hins vegar til þess að fella sig. Og hann er alltaf bæði lítill og stór – og leyfir þeirri mótsögn að spíra án þess að vilja beinlínis leysa úr henni. Ég er líka ósammála því að þetta sé bók fyrir karlakarla, án þess að ég sé endilega viss um að ég viti hvað það er – þetta er allavega ekki bók fyrir Brynjar Níelssonar týpurnar. Ég held þetta sé bók fyrir fólk sem vill eiga í heiðarlegum samræðum við sjálft sig og aðra – en geri lítið fyrir þá sem vilja helst alltaf flauta leikinn af áður en hann hefst. Og þetta er ekki bók fyrir fólk sem vill bara vera sammála – einfaldlega vegna þess að þetta er ekki bók sem er einu sinni alltaf sammála sjálfri sér. 3. Það var í fréttum að nemendur við MA vilji láta taka skáldsöguna Blóðberg eftir Þóru Karitas af námsskrá skólans – enda innihaldi hún lýsingar á grófu kynferðisofbeldi og það geti verið erfiður lestur fyrir þá nemendur sem hafi orðið fyrir sambærilegri reynslu. Trigger, svokallaður. Skilji ég langa og ítarlega fréttina rétt setja nemendur sig ekki upp á móti fræðilegu efni með svipuðu innihaldi – og myndu áreiðanlega ekki bregðast eins við því að bækur Þórdísar Elvu, Á mannamáli og Handan fyrirgefningarinnar , væru settar fyrir – sem hlýtur þó að teljast hrottalegur lestur. Í grunninn er þetta ekki bara spurning um trigger, vanlíðan og öryggi, heldur líka um hlutverk skáldskapar í menntakerfinu, og um læsi sem slíkt. Ég held sjálfur að það sé meinhollt að takast á við ógnir í skáldskap – bæði þær sem maður hefur upplifað sjálfur og þær sem maður þekkir ekki nema í gegnum skáldskapinn, og ég skal ekki fara í grafgötur með að mér finnst viðbrögðin benda til lélegs læsis (í merkingunni að ráða við að lesa alvöru hluti ). Vísitölunemandanum er boðið upp í erfiða en lærdómsríka – andlega, tilfinningalega og vitsmunalega – glímu. Með því að taka bókina af námsskrá hefur möguleiki þess lærdóms líka verið tekinn af námsskrá – þótt halda verði því til haga að bókin er (a.m.k. enn sem komið er) enn til á skólabókasöfnum og fólki frjálst að nálgast hana sjálft (en þá verður að halda því til haga líka að allar kannanir sína að afar fáir menntskælingar nálgast bækur nema tilneyddir). En svo verður enn fremur að halda því til haga að það er alls ekki víst að allir ráði við slíka glímu – þótt ólíklegt sé að hún ríði þeim að fullu getur hún vel verið þeim skaðleg. En það getur líka átt við saklausara námsefni – og það er ekki hægt að halda því fram fyrir hönd allra að fræðiefni eða önnur umræða um kynferðisofbeldi geti ekki verið mjög triggerandi líka. Ég átta mig á því að það geti verið viðkvæmt að biðjast undan námsefni sem maður ræður ekki við af einhverri ástæðu en ég held að það sé farsælli lausn en hitt að sótthreinsa kennslustofur af óþægindum – nám er ekki bara þægindi, það er líka fólgið í erfiðleikum og átökum við erfiðleika. Ég spyr mig líka hvort þetta þýði að skáldskapur sé „of alvöru“ – altso of kraftmikill – og þar með verði að gera undantekningu fyrir hann, hann meiði of mikið; eða hvort hann sé „ekki nógu alvöru“ og þar með sé óþarfi að leyfa honum að vera stuðandi og særandi. Hann sé – einsog ég held að mörgum finnist – skemmtiefni og skraut en ekki aðferð til þess að takast á við veruleikann. Ég spyr mig líka hvort þetta eigi bara við um lýsingar á kynferðisofbeldi. Nú eru fleiri og fleiri nemendur í íslenskum menntaskólum sem hafa hreinlega upplifað stríð – hvað hefur það að segja fyrir skáldverk um seinni heimsstyrjöldina, sem ég þykist vita að séu stundum lesin í menntaskólum (mesti grikkur sem nokkur hefur gert mér er reyndar þegar MH-ingar voru látnir lesa allar 540 blaðsíðurnar í Illsku fyrir um áratug – twitter fylltist af leslötum gelgjuþrungnum gremjutístum svo vikum skipti)? Verður bara hægt að hafa næs – triggerlausar, öruggar – bækur á námsskrá? Er það það sem við viljum hafa fyrir börnunum – að bókmenntir séu krútt fremur en kaþarsis, konfekt fremur en leið til þess að takast á við angist mennskunnar – grenja yfir henni, hlæja að henni, skilja hana, skynja hana? Ég las líka frétt um að foreldrar væru mikið að ritskoða barnabækur ofan í krakkana sína – þetta var brot úr lengra spjalli sem ég heyrði ekki en dæmið sem var tekið í textanum var úr Einari Áskeli, að foreldrið drægi alltaf úr reiði föðurins. Þetta fannst mér mjög fyndið. Ég kannast í sjálfu sér alveg við að hafa hoppað yfir eitthvað – man samt ekki lengur nein dæmi – en að milda hinn milda föður Einars Áskels fannst mér alveg í það mesta. Ég las fyrir börnin mín annað hvort kvöld, í kaupfélagi við eiginkonu mína sem átti hin kvöldin (og las aðrar bækur, á sænsku), í 13 ár, alls konar bækur – við skiptumst á að velja. Í sumum bókunum voru hrottar. Í Randalín og Munda var reykt. Það birtust kynþáttafordómar, sem við einfaldlega ræddum. Í ævintýrabókum Davíðs Þórs voru kynlífslýsingar sem ég roðnaði upp í hársrætur við að lesa. Stundum voru höfundarnir (*hóst*rowling *hóst *) pípandi fordómafífl. Og við ræddum það líka Ég lagði mikið upp úr því að hafa vondukallaraddirnar sem voðalegasta – að leyfa rússíbananum að vera rússíbani – og stundum vorum við öll í hálfgerðu taugaáfalli á eftir, allir dauðhræddir. Og þegar allir voru búnir að ná andanum var beðið um meira. Margar bókanna voru gamaldags. Sumar vandræðalaust. Aðrar ekki og þær voru það þá á ólíkan hátt – augljósast eru einfaldlega úreld viðhorf, feitabollugrín og þannig lagað. En svo voru líka bækur einsog Sitji Guðs englar sem nístu mann inn að beini – þar eru senur sem óhugsandi er að lesa þannig með eða án barna án þess að tárast. Af því þær eru um sársaukann sem fylgir því að vera til. Og þannig bækur kenna manni að þjást án þess að bugast. En bækur með úreldum viðhorfum kenna manni líka eitt mjög mikilvægt – þær kenna manni að viðhorf breytast. Að mórall heimsins er ekki statískur. Að það sem er rangt í dag getur verið rétt á morgun og öfugt. Að það sem virkar á einn veg getur virkað á annan. Og að það sé ekki heldur sjálfsagt að allt sé rétt í dag og hafi verið rangt áður. Ég á ekki við að það þurfi að taka brjálæðislega heimspekilegan debatt um það við lítil börn – kannski er nóg að furða sig bara á því hvað pabbi Einars Áskell sé alltíeinu hvass, þetta sé nú óþarfa læti (sögupersónur geta verið gallaðar einsog fólk), láta skína í manns eigin afstöðu – en maður ætti ekki að fela það fyrir börnum að veruleikinn hefur ekki alltaf verið eins, það hafa ekki alltaf gilt sömu reglur, því þá gætu þau farið að halda að þær reglur sem gildi núna eigi að standa um aldur og ævi. Og þannig, börnin góð, verða íhaldsmennirnir til. 5. Nú er mjög lítill tími áður en ég þarf að vera mættur í Ísafjarðarbíó. Kvikmyndahátíðin PIFF er í gangi. Í gærkvöldi fékk ég þann heiður að spjalla við Spessa um mynd sína Afsakið meðanað ég æli. Sem fjallar einsog frægt er um tónleika sem Megas hélt árið 2019. Myndin er einfaldlega afbragð – auga Spessa fyrir römmum og myndbyggingu er auðvitað legendary, en hún hefur líka tempó sem er ekki hægt að ætlast til af manni sem hefur lítið fengist við sagnalist. Og svo fær hún auðvitað aukna vídd af því sem gerist svo – myndin sýnir Megas sem ídolið sem hefur verið að fella íkon í 50 ár, manninn sem hefur sprengt helgar kýr í loft upp, með dónaskap, tilfyndni og – ekki síst – með fegurð; hann er umvafinn hæfileikaríkustu tónlistarmönnum landsins og endar í standandi uppklappi í stappfullri Hörpu. Augnabliki eftir að tónleikarnir voru haldnir var þetta allt orðið óhugsandi – flestir viðmælendur hefðu áreiðanlega bara fengið kvef þegar þeir áttu að koma í viðtal og honum hefði tæplega tekist að selja nema fjörutíu sæti í sal. Íkonafellandi ídolið fallið sjálft og myndin einhvers konar bautasteinn um mann sem þjóðin þráir að gleyma.
Ár og andvökur og Intermezzo
Þann 22. júlí 2012 – ári eftir hryðjuverk Anders Behring Breivik – var ég svo gott sem einn í litlum smábæ skammt frá Þrándheimi, eftirlegukind eftir Fjósafestivalið, fjölmenna listahátíð Melhúsabæjar, allir aðrir farnir heim en ég enn að bíða eftir sæmilegu flugi til Íslands eða hugsanlega Finnlands – ég er hreinlega ekki viss hvar ég bjó þetta sumar. Í öllu falli fór ég út á bensínstöð, keypti öll dagblöð sem ég fann – kannski hefur þeim fækkað síðan en norðmenn studdu dagblöðin sín vel og þau voru mörg – rölti með þau heim á hótel og las svo allt sem skrifað var um hryðjuverkin og Breivik. Ég man að mér ofbauð svolítið – eða kannski fannst mér það mest bara fyndið – hvað þeir voru sjálfumglaðir. Nærri því allt sem skrifað var fjallaði nefnilega um það hversu vel þeir, norðmenn, hefðu staðið sig, hvað þeir hefðu höndlað þetta vel, hvernig þeir hefðu staðið vörð um siðgæði, lýðræði og réttlæti og ekki leyft barbaríinu að taka völdin – ekki leiðst út í öfgar eða vitleysu. Þeir hefðu sýnt að það borgaði sig að hafa prinsipp. Ég á marga norska vini og veit að þetta var ekki endilega afstaða allra – margir voru til dæmis mjög ósáttir við að Breivik væri ekki skoðaður sem framhald þeirra öfgastefna sem hann kenndi sig við, heldur sem undantekning frá heiðarlegum útlendingahöturum. Og kannski voru margir þeirra mest ósáttir við að það mætti ekki einu sinni ræða það – það væri hreinlega mikið af tabúum í umræðunni, margir veggir, mörg stopp – svo sumum fannst einsog þeir væru að kafna alltaf þegar hann kom til tals. Í dag er liðið ár frá hryðjuverkunum 7. október í Ísrael. Þess vegna stakk þess Melhúsaminning upp kollinum. Ég veit ekki hvað ég vil segja. Að ég sé þakklátur fyrir að norðmenn hafi ekki elt upp alla rasíska og incelíska Call of Duty spilara, jafnað hverfin þeirra við jörðu og myrt þá ásamt nágrönnum sínum í nokkurra kílómetra radíus? Fyrst og fremst er þessi harmleikur allur saman bara komin langt út yfir minn skilning. Og þá meina ég ekki að þetta sé svo flókið að það sé ekki hægt að taka skilyrðislausa afstöðu með vopnahléi strax – ég meina bara að ég skil ekki hvers vegna það er ekki borðleggjandi, hvers vegna það eru nánast engar líkur á að það verði einu sinni tekið til alvarlegrar umræðu nema með einhverjum brjálæðislegum þvingunaraðferðum. *** Það er í sjálfu sér ekki við því að búast að ég skilji margt annars. Ég hef ekki fest blund síðan á aðfararnótt laugardags – það eru tvær heilar nætur af árangurslausum byltum. Í kjölfar þess að ég fékk gubbupest á föstudag. Reyndar alveg án þess að uppúr mér – eða niðrúr – gengi. Ég er með einhvers konar stálmaga og æli varla nokkurn tíma (nema einu sinni þegar ég ældi beinlínis af þeirri orsök einni að ég var að ljúga mjög ljótri lygi – en það er önnur og skrítnari saga). Ég engdist bara við klósettskálina. Fékk svo háan hita í sólarhring. Og missti hæfileikann til að festa svefn. *** Ég lauk í gær við Intermezzo, nýju bókina hennar Sally Rooney, sem fólk keppist ýmist við að hæla eða lasta – eða kannski meira bara gera lítið úr, einsog þetta sé ekki nógu fínt – sumum finnst hún Joyce endurborinn og öðrum finnst hún meira einsog ef Colleen Hoover gæti vitnað í Hamlet. Í sjálfu sér held ég að eitthvað sé til í báðu. Hún er ekki þungur höfundur, ekki einu sinni þegar hún er að skrifa vitundarflæðistexta – þeir renna alltaf vandræðalaust, maður er aldrei ringlaður, þarf aldrei að hafa mikið fyrir því að að lesa þá – og stundum eru bókmenntalegar vísanir hennar meira einsog skraut eða rammi en ógurlegar dýpkanir. Sem – eigi maður að vera alveg heiðarlegur – er kannski oftast raunin þegar bókmenntalegar vísanir eru annars vegar. Það á líka við um Hómersvísanir Joyce. Hins vegar gefur höfundurinn manni þá „leyfi“ (sem maður þarf ekki) til þess að spegla sögupersónur hans í öðrum sögum og það getur verið gaman, svona einsog það er gaman að velta því fyrir sér hvaða Friendspersóna maður sé, eða hvaða Friendspersóna Raskolnikov sé. Sem er í sjálfu sér alltaf einhvers konar dýpkun – meira að segja þegar samlíkingin er út í hött. Intermezzo fjallar um tvo bræður – Peter og Ivan Koubek – sem mér finnst liggja beint við að spegla í bræðrunum þremur, Ivan, Mitja og Aljosha Karamazov; og konurnar í lífi þeirra, Sylviu – sem er fyrrverandi ástkona Peters, núverandi vinkona, sem hætti með honum af því hún hætti að geta notið kynlífs í kjölfar slyss, og lifir við mikla verki – Naomi, sem er ung og flippuð ástkona Peters – og Margaret, sem er eldri ástkona Ivans. Líkt og í Karamazov er hjartað í bókinni samskipti bræðranna og samskipti þeirra við föður sinn – sem er dáinn þegar bókin hefst, en andlát hans setur sögunni ramma, og þeir eru að syrgja hann alla bókina. Ivan er að mörgu leyti einsog nafni sinn Karamazov – hann er afturbata incel, sem er stundum ósannfærandi af því hann virðist (einsog allir karakterar Rooney) hafa svo mikla tilfinningagreind, og af því hann er líka einsog Aljosha, yngsti Karamazovinn, heilagur og ljúfur og dásamlegur. Peter er síðan einsog Mitja í aðra röndina – hamslaus alkóholisti með tvær í takinu – en líka með dálitla níhilista hugsjónamannataug einsog Ivan Karamazov. Fyrir sína parta er pabbi þeirra, sem við fáum samt varla nema óljósa mynd af, mjög ólíkur Fjodor Karamazov – einhvers konar ljúfmenni sem er fastur í fjölskyldu með eintómum fyrirferðarmiklum frekjudósum, „stórum persónuleikum“, og sem er helst talið það til lasts að meðan hann lifði þurftu allir alltaf að vera að sýna honum tillitssemi. Þetta er hins vegar miklu „minni“ bók en Karamazov – hún er „domestic“ svo notað sé orð sem helst má ekki nota um bækur eftir konur, þetta er stofudrama þótt það gerist í nokkrum ólíkum stofum og það er stundum erfitt að draga línurnar upp þannig að þetta sé „stór heimspeki“ um „eðli mannsins“ – einsog liggur beint við að gera við Karamazov. Þetta er einkaleg bók, ekki um innstu myrkur mannsins, heldur um hversdagsleg trámu sem við þekkjum öll – sorg, persónulega upplausn, áfengisvanda, hvernig fortíðin eltir okkur, hvað það þýði að vera karlmaður, bróðir, sonur, hvað það þýði að vera náinn öðrum, um einkvæniskúltúrinn og aldursmun í samböndum (samt bara áratug, sem virkar ekki mjög trámatískt á mig – en út frá því er samt gengið í bókinni að það sé rosalegt). Hún fjallar um stöðu mannsins í félagslegum raunveruleika frekar en stöðu mannsins gagnvart sjálfum sér. Og kannski er það sem veitir henni dálítinn léttmetisblæ ákveðinn sjálfsvorkunnartónn – ekki í Rooney, heldur persónum hennar – sem virðast helst velta því fyrir sér hvers vegna allt þurfi alltaf að vera svona erfitt fyrir þær sjálfar (sem er einmitt, vel að merkja, líka grunnafstaða margra sögupersóna Dostojevskís). Ég las á dögunum ritgerð eftir David Foster Wallace um sjónvarpsgláp þar sem hann skilgreindi lágmenningu sem menningu sem þarf að þóknast fólki til þess að hafa af þeim fé . (Mér finnst gagnlegra og gagnlegra í mínu eigin lífi að skipta menningu í hámenningu og lágmenningu – þótt það sé bannað – eða jafnvel bara setja hana upp í tíu, tuttugu þrepa kerfi – ekki endilega vegna þess að ég haldi að lágmenning sé bara heimskulegt rusl, heldur til þess að skilja að það sem er í lægstu þrepunum er ekki endilega það sama og það sem er í efri þrepunum, það sem krefst meira af mér og það sem á að skila mér meiru, sem ég þar af leiðandi geri meiri kröfur til). Ég held ekki að Sally Rooney þurfi eða sé að reyna að þóknast fólki – ég held að prósinn sem hún skrifi geri meiri kröfur til lesandans en nánast hvaða vísitölumetsölubók sem er. Og vinsældir hennar – sú staðreynd að hún hefur af fólki fé fyrir sögur sínar – eru einsog aðrar vinsældir, einhver blanda af hæfileikanum til að tala til fólks og hreinni tilviljun og því að fólk (ég meðtalinn) laðast að því sem er vinsælt ; það sem er vinsælt er vinsælt af því það er vinsælt og þess vegna verður það vinsælt og heldur áfram að vera vinsælt. Og menningin er líka og á að vera að einhverju leyti sameiginleg upplifun – sem þýðir að við getum ekki öll verið að lesa sitthvora bókina (að vísu finnst mér hressandi að spjalla við franska bókaunnendur, sem öfugt við íslenska, sem spyrja alltaf hvort maður sé búinn að lesa bókina sem er vinsælust þá og þá stundina, mæla yfirleitt ástríðufullir með einhverju sem maður hefur helst aldrei heyrt minnst á – en segjum að bæði sé mikilvægt). Ég var allavega ánægður með Intermezzo – síðustu tvær bækur Rooney eru hennar bestu, hún sækir í sig veðrið. *** Í morgun las ég líka bókadóm um nýjustu bók Malcolms Gladwell – sem ég hef aldrei gerst svo frægur að lesa, vel að merkja – í Guardian. Hann var heldur neikvæður, sem er auðvitað undantekning núorðið – ég finn það meira að segja á sjálfum mér að mér finnst dónalegra og dónalegra að vera að finna að því hvað einhver hefur skrifað, einsog það sé ekki bara frábært að fólk sé að hugsa yfir höfuð, frábært að fólk sé að skrifa þegar það gæti verið á Tik Tok eða eitthvað. En þarna í þessum dómi kom gagnrýnandinn inn á eitthvað sem ég þykist hafa séð víðar, sennilega mest í blaðaskrifum, sem er ákveðinn svona kæruleysislegur tónn fullur af ofnotuðum frösum: Along the way there are plenty of interesting facts and thought-provoking ideas but Gladwell introduces them with prose that has evolved (or devolved) from a variation of the middle-highbrow New Yorker house style into something much more folksy and podcast-like. His sentences are littered with phrases such as “Oh my” and “Are you kidding me?” and “You guessed it”, as though his readers are looking for conspiratorial bonhomie, as though, in other words, they are fans. Og þegar ég las þetta rann upp fyrir mér að eitt af því sem við missum af þegar ritdómarar hætta að fetta fingur – einu sinni var mjög algengt að jafnvel í jákvæðum dómum væri tíndur til einhver agnúi, eitthvað sem gerði verkið minna en fullkomið – er skrá yfir óþolandi tendensa almennt. Og skilgreining á þeim. Að einhver bendi á þá, gefi þeim nafn. Sem er ákveðin þjónusta við ritmálið sem slíkt.
Fly on the Wall
Illu er best aflokið. Fly on the Wall er ekki eftirlætis AC/DC platan mín. Og ég er orðinn langeygur eftir verulega góðu lagi. Það hefur ekki heyrst síðan í titillagi For Those About to Rock. Lagasmíðarnar á þeirri plötu voru annars slappar, Flick of the Switch náði sér aldrei almennilega í gang – alltílagi plata, en vantar herslumuninn, og geldur fyrir samanburð við Back in Black og Highway to Hell. Annað er ekki hægt. Og Fly on the Wall er einsog Flick of the Switch með aðeins betra gítarsándi og miklu verra söngsándi. *** Gítarvinnan er á köflum góð. Og gítarsándið er fínt – einsog það hafi verið eina áherslan. Flick of the Switch var fyrsta og síðasta platan sem hljómsveitin pródúseraði sjálf – en Fly on the Wall var pródúseruð bara af gítarleikurunum. Og vissulega eru þeir Angus og Malcolm gæddir einhvers konar snilligáfu. En þetta er bara rugl. Strákarnir eru í ruglinu. Lagasmíðarnar eru metnaðarlaus meðalmennska. Þetta er ekki hægt. *** Og textarnir eru líka rugl. Og styttist í að Brian verði bara bannað að semja texta. Sink the Pink er að vísu fínt, s.s. titillinn – ansi miklu betra en „this guns for hire / I’ll shoot you with desire“ af Flick the Switch. En heilt yfir litið er þetta bara alls ekki nógu gott. Eiginlega bara alveg kolómögulegt. *** Ég veit ekki hvað ég á að segja ykkur. Ég vil ekki einu sinni setja inn tóndæmi hérna. Ég er bara miður mín. #ACDC
Um yfirvegaðan ofsa („ritdómur“)
Um skamma hríð fyrir 20 árum síðan hafði ég aukatekjur af því að ritdæma ljóðabækur fyrir Morgunblaðið. Hugsanlega er það í eina skiptið á ævinni sem ég hef fengið borgað fyrir þannig vinnu – fyrir TMM skrifaði ég um 2-3 skáldsögur nokkrum árum seinna en annars hefur öll rýni sem ég hef skrifað verið í sjálfboðavinnu, mest fyrir Starafugl og Tíu þúsund tregawött (er hægt að vera í sjálfboðavinnu fyrir sjálfan sig?). Nei, heyrðu, nú gleymi ég líka Spássíunni – það var launað, 2010, þegar ég bjó í Oulu, rassgatsblankur alla daga. Nema hvað. Þá er það áreiðanlega upptalið. Ég var næturvörður á Hótel Ísafirði á þeim tíma sem ég skrifaði fyrir Moggann og bjó í voðalegri kjallarakytru þar sem gólfin voru veggfóðruð (gólffóðruð?) með Andrésar Andarblöðum og partíin entust gjarna langt fram á næsta dag. Þegar ég drattaðist á fætur biðu mín stundum ljóðabækur í brúnu umslagi á gólfinu við bréfalúguna sem ég las með morgunverðinum, sem var gjarnan kvöldverður, áður en ég mætti á vakt þar sem ég gætti túrista (sem á þessum tíma voru oft bara einn og einn vörubílstjóri – virkar veturnætur voru oft ekki nema þrír-fjórir á öllu hótelinu, af og til enginn), vann í fyrstu skáldsögunni minni og skrifaði eitthvað um þessar ljóðabækur úr brúnu umslögunum. Ég fékk vel að merkja engar viðvaranir eða valmöguleika frá mogganum og átti í ótrúlega litlum samskiptum við ritstjórn – það birtust bara einhverjar bækur og ég sendi inn tölvupóst með wordskjali sem var ábyggilega aldrei svarað. Ef einhver hefði tekið upp á því að senda mér bók í umslagi með Morgunblaðsstimpli hefði ég sennilega sent menningarritstjóranum dóm um þá bók nokkrum dögum síðar. En það hefði enginn gert – það var alveg óþarfi að beita einhverjum brögðum til þess að fá ritdóm árið 2004, þá fengu jafnvel sjálfsútgefnar ljóðabækur umfjöllun, mogginn einfaldlega koveraði allt sem kom út. Ég man ekkert hvers vegna ég hætti eða hvort ég var rekinn eða hvað. Og ég ætlaði heldur aldrei að hafa svona langan formála að því sem ég er að fara að segja – allt hér að ofan hefði ég þurft að strika út úr mogganum, mig minnir að plássið hafi verið 400 orð, en ég er hrifinn af útúrdúrum. Meðal þeirra bóka sem ég skrifaði um á þessum tíma var sem sagt Þegar Árni opnaði búrið eftir mann sem heitir Þórhallur Barðason og er að mér skilst söngvari/söngstjóri/söngkennari að aðalstarfi – en um það hafði ég ekki hugmynd fyrren bara á dögunum, fyrir mér var Þórhallur bara nafn á bók sem barst í póstinum, það hefði ekkert haft upp á sig að gúgla hann árið 2004, þá var fólk annað hvort frægt eða ófrægt en í dag eru allir sitt lítið af hvoru – ef ég svo mikið sem fæ tölvupóst frá nafni sem ég kannast ekki við slæ ég þeim upp til þess að geta þó horft í augun á þeim á skjánum. Það er ljótur óvani sem ég vissi varla að ég hefði fyrren ég segi það nú. Nú er ég búinn að líta inn á heimasíðuna hans (og reyndar er líka höfundarmynd á bókinni). Ég var bara frekar ánægður með Þegar Árni opnaði búrið. Ætli það hefðu ekki farið þrjár stjörnur á hana, ef þá hefðu verið gefnar stjörnur – fjórar í dag, af því það er verðbólga? Hnotskurnin hefði verið eitthvað á þá leið að þótt þetta væri kannski ekki frumleg bók væri hún tilgerðarlítil og skemmtilega skrítin á köflum. Svo líða 20 ár og ég er löngu hættur að vinna fyrir moggann en er auðvitað orðinn áhrifavaldur – búinn að halda úti bloggi í einmitt 20 ár, birti þar reglulega myndir af sjálfum mér (og hattinum mínum) í alls konar stellingum og ræð fólki heilt í lífsins skini og skúrum. Og þá tekur Þórhallur Barðason upp á því að gefa út aðra ljóðabók, Um yfirvegaðan ofsa . Nema nú er enginn moggi – a.m.k. ekki sá moggi sem var – og varla einu sinni hægt að segja að neinar heimasíður eða blogg sinni ljóðlistinni. Ætli maður sé ekki líklegastur til að fá dóm fyrir sína ljóðabók í Kiljunni – sem koverar kannski 5% af útgefnum ljóðabókum, í langlangmestalagi (þessi tala er gisk út í bláinn, vel að merkja, þótt henni fylgi virðulegt og vísindalegt prósentumerki). Og Þórhallur, sem sér að mogginn er horfinn en ritdómarinn enn á lífi – kann að gúgla fólki – skrifar bara ritdómaranum og spyr hvort hann hafi áhuga á að lesa bókina, hvort hann geti fengið umfjöllun – það þurfi ekki að vera mikið. Nú er þetta auðvitað þegar orðið mjög mikið, einsog hver læs maður getur borið vitni um, og enn er ég ekki byrjaður að segja neitt um bókina – og ætla í sjálfu sér ekki að segja mjög margt um hana heldur, nema að koma því að að líkt og fyrri bókin er hún ágæt, dálítið köflótt, dálítið ólík mörgu öðru sem ég les um þessar mundir og þar með hressandi og alveg óhætt að mæla með því að fólk kíki í hana. Það sló mig við lesturinn að hún væri í einhverjum brag sem hefði verið algengur 2004 en væri svo gott sem útdauður – ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla þann brag, hann er kæruleysislegur, persónulegur, stundum dálítið pabbabrandaralegur, það er ekki legið yfir hverju orði einsog í því búi kjarnorka sem þurfi að leysa úr læðingi, en í því býr líka sjarminn. En svo þegar ég las aftur dóminn sem ég skrifaði á sínum tíma um Þegar Árni opnaði búrið – sem er í sama brag – virðist mér ekki endilega hafa fundist hún týpísk fyrir sinn tíma þá heldur. Kannski er þetta aðeins eldra en 2004 – kannski var ég að hugsa um Nykur, fyrstu bækur Andra Snæs? Þá fannst mér aldamótin auðvitað víðs fjarri – en 2004 var nú eiginlega bara í gær. Ég lýk þessari stuttu umfjöllun – og langa sjálfsævisögulega ranti – með tveimur dæmum úr bókinni (af því það stendur á titilsíðu að það megi vitna frjálslega í hana), fyrst ljóði sem mér finnst dæmigerð fyrir bókina – að frátöldum stíl í lengri ljóðum sem birtist undir lok hennar, sem ég var sennilega minnst hrifinn af – og svo því ljóði sem mér þótti áberandi best. ÁST Ást er gallaðasta smáforritið í snjalltækinu manneskja Óteljandi villumeldingar fall fyrir kolröngu fólki Endurræsing vonlaus sitjum uppi frosin VERKFÆRAKISTA KÆRLEIKANS Treð hismi í höfnunarleka og tonnateknar gúmmíbætur yfir jafna milli hólfa með hjólbörum gangræð með skrúfjárni lem lunningar opnar festi upp á gátt með stórum nöglum sauma fast við innanveggi og ósæð með sláturnál skorða eftir áföll með slaghamri verkfærakista kærleikans hlý biturð *** PS. Í dag hlustaði ég á feiknagott viðtal Magnusar William-Olsson við sænska útgefandann Gunnar Nirstedt , sem var nýlega valinn ljóðaforleggjari ársins í Svíþjóð fyrir sitt feykimikla framlag – hann hefur verið í útgáfu í um þrjá áratugi, þar af 24 ár hjá Bonniers, þar sem hann hætti með látum 2018 og gagnrýndi um leið þá stefnu sem hefði orðið ríkjandi hjá Bonniers og víðar að láta misgóðar metsölubækur bera uppi fjárhag forlaganna (og éta upp athygli starfsmanna, með þeim afleiðingum að 95% af katalógnum mætir afgangi), frekar en að gefa einfaldlega út góðar bækur fyrir heiminn og treysta á long-tail módel, að gefa út bækur sem halda áfram að seljast, sem er ætlað að endast og leggja kraftinn í það. Í kjölfar þess stofnaði hann sem sagt Nirstedt/litteratur sem gefur út bæði nýja höfunda og klassík, ljóð og prósa og fræði – Thomas Piketty, UKON, Cecile Pin, Benjamin Labatut, Jenny Tunedal, Mariu Stepanova og nýjar þýðingar Tovu Gerge á sonnettum Shakespeare og fleira og fleira. Sem sagt alls konar, mikið og allt geggjað. Í þessu viðtali fara þeir Magnus víða og kemur meðal annars fram að lestur á ljóðabókarýni er orðinn hærri hjá litlum menningarmiðlum einsog Örnen och kråkan en hjá Dagens Nyheter (þar sem birtist einmitt mjög lítið af ljóðabókarýni og sífellt minna af bókmenntakrítík almennt) og þar sem aurapúkarnir kvarta hástöfum yfir því að það lesi enginn – „það vill þetta enginn!“-söngurinn sem heyrist gjarnan hér líka – sem Gunnar með sína 30 ára reynslu fullyrti að væri bara þeim sjálfum að kenna, þetta hefði ekki alltaf verið svona, þeir hefðu vanrækt hana og þess vegna sneri sér enginn til þeirra lengur nema til að fá einhverja heilalausa klikkbeitu (mitt orðaval, hann sagði eitthvað kurteislegra).
Beiskja og vanþakklæti (eða „take this job and shove it“)
Ísafjörður virðist eiga upp á pallborðið í menningarlífinu þessi misserin – og ekki bara tónlist þótt það sé kannski það sem bærinn er þekktastur fyrir. Ekki er nóg með að bíómynd Snævars Sölva, Ljósvíkingar , sé að slá öll met heldur hefur reyfarinn Hildur eftir Satu Rämö líka farið með himinskautum og nú stefnir í að Þú ringlaði karlmaður eftir Rúnar Helga verði aðaldebatbók ársins. Ætli kirkjutúrinn hans Mugisons sé ekki síðan stærsti tónlistarviðburður ársins? 100 kirkjur í 100 póstnúmerum. Segjum það. Didda (Guðlaug Jónsdóttir) er svo að koma með sína aðra barnabók, Baukað og brallað í Skollavík – sú fyrri fékk tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna – og mamma (Herdís Hübner) er að gefa út ævisögu Auriar Hinriksson, Ég skal hjálpa þér . Ef við leggjum svo Vestfirðina alla undir mætti bæta við útgáfunni Skriðu á Patreksfirði – þar koma tvær ljóðabækur út á fimmtudaginn, heimkynni eftir Þórð Sævar Jónsson og Svefnhof eftir Svövu Þorsteinsdóttur. Svo var Margrét S. Höskuldsdóttir að senda frá sér reyfara sem gerist í Ísafjarðardjúpi, í heimavistarskólanum á Reykjanesi og í Laugardal eftir því sem ég kemst næst. Sá heitir Í Djúpinu – titillinn minnir kannski einhvern á skáldsöguna Djúpið eftir Bennýju Sif sem kom út fyrir þremur árum og gerist í sama skóla. *** Ég er ekki að gera neitt. Að minnsta kosti ekki að skrifa um Ísafjörð. Og ekki „með bók“ í haust – þótt ég sé „með“ sennilega fjórar bækur þá kemur engin út fyrren í fyrsta lagi í vor. Náttúrulögmálin var líka svo löng að það er eiginlega enginn búinn með hana þótt hún hafi komið út í fyrra. Svo hef ég líka nóg að gera við að skrifa þessa h*$#*s ritlaunaumsókn. Ég var ekki byrjaður um daginn þegar ég var að senda einhverjar (léttar og óverðskuldaðar) pillur á Einar Kárason sem var að kvarta undan þessu. Nú er þetta að gera mig vitlausan og ég er orðinn einsog Einar Kárason í fimmta veldi. Ég ætla líka að vera pínu tilætlunarsamur og koma upp um skefjalausa forréttindablindu mína með því að segja að mér finnist asnalegt – ef ekki fáránlegt – að þurfa að sækja um vinnuna mína á 12 mánaða fresti og vita aldrei hvort ég verði á launum á næsta ári. Það er tómt mál um það að tala að íslenskir rithöfundar – hugsanlega með svona 2-3 undantekningum – geti haft nema smotterí upp úr bóksölu. Mér hefur oft á þessum aldarfjórðungi gengið vel en aldrei komist neitt nálægt því að þéna nema skít og kanil. Við erum fámenn þjóð og prósentan sem maður fær erlendis er miklu lægri – og það er litlar aukatekjur að hafa nema maður vilji vera í stöðugu harki (og þá skrifar maður minna), megnið af því er líka hræðilega launað. Ég er ekki að tala endilega um að það ætti að veita fólki listamannalaun í 36 mánuði – sem hefur stundum verið gert – heldur að það ætti bara að setja fólk á föst laun. Segja fólki bara: Hana, þú ert ráðin(n), ekki gleyma að mæta í vinnuna. Ekkert öllum og engum strax – en á einhverjum tímapunkti hlýtur að vera eðlilegt að maður fái bara djobbið. Það er hægt að tekjutengja launin þannig að þau verði ekki óþarfa viðbót við einhverjar ægilegar sölutekjur (sem allar dreymir auðvitað um) en þetta er bara rugl. Að vera að detta í fimmtugt og vita aldrei fyrren um áramót hvort ég sé í vinnu, hvort ég sé í hálfri vinnu eða engri vinnu – það þýðir að ég býð fjölskyldunni minni líka sífellt upp á þetta. Förum við í sumarfrí? Verða börnin áfram í tónlistarskóla? Verða bara hrísgrjón og sojasósa í matinn í maí? Ég hef það alveg ágætt núna – en ég hata þetta, að sjá aldrei nema í mesta lagi tólf mánuði fram í tímann (og einsog núna ekki nema þrjá – og þeim fækkar og fækkar þar til enginn er eftir). Þetta er ástæðulaust nema til þess að gera mig vitlausan. Ég skil heldur ekki alveg forsendurnar. Ég hef gefið út nánast bók á ári í aldarfjórðung – og gerði það líka áður en ég naut nokkurrar velvildar hjá sjóðnum (sem ég hef þó gert um góða hríð). Þarf ég að sanna eitthvað frekar að mér sé alvara með því að starfa að bókmenntum? Hefur fólk áhyggjur af því að ef ég fengi bara laun án þess að sækja um vinnuna mína árlega þá myndu bækurnar versna? Þarf nauðsynlega sönnun fyrir því að ég kunni enn að fylla út umsókn og áfangaskýrslu? Eða er vandamálið að ég gæti til dæmis veikst og átt erfitt með að skrifa í einhvern tíma – þá væri náttúrulega hræðilegt að ég hefði einhverjar tekjur, skiljanlegt að fólk svitni yfir því, veikt fólk á helst bara að drepast. Eða er fólk stressað yfir því að ég gæti þegið tekjur og hreinlega hætt að skrifa? Farið að klóra mér í rassinum frá morgni til kvölds. Ég veit það ekki. Þetta umsóknarferli ertir kannski bara einhverjar gremjutaugar í mér. En ég er vel að merkja ekki bara að tala um sjálfan mig – þótt ég sé eðlilega í aðalhlutverki á míns eigins bloggi! Fyrr mætti nú vera. Þetta myndi líka gera Einari lífið bærilegra og auðvitað er enn fáránlegra að Gyrðir Elíasson sé launalaus út af einhverju skriffinnskurugli. Og það myndi spara ríkinu umsýslukostnað í kringum umsóknir. Fyrst og fremst leiðist mér þetta. Leiðist árleg betlferðin. Mér finnst hún niðurlægjandi.
Að klára ljóðabók er góð skemmtun
Ég ætlaði að fara að segja að ég hefði ekki gert neitt af viti alla vikuna en svo áttaði ég mig á því að það er tómt kjaftæði. Ég kláraði til dæmis ljóð sem ég held ég sé bara frekar ánægður með. Þetta ljóð verður líka til þess að klára nýja ljóðabók sem ég hef verið með í smíðum, eða samningu, eða yrkingu, eða hvað maður segir. Hana hefur vantað ljóð og nú er það komið og þetta virkar einsog heild. Nýja ljóðið verður samt ekki síðast í bókinni, heldur fyrir miðri bók. Elsta ljóðið er 11 ára gamalt en hin ort einhvern tíma eftir 2020 – þetta eru bara fimm ljóð á tæplega 70 síðum og talsvert færri orð en í síðustu ljóðabók, Óratorrek, sem var þétt skrifaður orðaflaumur á 130 síðum. („Ég segi alltaf færri og færri orð“ – djók). Óratorrek kom út 2017 og ef ég kem þessari nýju út næsta vor, sem ég held að sé gerlegt, þá líða átta ár á milli ljóðabóka. Mér dauðbrá þegar ég áttaði mig á þessu. Man eftir að hafa einhvern tíma kallað Einar Má has-been – á opnun Ljóðabókaverzlunar Nýhils 2005 eða 2006; við hann sjálfan vel að merkja, ég var ekki að baktala hann heldur stríða honum – fyrir að láta líða sjö ár á milli ljóðabóka. Og nú er ég bara orðinn þetta has-been sjálfur. Poetic justice FTW einsog alltaf. Fyrir mér hefur alltaf vakað að bækurnar mínar séu innbyrðis ólíkar, sérstaklega finnst mér skipta máli að ljóðabækurnar eigi sína eigin rödd – nóg líkjast þær víst bara fyrir að ég skuli skrifa þær – og kannski tekur bara lengri tíma að finna sér nýtt form og læra á það eftir því sem maður hefur gert það oftar, gengið meira á birgðirnar sem maður fæðist með. Ég á áreiðanlega eftir að hata þessa bók oft áður en ég gef hana út – og kannski líka eftir að hún er komin út – en ég ætla að njóta þess að vera bara ánægður með hana núna. Annars fór vikan mest í skriffinnsku og bréfaskriftir. Ég byrjaði líka aftur á Goodreads eftir að hafa lesið einhverja grein um að bestu samfélagsmiðlarnir væru þeir sem snerust um eitthvað áhugamál annað en hégóma fólks, beturvitahátt og almenna athyglissýki – ég hef góða reynslu af Strava og Duolingo og bætti þessu við í símann minn og ef vel gengur ætla ég líka að byrja á Letterboxd. Ég startaði Goodreads reikningnum fyrir einhverjum árum og byrjaði bara á því að setja inn skrilljón bækur sem ég hef lesið en nennti svo ekkert að halda áfram. Hins vegar hafa alls konar bækur sem ég hef verið að lesa á kindlinum skráðst sjálfkrafa inn og þar á meðal heilt bókasafn af bókum um blústónlist sem ég byrjaði nú á að markera sem lesið – að ég hefði klárað þær – en kannski halda vinir mínir á Goodreads að ég hafi lesið 40 bækur um blústónlist á einni viku, það gæti líka verið, ég las þær samt flestar svona 2021-22. Síðan ég klárað Infinite Jest um daginn hef ég hins vegar bara lesið seinni tvær bækurnar í New York trílógíunni og Le Parfum des Fleurs la Nuit eftir Leïlu Slimani – trílógíuna var ég að endurlesa og hún var betri en mig minnti. Parfum er eins konar safn ritgerða – eins konar A Room of One’s Own fyrir nýja öld – sem segir meðal annars af því þegar Slimani lét læsa sig inni á safni í Feneyjum yfir nótt. Já og las upp. Myndina hér efst tók Björgvin Hilmarsson þegar ég hitaði upp fyrir Glæpasagnaspjall Satu Rämö og Yrsu Sigurðardóttur á Bókasafni Ísafjarðar. Með nýja ljóðinu.
Marpress kaupir réttinn að Heimsku
Forlagið Marpress í Póllandi hefur fest kaup á skáldsögunni Heimsku með það fyrir augum að gefa hana út á pólsku vorið 2025. Heimska er dystópísk skáldsaga um rithöfundahjón í nálægri framkomu- og hégómadrifinni framtíð sem verða fyrir þeim ósköpum að skrifa nánast sömu skáldsöguna. Hún hefur áður verið gefin út á sænsku (John Swedenmark, Rámus) og frönsku (Eric Boury, Editions Metailie), þar sem hún vann Transfuge-verðlaunin fyrir besta norræna skáldskap. Pólsku þýðinguna gerir Jacek Godek. Í ótengdum fréttum fer ég til Póllands í október til þess að taka þátt í Przestrzen Slowa Festival (Hljóðrýmishátíðinni) í Sosnowiec.