Heimska sold to Marpress, Poland

Marpress editors in Poland have bought the publishing rights to the novel Heimska ( Stupidity ), to be published in spring 2025. Heimska is a dystopic novel about a pair of married writers in a performatistic, vanity-driven near-future who happen to write the same book. It has previously been translated to Swedish (John Swedenmark, Rámus) and French (Eric Boury, Editions Metailie), where it won the Transfuge literary award for best Scandinavian fiction. The polish translation will be in the hands of Jacek Godek. In unrelated news I will be travelling to Poland in october for Przestrzen Slowa Festival (Space of Word Festival) in Sosnowiec.

Hugleiðingar úr ruslabílnum

Ef ég á að vera alveg heiðarlegur finnst mér ég oft vera hálfgerður ónytjungur. Segi ég í tilefni af umræðu um listamannalaun – sem er farin að koma upp tvisvar á ári núna, í stað þess að koma einu sinni. Nú kemur hún fyrst í september þegar listamennirnir eru að sækja um – pirraðir á ferlinu – og svo aftur janúar þegar er úthlutað og harðkjarnafylgi Miðflokksins og verstu frjálshyggjupottormarnir í Sjálfstæðisflokknum fara á stjá með sínar ígrunduðu athugasemdir. En það sem sagt koma dagar þar sem ég geri ekkert mjög margt – fer seint á fætur og ráfa svo um, eyði kannski hræðilega miklum tíma í að skrolla í símanum eða bara fer út að skokka eða í göngutúr eða gúgla einhverju spennandi. Blogga blogg. Suma daga sit ég bara og les. Bara eitthvað – einhverja skáldsögu til dæmis. Eða New York Review of Books. Stundum meira að segja ljóð. Allan daginn. Og svo þegar „vinnudeginum“ lýkur fer ég að sinna heimilisskyldunum – einu sinni var það að sækja börn á leikskóla en nú er það bara að fara í Nettó, kaupa í matinn og gefa skrílnum að éta. Svo spyr fólk hvernig „hafi verið í vinnunni“ og hverju á ég þá að svara? Að ég hafi rekist á áhugaverða myndlíkingu í bók sem er búið að skrifa! Er það ekki svona einsog ef ruslakallinn segðist hafa gert það eitt í vinnunni að uppgötva að í gær hafi verið tæmd tunna í næsta firði, og það sé þar með óþarfi að tæma hana strax aftur. Og svo koma auðvitað dagar líka þar sem allt er á fullu og þá líður mér ekki einsog ónytjungi. Og ef ég lít yfir „heildarverkin“ sýnist mér í sjálfu sér að ég hafi oftar verið að vinna í vinnunni en að slæpast. En það breytir bara engu um hitt að stundum er ég bara að klóra mér í rassinum að bíða eftir að eitthvað gerist – sem ég veit að ég get ekki rekið á eftir – og ef ég mæti öskubílnum þar sem fólk verður að vinna alla daga jafnt, sömu verkin, alveg sama hvernig þau eru stemmd, fæ ég bullandi samviskubit. Ég hef meira að segja skrifað ljóð um þetta samviskubit (það er í Óratorreki). Það eina sem ég hef mér til afsökunar er að ég sver að mér líður miklu betur þegar ég er á fullu. Jú og reyndar var ég fyrir tilviljun líka í vörutalningu í Bónus á síðustu helgi (það er ekkert mjög löng saga en ég ætla samt ekkert að segja hana). Það hlýtur að telja eitthvað fyrir karmað. Já og svo sagði Sjón líka einu sinni í viðtali fyrir 100 árum að helmingur starfsins snerist um að slæpast á kaffihúsum og tala við fólk. Að taka eftir heiminum. Annars gæti ég verið að skrifa umsóknina. Umsóknarfresturinn er til 1. október og þetta tekur alltaf smá stund – ekki mánuð samt – þótt ég geti ekki tekið undir með kollegum mínum að þetta sé eitthvað ægilega erfitt. Og það er ekki heldur mín reynsla að meðferðin á umsóknunum sé mjög ferköntuð – þótt ég sé í grunninn sammála að textinn sem umlykur þetta allt sé fremur stofnanalegur. Ég sé bara ekki að það komi mikið að sök. Og ég veit ekki heldur hvernig hann ætti að vera öðruvísi? Ætti nefndin að biðja rithöfunda um að fara með himinskautum – dúndra út nokkrum ódauðlegum myndlíkingum um eðli sannleikans og helstu breyskleika mannlegs eðlis? Það væri í sjálfu sér fyndið ef það væri spurt þannig og myndi áreiðanlega litlu breyta um niðurstöðuna. Þetta eru huglæg fræði og miklu fleiri faktorar að störfum kæmust nokkru sinni fyrir í einhverri matskýrslu. Hér samt er tillaga að breyttum spurningum, ef fara á í róttækar breytingar. Lýstu ferðalagi fiðrildis milli tveggja blóma (200 orð, vægi 15%). Yrktu bundið ljóð í hætti að eigin vali (ekki færri en 10 línur, 20%). Skrifaðu samtal þar sem samfélagsleg staða mælenda verður ljós án þess að hún sé tekin fram (200 orð, vægi 15%). Yrktu nútímaljóð, módernískt eða framúrstefnu (frjáls lengd, 20%). Deleraðu frjálst um eðli fólks (ath. ekki eðlu-fólk ) á tímum hátækni og samfélagsmiðla (900 orð, 15%, má nota gervigreind). Skrifaðu stutta dæmisögu um andríkan mann sem þarf að eiga við skrifræðisbákn. Plús ef hann þarf að skila inn ferkantaðri umsókn og er það mjög á móti skapi. (300 orð, vægi 15%) Ekki gleyma að merkja blaðið með nafni og bekk. *** Ég rak augun í að hún er líka hafin aftur umræðan um hvort gera megi grín að hræðilegum hlutum. Það er í sjálfu sér ekki einföld umræða – það skiptir ekki bara máli hvernig grínið er heldur líka hver flytur það (ég las fyrir löngu ritgerð um húmor og helförina og komst að því að það var mikið um brandara í útrýmingarbúðunum – og að fórnarlömbin sögðu sömu brandara og kvalararnir, en þá höfðu þeir augljóslega aðra merkingu og annan tilgang). En mér finnst í öllu falli fráleitt að ræða þetta út frá þeim forsendum að maður geti bara bent og sagt „hann gerði grín að nauðgun“ og sagt að það sé þess vegna siðferðislega rangt – allt grín um harm sé rangt – einmitt vegna þess að grín er líka listform, grín er líka tilraun til þess að setja hlutina í listrænt og siðferðislegt samhengi, sem er kraftmesta aðferð sem við eigum til þess að skilja okkur sjálf, skilja aðra og skilja þjóðfélagið í kringum okkur. Og við þurfum að skilja harm, ofbeldi, hrottaskap, tráma. Það þýðir ekki að grín geti ekki verið ósmekklegt einsog önnur list. En ég spyr mig líka, ef maður tekur þessa stefnu að fordæma grín um hræðilega hluti, hvers vegna (eða hvort) það megi þá gera „drama“ eða „hrylling“ um hræðilega hluti – því drama og hryllingur eru líka oft fyrst og fremst afþreying, og alls engin ástæða til þess að ætla að það veki með okkur göfugri tilfinningar eða hafi göfugri tilgang en grín. Það fer bara eftir verkinu. Mér þykir oft hræðilega smekklaust þegar fólk t.d. treður inn nauðgun í dramatískt verk í þeim einum tilgangi að búa til ofsafengna samúð – að kreista út tár lesandans. Ég man ekki hver það var sem sagði það en það var áreiðanlega einhver rithöfundur í einhverjum þætti á BBC Books sem sagði að versta synd sem rithöfundur gæti framið væri að biðja lesandann um að gráta án þess að vinna fyrir því fyrst. Og nauðganir og þess lags hrottaskapur, sérstaklega gegn minnimáttar, er ódýrasta leiðin til þess að heimta slík tár. Sem þýðir ekki að hrottaskapur eigi ekki heima í drama eða hryllingi – það fer bara eftir meðferðinni í verkinu. Ég held það sé síðan að mörgu leyti persónubundið hvað ofbjóði manni. Ég þoli t.d. ágætlega Persónulega trúbadorinn – eða þannig, ég þjáist yfir honum, hann er hræðilegur, persónulegi trúbadúrinn ofbýður mér, en grínið um persónulega trúbadúrinn gerir það ekki, Fóstbræður gera það ekki, Sigurjón Kjartansson gerir það ekki. Hins vegar ofbýður mér gjarnan áhrifavaldar sem standast ekki freistinguna að gera sjálfa sig og sína samúð að miðpunkti almenningsathyglinnar í einum og öllum harmleikjum. Mér finnst það smekklaust. En slíkt virðist vera öðrum meira að skapi og ég get alveg unnt þeim þess. Ég er hins vegar ekki viss um að það standist „tímans tönn“. Ekki að það skipti neinu máli – það sem skiptir máli er heimurinn núna.

Nýjar og betri leiðir til sjálfsdýrkunar

Einsog lesendur vita er ég í grunninn í það vökulasta/wokeasta þótt ég hafi litla þolinmæði fyrir húmorsleysi, gefi listinni nánast takmarkalausan frípassa og finnist systkini mín á vökuslóðum stundum mjög snögg að teygja sig eftir vopnunum – ekki að andstæðingar þeirra í afturhaldssömu rottuholum internetsins séu skárri, því síður, þeir eru verri, en eiga þetta sameiginlegt með fólkinu í skotgröfunum handan víglínunnar að vilja helst tæma magasínið áður en nokkrar eiginlega staðreyndir eru ljósar, í takti við einhverjar fyrirframgefnar hugmyndir um lögun heimsins. Betra að skjóta fyrst og spyrja svo. Þolinmæðin á undir högg að sækja. Hvað um það. Til marks um vökula lífssýn mína finnst mér til dæmis algert lykilatriði að maður virði kynvitund fólks og ávarpi það nákvæmlega einsog það vill láta ávarpa sig. Ég get satt best að segja varla ímyndað mér meiri óþarfa fávitaskap en að miskynja fólk viljandi. Upp á síðkastið hefur hins vegar komið upp í mér ægilegur mótþrói varðandi það hvernig fólk kemur „fornöfnum sínum“ til skila. Ég get nefnilega ekki með nokkru móti samþykkt að fólk gegni almennt „fornöfnum“ frekar en „fornafni“ – altso, þegar fólk tilkynnir öðrum að það noti „hún-fornöfn“ eða að „fornöfnin“ þeirra séu „hann/honum“ og þar fram eftir götunum. Hann og honum eru nefnilega ekki tvö fornöfn heldur eitt í tveimur föllum (af fjórum). Ég heiti til dæmis ekki nöfnunum „Eiríkur, Eirík, Eiríki, Eiríks“ – heldur nafninu Eiríkur, sem síðan beygist eftir kúnstarinnar reglum. Þetta er auðvitað smit úr amerísku – þar sem er enn meiri lenska að spyrja „what are your pronouns“ og allir skrifa „she/her“ neðst í tölvupóstinn sinn (í viðeigandi kyni) – væntanlega af því ameríkanar skilja ekki fallbeygingar. Það er að minnsta kosti eina ástæðan sem mér dettur í hug. Ég bar þetta undir vökula vini mína í Svíþjóð og þeir sögðu að þar tíðkaðist alls ekki að tala um þetta svona – einsog hon og henne væru sitthvort fornafnið – samt beygja þeir ekki heldur nafnorð. Hér ætti maður kannski að halda því opnu að fólk geti gegnt fleiri en einu fornafni – t.d. bæði hún og hán. Altso, ef hvort heldur sem er gengur – það truflar mig ekki neitt. Það er bara þetta með að hann og honum sé „fornöfn“ frekar en „fornafn“. *** Ég hef mikið verið að hugsa um internetið upp á síðkastið. Ekki það ég hafi komist að neinni niðurstöðu! Internetið er bara einsog það er. Þetta blogg er 20 ára gamalt í ár – hefur verið á ólíkum stöðum og megnið af því glatast í einhverjum flutningum en það eru 20 ár nú í ágúst frá því ég stofnaði síðu á blog.central.is og kallaði hana Fjallabaksleiðina. Þá var slagorðið „Með bakfjall í framrassinum“. Kannski hef ég verið að hugsa um bloggið vegna þess að það kom til mín maður í brúðkaupi á dögunum til þess að lýsa ánægju með Fjallabaksleiðina og þetta var maður sem ég hafði ekki hugmynd um að hefði nokkurn tíma lesið bloggið mitt – auðvitað veit maður það aldrei, ég veit ekkert hver les þessi orð, en þetta er maður sem ég hef þekkt lítillega öll þessi 20 ár. Einhvern tíma var bloggið sakað um að vera botnlaus hít sjálfhverfu og narsissisma. Ekki þetta blogg sérstaklega, heldur bloggið sem slíkt. Sú tíð er auðvitað liðin – en þessar hugsanir mínar um internetið hafa nú samt oft botnað í hugsunum um narsissisma, sem á nú fyrst og fremst heima á félagsmiðlunum, einsog hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum. Ég er ekki endilega að hugsa um fólkið í Frægir á instagram á DV og því öllu saman heldur annars konar narssisma, þann sem blasir ekki endilega við eða á sér önnur birtingarform. David Foster Wallace tekur t.d. stutt rant um narssissíska mannvini (philanthropists) í Infinite Jest – sem er í sjálfu sér líka vel þekkt tegund, mannvinurinn sem virðist nærast á eigin gæsku og jafnvel eigin píslarvætti, mannvinurinn sem hefur alla málstaði fyrst og fremst sem bakgrunnsmynd að eigin sögu, mannvinurinn sem dreymir ekki endilega um sigur síns málstaðs heldur að fá að njóta hetjuljómans sem fylgir fólki á borð við Martin Luther King eða Gretu Thunberg. Í dag er sumt af þessu fólki reynar hálfvegis runnið saman við Frægir á instagram estetíkina – einhvern veginn alltaf hálfnakið á einhverri snekkju að gera deadlifts/spila á hljóðfæri fyrir Palestínu/umhverfið/hinseginfólk og/eða konur. Svo eru líka svona lítillætis-narssisistar, sem eru kannski ekki jafn áberandi – þó held ég að fólk flissi stundum svolítið að þeim í laumi. Það er að segja narsissistarnir sem eru alltaf að auglýsa á samfélagsmiðlum hvað þeir séu nú lausir við ýmsa nútímakvilla, svo sem einmitt hégóma eða þátttöku í lífsgæðakapphlaupinu, hvað þeir séu bara mikið í núinu og jarðtengdir annað en firrtir nútímamennirnir í kringum þá – og halda sennilega að þeir séu að auglýsa dýpt sýna en eru bara að svamla í grynningunum og heimta læk. Einsog hinir. Einsog allir. *** Annars er hégómi eitthvað sem rís mikið og fellur í mínu lífi, eftir árstíðum og aðstæðum, reikna ég með. Mér líður best þegar hann er á undanhaldi en ég get ekki alveg án hans verið. Á öðrum endanum hangir hégómi saman við sjálfsvirðingu og einhverja tilfinningu fyrir því að geta púslað sjálfum sér saman – en hinumegin er hann bara sturluð dópamínfíkn með öllum klassískum einkennum fíknisjúkdóma (þráhyggju fyrir uppfyllingu fíknarinnar, sjálfseyðingarhegðun og afneitun á öllu saman). Listheimurinn er auðvitað hégómadrifinn – mann langar að eiga hlutdeild í dýrðinni, til þess er maður að þessu – en heimur rithöfunda er auðvitað líka mjög einrænn. Maður performerar mest bara í lokuðu herbergi – að miklu leyti sennilega vegna þess að manni finnst það þægilegast. En maður hefur kannski einmitt þess vegna meiri tíma til þess að gægjast fram í sal til að fylgjast með viðbrögðum og verða svolítið nojaður – þegar maður stendur á sviði getur maður takmarkað einbeitt sér að fólkinu sem er að horfa, af því maður er einbeita sér að því sem maður á að vera að gera. Rithöfundurinn getur eytt eins miklum tíma og hann vill í að rýna í einhver komment á Bókagulli eða Goodreads eða í faglegri gagnrýni. Og gert sig vitlausan. En hann getur líka sleppt því. Það er bara spurning um dagsform. Altso, maður getur sleppt því að lesa gagnrýni og komment – maður sleppir því ekki að gera sig vitlausan, það er ekki hægt, a.m.k. ekki að minni reynslu, maður finnur bara nýjar leiðir til þess. Nýjar og betri leiðir.

Gys án enda

Ég er enn að lesa Infinite Jest. Man ekki hvenær ég byrjaði en það eru ábyggilega svona þrjár vikur, var sennilega rétt eftir mánaðamót. Mér sækist hún ekki illa ég bara les hana hægt og finnst erfitt að lesa hana hratt, missi fljótt þráðinn ef ég dríf mig. Hún er um þúsund síður auðvitað, en það er ekki bara það – hún er líka þéttskrifuð, það er ekki mikið hvítu á síðunum, stafirnir eru litlir og meira að segja sjaldan greinarskil. Í sjálfu sér er hún samt líka þannig skrifuð að ef maður missir af einhverju samhengi kemur það oft fljótt aftur, það er hægt að skimlesa hana og missa ekki af meginplottinu – hann endurtekur og útskýrir allt, bókin er óðamála, en líka drifin áfram af „leiftrandi gáfum“ – sjálfsagt væri háð að lýsa nánast hverjum sem er öðrum með þessum orðum en það er ekki þannig meint hér. David Foster Wallace hefur verið mjög vel gefinn og ekkert gefinn fyrir að fela það – sem er alltílagi af því hann er líka mjög skemmtilegur og hefur húmor fyrir eigin gáfnarúnki. Sem minnir á James Joyce (Ulysses er rétt svo helmingurinn af lengd Infinite Jest en erfiðari aflestrar, þótt hún sé ekki endilega hæglesnari). Og einsog í Ulysses er fegurðin hérna ekki síst í þessari ofgnótt. Þegar ég skoða lista yfir langar bækur kemur mér á óvart að uppgötva að Infinite Jest er styttri en Atlas Shrugged eftir Ayn Rand. Atlas Shrugged las ég fyrir sjálfsagt áratug og þurfti að pína mig niður hverja síðu – og skiptist samt á að hlusta á hljóðbókina og lesa og hafði engan áhuga á að lesa hana „vandlega“ vegna þess að mér varð fljótt ljóst að allt sem hún hafði við mig að segja, sem var ekki bara sápuóperuplott, hafði hún þegar sagt á fyrstu síðunni og hélt svo bara áfram að segja mér það aftur og aftur. En ég vildi samt klára. Hún var ekki erfið aflestrar, bara löng og leiðinleg. Það er umtalsvert meira innsæi í mannlegt eðli hjá Wallace og Infinite Jest ögrar bæði sjálfri sér og lesandanum miklu reglulegar – en mestu munar samt um húmorinn. Það munar alltaf mestu um húmorinn. Ég bara skil ekki húmorslausar bækur, frekar en ég skil húmorslaust fólk. Ætli ég klári hana ekki samt fyrir mánaðamót. Ég ætla allavega að taka góða rispu á helginni og gotta mig í henni. *** Það er hræðilega dimmt á skrifstofunni minni. Eiginlega janúardimmt. Alveg við gluggann er mjög stór runni – eða tré eiginlega – með miklu laufi sem byrgir innsýnina á veturna. Sem er ágætt, það er mikill umgangur hérna á sumrin og mér finnst gott að vera í friði. Og þegar það er sólríkt birtir nú líka aðeins til hérna þrátt fyrir runnatréð. En nú er sífellt skýjað og þá er ægilega dimmt og birtan af tölvunni og borðlampanum býr til svona ljóshjúp á vinnusvæðinu mínu, upplýstan blett í myrkrinu. Sem er í senn kósí og svolítið þunglyndislegt, svona í miðjum ágúst. *** Í tilefni af þessu rifjaði ég upp textann við Jakkalakka eftir Bubba. Jakkaklæddir menn
kúra bak við borð
við græna ljósið frá tölvunni
éta tölvuprentuð orð. Og svona löngu seinna (þetta er af Von frá 1992) er ég helst hissa á því að birtan hafi verið græn. Mig minnti að þetta væri „föla ljósið“ eða eitthvað. Ég held reyndar líka að birtan af tölvuskjáunum hafi ekki lengur verið græn 1992. Allavega ekki heima hjá mér. Hvaða tölvur voru þetta annars með grænum stöfum? Við áttum Amstrad frá sirka 1988 og svo PC fljótlega upp úr ’90 og það var áreiðanlega ekki græn birta af þeim.

Naturlagarna till Sverige

Rättgheterna till min nyasta roman, Náttúrulögmálin ( Naturlagarna ) har sålts till Sverige. Som vanligt är det Rámus i Malmö som ger ut – med sin otroliga katalog av författare som Goran Vojnovic, Fiston Mwanza Mujila, Louise Gluck, Ilya Kaminsky, Jacques Roubaud, Sjón, Terezia Mora o.s.v. o.s.v. Boken blir översatt av den underbara John Swedenmark och förväntas anlända under senare halvan av 2025.

Náttúrulögmálin til Svíþjóðar

Útgáfuréttur Náttúrulögmálanna hefur verið seldur til Svíþjóðar. Líkt og venjulega er það hið frábæra forlag Rámus sem gefur út – með sinn ótrúlega katalóg höfunda á borð við Goran Vojnovic, Fiston Mwanza Mujila, Louise Gluck, Ilya Kaminsky, Jacques Roubaud, Sjón, Tereziu Mora og svo framvegis og svo framvegis. Bókin, sem verður þýdd af snillingnum John Swedenmark, er væntanleg seinni hluta árs 2025.

The Natural Laws sold to Sweden

The rights to my latest novel, Náttúrulögmálin ( The Natural Laws ), have been sold to Sweden. As per usual the publisher is the tremendous Rámus – with its incredible catalogue of authors such as Goran Vojnovic, Fiston Mwanza Mujila, Louise Gluck, Ilya Kaminsky, Jacques Roubaud, Terezia Mora and the list goes on and on. Translated by the phenomenal John Swedenmark the book is to be expected during the second half of 2025.

Fölir kóngar

David Foster Wallace, George Orwell og Albert Camus eiga það allir sameiginlegt að hafa dáið 46 ára gamlir. Eða áttu það sameiginlegt – þeir eru auðvitað dánir. Þá á maður ekkert sameiginlegt lengur. Orwell dó 1950, Camus 1960 en DFW ekki fyrren 2008, enda fæddist hann ekki einu sinni fyrren tveimur árum eftir að Camus dó og tólf árum eftir að Orwell dó. Camus og DFW dóu frá hálfkláruðum bókum, Camus frá Le Premier Homme (Fyrsti maðurinn) en DFW frá The Pale King (Föli kóngurinn). Camus dó meira að segja nánast bókstaflega með hana í fanginu – hún fannst í bílnum/bílhræinu sem útgefandinn hans, Michel Gallimard, hafði keyrt á tré. Og Camus í farþegasætinu. DFW gekk frá sínu hálfkláraða handriti þannig að það myndi finnast og fór svo og drap sig. Orwell hafði hins vegar lokið við allt sitt, það best ég veit – 1984 kom út árið áður – og eyddi síðasta ári sínu í ástarmál og heilsubrest (hann dó úr berklum). *** Það hafa verið tveir eða þrír sumardagar á Ísafirði síðan ég kom heim. Þegar ég skoða dagatalið sé ég reyndar að þetta er nærri þriðjungur allra dagana, en mér finnst einsog ég sé búinn að vera heima í mánuð og ef það væri satt væru 2-3 sumardagar ekki merkilegar heimtur – en það er ekki satt og þá er þetta kannski bara alltílagi. Eða segjum innan marka. Auðvitað vil ég fá fleiri sumardaga. Auðvitað ættu helst allir dagar að sumri að vera sumardagar. En til þess þyrfti maður eiginlega að búa sunnar í Evrópu. *** Ég er að lesa Infinite Jest í fyrsta skipti. Það sem meðal annars blasir við er hversu mikil áhrif hún hefur haft á bandarískar bókmenntir á þeim tæplega 30 árum sem eru liðin frá því hún kom út – en líka hvað hún virkar að mörgu leyti ómöguleg miðað við nútímastandarda. Ég er ekki viss um að bók megi vera svona þreytandi lengur. Eða að það sé álitið kostur – sérviskurnar (neðanmálsgreinarnar!), óforskammaður intelektúalisminn, langhundarnir. Einhver sagði að maður þyrfti að lesa hana mjög vandlega tvisvar bara til þess að ná samhengi í kaflana – til þess að átta sig á því hvað sumir þeirra væru að gera þarna. Og aðrir segja að það geri maður bara aldrei og kannski séu þeir alls ekki í neinu samhengi. Ég er að reyna að lesa hana með ákveðinni þolinmæði – búinn með 200 síður á fjórum dögum og á ekki nema 900 blaðsíður eftir – og efast um að ég lesi hana aftur í bráð. Ekki vegna þess að hún sé ekki líka frábær, vel að merkja, ég ætla bara að láta einn lestur duga. Í byrjun árs gerði ég lista yfir nokkrar bækur sem mér fannst að ég hefði átt að lesa en hef ekki lesið og Infinite Jest er á honum. Af listanum er ég búinn með Ulysses, árstíðafjórleik Ali Smith, Janey Eyre, Dala-Líf, Money eftir Martin Amis, House of Leaves og Stríð og frið. Hingað til hafa Ali Smith, House of Leaves og Ulysses verið eftirminnilegastar – en auðvitað eru þetta allt meistaraverk. Stríð og friður gerði reyndar „lítið fyrir mig“ – má segja svona um Stríð og frið, hefur það einu sinni neina merkingu? Mér fannst hún ekki skemmtileg, kom ekki auga á það sem gerir hana stórfenglega og er fullkomlega opinn fyrir því að það hafi meira með mig að gera en bókina. *** Ég las L’Étranger á frummálinu í júlí. Á frönsku, ég las hana á frönsku, ég er núna maður sem les stundum bækur á frönsku, ég er heimsborgari. L’Étranger, segi ég og dreg jafnvel seiminn. Ég er samt enn mjög feiminn (og lélegur) að tala frönsku upphátt. Í dag áritaði ég bók fyrir franska konu og var allan tímann að hugsa um að útskýra fyrir henni – sem er að læra íslensku – að ég væri að læra frönsku en gerði það svo aldrei. Je m’apprendre francais, ætlaði ég að segja en sagði ekki. J’ai lu L’Étranger! Þess í stað sagðist hún bara ætla að lesa Plokkfiskbókina, enda væri hún að læra íslensku. Útlendingurinn er miklu sérstakari bók en mig minnti – einhvern veginn ólíkari öllu öðru en mér fannst þegar ég las hana tvítugur á íslensku. Kannski var ég þá bara eitthvað að eltast við plottið og hugsanlega fór þetta andlega ástand Meersaults meira framhjá mér – það var áreiðanlega ekki jafn mikið í fókus. Þessi … doði eða hvað á maður að kalla það? Kannski er það einfaldlega ástand sem maður hefur sjaldan upplifað þegar maður er tvítugur, sem maður þekkir ekki, en kynnist náið síðar – þessi störukeppni við lífið. *** Ég man ekki hvenær ég las Orwell. Kannski bara þegar ég þýddi leikritið 1984 eftir Duncan MacMillan og Robert Icke fyrir Berg Þór og Borgarleikhúsið – 2017. Þá reyndi ég í gegnum báðar íslensku þýðingarnar að skáldsögunni.

Maður lærir að dúlla sér

Stundum líður mér einsog 9/10 hlutar rithöfundastarfsins snúist um að vera bara lost og vita ekkert hvað maður á af sér að gera. Í ár eru 25 ár – aldarfokkinsfjórðungur – frá því ég ákvað að ég myndi eyða ævinni í þetta og mér finnst einsog ég ætti að vera farinn að venjast þessu. Þá var ég í Berlín þar sem ég hafði endað í kjölfar þess að ég fór í danskan kennaraskóla, sem var rekinn af blöndu af hálfgölnum hippum og til þess að gera albrjáluðum stalínistum, droppaði út úr honum fyrirvaralaust ásamt bandarískri pólí-kærustu, fór á puttaferðalag um Evrópu sem endaði með því að mér var dömpað í Genf – þar sem ég bjó undir Cornavin lestarstöðinni, með heimilislausu fólki, í viku, áður en ég stökk upp í lest og fann mér athvarf hjá norskri vinkonu minni í Berlín (sem vissi ekki að það væri von á mér – af því það var svo erfitt að ná í fólk á þessum tíma). Þangað kom ég mánuði fyrir 10 ára afmæli múrfallsins – ég var 21 árs, ekki í skóla, ekki í sambandi, ekki í vinnu, átti enga peninga, bjó inn á vinkonu minni sem bjó sjálf í kommúnu (eða stóru WG) með 10 öðrum – og sirkabát alveg lost. Ég segi ekki að þetta hafi alltaf verið jafn mikið villuráf í rugli – og þessi ákvörðun sem ég tók – sem var skýr og ákveðin, þetta er tiltekið augnablik, tiltekin uppljómun, og fólst meðal annars í því að fá mömmu til að senda mér ritvél – var vel að merkja ekki villuráf heldur einmitt stefna, átt, markmið, ástríðufullt og af festu. Og kannski snýst starfið þá einfaldlega um að marka sér stefnu – með því fororði að markið óljóst, óvíst, síbreytilegt. Fegurðin? Sannleikurinn? Eða öllu heldur – fegurðin! Sannleikurinn! Stundum líka réttlætið! Stundum hefur það bara verið tungumálið – einhver leikur, einhver dans, brot og bygging merkingar og merkingarleysis. Og stundum hefur það bara verið leigan, maturinn og bjór, sígó og kaffi fyrir afganginn. Stundum: að verða dáður! Glory! Verðlaun! En oft – oftast – alla venjulegu dagana – er þetta einn af tveimur eltingaleikjum. Sá fyrri snýst um að finna bók. Hvað langar mig að skrifa um og hvernig langar mig að skrifa um það? Sá seinni snýst um að komast frá fyrsta orðinu að því síðasta. Þeir renna reyndar mikið til saman á ákveðnu stigi – maður veit ekkert hvort mann langar að skrifa einhverja bók, eða hvort hana langar að láta skrifa sig, fyrren maður er búinn að skrifa a.m.k. 10-20 þúsund orð og láta þau hvíla aðeins. Þá kemur maður aftur að bókinni og áttar sig á því hvort hún er fokheld eða ekki og oft – alltof oft – reynist hún löngu fokin út í veður og vind. Hér skrifar sem sagt maður sem var að koma að fjórða spýtnabrakinu í ár – nýkomin á skrifstofuna eftir sumarfrí, og hér er ekkert nothæft til að vinna með. Og það er ofan í ábyggilega 20 ágætis hugmyndir sem komust aldrei af stað. Ég ætla ekkert að ljúga því að neinum að þetta er svolítið bugandi. En kannski er þetta bara eðlilegt eftir 2023 – ég skrifaði óhemju fyrri part ársins, einsog andsetinn maður, og skilaði af mér 600 blaðsíðna doðranti – sem ég fylgdi svo eftir með öllu sem ég átti. Það mátti kannski bara búast við því að það tækið lónið smá tíma að fyllast aftur. Og íslenska akkorðstempóið – helst bók á ári – er brjálæði og ekki til þess að stuðla að því að bækur verði eins góðar og þær geta orðið. Ég veit bara ekki alveg hvað ég á að gera af sjálfum mér meðan ég bíð þess að lónið fyllist – og nei, svarið er ekki að taka að sér fullt af nýjum verkefnum eða setja sér fullt af spennandi markmiðum. Sennilega er svarið einmitt þveröfugt – manni þarf að leiðast svolítið hressilega. Stara út í geim í nokkra mánuði í viðbót, klóra sér í nefinu og dæsa. Þetta er líklega það sem Lilja Sigurðardóttir kallar að „dúlla sér“ við bók í tvö ár ( í viðtali á RÚV um daginn – þar sem fram kom að þess þyrftu nú krimmahöfundarnir ekki). Og kemur auðvitað til af því að við þurfum að fá nýja hugmynd í hvert skipti. Annars held ég að tvö ár sé of stutt fyrir margar bækur og að ég gefi sjálfur út oftar en ég ætti að gera. Ég var þrjú ár að skrifa Náttúrulögmálin – það var í það minnsta þótt lokaspretturinn hefði kannski aldrei getað verið minna intensífur en hann var – ég var ekki að keppast við að koma út bókinni fyrir haustið heldur keppast við að halda þræði, halda dampi. Kannski þarf maður að skrifa hratt – en maður þarf að hugsa hægt og miða í ró og næði áður en maður byrjar. Og gæta sín á því að rembast ekki við að klára hálfdauðar hugmyndir til þess að „skrifa eitthvað“ heldur finna þær sem trylla mann sjálfan, þær sem verða áríðandi í sjálfum sér. Þetta verður að fá að taka sinn tíma. Og svo þarf líka að gefa sér tíma til að klára. Setningarnar þurfa allar að vera góðar. Auðvitað eru bækur aldrei alveg tilbúnar – það er hægt að dúlla sér við þær að eilífu án þess að þær verði „gallalausar“ og ekki markmið í sjálfu sér að þær verði 100 þúsund fullkomin orð í fullkominni röð, galdur sagnabókmennta liggur í einhverju öðru, jafnvel í kaosinu, agnúunum, ástríðunni frekar en fáguninni, og alls ekki í því að geðjast öllum, alls ekki í lægsta samnefnara, alls ekki í almennum vinsældum. Og kannski er það einmitt vandamálið – það sem gerir mann svona lost – að þurfa að finna upp þennan galdur upp á nýtt í hvert skipti. Og svo veit ég reyndar líka alveg að finni ég það sem ég þarf að finna – hvað sem það nú er – þá gæti þess vegna verið tilbúin bók fyrir áramót. En það gæti líka alveg tekið mig heilt ár í viðbót að finna það sem ég þarf að finna. Og þá verður eiginlega bara að hafa það.

#sad

Í gærkvöldi var Donald Trump skotinn í eyrað. Nokkrir særðust, einn lést og leyniþjónustan skaut árásarmanninn – sem var hvítur repúblikani. Trump var fljótur að sjá að þetta væri stórkostlegt ljósmyndatækifæri – og sennilega er reiðin honum líka eðlilegt viðbragð við mörgu – svo hann reisti sig við og rak hnefann á loft og lét taka af sér eina íkonískustu ljósmynd síðustu ára. Manni sýnist sem fátt geti nú forðað því að hann verði forseti Bandaríkjanna – aftur. Og líklega er stórveldistíð Bandaríkjanna þar með í raun liðin undir lok – þetta er hin vandræðalega hnignun sem sjálfsagt beið alltaf. Hnignunartímabilið verður sársaukafullt fyrir þá sem þar búa og fyrir okkur öll sem þurfum að eiga í einhvers konar sambandi við Bandaríkin, hvort sem það er persónulegt eða einfaldlega í gegnum stjórnmál og menningu. Bandaríkin eru ekki bara miðlæg í vestrænu samfélagi – og víðar – það er stundum beinlínis einsog þau séu eini veruleikinn sem nokkru máli skiptir. Þegar yfir lýkur verða Bandaríkin ekki lengur land þar sem fasisti þarf að bjóða sig fram til að ná völdum, þar sem fasisti þarf að þola ágang réttarríkisins vegna glæpa sinna – heldur klassískara einræði, kannski eftir s-amerískri forskrift, land þar sem traust er fyrir bí og forsetinn gerir bara það sem honum sýnist og beitir ríkinu eftir hentisemi. Heimurinn hrynur áður en hann rís á ný. Þegar ég var unglingur var Dan Quayle varaforseti George Bush eldri. Quayle var þekktur fyrir að taka klaufalega til orða og eitt af því fyrsta sem blasti við manni þegar maður fékk aðgang að internetinu – í mínu tilviki tveimur árum eftir að hann lét af embætti – voru heimasíður sem höfðu safnað saman allri vitleysunni sem hann lét út úr sér. „Framtíðin verður betri á morgun“ – „Það er kominn tími til að mannkyn fari til sólkerfisins“ – „Það er ekki mengunin sem er að eyðileggja umhverfið, það eru óhreinindin í loftinu og vatninu“ o.s.frv Og manni fannst þrettán ára gömlum ótrúlegt að annars eins kjáni gæti orðið varaforseti jafn máttugrar þjóðar, þjóðar sem leggur jafn mikið upp úr ágæti og Bandaríkjamenn gera – og varð hneykslaður einsog bara þrettán ára krakkar geta orðið hneykslaðir. Clinton og Quayle tóku síðan við og voru sannarlega oft kjánalegir líka en ekki eins svakalegir – en svo kom Bush yngri og setti alveg nýjan standard, nýjan botn, með dyggri aðstoð Donalds Rumsfeld, varnarmálaráðherra, sem lét reglulega hafa eftir sér svo undarlega hluti, sem hljómuðu jafnvel mystískir í vitleysunni, að þeim var safnað saman á ansi fína ljóðabók. Stærstu tíðindin við forsetatíð Obama – á eftir húðlitnum – voru að forseti Bandaríkjanna væri mælskur. Að það væri reisn yfir honum. Ekki ætla ég að verja neinn þann mann sem rekið hefur bandarísku stríðsmaskínuna en Obama var engu að síður gæddur þeim eiginleika að fá mann til þess að halda með sér. Manni fannst hann eiga virðingu skilda. Og honum fannst hann greinilega þurfa að sannfæra mann, þurfa að sýna reisn. Stærsta ekki-fréttin við forsetatíð hans var að hún myndi valda enn meiri sundrungu í bandarísku þjóðfélagi – ég veit ekki hvenær það byrjaði að gliðna svona svakalega, kannski strax með Clinton, kannski í einhverri fortíð sem ég þekki ekki, en allavega frá og með Bush yngri og 11. september, tepartíruglinu og þeirri ídentítetsöld sem reið svo í garð með ofuráherslu sinni á allt sem skilur okkur að – trú, þjóðerni, húðlit, kyn, kynhneigð – á öllu hinu pólitíska litrófi, sem kom í stað ákveðinnar (að sönnu barnalegrar) áherslu tíunda áratugarins á að allt þetta ætti ekki að skipta máli, heldur ætti hver maður að dæmast á eigin orðum og gjörðum og engu öðru. Svo kom forsetatíð Trump og svo forsetatíð Biden og nú sitjum við – sem höfum Ameríku fyrir heimsmiðju – uppi með einn forsetaframbjóðanda sem ber öll merki þess að vera farinn að kalka (og þau merki gætu orðið miklu meira áberandi áður en Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu – þegar farið er að halla undan fæti eldist fólk stundum mjög hratt) og annan sem er froðufellandi fasisti. Ég held það sé engin ástæða til þess að hafa um það neitt kurteislegri orð. Froðufellandi fasisti er eiginlega í það passlegasta. Og ég held einsog margir að seinni forsetatíð hans verði miklu verri en sú fyrri – hann er reiðari og vondari en stuðningsmenn hans eru líka skipulagðari. Þeir hafa nýtt árin fjögur, kjörtímabil Bidens, til þess að undirbúa sig fyrir það sem þeir töldu sjálfsagt alltaf óhjákvæmilegt – reikningsskilin. Nýtt kjörtímabil Trump verður bara fjögur ár en afleiðingarnar af því að hluta í sundur réttarríkið og koma handbendum MAGA fyrir í áhrifastöðum endast lengur. Svipaðir straumar – svipaðir klofningar – eiga sér svo stað í Evrópu 2-10 árum síðar, að jafnaði. Við hreyfum okkur eftir svipuðum takti, svipaðri músík og endum í svipuðum stellingum – enda löngu byrjuð að dansa. Ég veit ekki hvernig þetta endar í Bandaríkjunum og er ekkert sérstaklega bjartsýnn á að við getum gert margt til þess að einu sinni koma í veg fyrir að eins fari fyrir Íslendingum – eiginlega þoli ég illa að ég skuli vera svo sínískur að ég telji mig einlæglega fátt geta gert annað en að fylgjast með þessu fara í ruslið, en þannig er það samt. Ég held vel að merkja að vandamálið liggi miklu dýpra en í því hver er við stjórnvölinn – leiðtogar okkar eru spegilmyndir af því hver við erum, hvaða reglur við viðhöfum í allri umræðu, hvernig við fremjum lýðræðið dag frá degi. Og við erum ekki bara þjóðfélag sem tignar eigin forheimskun heldur erum við að miklu leyti hætt að trúa á sameiginleg gildi, og þar með hætt að takast á um þessi sameiginlegu gildi. Ég held að þetta botni í einhvers konar trú á hið eina sanna – hvort sem það er MAGA liðið, Covid-umræðan, PC-málefnin, Katrín Jakobsdóttir eða vinstristefnan – að það sé ein sönn og rétt lína sem einungis einhver útvalin(n) geti skilgreint, einhver því sem næst heilagur og ofsóttur af hinu illa – og þá narratífu vann Trump í gærkvöldi, og ekki í fyrsta og ekki í síðasta skiptið. Kannski er klofningur þá ekki heldur nákvæmasta orðið nema maður meini margklofningur, hægri og vinstri, upp og niður, og átakalínur samfélagsins meira einsog línurnar í mölbrotnum spegli en landsvæði með tveimur skotgröfum. Eitt held ég að sé a.m.k. alveg ljóst. Fasisminn verður ekki sigraður nema með tveimur aðferðum. Annars vegar er hægt að gera tilraun til þess afvopna hann með því að hætta að taka þátt í orðræðunni sem honum er eðlislægust – garginu, skriðdrekasamræðunni, frekjunni – og hefja til einhvers vegs og virðingar hófsemi og réttmæti, gera kröfu hvert á annað um vitsmuni og sanngirni. Að halda klassa, halda stíl, halda prinsipp – fara aldrei niður á þeirra plan, gera sanngirnisviðmið þeirra aldrei lögmæt (reyndar erum við gengin svo langt á þessari braut að við neyðumst til þess að svipta fávitaskapinn lögmæti sínu, gera hann ómögulegan, að einhverju sem kallar skilyrðislaust á afsögn, endalok hins pólitíska ferils). Hins vegar er hægt að grípa til vopna og skjóta fasistana alla í hausinn, hvern á fætur öðrum, þar til enginn er eftir og halda því svo áfram þar til nýir hætta að spretta upp. Mér finnst báðar í sjálfu sér ólíklegar en ég veit hvor mér finnst skynsamlegri.